Friday, January 30, 2009


Er í prófum og ríkisstjórnarmálin eru að gera útaf við prófalesturinn! Ég hreinlega sogast að mbl, vísi og vb ! Þeir eru ekki fjórða valdið fyrir ekki neitt ;)

Eitt sem ég fór að velta fyrir mér og það væri ágætt að fá botn í það mál. Þetta er kannski háfleyg pæling en svona í anda umræðanna fór þessi hugsun af stað.
Af hverju kjósum við í ríkisstjórn?
Svarið er líklega að við erum lýðræðislegt samfélag sem virðum lýðræðislegar skoðanir fólks. Gott og vel! þessi rök eiga vel við og sem lýðræðislega þenkjandi manneskja ber mér að virða þau í takt við aðrar skoðanir mínar.

Pælingin er hins vegar hvort við séum að fá hæfasta fólkið í starfið með því að kjósa það. Ég veit að allir þessir ráðherrar hafa sína ráðgjafa og hóp af fólki á bak við sig. Að minnsta kosti vona ég það!

Það sem einkennir góðan stjórnmálamann eru leiðtogahæfileikarnir í flestum tilfellum. Það sem skilar inn atkvæðum er góður og öruggur talandi, hæfileiki í mannlegum samskiptum og að koma vel fyrir.
Við erum lítil þjóð og vitum einnig að ætterni og vinsældir skipta líka máli.
Á þessum eiginleikum er hægt að komast ótrúlega langt.

Hitler var snilldar leiðtogi, fólkið gaf honum valdið, hann hefði aldrei geta gert þetta einn. Hann er svona absúrd dæmi um að leiðtogahæfileikar og vit til að fara með valdið eiga ekki alltaf saman.

Ástæðan fyrir þessum pælingum mínum er ráðning Gylfa Magnússonar sem Viðskiptaráðherra og umræðan um Björgu Thorarensen sem Dóms- og kirkjumálaráðherra. Ég veit svo sem lítið um þetta fólk, ekki annað en það sem netmiðlarnir hafa uppfrætt mig um. Hann er dósent í viðskiptafræði við HI og hún profesor í lögfræði. Þau ættu að vita eitthvað um þessi mál, það er nokkuð bókað.
En þá kemur upp annað. Kannski eru þau einmitt hæfasta fólkið í þetta starf en hafa þau eitthvað í hákarlana á þinginu? Kannski eru þau fólkið sem kemur til með að koma þessu hafreka skipi okkar aftur á braut velgengninnar en er það ekki vanvirðing við lýðræðislegan rétt minn að hafa ekkert um þetta að segja?

Málið er að ég vil fá hæfasta fólkið, en þá kemur upp staðan. Hver á að segja til um hver er hæfastur?
Valdabaráttan er manninum eðlislæg, allt frá því að fá besta sætið við eldstæðið og besta bita bráðarinnar upp í að stjórna heilu samfélagi úr forsetastóli.

Þarf þetta ekki að vera nokkurs konar kviðdómur ráðgjafa sem vega og meta hvert dæmi fyrir sig en dómarinn, eða ráðherrann, sér um að stjórna umræðunum og kynna niðurstöðuna. Ég hef nú sjaldnast séð mikla auðmýkt eða eftirgefni hjá þessum pólitíkusum, enda myndi ég aldrei kjósa einhverja undirlægju á þing. Láta þeir einhverja bókaplebba og vitringa segja sér fyrir verkum?


Obama réði Steven Chu, nóbelsverðlaunahafa og sérfræðing í endurnýtanlegri orkuvinnslu sem orkumálaráðherra. Sterkur leikur?

Á ég einhvern tímann eftir að lesa á Wikipedia: ,,Það var í þá daga er stjórnun landsins fólst í vinsældum en ekki hæfni?"
Er ég að vanmeta hæfileika íslensku þjóðarinnar í vali á leiðtogum? Í skjóli undanfarinna atburða, ríkisstjórn með sterkan meirihluta, þá hlýt ég að velta þeirri spurningu upp!

