Thursday, September 30, 2004

Heyrðu, minn kæri bróðir. Drífðu þig inn á MSN, fyrst þú fannst netkaffihús þarna í Río. Þú ert skráður þar inn undir hotmail-inu þínu. Ef þú þarft að finna mig þá er ég dadda_gumms@hotmail.com

Kv. sys

Wednesday, September 29, 2004

Það á mann lifandi að drepa! Það er gaman að vera í skóla, þægilegt líf. Það stendur ekkert til að breyta því neytt, enda erum við á lúsalaunum sem námsmenn. Framfærslan (námslánin ) er ekki nema um 77 þúsund á mánuði, sem gera um 450 kall á tímann miðað við 40 stunda vinnuviku. Þar af fer ekkert í lífeyrissjóð, orlof eða verkalýðssjóð, enda erum við með öllu réttindalaus ef til átaka kæmi.
Fyrir utan þessar örfáu krónur SEM VIÐ ÞURFUM AÐ ENDURGREIÐA MEÐ VÖXTUM, litlum þó, þá megum við ekki vera með nema 300 þúsund yfir sumarið; þá fara lánin að skerðast.
Engu að síður valdi ég að fara í skóla. Vinnuvikan hjá mér er um 60 vinnustundir, sem gera um 320 krónur á tímann. Þar sem ég baksaðist við að vinna alveg helling í sumar þá fæ ég tekjuskerðingu og er komin með um 250 kall á tímann (sem ég þarf náttúrulega að endurgreiða seinna meir).
Ég er bara ,,heppin", og fór í nám sem kemur til með að borga þetta upp seinna meir. Ég gæti náttúrulega hæglega farið strax út á vinnumarkaðinn, náð mér í starfsreynslu og verið komin með 300 þúsund kall á mánuði. (Miðað við 60 tíma vinnuviku) Smá aukavinna hér og þar en ekkert yfirþyrmandi. Þar af væri um 200 þúsund kall í vasann sem þýðir að á meðan ég er í fimm ára háskólanámi gæti ég unnið mér inn nettar 9 milljánir í vasann.
Í ríkissjóð myndi ég skila miðað við 38% skatt og um 77 þúsund króna persónuafslátt, 3.9 milljónum á þessu 5 ára tímabili mínu.
Í staðinn tek ég námslán sem ég skuldbind mig til að greiða seinna meir, lifi eins og frumbyggi (á ekki einu sinni bíl og hef aldrei átt), þræla mér út við heimadæmi og skýrslugerðir dag eftir dag, nótt eftir nótt, flyt fram og til baka helst tvisvar á ári (sem þýðir að ég á hvergi heima).
Þetta kalla ég hugsjón, en ég kem til með að ljúka þessu ljúfa lífi mínu og fara út á vinnumarkaðinn. Ég get ekki haldið áfram þessu ljúfa lífi, nema ég sé til í að búa við þessi kjör það sem eftir er ævinnar. Ég er ekki til í það og þess vegna fór ég ekki í kennarann!!! Miðað við þessa 200 sem byrjuðu í kennaraháskólanum voru 600 sem vildu komast að, en fengu ekki inn, þá ætti aðsóknin að vera nóg. Það er greinilega eftir einhverju að sækjast, þó að það séu ekki launin. Maður velur, það er ekki bæði hægt að hafa þægindi og góð laun... það á ekki saman.

Wednesday, September 22, 2004

... hér vil ég una alla mína ævidaga...

Fann paradís. Er enn í Mjóafirði og er að velta því fyrir mér að setjast bara hér að. Hitti hér sjálfan forsetisráðherrann og heilsaði honum meira að segja. ( Hann var í afmæli hjá Vilhjálmi, fyrrum menntamálaráðherra, sem var 90 ára á mánudaginn. ) Er búin að vera með hendina í spritti og er að velta því fyrir mér hvort ég þurfi nokkuð að láta fjarlægja hana. Óttaðist að þeir finndu kommalyktina, en það slapp til. Ég hef minnst kosti ekki verið úthýst enn ;)
Lóguðum hönunum á bænum í morgun, þeir hlupu um hauslausir um allt bæjarhlaðið. Fúsi hljóp um hænsnabúrið og náði þeim og hjó þá fyrirhafnarlaust. Svínið hér er algjört æði, og þráhyggja mín gagnvart svínum fer línulega vaxandi.

