Sunday, February 29, 2004

Í gær fór ég aftur í leikhús. Í þetta skiptið fór ég að sjá uppistandið 100% hitt með Helgu Brögu. Við Gummi fengum miða á það í jólagjöf frá Hóu, Kittu og Láru.
Það er ótrúlega fyndið, en samt er svo mikið til í því sem hún er að segja og gera grín að. Að mörgu leiti ekki ólíkt hellisbúanum hvað það varðar, nema að þemað hjá henni er kynlíf fólks. Salurinn er virkur þátttakandi í öllu. Svona sem dæmi þá segir hún að forleikur sé ekki bara fimm mínútur fyrir kynlíf, heldur vari hann frá síðustu mínútu síðustu kynlífsstundar til næstu, hvort sem þar eru 2 tímar eða tvær vikur á milli. Þ.a.l. værum við öll stödd þarna í bullandi forleik...
Ætla nú ekki að fara að skemma fyrir þeim sem eiga eftir að sjá þetta, þetta er frekar fyndið. Ágætis líffræðikennsla í leiðinni, þannig að núna er málið að finna allar þær æfingar sem styrkja grindarbotnsvöðvana og stunda þær grimmt ;) Nú fer maður að fiska út þá í ræktinni sem eru búnnir að sjá leikritið og hverjir ekki.

Komst á bókamarkað í gær, úfffff... En ég fann fullt af bókum sem mig langaði í, en gat því miður ekki keypt þær allar. Gummi greyið fékk áfall þegar hann sá staflann sem ég náði að hlaða upp á hálftíma. Hann passaði samt á að segja ekki mikið, hætti sér ekki útí það þar sem þetta eru mín hjartans mál. En mig langar samt að fara aftur, það voru nokkrar bækur sem ég eiginlega sá eftir að hafa ekki keypt. Það á ekki eftir að duga mér að hafa bókaherbergi í húsinu mínu, ég á eftir að þurfa að hafa auka hús!

Gummi er farinn á Selfoss. Hann nefninlega gat ekki verið að rífa sig yfir bókakaupunum hjá mér því hann var að kaupa sér dót fyrir 70 þúsund, batterísborvél, færsara og eitthvað svoleiðis. Núna fór hann svo á Selfoss til að kaupa meira dót, en það er verið að auglýsa einhverja smíðavél sem hann langar í. Þetta er svo sem ekki mitt mál, hann er í vinnu en ég bara fátækur námsmaður og birgði á þjóðfélaginu.

Eitt sem ég þarf nú aðeins að fá álit á ! Ef hann er í vinnu og segjum að hann þéni svona 120 þús. útborgað á mánuði, en ég á námslánum og ,,þéna" svona 60 þús. á mánuði. Er þá ekki sanngjarnt að hann borgi tvo þriðju af húsaleigunni, og því dóti, en ég einn þriðja. Mér finnst þetta bara liggja í augum uppi en hann er að ásaka mig um einhvern komma-hugsunarhátt. Þetta er nú ekkert flókið reikningsdæmi! Hlutfallslega ætti hann meira að segja eftir meiri pening en ég, og það ætti að vera nóg umbun fyrir að vera tekjuhærri.
Ég gæti jafnvel farið fram á að við ættum sama afgang eftir að búið er að greiða þetta nauðsynlega, bílinn, húsið o.s.frv. Mér finnst það bara aðeins of langt gengið, en hitt finnst mér bara sanngjarnt. Ég myndi nú borga bróðurpartinn í þessu ef ég væri tekjuhærri en hann, það vill bara svo skemmtilega til þessa stundina að ég er það ekki. Ef hann gengur ekki að þessu núna, þá þýðir ekki að fara að taka þetta upp þegar ég er komin í einhverja góða vinnu með góð laun. Nei ó nei, þá ætla ég sko að lúra á mínu. Hefur einhver um þetta mál að segja, með eða á móti?

