Thursday, February 05, 2004

Jæja, mér eru farnar að berast kvartnir um leti mína í að blogga. En því er nú svo ver og miður að það gerist aldrei neitt merkilegt hjá mér. Ég er bara einn af þessum litlausu persónuleikum sem líða í gegnum lífið og þegar kemur að leikslokum þá kemst ég að því að tilvera mín á jörð hafi yfir höfuð ekki skipt neinu máli. En það verða alltaf einhverjir að vera nobady svo hinir líti út fyrir að vera eitthvað stærra og meira ;)

Fór á gott blót... ÁRNI... Alveg geggjað. Það var nóg af klikkhausum þarna og þú hefðir fílað þig vel. Það besta var að Sirrý systir á svilkonu sem einnig heitir Sigríður og er kölluð Sirrý og einhvern veginn hafði það borist að ég væri systir hennar. Ég held að henni hafi alltaf litist verr og verr á hugmyndina eftir því sem leið á kvöldið.
Sveitungarnir voru mikið búnnir að velta því fyrir sér hvaða tveir aukamiðar þetta væru á Brún (þar sem foreldrar Júlla búa) og ekki vantað að fólk góndi á okkur, því fyrir utan það að við værum ókunnug þá tókst okkur alveg snilldarlega að vekja athygli á okkur í dansi. Guðmundur gerði heiðarlega tilraun til að brjóta á mér öxlina og /eða ná mér úr axlarlið. Í einni sveiflunni fór hann með fingurinn upp í mig og sló mig í þeirri næstu. Hann heldur því fram að þetta sé allt án ráða gert. Hef mínar efasemdir.
Ég komst að því að hákarl og rauðvín eru alveg snilld saman, en ég mæli ekki með miklu magni. Ég ætla einnig að muna þau heilræði í komandi framtíð...
Svo komumst við Didda (mamma Júlla) að því að fyrst ég væri ekki í fjölskyldunni á mætti ég bara vera ölskyldingi þeirra og þá væri ég í ölskyldunni. Þar á ég örugglega ágætlega heima, fyrir utan það að mér finnst öl svo sem ekkert spes, en hvað gerir maður ekki til að eiga ölskyldingja, ekki vill maður vera ölskyldulaus er það. Er bara að vonast eftir því að það fari að koma að ölskyldumóti bráðlega.
Mér skylst að það sé einhver keimur af því á landsmótum og boðaði ég mig því hið bráðasta á Gaddstaðaflöt í sumar. Ég fékk bara ágæt meðmæli sem nágrani eftir síðasta mót, en þá var systir Júlla nokkurn veginn í næsta tjaldi. Ég hef greinilega ekki verið háværari en það að hún var viss um að ég hefði verið ljóshærð, og ég fékk hana eiginleg ekkert ofan af því. Hún um það.
En hún mundi samt eftir gaurnum á bláu nærbuxunum, en hafði víst ekki fattað punktinn af hverju hann var svona brjálaður. Hann var bara brjálaður. Það er alltaf gaman að sjá hvernig fólk sér þetta lið, sem ekki þekkir til.

Núna er ég á bókhlöðunni og rétt við það að drepast úr leiðindum. Hvað getur maður eiginlega verið latur. Best að fara að fá mér að borða, það bætir alltaf allt. Minnst kosti bætir það og kætir á mér betri endann... ;)

Það var snjór þegar ég fór út í morgun. Ég snéri við í dyrunum og fór í peysu til viðbótar og snjóbuxur utan yfir hinar. Svo kom ég í skólan eins og bangsimon, og það tók mig náttúrulega eilífð að hafa mig úr fötunum og svo í aftur. Fólk hefur örugglega haldið að ég væri á leið á Grænlandsjökul, en hvað um það.

Fór í klippingu í fyrradag. Nú er ég með pínulítið hár, minnst kostið miðað við það sem var. En ég næ því enn þá í stert. Konan horfði á hárið á mér með hrillingi þegar ég kom inn og var heldur dugleg að saxa það niður. Og alveg óumbeðin stakk hún upp á klippingu sem lítið þyrfti að hafa fyrir og stelpur með þessa klippingu þyrftu ekki yfir höfuð, að greiða sér. Ég veit ekki af hverju henni datt þetta í hug en þetta virkar ágætlega. Núna þarf ég ekkert að hafa fyrir því að greiða mér og lít út fyrir að vera í nýjustu tísku, með brúnan ullarþófa á hausnum. Ég verð áreiðanlega að fá lánaðar sauðaklippur er líður að sumri til að ná reyfunum af.

Stelpan sem klippti mig var algjör Reykjavíkur-gella og henni fannst ég náttúrulega tala eins og fornmaður.
Hún: ,, segiru kannski... má bjóða þér mola?" svo ískraði henni.
Ég : ,, auðvitað, en ekki hvað ". Og þetta fannst henni svo geðveikt fyndið...

Hún: ,, ég man eftir sták, sko, þegar ég var að læra hárgreiðslu, sko, og hann bauð mér einu sinni mola...heheheh og ég náttúrulega fór bara að hlæja, bara eheheheheh og þetta var svo fyndið þegar ég fattaði að hann átti við brjóstsykur... sko..."
Hver segir moli... hehehehehe... sko...

En hún hafði samt verið dugleg að ferðast um landið, komið til Akureyrar og svona, en aldrei á Egilsstaði, Ísafjörð, Vestfirði eða Austfirði yfirleitt. En hún hafði farið í Þórsmörk...
Sumir hérna eru alveg ótrúlega furðulegir, það er alveg á hreinu. En henni tókst samt stórslysalaust að klippa mig sem betur fer.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home