Saturday, January 19, 2008



Er enn á lífi ;) Lufsast áfram í verkefnaskilum og prófaundirbúningi en prófin hefjast formlega með fyrsta prófinu þann 1. febrúar.
Er í þessu tíbíska að rumpa af skýrslum, verkefnum og ritgerðum sem þarf að skila áður en maður mætir í próf til að fá próftökurétt...

Sé að síðasta færsla var skráð á því herrans ári 2007...

Yfirlit ársins:

Síðasta ár hófst í Alicante á Spáni með þeim Grétu, Jóni Arnari og Emilíu þar sem við leigðum íbúð yfir áramótin. Daginn eftir hófst roadtrip eftir strandlengjunni niður á Gíbraltar á bíl sem við leigðum okkur. Hótelin voru fundin samdægurs og við eltum Lonley Planet og auglýsingabæklinga með að finna okkur eitthvað að skoða. Spænskt Hollywood, cirkusar, dýragarðar, söfn, kirkjur, byggingar o.fl.

Ég hélt áfram í skólanum um miðjan janúar og tók fyrstu spænsku háskólaprófin í febrúar með betri árangri en ég hafði áætlað svo ég var bara sátt við það.

Í lok febrúar var farið í borgarferð til Barcelona og má með sanni segja að ég er ástfangin af þeirri borg. Hún er meiriháttar !

Um páskana komu tengdó, Ásta og Friðrik út, ásamt Ingibjörgu. Við leigðum okkur bíl saman og fórum í skoðunnarferðir hingað og þangað. Aftur á Gíbraltar, Granada, Marbella o.fl..

Skólinn var síðan stundaður áfram því það átti að klára allt áður en væntanlegur erfingi liti dagsins ljós en settur dagur var 23. maí. Sem betur fer var krakkinn tillitssamur og ég gat stundað skólann fram í lok annar því ungfrúin ákvað að sér hentaði að koma í heiminn þann 5. júní á afmælisdegi langafa síns á Gunnarsstöðum. Við tók viku fæðingarorlof síðan hófst prófalestur og próf voru tekin í lok júní og byrjun júlí. Eitt próf reyndist mér óyfirstíganlegt þar sem ég féll með 4 en restin reddaðist bara vel.

Haldið var heim á leið til Íslands þann 9. júlí þar sem Ásta, Friðrik, Gréta og Emilía tóku á móti okkur. Þrem mánuðum áður höfðum við gengið frá sölu á íbúðinni okkar í Reykjavík svo farið var í að pakka niður dótinu okkar, selja allt sem hægt var að selja og rétt allra persónulegustu munum var pakkað niður og komið í geymslu. Við tók roadtrip á Íslandi með viðkomu á Hvanneyri, Akureyri, Gunnarsstöðum, Egilsstöðum, Kárahnjúka og þar um kring. Okkur tókst næstum að hitta alla og gera sem flest en tveir og hálfur mánuður liðu ótrúlega hratt.

Afi á Gunnarsstöðum kvaddi og hélt á fund forfeðra sinna í ágúst, en hann var búinn að vera veikur nokkra mánuði áður. Heima á Gunnarsstöðum kom ættarskarinn saman og hitti ég fólk sem ég hef ekki séð ár og daga.

Bergrós Ásta var skírð í stofunni heima á Gunnarsstöðum þann 4. ágúst og síðasta lykkjan í skírnarkjólnum var prjónuð 3 nóttina áður.
Lítil frænka kom svo í heiminn þann 9.ágúst og var skýrð Ásgerður Ólöf í byrjun september, daginn eftir að foreldrar hennar, Sirrý og Júlli giftu sig á laun...

Göngur og réttir standa alltaf fyrir sínu með öllu sem því fylgir. Ég náði að fara inn að girðingu með gangnamönnum og taka svo á móti þeim þegar þeir komu aftur en annars vorum við Bergrós Ásta bara í rólegheitum á meðan á því stóð.

Við héldum aftur suður um höf þann 20. september en skólinn byrjaði um það leyti. Ég byrjaði á náminu sem ég var upphaflega skráð í, tók síðan eitt heljarstökk og u-beyju og er núna í komin í allt annað en upphaflega stóð til... other story...
Þessar breytingar kosta það að ég er núna í allt of miklu námi, þarf að læra allt of mikið og vantar helst 12 tíma í sólarhringinn. Stubburinn er ótrúlega tillitssöm með þetta allt saman en útkoman af þessu öllu saman er væntanleg í febrúarprófunum sem ég er núna að læra undir.

Amma á Gunnarsstöðum kvaddi í oktober og þá fannst mér ég allt í einu svo ótrúlega langt í burtu frá öllum og ofboðslega langt heim. Við gátum ómögulega farið heim á jarðarförina þar sem þetta er voðalega langt ferðalag, fram og til baka á stuttum tíma, fyrir litla stubb. Sumarið var svo yndislegt þar sem ég átti fullt af stundum með ömmu, fleiri en samanlagt svo mörg ár á undan.

Áfram hélt lærdómurinn fram að jólum.

Jólin voru haldin í Afríku í þetta skiptið, nánar tiltekið í Marocco. Þann 19. des héldum við til Madrid þar sem Gréta, Jón Arnar, Vilborg og Rúnar tóku á móti okkur. Daginn eftir var haldið til Agadir í Marocco. Þar héldum við til á lúxushóteli í góðu atlæti í viku, skoðuðum okkur um, átum og átum, spiluðum og fórum í tíbískar túristaferðir.
Eftir það var haldið til Madrid þar sem Ragga og Atli biðu okkar. Vilborg og Rúnar héldu á frónið en við hin vorum dag í Madrid áður en við fórum til Jaén. Ákveðið var að sleppa öllu menningarkjaftæði og fara bara í Warner Bros garðinn fyrir utan Madrid þennan dag.



Síðan héldum við upp á áramótin með þeim Röggu, Atla, Grétu og Jóni Arnari hérna heima hjá okkur í Jaén.

Það sem af er liðið af árinu hefur 97% farið í lærdóm. Ég reyni að taka frá smá tíma og leika við litlu Bergrós Ástu. Hann er minni en ég vildi en frá og með 20. feb verður unnið að endurbótum á því. Svefn, matartímar og klósettferðir eru takmarkaðar eftir bestu getu og kaffi og súkkulaði fer í að halda dampi. 20 febrúar verður þetta einnig endurskoðað.
Núna verð ég að leggja allt í prófin og sjá hvernig þau koma út. Ég hef ekki enn haft tíma til að ganga frá myndum og svoleiðis svo það kemur síðar... seint og síðar meir, eftir 20. febrúar eins og allt annað ;)