Trufla smiðina öðru hvoru. Þeir reyna að nýta eitthvað út úr mér, ég fæ að sópa og svona. Gumma finnst nú ekki leiðinlegt að hafa verkfræðinema í vinnu hjá sér (sjálfboðavinnu) og geta látið hann laga til og sendast til og frá. Ég er að reyna að koma honum í skilning um að ég geti líka farið í sjálfboðavinnu til Mosambik án þess að hann hafi eitthvað um það að segja.
Hérna er risa laxeldi og mig langar svo að fá að fara með köfurunum út. Þeir vinna við það að athuga kvíarnar. Mig langar sérstaklega mikið að prófa spíttbátinn sem þeir eru á, en ég þori bara ekki að spyrja. Ofurkafbáturinn sem Háskólinn á Akureyri á er hérna og þeir eru að prófa hann hérna í firðinum.
Hér er líka ofurmikið að borða. Jóhanna eldar ekta sveitamat alla daga, helst tvíréttað bæði í hádegismat og kvöldmat. Ósköp er það ljúft. Við bökuðum hundruði pönnukaka áðan því Hólaskóli var að koma í heimsókn (fiskeldisdeildin) að skoða laxeldin.
Í mat eru líka vegagerðarkarlarnir sem eru að laga veginn.

Það er s.s. heilmikið líf í þessum litla firði, en samt svo rólegt og indælt. Ég reikna samt með að fara suður fyrir helgi svo ég komst með stelpunum í sumarbústað um helgina

Það verður samt með trega sem ég yfirgef þennan stað og á pottþétt eftir að koma hingað aftur. Þau losna ekkert við mig greyin héðan í frá...

Thursday, September 16, 2004


Karlmannslaus í kulda og trekki kúri ég volandi... þetta er ekki, ekki, ekki þolandi... sérstaklega ekki, ekki, ekki í stormi og drulluveðri í Reykjavík. Óska hér með eftir öðru viðhaldi. Hef lúmskan grun um að það sé búið að éta mitt. Umsækjendur gætu þurft að sætta sig við þau afdrif ef þeir eru svona útlítandi...







Þá á ég við rauðhærða kvikindið... Ef því er að skipta þá er alveg inni í myndinni að breyta smá til. Öll tilboð skoðuð!

Issue dagsins í dag

Ég er, eða stefni að, að ná mér í háskólapróf í strætóferðum. Við Ringa fórum í gær, heilan hring með strætó og ég lærði bara ótrúlega mikið á því. Erum að gera verkefni í samgöngutækni. Þannig að sjálfur sveitalúðinn er langt kominn með að læra á strætó, og þegar betur var að gáð þá virðist þetta vera ótrúlega einfalt. Það eina er að maður þarf að rata smá. Ég er nú þriðja veturinn minn hérna og ekki enn farin að keyra bíl, en ótrúlegt en satt þá hefur aðeins síast inn. Ég minnst kosti rata niður í bæ og veit hvar Kringlan er og rata yfir í Vesturbæinn.
Málið er bara að þegar maður keyrir ekki þá ratar maður ekkert og þegar maður ratar ekkert þá er bara ekkert vit í því að setjast undir stýri. End of story. Mér finnst hvort eð er svo leiðinlegt að keyra, það er svo þægilegt að vera farþegi og gaufast í eigin hugarheimi á meðan einhver annar hefur fyrir hlutunum.
Maður þarf líka að vera nett geðveikur að keyra hérna í Reykjavík. Fyrir utan það að keyra bílinn, skipta um gír og stýra, bremsa og gefa í (sem hefur svo sem sjaldnast háð mér), þá er fólk út um allt, aðrir klikkhausar á bílum, margar akreinar, ljós og biðskyldur. Maður á að fylgja umferðareglum, rata og keyra bílinn. Ég get ekki labbað og tuggið tyggjó á sama tíma!
Á þessum forsendum er hægt að leiða út að um helmingur landsmanna er meira og minna klikkaður, og svei mér þá ef það er ekki nærri lagi.