Þetta eru nú bara svona vangaveltur úr fylgsnum hugans er dansa í takt við landfræðilegu upplýsingakerfin sem ég á að vera að lesa þessa dagana. Það má ekki skiljast sem svo að ég sé eitthvað efins um gildi lýðræðisins, einungis bestun í stýringu íslensks samfélags ;)

Tuesday, January 27, 2009


1994 klofnaði alþýðuflokkurinn er Jóhanna gaf skít í þá með orðunum "minn tími mun koma" og stofnaði Þjóðvakann er síðar rann inn í Samfylkinguna ásamt Alþýðuflokknum. Mér dettur aldrei Jóhanna í hug án þess að þessi setning fylgi með og oftar en ekki gert grín að henni... en viti menn! Ætli hennar tími sé ekki bara kominn.
Þetta kallar maður þolimæði og framsýni!

Það er nú óskandi að eitthvað lag komist á þessa óstjórn sem ríkir yfir landinu. Ég skal nú alveg viðurkenna að mér fannst nú undarlegt að forsetinn var allt í einu kominn með umboð til að stýra ríkisstjórnarmyndunnartillögum. Ég held að það sé nú bara gamla allaballablóðið mætt aftur. Ég hélt að þegar ég kaus forsetann þá væri ég að kjósa einhvern sem andlit útgerðarinnar og þegar ég kaus í ríkisstjórn að þá væri ég að kjósa skipstjórann. Þegar skipið siglir í strand þá sé ég ekki fyrir mér að útgerðarstjórinn stökkvi um borð og reddi málunum. Ég hélt það giltu reglur á hverju skipi um aðgerðaskipan í þess konar aðstæðum.
En vonandi leysist vel úr þessu á endanum. Vonandi fáum við bara ríkisstjórn sem þjóðin stendur með... og stendur með þjóðinni. Hvernig á að leysa úr þessum málum er ég hrædd um að séu fáar töfralausnir úr því sem komið er.
Ég held mig við gamla sáttmálann!

Það sem ég skil ekki er hvernig þau ætla að leysa aðal ágreiningsefnið. Þetta hefur verið aðalmálefni flokkanna hingað til. Í ESB eða ekki... Það er einhver helber misskilningur um að það muni redda málunum. Við verðum að fara að horfa á fleiri lausnir. Ekki hefur þetta hjálpað Bretagreyjunum í sinni bankakreppu, pundið þeirra er fallið, atvinnuleysið eykst og húsnæðisverð hrapar. Írunum er hefnt fyrir að hafa neitað Lissabon sáttmálanum svo ekki fá þeir neina aðstoð og herna á Spáni er atvinnuleysi 13.9 % og verður að öllum líkindum 19% í árslok. Þeir eru nú dygg evrópusambands þjóð með nærri 50 milljón íbúa af þeim 500 milljónum sem búa í Evrópusambandinu. Bretar og Spánverjar eru stór lönd og ættu að hafa ágætis áhrif, þess þá heldur eru nú þegar í ESB og hafa verið það þó nokkurn tíma.

Núna voru Þjóðverjar og Frakkar að ýta á að Evrópusambandið tæki að sér aðstoð við 48 stæstu bankana í Evrópu. Viljið þið giska hverjir eiga flesta stæstu bankana í Evrópu? og hvernir hafa flesta fulltrúa í stjórn? Það er farið að kreppa að hjá flestum og hver og einn hugsar um að bjarga eigin skinni.
Það er komið að því að við verðum sjálf að bjarga eigin skinni og hætta að bíða eftir því að aðrir geri það!