Ég held að karlgreyið sé að reyna að passa að ég eigi ekki of mikinn pening afgangs, því hann er búinn að sjá að þeir virðast alltaf fuðra upp. Hef aldrei verið á þeirri skoðun að maður eigi að baksa við það að safna og safna peningum og eignum alla ævina, ég hef lítið að gera með það þarna fyrir handan. Maður á að njóta þeirra þegar gefst færi á því.

Wednesday, February 25, 2004

Hvað er hægt að vera latur? Á skalanum 0 til 10 er ég að verða komin upp í 3489i. Ég kom heim úr skólanum í dag og hef hreinlega ekki gert neitt. Þá á ég við ekki neitt. Held að ég sé að fá flensu eða eitthvað.

Það er eitthvað skrítið með froska-krílin mín. Það er komin einhver skrítin, ekki leðja og ekki þang, í botninn á búrinu. Samt er ég að skipta um vatn tvisvar þrisvar á dag, svona tvö til þrjú glös. Það átti að vera nóg að gera það einu sinni á dag. Kannski er ég að gefa þeim of mikið. Þeir eru held ég örugglega að stækka.

Er að spá í að skríða snemma upp í rúm og fara að sofa, ég er ekki að áorka neinu. Vakna í fyrramálið og fer að læra, það eru ekki svo merkilegir tímar. Nú fer að koma að því að maður hætti að hafa tíma til að mæta í skólann til að geta klárað að komast yfir efnið sem á að vera til prófs. Hversu slæmt er það?

Það er svo sem ekkert nýtt, en ég varð auðvitað að núa sjálfri mér því um nasir hvað ég er fyrirmunanlega illa gefin og bara frekar vitlaus svona almennt. Þetta með að hafa þykkan skráp... ég er búin að lifa við það í 22 ár að þetta sé einhver helvítis skápur, ekki skrápur. Var svo sem ekki búin að gera það upp við mig hvort þetta væri fataskápur eða eldhússkápur, úr birki eða eik, en skápur engu að síður. Svo vorum við Begga frænka að velta því fyrir okkur (hún fékk nú heiðurinn af því að ,,brake the news to me") hvernig þetta væri með fólk sem kæmi út úr skápnum, það er þá alveg varnarlaust; berskjaldað. Ég hafði svo sem ekkert spáð í það, en svona þegar ég fer að spá í það þá hvernig í ósköpunum kom þessi skýring með að koma út úr skápnum. Ég reyndar er búin að átta mig á því að skrápur er mun líklegra en skápur í hinu fyrrnefnda, en að koma út úr skápnum... Á það kannski líka að vera að koma út úr skrápnum en einhver með IQ=Katrín hefur aðeins klikkað á þessu.
Næsta mál á dagskrá er að finna bókina orðatiltæki á Íslandi og lesa hana spjaldanna á milli. En það verður náttúrulega eins og að draga tennur úr svíni að komast í gegnum þá skruddu;)

Haldiði ekki að ég hafi fengið gjöf frá bónda mínum í dag. Svartan og gylltan silkislopp svo að ég hafi eitthvað utan yfir mér þegar ég er að laumast í ísskápinn á nóttunni. Það er nefninlega frekar óheppilegt að ískápurinn er beint fyrir framan stofugluggan sem snýr beint út að bílastæðinu. Svo þegar er alveg myrkur inni og ég er að laumast í ískápinn, þá kveiknar náttúrulega ljós í honum þegar ég opna hann og þá geta allir séð mig stripplast um að leita mér að æti um miðja nótt. Það er ekki gott til afspurnar. Þannig að ég ákvað að setja það á netið ;)

Eldaði saltkjöt og baunir í kvöld. Amma í Helgó sagði mér til með baunirnar og ég sver að þær duga næstu tvær vikur, alla vega það. Ég er samt enn að velta þessu með natronið fyrir mér, á að setja natron í baunir? eða er Amma akkurat þessa stundina að veltast um af hlátri yfir auðtrúa hálvitanum mér. Trúi því nú varla, hún er svo veik í bakinu að hún veltist nú varla mikið um, það hlakkar örugglega bara duglega í henni...