Fáránleiki lífs míns

Þegar ég var í grunnskóla gerði ég hvað ég gat að sleppa leikfimi, passaði að fá alltaf að vera í tónlistarskólanum akkurat þegar leikfimin var og slapp oft og iðulega við minnst kosti helminginn af tímanum, ef ekki allann.
Í framhaldsskóla gerði ég heiðarlega tilraun til að telja kennaranum mínum trú um að ég væri algjörlega ósynd (sem er ekki fjarri lagi) og gæti ekki farið í skyldusund. Allar mögulegar ástæður voru fundnar til þess að þurfa ekki að fara í leikfimi, þangað til ég komst að því hvað það gerði einkunnunum á því sviði. Tékkaði meira að segja á því hvort ég mætti ekki skila inn aukaeinkunnum í bóklegu og fá því að sleppa þessum skyldueinkunnum. Virkaði ekki heldur. Fjögur ár, níu mánuði á ári, tvisvar í viku, hreint helvíti!
Nú er ég komin í háskóla og hvað... engin skylduleikfimi. Þannig að við, stelpurnar í bekknum, tókum okkur saman og fengum tíma í íþróttahúsi háskólans einu sinni í viku til þess að fara í körfubolta, fótbolta, bandí eða eitthvað.

Thursday, September 09, 2004

Ástandið er voðalegt! Ég er með svo mikla strengi í rassinum, ég er með tak innan læra, utanlæravöðvarnir eru í henglum, herðablöðin eru helaum og allt þar í kring og axlirnar rétt hanga í liðunum. Ég er búin að uppgötva vöðva sem ég vissi ekki að væru til. E.t.v. voru þeir ekki til áður, uxu bara upp úr þurru utan á mér... til að kvelja mig.

Ég fór í bodypump tíma með Láru. Ósköp saklaust. Var bara með létt lóð svona til að byrja með, samt meira en gamla kerlingarskruddan sem var þarna í tímanum. Hún var rétt svona eins og annað lærið á mér, varla það. Svo byrjaði þetta, ekkert svo erfitt, þannig séð, en maður passaði samt að gefast ekki upp, vera með og halda áfram meðan hinir héldu áfram. Hafði nú auga með gömlu þarna í horninu. Viti menn, ég lifði tímann af, einn klukkutíma. Vaknaði sárþjáð í morgun, hver hreyfing vakti upp óþolanlegar kvalir og ég hélt að ég ætti ekki eftir að yfirgefa rúmið í lifanda lífi. En ég er nú hörkutól, skreið framúr og upp í skóla. Dagur sem byrjar svona vísar hreinlega ekki á gott, enda hef ég ekki borið mitt barr í allann dag. Og ég er viss um að sú gamla er að skokka um með húsgögnin sín!