Saturday, January 24, 2009



Mér varð hugsað til konu einnar, ein þeirra sem hvað mest áhrif hafa haft á mitt líf og mína persónu. Ein af þeim sem gerði veröldina betri sem og mig að betri manneskju. Ef hver og einn í veröldinni fengið lítið brot af hennar einstaka persónuleika þá væri veröldin mun betri heimur en hún er í dag. Ég vildi óska þess að ég væri líkari þessari einstöku konu, en hún var einmitt einstök því það mun aðeins vera til ein hún.
Ég er að tala um Ömmu mína á Gunnarsstöðum, öðru nafni Silla á Gunnarsstöðum. Þegar ég las þessa frétt þá varð mér hugsað til hennar og hennar ótrúlegu hugspeki. Ég hef ekki farið leynt með andúð mína á Bretum þessa dagana, ég er ósátt við hvernig þeir tókust á við efnahagshrunið á Íslandi. Þeir gerðu ástandið verra en það var og lögðu sig fram við að sverta okkar mannorð meir en orðið var til að upphefja eigin orðstýr í von um að bjarga eigin skinni. Það er ekki laust við að það hlakki í manni er maður les um þeirra eigin efnahagsófarir, ótrúlega líkt í sniðum og okkar eigin efnahagshrun.
Svo var ég að lesa þessa grein. Alveg datt mér hún amma mín í hug...

Bretar lögðu okkur í einelti er bankarnir hrundu, aftur og aftur komu breskir pólitíkusar fram opinberlega og níddu land og þjóð niður í skítinn. Við erum enn á hryðjuverkahópalista í Bretlandi og þeir hafa enn frystar íslenskar eignir í Bretlandi því okkur er ekki treystandi. Þeir rakka okkur niður fyrir að ætla einungis að fara eftir evrópskum lögum í endurgreiðslu inneigna þó vitandi að hinir almennu borgarar á komandi árum komi til með að borga þetta með auknum sköttum og skerðingu í mennta og heilbrigðiskerfi hér á landi.
Það kemur frétt um að breskir ellilífeyrisþegar séu að drepast úr kulda, við erum að tala um 260 þúsund ellilífeyrisþega undanfarin 10 ár. Ég á nú erfitt með að trúa þessari tölu, bara brot af henni væri allt of mikið.
Við gjaldþrota, mannorðslausa og ótreystandi þjóð sendum þeim heilan gám af lopapeysum í tilraun til að láta aumingja gamla fólkinu líða betur. Margir fréttavefir og sjónvarpstöðvar á Bretlandi hafa birt þetta og mér fellur þessi umfjöllun mun betur en sú er áður var.

No matter what you try You Can’t Break the Strings in Our Olympic Hearts


Mamma var með kastaníubrúnt þykkt og mikið hár. Mikið rosalega langaði mig, og langar enn, til að hafa fengið eitthvað af því. Ég var alltaf sögð svo lík henni, við Gréta erum sagðar líkjast móðurættinni og Axel og Sirrý föðurættinni. Mamma og pabbi skiptu þessu jafnt.
Einhvern tímann sagði mamma við mig í glettni er eiginleikar föðurættarinnar bar á góma..." það eina sem þú hefur frá pabba þínum er drullubrúna hárið hans"... Þessu var bara slett fram og síðan héldu samræðurnar áfram eins og leið þeirra lá. Þessi orð brenndu sig inn í vitund mína og það var ekki sjaldan sem ég minnti hana á þau eftir að ég komst yfir særindin sem þau ullu. Hún sagði einhverju síðar að hún hefði aldrei sagt þetta ef hana hefði grunað að ég tæki þetta svona nærri mér.
Ætli það hafi ekki einmitt verið það sem mig fékk ekki úr föðurættinni, sjálfstraustið til að þola gagnrýnina, og fyrst fólk sagði að ég væri eins og mamma vildi ég náttúrulega vera eins og pabbi.
En helst af öllu hefði ég viljað líkjast ömmu á Gunnarsstöðum eitthvað en ég nýt góðs af því að hafa alist upp í næsta húsi og hún reyndi hvað hún gat að leiðbeina þessari ótukt sonardóttur sinni inn á braut manngæskunnar. Ég reyni að varðveita það, en ég hefði samt örugglega sent þeim línuna... það er hlýtt í helvíti, þar sem þið endið öll sömul með Gordon Brown í broddi fylkingar!

