Tuesday, March 30, 2004

Vaknaði snemma í morgun. Gummi fór á fætur fyrir sjö og eldaði handa mér hafragraut; það var til slátur með og allt var eins og það átti að vera. Ég þarf náttúrulega að fara á fætur um sjö til að geta borðað með honum áður en hann fer í vinnuna, en hann byrjar kl. hálf átta. Svo var ég búin að borða góðan slurk af grautnum og mér fannst hann eitthvað svo kekkjóttur. Ég fór nú eitthvað að hafa orð á þessu við Gumma, og hann var nú ekkert svo ánægður með þessar ábendingar mínar. Hann setur nefninlega alltaf svo lítið vatn og reynir svo að þynna hann út eftirá. Ég vil hafa grautinn vel þunnan, soðinn og saltan. Þá sagði hann mér sögu, svona dæmisögu: (ég átti greinilega að ná einhverri sneið, en plokkaði allt gottið ofan af kökunni og hafði enga lyst á heilli sneið eftirá)

,, Það var einu sinni maður sem átti alveg rosalega góða konu, svo rosalega góða konu að hún útbjó handa honum nesti, til að hafa með sér í vinnuna, á hverjum degi. Á hverjum degi smurði hún, þessi frábæra kona, brauð með osti og setti í nestisboxið handa honum, af því að hún hugsaði svo vel um hann. Þannig gékk þetta í fimmtán ár. Kom svo að því að konan hreinlega gleymdi að kaupa ost og átti engan ost á brauðið og varð því að smyrja það og setja skinku í staðinn fyrir ostinn. Að vinnudegi loknum þegar eiginmaður hennar kom heim fór hún nú að afsaka sig yfir þessu, hún hefði hreinlega gleymt að kaupa ostinn, en hún væri nú búin að redda því núna, þetta myndi ekki henta aftur. Og maðurinn svaraði: ,, Þetta er allt í lagi, mér finnst ostur hvort eð er ekkert góður"

Þessa sögu er hægt að skilja á tvo vegu, og mér finnst einhvern veginn að karlmenn skilji þetta öðruvísi en konur. ( + hint-ið með rosalega góðu konuna !)
Þegar Gummi var búin með söguna, þá fór ég nú að hneykslast á því að hann hefði nú ekki haft orð á þessu fyrr, að éta helvítis ostinn í 15 ár. Þetta fannst Gumma bara ekki rétt, hann spáði ekkert í þetta. Hann sagði bara að maðurinn hefði elskað konuna sína og hefði ekki viljað vera með eitthvað múður útaf svona lítilræði.

Ég benti honum á að ég ætla ekki að éta kekkjóttan hafragraut á hverjum morgni í 15 ár bara af því að hann hefði búið hann til. Er þetta vanþakklæti eða hreinskilni? En ég vil samt fá graut á morgnana, svona þunnan eins og pabbi gerir hann, ekki eitthvað hlaup-límkennt þarmakittý. Hann þar bara aðeins að æfa sig betur.

Sunday, March 28, 2004

Hah... gerði góðan díl í dag. Var að vesenast með stærðfræðina og Gummi sat inni í herbergi og var að leysa eitthvert íslenskuverkefni. Bakaði súkkulaðiköku, Betty náttúrulega og bauð svo Hóu og Láru í kaffi, þ.e. stærðfræðingnum og íslenskufræðingnum. Svona er maður snjall.

Lára fór að fikta í píanóinu mínu sem allt í einu fór að spila lag sem ég vissi ekki að væri þarna. Nú er ég búin að finna fullt af fleiri lögum sem ég hafði ekki hugmynd um. Er bara búin að eiga þetta píanó í 3 ár. Svona er maður vitlaus.

Er með strengi eftir spinning í gær. Fór með Láru í hádeginu, en við hittum ekkert á neitt spes tíma því kennarinn spilaði bara píkupopp og hjólin voru eitthvað furðuleg. Það er svona eins og ég hafi setið á hesti síðastliðna 60 klst. en það er frekar sárt þegar rasskinnarnar nuddast saman. Ég sé ekki alveg þarna afturfyrir en mig grunar að það séu bæði blöðrur og blæðandi sár. Ég reyni bara að hafa mig hæga og labba jafnfætis ;) Svona er ég í góðu formi. Hvernig er eiginlega með þá sem fara reglulega í spinning, eru þeir búnnir að safna siggi í massavís eða hvað?
Ef þið viljið sjá hvernig rassinn á broskarli lítur út.