Fyrsti dagurinn í sjoppunni, fyrsti dagurinn í þjónustustörfum, fyrsti dagurinn sem Frú Katrín brosir framan í fólk og segir: ,, Get ég aðstoðað...”. Þvílíkt og annað eins hefur ekki sést, hvorki fyrr né síðar. Þið hefðuð átt að sjá undrið. Ég var að spá í það í gær að prenta út brosandi manneskju á harðann pappír, klippa það út og vera með það á fésinu í dag. En þetta gékk allt vonum framar. Beit engann, barði engann og argaði ekki á neinn. Þvílíkar framfarir !
Ég vissi náttúrulega ekki um verð á einum einasta hlut og margir hverjir fóru bara á uppboð, eða hver og einn þurfti að bjóða í vöruna sem hann ætlaði að kaupa. Þess fyrir utan lagði ég vitlaust saman, gaf vitlaust til baka og benti fólki vinsamlegast á að kaupa ekki þessa ógeðslegu Aloe Vera jógúrt, hún væri alveg með öllu óæt.
Ég reyndi bara að selja það ekki dýrara en ég keypti það ;) “afraksturinn” fer svo í sjóð sem kemur til með að fleyta mér alla leið til útlanda með restinni af verkfræðicoolistunum. Hvert verður farið er óvíst, ég er búin að stinga upp á að fara Mekka-ferð til Cubu en þar sem margir hverjir eru alveg helbláir þarna þá voru undirtektirnar af skornum skammti. Veiðiferð til Amazon að elta uppi anacondur eða fara til Afríku að skjóta antilópur væri ég alveg til í. En samt held ég að það verði gaman hvert sem við förum, svo fremur sem við förum ekki til USA. Sérstaklega ekki ef Bush verður endurkjörinn, ég ætti ekki annað eftir.

Í vín-synda-ferð síðastl. föstudag var ýmislegt rætt um útskriftarferð og tillögurnar urðu skemmtilegri og skemmtilegri eftir því sem leið á kvöldið. Á Pravda splittaðist hópurinn og það varð ekki meira úr því.
Í fótboltann daginn eftir mættum við fjórar og vorum ekki upp á marga fiska. Vorum að drepast eftir að hafa hlaupið nokkrar ferðir.

Ætla að drífa mig í bío með Axel bróðir. Verð að sjá myndina þar sem þeir eru að drulla yfir Bush, en annars er það algjört eitur fyrir siðvitundarkennd mína að borga 800 kall í bíó. Hvað er eiginlega í gangi? Hvaða ble ble var það með að dollarinn fór upp í 115 krónur, hann er í um 80 kall núna! Verðum að hækka bíómiðana... kjaftæði!!!

Friday, September 03, 2004

Lífið er undarlegt...

Ég náði prófinu en gæsaveiðin fór um þúfur; réttara sagt, byssan fór í tætlur. Einhver gormur eyðilagðist, sem heldur við fjöðrina sem hendir út skotunum og hún læstist. Það eina sem ég gat gert var að rífa hana sundur, taka hlaupið af setja fjöðrina á sinn stað, troða henni saman setja eitt skot í og skjóta og svo byrja upp á nýtt. Í sandi og drullu niðri við ósa Jöklu og rétt að koma myrkur, þetta eru nú ekki beinlínis kjöraðstæður til viðgerða.
Við Gummi vorum með húsbíl sem við lögðum við eyðibýli þarna til að geta náð morgunflugi líka, en miðað við það sem á undan gékk kúrðum við bara þegar gæsirnar flugu yfir.
Næsta verkefni er að fá einhvern til að skutla mér með byssuna í viðgerð og fá nýjann gorm. Þar lauk gæsaveiðinni minni haustið 2004, nema ég kannski fari austur eina helgi eða svo. Kemur í ljós. Ekki hef ég geð á því að skjóta fituhlussu-brauð-gæsirnar sem eru hérna á flakki.

Nú er ég byrjuð í skólanum og sit meira að segja í straumfræðitíma akkurat þessa stundina. Ég held að þeir ætli að drepa okkur úr verkefnavinnu þessa önnina, halda kennarar að nemendur séu stökkbreytt afbrigði af fólki með 48 tíma í sólarhring.

Fór í ræktina í gær. Tók rassinn fyrir á þrepgræjunni, með þessu áframhaldi fer hann línulega vaxandi út í hið óendanlega. Það er spurning um að draga úr hraðanum. Fór í fyrsta bodycombat tímann og var hreinlega heppin að slasa ekki sjálfan mig og aðra. En batnandi manni er best að lifa.