Fórum í leikhús í gær. Fórum að sjá leikritið sem Sigfús frændi er að leika í fyrir skólann sinn, Menntaskólann við Sund. Minnir að það heiti... leikskáld í hættu... eða eitthvað svoleiðis. Það er alveg snilld. Meira að segja Gummi sem svona hálft í hvoru nennti að fara, skemmti sér bara mjög vel. Frændi er bara ágætis leikaraefni, þó að ég vonist nú til að hann leggji nú eitthvað fleira fyrir sig í framtíðinni. Þarna í leikritinu er stelpa með þá hræðilegustu rödd ever... Maður verður svo pirraður á henni, því hún er svo heimsk, og röddin smýgur í gegnum merg og bein, en það er hrein snilld að geta leikið hana svona. Vona að þessi stelpa sé ekki svona í alvörunni ! Ég sver að ég heyri enn gjammið í henni.

Það er verið að auglýsa einhverjar tilboðsferðir til Cubu, og vinur Gumma er að fara. Þetta er samt rum vika og ekki sjens að ég myndi meika það. Hvenær má maður leyfa sér að fá hreint ógeð á skólanum og snúa sér að því að eiga sér eitthvað líf...
Svo er Ragga frænka að fara að spá í hvað hún á að gera eftir útskrift... Ég er hætt við að fara í eðlisfræðina og held að það sé best að taka sér smá tíma, svona tvö þrjú ár í ævintýramennsku. Skólinn er ekki á förum neitt !
Mig langar til útlanda og í ævintýri og sjá nýja staði og læra svona 7 tungumál í viðbót. Mig langar að fara til Ástralíu og kafa, svo langar mig til Flórida í fallhlífastökk. Mig langar til að fara á hundasleða yfir Grænlandsjökul og að skjóta sauðnaut og seli. Mig langar til Afríku og flakka um. Mig langar að setjast að í Kína í dálítinn tíma og kynnast land og þjóð. Eða mig langar einfaldlega að hafa tíma til að lesa einhverja góða skemmtilega bók, án þess að hafa skólann hvílandi á manni eins og mara, og klára lopapeysuna sem ég er að prjóna, spila pínulítið á píanóið og gítarinn, baka eitthvað gott...
Samt er pínu gaman í skólanum, ég bara held alltaf að tíminn sé að hlaupa frá manni, það þarf allt bara helst að hafa gerst í gær eða vera að gerast í augnablikinu. Hvernig næ ég að gera allt sem mig langar til að gera án þess að flýta mér að því? ...bara að guð gefi mér þolimæði, núna strax !!!...

Sunday, February 22, 2004

Árshátíðin var frábær, alveg geggjuð ! Ég skemmti mér alveg ótrúlega vel, ekki bara á árshátíðinni sjálfri heldur einnig bara allann tímann. Þetta var algjört girls-night-out um daginn. Við vorum 7 saman í bíl, fórum um hádegi, rúntuðum um Hveragerði í leit að pizzastað, vorum allar hlið við hlið á hótelinu, jarðhæð og komumst út í pott út um gluggann, spiluðum Actionary og Gettu betur. Ekki skal minnast á hverjir unnu því það vekur einungis upp gorgeir hjá viðkomandi aðilum. Náttúrulega vorum við dum, dummer and dummiere langbest...
Fordrykkur, forréttur og aðalréttur voru snilld, en auðvitað þurfti að troða ís í eftirrétt. Át ávextina ofanaf og gaf restina.
Skemmtiatriðin voru snilldin ein og stóð þar annað ár í byggingarverkfræði uppúr. Strákarnir tóku nokkur dansspor og söngtakta, og meira að segja Gunni fór í kjól. Við vorum nú allar stelpurnar svolítið stoltar af þeim.
Við Ringa ætluðum að ná morgunmat kl. 7 eins og auglýst var, en svo stóðst það nú ekki þannig að við fengum okkur smá lúr, en vöknuðum við óargadýrin í sundlauginni og fengum okkur morgunmat um hálf tíu. Begga kom með, á grænu náttfötunum og hálf sofandi. Eitthvað vorum við að spá í að bílstjórinn okkar, Þorbjörg, kom ekki heim úr partý fyrr en um 7 leytið, en hún, eins og við, ætlaði að ná morgunmatnum áður en hún færi að sofa. Hún var ótrúlega hress um hádegi og kom okkkur heilum heim. Eftir að ég kom heim fór lungað úr deginum í að sofa og eftir það var litlu komið í verk.