Gummi eldaði steik í kvöldmatinn. Við finnum alltaf einhverjar svínasteikur á útsölu og eldum okkur herramanns máltíð öðru hvoru. Ég borðaði svo mikið að núna er mér eiginlega bara illt í maganum. Það er til mikils að vera að reyna að koma sér í form og verða fitt þegar maður étur svo eins og svín...hmmmm, eða hreinlega étur svín öllu heldur. Svona er maður nú gráðugur.

Var að reyna að koma einhverju lagi á hárið á Gumma. Fékk á endanum að setja djúpnæringu í það. Það mátti sko enginn vita að hann hefði þurft að sitja með "djúpnæringu" í hárinu og plastpoka á hausnum í heilan hálftíma. Stundum veit ég ekki hvar ég fann þennan frumbyggja minn. En ég hef svo sem alltaf verið frekar fyrir svona frumleika, ég vil sko ekki sjá þessa mjúku menn. Engu að síður er það ekki mitt starf að stjana við hann, honum var nær að ná sér ekki í svona "mjúka" konu. Að þessi indælis maður skuli enda uppi með svona hex, svona er maður nú heppinn ;). Það gæti nú samt verið verra

Thursday, March 25, 2004

Matlab-kóða-forrit... fast að því búið. Vantar aðeins herslu muninn; tomorrow -will be the end of it-. Við Hóa komum til með að sýna fram á að við eigum milljón*billjón dollara skaðabæturnar sem Microsoft er að fara að borga í sektir fyllilega skilið. Við rúlum...big-time.
As a time goes by... verður Matlab einungis ljúfsár minning háskólaáranna og ég kem e.t.v. til með að sakna þess. Þ.e. ef það kemur ekki til með að plaga mig komandi kynskóðir. Ætli fari ekki fyrir því eins og hinu forna Fortran; þess er nú eflaust strax getið í æviminningum fólks þannig að ég kem til með að fjalla um Matlab og tölulega greiningu í mínum. En það verður ekki strax !

Fyndið að heyra eldri karlana tala um það þegar þeir voru að forrita í gamla daga... með að gata á spjöld. Það var ein tölva í háskólanum og hún var eitt bite og tók heilt herbergi.
Múhehehehehe. Vinnsluminnið í þessari sem ég er að pikka á er eitt giga-bite og hún er 3.5 kg. Ef þessar framfarir eru línulega vaxandi þá fer ég í second honeymoon til Plútó. Hasta la vista ;)
Það eru greinilega fleiri búnnir að átta sig á þessari þróunn. Tékkið á... Kannast við kauða

Tuesday, March 23, 2004

Lífið leikur við mig og ég er farin að eygja vonarglætu í myrkrinu. Tveir kennarar sáu nú aðeins að sér og sú stund mun ef til vill koma að ég mun líta glaðan dag, ég finn það á mér. Vonleysið er að víkja, það fer örugglega ekki langt, en ég ætla að reyna að halda því í skefjun fyrst um sinn.

En það er þetta með helv... skólagjöldin. Þau hafa áhrif á fleira en fjárhaginn, rökræðurnar á heimilinu hafa vaxið upp úr öllu valdi. Hvernig í ósköpunum enduðum við Gummi saman? Við höfum greinilega ekki rætt næga pólitík í tilhugalífinu, það hefði ekki orðið neitt meira úr því. Honum finnst fátt fáránlegra en að einhverjir aðrir úti í bæ eigi að borga fyrir mína menntun. Auðvitað hljómar þessi setning mjög illa, en af hverju þarf ég að líða fyrir það að öðrum dettur sú vitleysa í hug að eignast börn og þurfa á barnabótum að halda. Eða ekki er það mér að kenna ef einhver út í bæ veikist eða slasast og verður örkumla. Af hverju var hann ekki búinn að kaupa sér sjúkratryggingu? Af hverju þarf ég að líða fyrir það, það er ekkert að mér. En þess fyrir utan eru atvinnuleysisbætur bara aumingjabætur, það er nóga vinnu að hafa og örorkubætur aðallega misnotaðar. Það fer ævinlega að rjúka úr hausnum á mér eftir smá stund og ég viðurkenni það alveg að ég verð eiginlega svolítið fúl yfir því að það sé raunverulega til fólk sem hugsar svona. Ég bý með einum!
Þegar sá dagur kemur að ég drattast út á vinnumarkaðinn og fer að borga skatta sem íslenskur ríkisborgari þá vona ég að ég hugsi enn þá svona, verði ekki ofurseld græðiginni. En það er náttúrulega hundfúlt að borga skatta og sjá mennta- og heilbrigðiskerfið fara í hundana.

