Nú erum við loksins orðin stórfjölskylda. Núna er það ég, Gummi og co... Það bættust nefninlega tveir í hópinn, þ.e. Kevin og Fúsi, tveir litlir afrískir klófroskar. Þeir eru ekkert smá sætir.
Ég gaf Gumma þá í Valentínusargjöf. Þetta var nú kannski ekki alveg það sem hann átti von á, en honum er mjög umhugað um þá. Hægt er að sjá meira um svona froska á
http://members.aol.com/sirchin/afc.htm
Þetta lífgar svo upp á íbúðina. Nú getum við verið virk í þessum endalausu barnaumræðum, ,, krakkinn minn þetta og krakkinn minn hitt". Okkar eru bæði þægir og góðir, grænir og slímugir.
Það er fínt að sitja ekki bara við tvö uppi með hvort annað, en samt ágætt að geta bætt einhverju við sem er hvorki illa lyktandi né hávaði í. Þá á ég ekki bara endilega við krakka, heldur þoli ég hvorki ketti né páfagauka. En mig langar geggjað í eðluna sem er til í búðinni, hún var bara svo dýr. Það þarf meira að segja að fæða hana á hráu kjöti.
Ég var nú ýmsu fróðari eftir að Ómar kom í heimsókn og var að skoða froskana. Hann nefninlega átti frosk einu sinni, ekki lengur... Hann komst nefninlega að því að það er EKKI hægt að setja froskinn í frost þegar maður er að fara eitthvað og taka hann síðan úr frosti þegar maður kemur heim aftur. Hann bara lifnar ekki við aftur... En það er ágætt, þá veit ég það. Var búin að heyra að þetta væri hægt, en þeir þurfa áreiðanlega sjálfir að búa sig undir að leggjast í hýði o.s.frv. Og sjálfsagt eru þetta bara einhverjar sérstakar tegundir.
Ég er farin að halda að þetta eiginmannsdjásn mitt gangi ekki heilt til skógar. Ekki nóg með það að hann giftist mér, heldur er mig farið að gruna að hann sé natural-born-... íkveikjuvargur.
Hann kom heim í dag, í hádeginu, og þar sem hann á svona skelfilega lata kellingu þá þurfti hann að elda sjálfur súpu; ekki bara handa sér heldur handa henni líka. Hann dreif vatn í pott, skellti honum á eldavélina, kveikti undir og fór svo út að gera við bílinn. Eftir smá stund fór ég að finna eitthvað skrítna lykt, og svo kom svona vatn-sullast-á-hellu hljóð. Ég fór nú að tékka á þessu. Þá hafði þessi elska kveikt á vitlausri hellu. Ekki nóg með það, heldur hafði hann skellt tekatlinum á helluna, plast-trékatlinum sem Gréta systir gaf okkur í innflutningsgjöf. Vatnshljóðið kom þegar botninn var bráðnaður og vatnið sem var í katlinum sullaðist á eldavélina. Ég lenti náttúrulega í að skafa þetta af hellunni og bjarga því sem bjargað varð. Það lak bráðið plast um alla hellu. Hljóp svo og opnaði út af því að lyktin og styppan var ógeðsleg. Gummi kom svo eftir smá stund, fitjaði upp á nefið og sagði, ,, heyrðu elskan, ertu að brenna eitthvað við"?
Alls kyns afsakanir hafa dúkkað upp eins og... þú varst ekki búin að elda... fyrst þú varst heima þá eldaði ég, ef þú hefðir verið í skólanum þá hefði ég bara fengið mér kornflex... Þú varst þarna (eins og ég eigi alltaf að vera að fylgjast með því sem hann er að gera)... o.s.frv. Það er ekki sjens að hann viðurkenni að þetta hafi verið honum að kenna. Ég er búin að benda honum á það að hellan verði ekki þrifin fyrr en hann þrífur hana. Þyrfti að láta húsvörðinn vita að það séu bara þrjár virkar eldavélahellur og þær verði ekki fleiri.
Ekki nóg með það, heldur neitar hann að viðurkenna að teketillinn er ónýtur... hann lekur... En hann var eitthvað að spá í það áðan að skella honum bara aftur á helluna og gá hvort bráðni ekki fyrir götin aftur. ,, það hlýtur að vera hægt að gera við hann". Mér þætti gaman að sjá hann fara með þetta til rafvirkja og biðja hann um að gera við hann. En ég yrði náttúrulega að fara með af því að annars myndi hann segja að kellingin hefði nú aðeins gleymt sér yfir prjónaskapnum... ótrúlegt með þessar kerlingar...
Er búin að vera að læra fram á nætur síðustu daga... hmmm, þannig að það er best að fara að sofa í hausinn á sér. Næsta mál á dagskrá er að fá batterí í reykskynjarann, en helvítið fer alltaf í gang þegar ég er að elda, það er alveg ólíðandi, og gott betur og svo miklu meira en það.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home