Gummi var svo hugulsamur að drattast á lappir í morgun og baka pönnukökur handa mér í morgunmat. Svona ekta bandarískar pönnukökur með kanadísku sýrópi, bönunum og ferskum jarðaberjum.
Er búin að kaupa kaffibaunir þannig að núna kemur kaffikvörnin, sem Sirrý systir gaf okkur í jólagjöf ,sér vel. Nú get ég fengið mér nýmalað kaffi og það er svo góð lykt af því. Er að prófa Columbía-kaffi núna og það er geggjað gott.

Fór í ræktina í dag með Beggu og Gumma. Enduðum á að fara í pottinn og höfðum það náðugt. Fórum svo og keyptum okkur gommu af bolludagsbollum og ekta rjóma og átum eins og svín. Ilmur og Hóa komu í kaffi til okkar.
Ótrúlegustu hlutir gerast enn, Ilmur er farin að drekka kaffi, án þess að setja nokkuð nema mjólk útí það...

Gummi á setningu dagsins: ,,mér finnst svo gott svona granít með kjúklingnum"...hmmmm, hvað? ,,svona kartöflugranít"... Það næsta sem ég frétti örugglega úr vinnunni hjá honum er að hann hefur lagt gratín-borðplötu á eldhúsbekkinn!

Wednesday, February 18, 2004

Nú erum við loksins orðin stórfjölskylda. Núna er það ég, Gummi og co... Það bættust nefninlega tveir í hópinn, þ.e. Kevin og Fúsi, tveir litlir afrískir klófroskar. Þeir eru ekkert smá sætir.
Ég gaf Gumma þá í Valentínusargjöf. Þetta var nú kannski ekki alveg það sem hann átti von á, en honum er mjög umhugað um þá. Hægt er að sjá meira um svona froska á

http://members.aol.com/sirchin/afc.htm

Þetta lífgar svo upp á íbúðina. Nú getum við verið virk í þessum endalausu barnaumræðum, ,, krakkinn minn þetta og krakkinn minn hitt". Okkar eru bæði þægir og góðir, grænir og slímugir.
Það er fínt að sitja ekki bara við tvö uppi með hvort annað, en samt ágætt að geta bætt einhverju við sem er hvorki illa lyktandi né hávaði í. Þá á ég ekki bara endilega við krakka, heldur þoli ég hvorki ketti né páfagauka. En mig langar geggjað í eðluna sem er til í búðinni, hún var bara svo dýr. Það þarf meira að segja að fæða hana á hráu kjöti.

Ég var nú ýmsu fróðari eftir að Ómar kom í heimsókn og var að skoða froskana. Hann nefninlega átti frosk einu sinni, ekki lengur... Hann komst nefninlega að því að það er EKKI hægt að setja froskinn í frost þegar maður er að fara eitthvað og taka hann síðan úr frosti þegar maður kemur heim aftur. Hann bara lifnar ekki við aftur... En það er ágætt, þá veit ég það. Var búin að heyra að þetta væri hægt, en þeir þurfa áreiðanlega sjálfir að búa sig undir að leggjast í hýði o.s.frv. Og sjálfsagt eru þetta bara einhverjar sérstakar tegundir.