Og helvítis svínin... Þeir ætla að láta okkur borga staðfestingargjaldið í skólann áður en þeir taka endanlega ákvörðun um það hvort þeir ætli að innleiða skólagjöld eða ekki. Frestuðu því um 6 vikur, eina atriðinu sem átti að taka fyrir á fundinum. Ef ég ákveð að innritast sem nýnemi og innritast í júlí, þá þarf ég að fá Júlíus Sólnes, skorarformann, til að meta alla áfangana sem ég er búin að fara í til að fá að halda áfram þar sem ég er komin. Við ættum öll að ryðjast inn á skrifstofuna hjá honum og láta hann meta allt liðið, allt annað árið í byggingunni. Það kæmi út sem smá mótmæli, varla myndu þeir vilja að við færum öll út á þriðja ári frekar en að borga skólagjöld. Ég held að þeir séu nú eitthvað að fríka út þarna uppfrá. Eins þarf ég að ákveða alla áfanga sem ég ætla að taka á næsta ári og fæ ekki að breyta þeim. Fyrir þá sem eru að taka brautarval þá er ekki búið að ákveða hvaða áfangar verða kenndir á næsta ári... Hvað er eiginlega á seyði?

Monday, March 22, 2004

Dagur er risinn í helvíti. Það á ekki af manni að ganga. Ég er búin að vera að velta svolitlu fyrir mér... eru ekki örugglega allir bara með 24 tíma í sólarhringnum, rétt eins og ég? Er ég einhver sönnun á afstæði tímans, þá með tilliti til afkasta.
Nú er það illa komið fyrir mér að ég hef ekki einu sinni tíma lengur til að fara í skólann, ég bara verð að fá frið til að læra. Svo fer maður ekkert í skólann og þá hættir maður að hitta hina og einangrast ofan í einhverri bókarskruddu. Ég kem til með að greinast með víðáttufælni áður en frost fer úr jörðu, núna er matlab-kóði fastur inni í hausnum á mér og ef ég hugsanlega fæ hann til að víkja þá kemur helvítis heildið fall yfir kúlu dótið aftur. Eins og ég sagði... það á ekki af manni að ganga.

Og nú er fokið í flest skjól, Guðmundur borgaði skattinum of mikið! Ekki hundrað kall eða eitthvað svoleiðis; hann bætti auka núlli aftan við 50 þúsund kallinn og afhenti skattinum hálfa millján á einu bretti. (Hann er enn að ná tökum á heimabankanum) Ég náttúrulega gerði hvað ég gat við það að sannfæra hann um það að þeir myndu bara greiða honum þetta aftur í ágúst... vaxtalaust. Hann hringdi í þá í morgun og var alveg voðalega aumur, svo þeir ætla að endurgreiða honum þetta. Ætla samt að kroppa eitthvað í þetta fyrir einhverju fleiru sem hann á eftir að greiða... Múheheheheh... En hann passar nú að þetta gerist ekki þegar hann leggur inn á mig, þetta myndi gufa upp med de samme.

Annars er ekkert svo slæmt að vera fátækur nemi, en ef þeir ætla að setja á skólagjöld og ég verð fátækari en ég er í dag, þá kem ég sko til með að flytja til baunalands og rifja upp gömul tengsl við Danina. Ég mun heldur selja mig í þjónustu til Margrétar sjálfrar en að borga skólagjöld. Ég veit ekki hvað er á milli eyrnanna á þessari Þorgerði Katrínu, en ég held að þar hljóti að vera tómlegur bær. Andskotans sjálfstæðis-pakk! Og þetta kýs stór hluti þjóðarinnar. Þetta kallast að skjóta sig í fótinn, báða fæturna ef við tökum heilbrigðiskerfið með... og haltur er fótalaus maður, með meiru. Ég bara neita að trúa því að þeir ætili að láta okkur borga 150 þús. fyrir önnina og 300 þús. fyrir árið. Ég þyrfti þá að punga út einni og hálfri millján bara fyrir verkfræðina, hvað þá fyrir allt annað sem ég ætla að læra. En ég vona nú minnst kosti að þeir sleppi því næsta ár, mig langar nú að vera áfram með bekknum mínum þriðja árið. Við förum eflaust öll, hvort eð er, hvert í sína áttina eftir það.