Friday, January 23, 2009




Boðað hefur verið til kostninga og krónan styrkist í dag um 3.04%. Gengisvísitalan er komin niður í 210 og evran er komin undir 160 kr.
Erum við að fara að spyrna okkur frá botninum?

Erlendir fjárfestar bíða í með fingurinn á púlsinum. Um leið of fyrstu vísbendingar um að dæmið sé að snúast við koma fram koma þeir í offvæni í von um að kaupa brunarústirnar á útsöluverði og sjá þær blómstra með vaxandi hagvexti. Sá sem á fullt af dollurum sem núna eru mjög sterkir kaupir sér krónur og geymir í ár hefur tækifæri á því að ávaxta fé sitt um allt að 40 - 60%. Og sá sem kaupir krónurnar styrkir hana enn frekar. Þetta verður keðjuverkun í hina áttina. Við þurfum samt að gæta að okkur hvað við viljum að erlendir fjárfestar fjárfesti í. Mér finnst sjávarútvegurinn t.d. utan þeirrar seilingar. Á meðan við erum ekki í evrópusambandinu fáum við einhverju um það ráðið.

Það sem við þurfum er að auka trú erlendra aðila á íslenskt samfélag. Það þarf að berja kjarki í liðið, við verðum að reyna að hysja upp um okkur brækurnar og taka áskoruninni. Við þurfum að hreinsa mannorð okkar og sýna umheiminum að við erum engir ræflar. Þarna getum við snúið okkar veikustu punktum í okkar litla hagkerfi okkur í vil og reist það við mun hraðar og mun betur heldur en t.d. erkifjendur okkar Bretar munu nokkurn tímann gera.

Við þurfum aðeins að sýna fram á að við erum engir aumingjar sem lúffum. Það verður að auka trúnna á hagkerfið. Við verðum að sýna heiminum að tiltekt fer fram í íslensku fjármálalífi. Að fjármálaeftilitið er ekki bara sömu aumingjarnir og áður, staða seðlabankastjóra er ekki umbun úreltra stjórnmálamanna sem hafa ekkert annað að gera og ríkisstjórn sem nýtur stuðnings þjóðarinnar og getur stappað í hana stálinu.


Persónulega finnst mér að það ætti að veita íslenskri ferðaþjónustu, sjávarútvegnum og íslenskum landbúnaði verðlaun fyrir að standa af sér góðærið og að vinna lykilatriði í uppbyggingu þjóðarbúsins.
Til er fólk sem segir að lykilatriðið sé að skipta um mynt, yfir í evrur sé málið. Ég sé ekki fram á að staða þeirra sem eru með erlend lán, þ.a.m. sjávarútvegurinn komi nokkru sinni til með að bera sitt barr ef við frystum skuldir þeirra miðað við núverandi gengi krónunnar. Ef til myntskipta kemur þá gerum við það á meðan krónan er sterk.

Fyrir tveimur og hálfri öld síðan, 1783 bjuggum við í torfkofum, gengum í lopapeysum og átum fisk og kjöt. Það var lítill útflutningur og flest þurfti fólk að vinna sjálft. Þetta árið voru Skaftáreldar...

Talið að sauðfé hafi fækkað um allt að 80%, hrossum um 60% og nautgripum um 50%. Þessar hörmungar, sem kallaðar hafa verið Móðuharðindin, stóðu yfir til ársins 1785 og kostuðu meira en 10.000 manns (rúmlega 20% þjóðarinnar) lífið.

Við höfum séð það svartara. Skítt með bimmann og Kanarí!

Thursday, January 22, 2009

Við erum aðhlátursefni víða um heim...






Axel bróðir sendi mér grein úr Norsku blaði þar sem fjallað er um mótmælin hérna heimafyrir. Ég fór nú bara að spá í hliðstæðunni... nema við erum svokallað vestrænt siðmenntað ríki...




[Zimbabwe's economy spiraled downward, with food and oil shortages, and with massive internal displacement and emigration. In July, 2008, the G8 released a collective statement saying that they "do not accept the legitimacy of a government that does not reflect the will of the Zimbabwean people".]