Ég er farin að halda að þetta eiginmannsdjásn mitt gangi ekki heilt til skógar. Ekki nóg með það að hann giftist mér, heldur er mig farið að gruna að hann sé natural-born-... íkveikjuvargur.
Hann kom heim í dag, í hádeginu, og þar sem hann á svona skelfilega lata kellingu þá þurfti hann að elda sjálfur súpu; ekki bara handa sér heldur handa henni líka. Hann dreif vatn í pott, skellti honum á eldavélina, kveikti undir og fór svo út að gera við bílinn. Eftir smá stund fór ég að finna eitthvað skrítna lykt, og svo kom svona vatn-sullast-á-hellu hljóð. Ég fór nú að tékka á þessu. Þá hafði þessi elska kveikt á vitlausri hellu. Ekki nóg með það, heldur hafði hann skellt tekatlinum á helluna, plast-trékatlinum sem Gréta systir gaf okkur í innflutningsgjöf. Vatnshljóðið kom þegar botninn var bráðnaður og vatnið sem var í katlinum sullaðist á eldavélina. Ég lenti náttúrulega í að skafa þetta af hellunni og bjarga því sem bjargað varð. Það lak bráðið plast um alla hellu. Hljóp svo og opnaði út af því að lyktin og styppan var ógeðsleg. Gummi kom svo eftir smá stund, fitjaði upp á nefið og sagði, ,, heyrðu elskan, ertu að brenna eitthvað við"?

Alls kyns afsakanir hafa dúkkað upp eins og... þú varst ekki búin að elda... fyrst þú varst heima þá eldaði ég, ef þú hefðir verið í skólanum þá hefði ég bara fengið mér kornflex... Þú varst þarna (eins og ég eigi alltaf að vera að fylgjast með því sem hann er að gera)... o.s.frv. Það er ekki sjens að hann viðurkenni að þetta hafi verið honum að kenna. Ég er búin að benda honum á það að hellan verði ekki þrifin fyrr en hann þrífur hana. Þyrfti að láta húsvörðinn vita að það séu bara þrjár virkar eldavélahellur og þær verði ekki fleiri.
Ekki nóg með það, heldur neitar hann að viðurkenna að teketillinn er ónýtur... hann lekur... En hann var eitthvað að spá í það áðan að skella honum bara aftur á helluna og gá hvort bráðni ekki fyrir götin aftur. ,, það hlýtur að vera hægt að gera við hann". Mér þætti gaman að sjá hann fara með þetta til rafvirkja og biðja hann um að gera við hann. En ég yrði náttúrulega að fara með af því að annars myndi hann segja að kellingin hefði nú aðeins gleymt sér yfir prjónaskapnum... ótrúlegt með þessar kerlingar...
Er búin að vera að læra fram á nætur síðustu daga... hmmm, þannig að það er best að fara að sofa í hausinn á sér. Næsta mál á dagskrá er að fá batterí í reykskynjarann, en helvítið fer alltaf í gang þegar ég er að elda, það er alveg ólíðandi, og gott betur og svo miklu meira en það.

Sunday, February 08, 2004

Jæja ! Nú er ég loksins að jafna mig eftir skokkið á mánudaginn var. Ég fór í ræktina með það í huga að koma mér nú í form. Lára var að tala um að ef maður vildi koma sér í hlaupaform þá ætti maður að pína sig aðeins meira og aðeins meira. Þá kæmist maður fyrr í form, og viðhéldi ekki bara lélegu formi.
Ég hljóp 3 kílómetra, og var næstum dauð ! Það er ekkert gaman að skokka þannig að ég hljóp frekar og labbaði má á milli. Náði þessu á innan við 20 mín og var svo ánægð með sjálfan mig. Um kvöldið fór ég svo að finna til í fótunum, framan í sköflungnum og eftir tvo daga gat ég varla labbað. Ég sleppti því að fara í fyrsta tímann á miðvikudaginn af því að ég hreinlega komst ekki upp í skóla. Ég fór í sturtu, sat í sturtubotninum og lét renna heitt vatn á lappirnar á mér í von um að geta mýkt þetta aðeins upp.
Svo er ég nú ekki neitt sérlega hörð af mér, eins og flestir vita, þannig að ég var vælandi út vikuna yfir því hvað mér væri illt í löppunum. Og hverjum var það að kenna??? Ég er viss um að mér tekst einhvern veginn að klína því á Láru...;)

Mig var að dreyma svo illa og þegar ég vaknaði og var að reyna að segja Gumma frá draumnum hálf sofandi, að ég hefði verið að fela mig í pottaskápnum á Svalbarði fyrir einhverjum sem ætlaði að drepa mig og væri svo illt í löppunum eftir að hafa verið í hnipri þarna inni...