Friday, March 19, 2004

Ástandið er öllu betra núna. Skilaði skýrslunni á slaginu fjögur. Fimm mínútur í fjögur sat ég og mændi á prentarann prenta út síðustu blöðin. Fullkomin tímasetning ! En það fer svo í pirrurnar á mér að þurfa að skila á tíma... kennarar mættu vera aðeins meira líbó á því. Ætla að muna eftir því ef ég gerist kennari einhvern tímann.
Ég fór samt ekki að sofa kl. 4. Fór í kringluna með Beggu og splæsti á mig geggjuðum gallabuxum. Mér fannst þær nú of litlar þegar ég fór í þær, svolítið stífar en stelpan í búðinni sagðist hoppa og skoppa, jafnvel leggjast niður til að hneppa sínum gallabuxum fyrst þegar hún fer í þær. Ég vil nú helst komast í fötin án mikilla átaka, en þær eru fínar þegar ég er búin að vera í þeim í klst. eða svo. Hvað gengur kvennfólk eiginlega langt til að líta vel út, mér er spurn. Þær virðast samt nokkuð traustar á saumunum og þykkt efni í þeim, þannig að ég ætti að geta beygt mig niður án þess að eiga á hættu að skálmarnar aðskiljist hvor annari og hangi bara í buxnastrengnum. Það væri leiðinlegra, svona í margmenni.
Fór samt að sofa um sex, stillti ekki klukku og ekki neitt, og var samt nærri því búin að sofa yfir mig í skólann kl. 8. Mætti eins og hænurass í vindi með koddafar á báðum kinnum. Annað hvort tók enginn eftir því eða kunni ekki við að minnst á það.

Er búin að vera með þrifæði frá því ég kom úr skólanum kl. 11. Er hreinlega búin að þrífa allt, inni í skápum og hvaðeina, þvo allan þvott og er að leita mér að einhverju fleiru að gera svo að ég þurfi ekki að fara að læra. Tilvalið að blogga smá, og koma því á framfæri að ég er ekki alltaf jafn fúl og síðast.

Er komin með vinnu í sumar. Ég sendi þeim tölvupóst á föstudaginn og spurði hvort þá vantaði ekki gemlinga í vinnu í sumar þar sem mannekla er hjá þeim. Ég benti þeim á að ég hefði ekki vitkast hætis hót frá því sumrinu áður en hefði innbyrgt fullt af ónauðsynlegum formúlum og skilgreiningum þennan veturinn. Viti menn, þeir eru samt til í að ráða mig. Óli sagðist hafa lofað því í veiklundarkasti sumarið áður að ég fengi vinnu að ári og hann yrði nú að standa við það. En að öllu gamni slepptu þá yrði nóg að gera fyrir mig... Greyin, sum fyrirtæki styrkja góð málefni, önnur ráða fólk eins og mig í vinnu. En heppin ég, sérstaklega þar sem Gummi fór í gegnum skattamálin (sameiginleg skattaskýrsla... einstaklingsfrelsi my asse !) þegar hann var að gera skýrsluna og það kom í ljós að ég afla rúmum fjórðungi þeirra tekna sem koma inn á heimilið, fyrir utan námslán; samt vinn ég bara yfir sumarið. Múhehehehe.
Sagðist samt verða smá að skreppa á Gaddstaðaflatir í byrjun júlí, styðja góð málefni á íþrótta- og söngmóti sem vinnur gegn áfengis og tóbaksnotkun. Ég vona að hann hafi fattað punktinn, annars ligg ég laglega í því ;)

Gunni og Andrés, í bekknum mínum, mættu með súkkulaðiköku í skólann í dag af því að þeir áttu afmæli, mjólk og kók með. Af hverju þurfti ég að eiga afmæli að sumri til. Það er alltaf svo gaman hjá þeim sem eiga afmæli í skólanum, halda partý, fá pakka frá skólafélögum og svoleiðis. Þegar maður á afmæli að sumri til þá einhvern veginn heldur maður ekki upp á það. Maður er bara að vinna, og flestir vinir mínir og fjölskylda búa allt annarsstaðar á landinu. Ég sagði þeim að ég myndi halda partý fyrir þau 18. júni á Egilsstöðum, ef þau myndu koma... En það lítur allt út fyrir að litla feita barnið okkar muni búa hjá okkur í sumar og kannski Gréta systir og jafnvel litli skrattakollur hún Emilía líka þannig að það ætti að verða líf í tuskunum.

