Jæja ! Nú er ég loksins að jafna mig eftir skokkið á mánudaginn var. Ég fór í ræktina með það í huga að koma mér nú í form. Lára var að tala um að ef maður vildi koma sér í hlaupaform þá ætti maður að pína sig aðeins meira og aðeins meira. Þá kæmist maður fyrr í form, og viðhéldi ekki bara lélegu formi.
Ég hljóp 3 kílómetra, og var næstum dauð ! Það er ekkert gaman að skokka þannig að ég hljóp frekar og labbaði má á milli. Náði þessu á innan við 20 mín og var svo ánægð með sjálfan mig. Um kvöldið fór ég svo að finna til í fótunum, framan í sköflungnum og eftir tvo daga gat ég varla labbað. Ég sleppti því að fara í fyrsta tímann á miðvikudaginn af því að ég hreinlega komst ekki upp í skóla. Ég fór í sturtu, sat í sturtubotninum og lét renna heitt vatn á lappirnar á mér í von um að geta mýkt þetta aðeins upp.
Svo er ég nú ekki neitt sérlega hörð af mér, eins og flestir vita, þannig að ég var vælandi út vikuna yfir því hvað mér væri illt í löppunum. Og hverjum var það að kenna??? Ég er viss um að mér tekst einhvern veginn að klína því á Láru...;)
Mig var að dreyma svo illa og þegar ég vaknaði og var að reyna að segja Gumma frá draumnum hálf sofandi, að ég hefði verið að fela mig í pottaskápnum á Svalbarði fyrir einhverjum sem ætlaði að drepa mig og væri svo illt í löppunum eftir að hafa verið í hnipri þarna inni...
En þetta er allt að koma. En ég mæli ekki með þessu til að reyna að koma sér í eitthvað form !
Fórum í heimsókn til Rabba, frænda Gumma, og Þóreyjar í gær. Ég er búin að vera að spá hvort þetta sé aldurinn, og hvort við séum eitthvað óeðlileg, en það kemst ekkert annað í umræðum en ungabörn. Þau eru með 8 mánaða gamalt barn, bróðir Rabba er með eitt nýtt síðan á miðvikudaginn og mér finnst bara allir vera að fjölga sér. Meira að segja ég er farin að taka þátt í umræðunum og orðin nokkuð málfær í þessu. Ég man bara eitthvað sem annar sagði mér í síðasta samtali og færi það yfir í næsta. ÚFFFFffff.
Tengdó fór á þorrablót fyrir austan og var í heilan sólarhring. Þegar eitthvað var liðið á blótið þá var dyrunum bara lokað og sagt að enginn færi út fyrr en veghefillinn væri kominn, en svo komst hann ekki fyrr en um miðjan næsta dag. Það voru rúmlega 100 manns á þorrablóti, að vísu voru einhverjir farnir heim, en restin þurfti bara að gista. Það átti svo bara að dansa fram eftir morgni en þá fór rafmagnið þannig að hljómsveitin datt út og þar á eftir fór vatnið af húsinu. Þetta hefur verið gæfulegt, en ægilegt ævintýri.
Það var einhver sem var að moka flugbrautina á Egilsstöðum og var kominn út í enda þegar óveðrið skall á og hann gisti í heflinum úti á enda af því að hann komst ekki til baka. Hversu slæmt er það?
Nú er allt á kafi í snjó fyrir austan og ég væri alveg til í að vera þar. Mig langar svo að fara að læra á bretti, svona snjóbretti. Ég er að vísu algjör klunni í öllu svoleiðis, en það hlýtur að takast á endanum.
Mig langar að komast aðeins austur og lenda í alvöru stórhríð... Það er aldrei neitt veður hérna í Reykjavík, kalt og leiðinlegt veður, en ekkert svona almennilega krassandi.
Njótið þess þarna fyrir norðan.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home