Wednesday, January 21, 2009

Kosningar eða ekki kosningar...

Hvernig er annað hægt? Ég er ekkert viss um að einhver annar flokkur sé með einhverja töfralausn sem kippir öllu í liðinn á komandi ári en svona gengur þetta ekki áfram. Ég bara skil ekki hvernig þeim dettur í hug að ætla að sitja bara sem fastast. Það má vel vera að þeir þykist eiga eftir einhver ókláruð atriði, ég held að það sé mestmegnis að krafsa yfir eigin skít. Það er eitthvað verulega bogið við Geir og Dabba dæmið. Ef Geir hefði drullast til að losa okkur við Dabba og taka fjármálaeftirlitið í gegn þá væri staðan önnur í dag. Þau sætu reyndar örugglega enn sem fastast en þá minnst kosti liti út fyrir að það væri verið að gera eitthvað.

Íslendingar nutu þennslunnar á sínum tíma. Ég reyndar keypti mér aldrei nýjann bíl, né fékk mér heitan pott eða flatskjá. Kannski hefði ég betur gert það. Mér fannst bara maður verða að spara, vann eins og vitleysingur og keyrði um á Volvo ´94.
Ég hugsaði með mér að þegar ég myndi einhvern tímann eignast krakka þá þyrfti ég að sjá fyrir honum. Ég gerði áætlun um sparnað sem byggðist á 25 ára plani þannig að ef félaginn fæddist á næstu 5 árum þá ætti ég að geta keypt íbúð handa dýrinu þegar það færi í háskóla. Í október breyttist það skyndilega í kúlutjald með prímuskyndingu. Önnur áætlun var gerð útaf líftryggingarmálum, í októbermánuði sá ég nauðsyn þess að gerast ódauðleg þar til litla dýrið verður farið að plumma sig fjárhagslega. Ég borga varla meira en kassann og moksturinn. Kannski kaffið á erfidrykkjunni en það verður að vera svart og sykurlaust. Þetta verður trúlega fyrsta erfidrykkjan þar sem fólk verður beðið um að borga sig inná...
Ég vann eins og vitleysingur og tók þar af leiðandi lítil námslán. Einkunnir á Spáni eru ekki gerðar opinberar fyrr en um miðjan október ár hvert. Námslánin eru reiknuð út í krónum miðað við gengi evrunnar á þeim tíma sem námslánin eru greidd út. Ég fékk s.s námslánin fyrir síðasta ár á kjörum evrunnar um miðjan oktober, þau voru vel rúmlega helmingi hærri en námslánin samanlagt 5 árin á undan, en evrufjöldinn sem ég fékk var sá sami. Þetta kemur út eins og að ég hafi lifað allt síðasta ár á gengi evrunnar 170 kr þar sem bókhaldið hérna ytra er allt í evrum. Ég held ég þurfi örugglega að borga lánið til baka í íslenskum krónum.
Heima seldum við síðan allt. Tók bækurnar mínar, brúðkaupsstellið, saumavélina og hrærivélina út úr búslóðinni og restin var seld hæstbjóðanda. Reyndar kom sér ágætlega að selja íbúðina á þeim tíma miðað við fallandi fasteignaverð og verðtryggð íbúðalán en þar sem allir sjóðir hafa hrunið, hlutabréf erlendis hrundu, hlutabréf í bönkunum núlluðust, krónan hrundi þá gufaði sá hagnaður fljótt upp.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er ekkert sérlega glúrin í fjármálum. Staðan væri nákvæmlega eins ef ég hefði bara unnið minna og safnað spiki fyrir framan flatskjáinn minn, milli þess sem ég hefði farið í ferðalag á nýja bílnum mínum með nýja fellihýsið mitt.
Ég er samt fegin að ég gerði það ekki, það er ekki minn stíll. Ég held ég sé dæmd til að vera á kúpunni allt mitt líf og einkennilegt en satt þá er ég bara nokkuð sátt við það. Ég kann ekki öðruvísi að vera.