Er að fara í bekkjarpartý annað kvöld til Þorbjargar. Þau voru eitthvað að reyna að lýsa leiðinni þangað fyrir mér, bentu út í loftið og teiknuðu hringi og ferninga og svona stikkorð eins og Miklabraut, Kópavogsbraut og Breiðholtsbraut, hægri, vinstri og hringtorg hljómuðu reglulega. Allir kinkuðu kolli og ... já þar... Ég reyndi bara að brosa, sama brosið og þegar kennarinn spyr hvort maður sjái ekki fyrir sér hvernig maður heildar feril yfir kúlu, í fjórvídd... set á svona hæðinis glott: skiluru ekki að ég fæddist með þessa vitneskju. Reyni svo bara, guð ég braut nögl- trixið.

Held að ég sé að fá hálsbólgu. Á ekkert c-vitamín þannig að ég er að þamba appelsínusafa og borða gula papriku og vona það besta. Held líka að hausinn sé að gefa sig. Vikan tók sinn toll og litla heilasellan mín er farin í verkfall eða hefur kiknað undan álaginu. Yfirleitt reyni ég samt að fara vel með hana, þetta er nú einmannalegt líf sem hún lifir. Las samt einhversstaðar að möguleikarnir á því að stofnfrumur gætu orðið að heilafrumum væru víst einhverjir, en ef þessi glatast þá þarf ég að byrja allt upp á nýtt. Það tók mig nú þrjú ár að segja fyrstu orðin og ég hef nú ekki sýnt neitt stórkostlegar framfarir í lifanda lífi þannig að það væri nú frekar erfitt að fara aftur á byrjunarreit eftir tuttugu og tveggja ára uppbyggingarstarf. Kannski get ég flutt harða diskinn yfir, eða tekið hann í sundur og sett bara diskana úr honum yfir. Mig grunar nefninlega að leshausarnir mínir sem eiga að lesa diskana í harðadisknum séu bara lesblindir, staurblindir eða eitthvað. Eins mætti bæta við svona 512 mb vinnsluminni, það fer allt í rosalega smáum skömmtum þarna inn og það er svo seinlegt að vinna á harðadisknum, sem virðist hvort eð er vera bilaður. Örgjöfinn ætti að virka ágætlega, en kæliviftan á honum er biluð held ég. Þess vegna fæ ég svona hausverk þegar ég er búin að sitja lengi við. Eins mætti endurræsa stýrikerfið því first impression-ið og mannlega samskiptahliðin á það til að fara á standby þegar mest ríður á. Þyrfti líka að update-a driverinn á sjálfstraustinu, það kemur fyrir að allt frýs þegar á hann reynir.

Var að lesa svolítið áhugavert á vísindavefnum. Þeir sem meira vilja fræðast um leti ættu að lesa þetta, en þar kemur m.a. fram að

...Í því sem sumir kalla leti getur einnig falist það sem aðrir myndu nefna að una glaður við sitt, sækjast ekki stöðugt eftir vindi, taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Þannig getur það sem einum finnst vera löstur birst öðrum sem dyggð. Að baki dóma manna um leti felst stundum sá siðaboðskapur að glötuð sé hver hvíldarstund, að manninum sé eðlilegt að strita stöðugt og erfiða. Fátt þykir sums staðar betri kostur á einum manni ekki síst á Íslandi en að vera forkur duglegur, jafnvel þótt það komi niður á heilsu hans og samskiptum við annað fólk...