En þetta er allt að koma. En ég mæli ekki með þessu til að reyna að koma sér í eitthvað form !

Fórum í heimsókn til Rabba, frænda Gumma, og Þóreyjar í gær. Ég er búin að vera að spá hvort þetta sé aldurinn, og hvort við séum eitthvað óeðlileg, en það kemst ekkert annað í umræðum en ungabörn. Þau eru með 8 mánaða gamalt barn, bróðir Rabba er með eitt nýtt síðan á miðvikudaginn og mér finnst bara allir vera að fjölga sér. Meira að segja ég er farin að taka þátt í umræðunum og orðin nokkuð málfær í þessu. Ég man bara eitthvað sem annar sagði mér í síðasta samtali og færi það yfir í næsta. ÚFFFFffff.

Tengdó fór á þorrablót fyrir austan og var í heilan sólarhring. Þegar eitthvað var liðið á blótið þá var dyrunum bara lokað og sagt að enginn færi út fyrr en veghefillinn væri kominn, en svo komst hann ekki fyrr en um miðjan næsta dag. Það voru rúmlega 100 manns á þorrablóti, að vísu voru einhverjir farnir heim, en restin þurfti bara að gista. Það átti svo bara að dansa fram eftir morgni en þá fór rafmagnið þannig að hljómsveitin datt út og þar á eftir fór vatnið af húsinu. Þetta hefur verið gæfulegt, en ægilegt ævintýri.
Það var einhver sem var að moka flugbrautina á Egilsstöðum og var kominn út í enda þegar óveðrið skall á og hann gisti í heflinum úti á enda af því að hann komst ekki til baka. Hversu slæmt er það?
Nú er allt á kafi í snjó fyrir austan og ég væri alveg til í að vera þar. Mig langar svo að fara að læra á bretti, svona snjóbretti. Ég er að vísu algjör klunni í öllu svoleiðis, en það hlýtur að takast á endanum.
Mig langar að komast aðeins austur og lenda í alvöru stórhríð... Það er aldrei neitt veður hérna í Reykjavík, kalt og leiðinlegt veður, en ekkert svona almennilega krassandi.
Njótið þess þarna fyrir norðan.

Thursday, February 05, 2004

Jæja, mér eru farnar að berast kvartnir um leti mína í að blogga. En því er nú svo ver og miður að það gerist aldrei neitt merkilegt hjá mér. Ég er bara einn af þessum litlausu persónuleikum sem líða í gegnum lífið og þegar kemur að leikslokum þá kemst ég að því að tilvera mín á jörð hafi yfir höfuð ekki skipt neinu máli. En það verða alltaf einhverjir að vera nobady svo hinir líti út fyrir að vera eitthvað stærra og meira ;)