En þetta blogg leiddist út í svartsýnisblogg fjármálakreppu lífs míns... Spurningin er, get ég kennt ríkisstjórninni um það? Það er ekki eins og að hún hafi hrifsað til sín völdin með herafli eða ofbeldi. Hún var löglega kosin í lýðræðislegum kosningum. Þetta var það sem þjóðin vildi þó ég hafi ekki viljað það og hvorugan flokkinn kosið. Málið er hins vegar að hún reyndist engan veginn starfi sínu vaxin og brást algjörlega í að gæta hagsmuna okkar.
Ég hélt reyndar aldei að svona færi, í dag er auðvelt að vera vitur eftirá. Það trúðu flestir að við myndum standa þetta af okkur. Ég vissi að bankarnir voru orðnir mjög stórir erlendis en mér datt aldrei í hug að ef þeir færu yfir að þá þyrftu hinir almennu skattborgar heima á Íslandi að borga inneignir erlendra aðila í bönkunum erlendis. Ég skil ekki enn í dag hvernig þetta á að virka. Ef bankarnir hefðu brillerað þá hefðum við ekki fengið krónu af hagnaðinum en við sitjum uppi með ábyrgðina.
Ég skil ekki hvernig ríkisstjórnin gat tekið þessa áhættu með almannafé og velferðarkerfið okkar.
Þeir ráku sveitastjórann á Raufarhöfn fyrir að eyða öllu í hlutabréfakaup sem ekki reyndust standa undir væntingum. Er þetta ekki það sama? Það er eitt að hinn almenni borgari taki áhættu með spariféið sitt, en að ríkisstjórnin ákveði að gera það fyrir hann er allt annað mál. Þetta á að vera skothelt, við spilum ekki rúsneska rúllettu með almannafé þó líkurnar séu 1/6.


Sjálfstæðisflokkurinn hefur agiterað fyrir Íslandi sem miðstöðvar fjárfesta árum saman. Samfylkingin vill nú láta af hendi yfirráðin yfir auðlindum okkar sjávarútvegnum og orkunni, það litla sem við eigum eftir sem og rústa landbúnaðinum og telur það part af uppbyggingunni. Ég er hræddumst um að þau verði kosin aftur, Sjálfstæðisflokkurinn er eins og Manchester United, þeir vinna yfirleitt og það er miklu skemmtilegra að halda með vinningsliðinu.
Ingibjörg Sólrún má halda áfram með tugguna sína... í öllum aðstæðum felast tækifæri. Í þessum aðstæðum felst tækifærið í kosningum.

Það þarf að endurbyggja ríkisstjórnina, vinna inn traust á þinginu og fá fólkið með sér í lið. Viðkomandi má líka senda Gordon Brown og Darling félaga hans fingurinn og sparka sendiherranum úr landi.
Helst hefði ég viljað rifta samningnum við alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Skila þessum peningum sem þeir fengu og eru ekkert að gera neitt við. Fara síðan til Norðmanna og endurnýja gamla sáttmálann 1262...

[ Ástæða þess að gerður var slíkur sáttmáli var að á Íslandi hafði geisað mikill ófriður. Höfðingjadeilur á Sturlungaöld (1220-1262) höfðu leikið menn grátt en ekkert framkvæmdavald var til staðar til að framfylgja lögum. Landið skiptist í sífellt stærri einingar sem mismunandi höfðingjaættir stjórnuðu og var markmið allra að ná sem mestum yfirráðum...]


Norðmenn eru mun líkari okkur en t.d. Spánverjar, Frakkar, Ítalir, Þjóðverjar og jafnvel Tyrkir. Hérna á Spáni er núna 13% atvinnuleysi og spáin segir að það fari í 19% á árinu. Spánverjar eru nærri 50 milljónir. Þeim er skítsama hvort við erum að væla yfir 10% atvinnuleysi 300 þúsund manna þjóð úti í ballarhafi. En þeir vilja samt fá að veiða fiskinn okkar...