Var að lesa grein í mogganum, frekar en fréttablaðinu held ég, sem segir frá könnun sem gerð var af Heilsueflingu fyrir landlæknisembættið. Fyrirsögnin er: Þunglynd og stressuð þjóð í vanda. Fór að hugsa um síðustu viku. Ég er bara ekkert mikið fyrir svona álag og stress, sumir kalla það kannski leti en ég vil kalla það dyggð. Sirrý, ólétta systir mín, og Þórey vinkona hennar, voru í heimsókn, og mér fannst bara gott að sitja og kjafta við þær, pöntuðum okkur pizzu og töluðum um ekki neitt í 4 tíma. Kannski ekki - ekki neitt- aðallega um óléttur og ungabörn, og þar sem ég hef náð ótrúlegri færni í samræðum á því sviði þá voru þetta bara nokkuð líflegar og innihaldsríkar samræður. Ég græddi ekkert á þeim, hvorki fjárhagslega né vitsmunalega, þær hafa engin áhrif á frama minn í starfi, ég kem e.t.v. aldrei til með að nota þessi fræði sem ég lærði þarna, ég hefði geta notað tímann í eitthvað annað, en samt var bara ótrúlega notalegt að sitja og spjalla við þær og mér þótti bara ótrúlega vænt um að þær skyldu eyða dýrmætum tíma sínum í mig, því þær, rétt eins og ég höfðu engan beinan hag af þessum samræðum. Gerist það á meðan maður er að reyna að eignast allt í lífinu, vera allstaðar, prófa allt og þekkja alla, að maður missir af þeim stundum sem eftir standa þegar allt kemur til alls.

Lýsir það þá metnaðarleysi, jafnvel leti að sjá mig í framtíðinni: liggja uppi í rúmi og lesa bók allann daginn og alla nóttina á eftir, geta farið á hestbak eftir miðnætti því ekkert annað liggur fyrir daginn eftir, hafa ekkert sjónvarp í húsinu, það gerir mann bara ófrjóan í hugsun og hefur truflandi áhrif á samskipti fólks á heimilinu, spila rommí á hverju kvöldi þangað til maður er búinn með heila stílabók af reikningum, þá fer maður í punktaleikinn þar sem maður dregur strik á milli punkta og gerir ferninga. Fara út að skokka með hundinn, rækta grænmeti heima, hafa eina kú, fjórar kindur, svín, hænur og endur í litlu húsi við hliðina sem maður getur svo étið, baka amerískar pönnukökur í morgunmat með ávöxtum, sýrópi og nýmalað kaffi með, fara og veiða í ró og næði, veiða svo ekki neitt og kaupa bara fisk í kaupfélaginu, hitt fólk og kjaftað um ekki neitt án þess að vera alltaf að flýta sér eitthvað annað, taka nokkra áfanga í skólanum, hitt og þetta sem mann langar að læra... o.s.frv. Ekkert stress, vinna bara sína vinnu og eiga sér líf þess fyrir utan. Gerast nobady, enginn áhrifamaður í þjóðfélaginu, engin eftirtektarverð manneskja, ekki þessi vinsæla partýtýpa, fundatýpa eða nefndartýpa... manneskja sem unir við sitt og tekur ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu...

Ég viðurkenni það fúslega, ég er metnaðarlaus letihaugur og á þá ósk heitasta að gerast nobady.