Fór á gott blót... ÁRNI... Alveg geggjað. Það var nóg af klikkhausum þarna og þú hefðir fílað þig vel. Það besta var að Sirrý systir á svilkonu sem einnig heitir Sigríður og er kölluð Sirrý og einhvern veginn hafði það borist að ég væri systir hennar. Ég held að henni hafi alltaf litist verr og verr á hugmyndina eftir því sem leið á kvöldið.
Sveitungarnir voru mikið búnnir að velta því fyrir sér hvaða tveir aukamiðar þetta væru á Brún (þar sem foreldrar Júlla búa) og ekki vantað að fólk góndi á okkur, því fyrir utan það að við værum ókunnug þá tókst okkur alveg snilldarlega að vekja athygli á okkur í dansi. Guðmundur gerði heiðarlega tilraun til að brjóta á mér öxlina og /eða ná mér úr axlarlið. Í einni sveiflunni fór hann með fingurinn upp í mig og sló mig í þeirri næstu. Hann heldur því fram að þetta sé allt án ráða gert. Hef mínar efasemdir.
Ég komst að því að hákarl og rauðvín eru alveg snilld saman, en ég mæli ekki með miklu magni. Ég ætla einnig að muna þau heilræði í komandi framtíð...
Svo komumst við Didda (mamma Júlla) að því að fyrst ég væri ekki í fjölskyldunni á mætti ég bara vera ölskyldingi þeirra og þá væri ég í ölskyldunni. Þar á ég örugglega ágætlega heima, fyrir utan það að mér finnst öl svo sem ekkert spes, en hvað gerir maður ekki til að eiga ölskyldingja, ekki vill maður vera ölskyldulaus er það. Er bara að vonast eftir því að það fari að koma að ölskyldumóti bráðlega.
Mér skylst að það sé einhver keimur af því á landsmótum og boðaði ég mig því hið bráðasta á Gaddstaðaflöt í sumar. Ég fékk bara ágæt meðmæli sem nágrani eftir síðasta mót, en þá var systir Júlla nokkurn veginn í næsta tjaldi. Ég hef greinilega ekki verið háværari en það að hún var viss um að ég hefði verið ljóshærð, og ég fékk hana eiginleg ekkert ofan af því. Hún um það.
En hún mundi samt eftir gaurnum á bláu nærbuxunum, en hafði víst ekki fattað punktinn af hverju hann var svona brjálaður. Hann var bara brjálaður. Það er alltaf gaman að sjá hvernig fólk sér þetta lið, sem ekki þekkir til.

Núna er ég á bókhlöðunni og rétt við það að drepast úr leiðindum. Hvað getur maður eiginlega verið latur. Best að fara að fá mér að borða, það bætir alltaf allt. Minnst kosti bætir það og kætir á mér betri endann... ;)

Það var snjór þegar ég fór út í morgun. Ég snéri við í dyrunum og fór í peysu til viðbótar og snjóbuxur utan yfir hinar. Svo kom ég í skólan eins og bangsimon, og það tók mig náttúrulega eilífð að hafa mig úr fötunum og svo í aftur. Fólk hefur örugglega haldið að ég væri á leið á Grænlandsjökul, en hvað um það.

Fór í klippingu í fyrradag. Nú er ég með pínulítið hár, minnst kostið miðað við það sem var. En ég næ því enn þá í stert. Konan horfði á hárið á mér með hrillingi þegar ég kom inn og var heldur dugleg að saxa það niður. Og alveg óumbeðin stakk hún upp á klippingu sem lítið þyrfti að hafa fyrir og stelpur með þessa klippingu þyrftu ekki yfir höfuð, að greiða sér. Ég veit ekki af hverju henni datt þetta í hug en þetta virkar ágætlega. Núna þarf ég ekkert að hafa fyrir því að greiða mér og lít út fyrir að vera í nýjustu tísku, með brúnan ullarþófa á hausnum. Ég verð áreiðanlega að fá lánaðar sauðaklippur er líður að sumri til að ná reyfunum af.

Stelpan sem klippti mig var algjör Reykjavíkur-gella og henni fannst ég náttúrulega tala eins og fornmaður.
Hún: ,, segiru kannski... má bjóða þér mola?" svo ískraði henni.
Ég : ,, auðvitað, en ekki hvað ". Og þetta fannst henni svo geðveikt fyndið...

Hún: ,, ég man eftir sták, sko, þegar ég var að læra hárgreiðslu, sko, og hann bauð mér einu sinni mola...heheheh og ég náttúrulega fór bara að hlæja, bara eheheheheh og þetta var svo fyndið þegar ég fattaði að hann átti við brjóstsykur... sko..."
Hver segir moli... hehehehehe... sko...

En hún hafði samt verið dugleg að ferðast um landið, komið til Akureyrar og svona, en aldrei á Egilsstaði, Ísafjörð, Vestfirði eða Austfirði yfirleitt. En hún hafði farið í Þórsmörk...
Sumir hérna eru alveg ótrúlega furðulegir, það er alveg á hreinu. En henni tókst samt stórslysalaust að klippa mig sem betur fer.