Thursday, March 18, 2004

Klukkan er átta að morgni og ég er svvvvooooo þreytt. Var að læra til fimm í nótt, svaf til hálf átta og er að manna mig í að byrja að læra. Ástandið er frekar bágborið, mig svíður í augun, ég get ekki borðað morgunmat, mér er illt í herðunum og mig langar meira en allt til gefa skít í þetta og fara bara að sofa. Rúmið er fyrir aftan mig. Bjó samt um það og hendi blöðum og bókum í það svo að það er aðeins minna aðlaðandi. Gerði tilraun til að borða morgunmat, liggjandi fram á eldhúsborðið og hallaði augunum aðeins aftur í smá stund á meðan, matarlystin var bara ekki upp á marga fiska. Var líka bara hrædd um að sofna þarna og vakna ekki fyrr en um hádegi. Gummi vaknaði öðru hvoru í nótt og spurði hvernig gengi og hvort ég ætlaði ekki að fara að koma að sofa. Þegar ég fór að sofa þá brýndi ég það fyrir honum að hann yrði að koma mér fram úr rúminu áður en hann færi í vinnuna. Hann hafði ekki brjóst í sér til að breyta neinni hörku við það en ég vissi að ef ég héldi áfram að sofa eftir að hann færi, þá myndi ég bara sofa forever.
Ástæðan fyrir þessu öllu saman er verkefni í skólanum (sem ég á að skila kl.4 í dag,) sem er dæmt til að vera glatað. Ég kem ekki til með að leysa það af neinni snilld héðan í frá, veit ekki hvort ég næ að leysa það yfir höfuð. Kl. 4 ætla ég að sofa og sofa þangað til hálf átta á morgun. Þetta er s.s. ekki hinn venjulegi fimmtudagur þar sem ég ætti að vakna kl. hálf átta, fara með Láru í ræktina, læra smá, kíkja svo í skólan eftir hádegi, og læra svo smá meira ef ég hef geðheilsu í það. Mágkona Gumma ætti nú að hæðast meira að mér fyrir að ,,ég sé alltaf að læra", til hvers heldur fólk að ég hafi flutt til Reykjavíkur? En þó svo að ég sé í ríkisreknum skóla, á kostnað almennings mennta ég mig náttúrulega eins og sannur kommi, þá má ég alveg prjóna mér lopapeysu, og elda mér mat, eða sjá mann og annan án þess að nokkrum komi það við. Fólki almennt kemur bara ekki shit við hvað ég er að gera yfir höfuð, sérstaklega ekki ef það á að vera eitthvað skítkast útaf því, ég á mig sjálf ! Ég held að jákvæðnin og lífsgleðin skíni nú ekki beinlínis úr þessu bloggi en hættiði þá bara að lesa það ef ykkur finnst það leiðinlegt !!! Hafðu þig þá bara HEIMA !

Monday, March 15, 2004

Fór í ræktina áðan. Var bara að hjóla og hafði ekkert að gera nema hugsa á meðan. Strit og puð og á 25 minútum náði ég að hjóla út á Þórshöfn að heiman. Það eru rétt rúmlega 300 hitaeiningar. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég þurft að hjóla til baka aftur, en þar sem hjólið snerti ekki jörðina hætti ég þessu helvíti. Fór að spá í þessar 300 hitaeiningar og fletti því upp á netinu. Ef ég hefði nú drattast til að hjóla heim aftur þá hefði ég mátt borða (bara eitt af þessu):

41 karamellu
1750 ml. fjörmjólk
9 egg
35000 ml. kaffi
280 ml. wiskey
rúmlega tvö snickers
595 g af reyktri ýsu
945 g kartöflur
235 g blóðpmör
eða 380 g kjúkling... NB. með skinni !

... og ég hjólaði ekki einu sinni til baka aftur...
Spurningin er... hvort á ég að hafa wiskey og soðin egg í kvöldmatinn eða kartöflur og kaffi?

Það stendur samt að... flestir sem fara í megrun borða of lítið og missa því vöðva en ekki fitu... Gummi skal sko fá að heyra þetta því hann heldur því fram að ég éti of mikið !!! Því ætti ég frekar að velja wiskey og soðin egg... það verður gaman að sjá svipinn á Gumma. Hann var ekki svo ánægður þegar við vorum í Guatemala og fengum eitt soðið egg í kvöldmatinn, meira að segja afi hefði ekki getað fussað hærra og betur og vanþóknunin var skiljanleg á hvaða tungumáli sem var. Kannski bætir wiskey-ið það upp.

Friday, March 12, 2004

Loksins búin að fá nýja tölvu. Þeir gáfust alveg upp á mér og létum mig bara fá nýja tölvu. Veit ekki einu sinni hvað var að hinni.

Setti inn nokkrar videoklippur á netið. Ef gífurleg mótmæli verða þá má kippa þeim út aftur, kannski fyrir góða summu...

Hér gerist lítið. Ragga frænka, litla feita barnið, er í heimsókn. Vísindaferð með MA... Man eftir því að þegar ég fór, þá fór ég í fyrsta sinn á skemmtistað í Reykjavík og það var á Spotlight með Ómari, Bubba og Halla. Þá var ég náttúrulega algjör sauður í Reykjavík. Núna er ég bara aðeins minni sauður, sauður engu að síður.

Er að gera verkefni í reiknilegri aflfræði og verð ábyggilega orðin vitstola áður en vikan er öll.

Það er búið að vera alveg vibba veður hérna. Hvað getur eiginlega rignt mikið hérna í Reykjavík, á þetta sér engin takmörk. Sammála því sem Nonni Bergmann sagði um monsoon-tímabilið, það er bara ekki tímabil hér í Reykjavíkur borg heldur monsoon-óendanleikinn !!!