Við eigum að semja við norðmenn og við getum mikið lært af þeim. Kannski var ágætt fyrir íslendinga að fá smá skell ef svo heppilega skildi vilja til að þeir finndu olíu svo við myndum ekki hegða okkur eins og ofdekraðir krakkabjánar. Flatskáirnir breytast í heimabíosal og heitapottarnir í sundlaugar.

Það hefur sannast að fólk er fífl og það verður að hafa vit fyrir þeim. Hafa skattana nógu háa til að fólk sé ekki að eyða öllu í vitleysu og halda þeim hluta til haga og byggja upp gott velferðarkerfið, skólakerfi og sjúkrahús. Á góðærinu átti að leggja til, ekki lækka skatta og ýta undir þetta neysluæði. Í stað þess að gefa út krónubréf þegar krónan var há átti að láta hana falla í eðlilegt far svo viðskiptahallinn væri ekki neikvæður ár eftir ár og næstum gert útaf við útflutning og ferðaþjónustu.
Í góðærinu söfnuðum við skuldum sem núna eru á gjalddaga... ofan á allt annað. Við erum sorglegt dæmi um þjóðarrembing. Það eina sem gleður mitt auma hjarta þessa dagana að Bretarnir eru að fara sömu leið ;)

En best að fara að ljúka þessu þunglyndisbloggi og hætta þessu væli. Ég á enn fyrir salti í grautinn ;)

Tuesday, January 20, 2009


Í dag horfði ég á svartan mann sverja embættiseið fyrir forsetaembætti bandaríkjanna. Bergrós Ásta horfði á það líka, en henni fannst aðallega gaman að því að sjá fólkið klappa. Einhvern tímann á ég kannski eftir að segja barnabörnunum mínum frá því að ég hafi verið vitni að þessum atburði, þó svo að það hafi reyndar verið í gegnum sjónvarpið. Fyrsti þeldökki forseti bandaríkjanna. Reyndar finnst mér það ekki aðalatriðið, maðurinn virðist vera snilldarleiðtogi og það er sérstaklega magnað að heyra hann flytja þessar ræður sínar. Það sem mér finnst hins vegar furðulegt er að það er árið 2009 og þetta er fyrsti þeldökki maðurinn sem er kosinn forseti sjálfra bandaríkjanna.
Ég velti því fyrir mér hvernig þetta er fyrir litlu stelpurnar þeirra, þetta er engin smá athygli sem þær fá og pressa fyrir krakka ekki eldri en þetta.


En svo er maður svo ótrúlega formfastur að mér þætti furðulegt að hafa svartan mann eða asískan sem forseta eða í æðstu embættum þjóðarinnar. Enn sem komið er eru ekki margar kynslóðir til af innflytjendum á Íslandi, en sá dagur kemur eflaust einhvern tímann.
Ég held það tæki mig langan tíma að venjast því að sjá svarta konu eða konu af asískum uppruna í íslenska þjóðbúningnum til dæmis. Eins frjálsan í hugsun og maður telur sig nú vera...

Mér finnst hérna á Spáni ótrúlegur greinamunur gerður á fólki. Kannski af því að þeir eru á jaðri Evrópu og Frakkar gerðu þá alveg brjálaða með því að tala um að Afríka byrjaði við Pyreneafjöllin. Það er hellingur af ólöglegum innflytjendum hérna og þeir eru notaðir í að týna ólífurnar, ódýrt vinnuafl og öllum finnst það í fína lagi af því að þetta er vinna af síðustu sort. Þeim fannst alveg fáránlegt þegar Gummi talaði um að fá kannski vinnu í ólífunum. Þau sögðu mjög skýrt að þetta væri engin vinna fyrir hann.
Svo þolir enginn hérna sígaunana. Krakkarnir segja það hreint út að þeir eru latir, þjófóttir, lygnir og birgði á samfélaginu. Þau sniðganga algjörlega hverfin þar sem þeir búa, tala aldrei við þá og passa sig á því að horfa ekki einu sinni á þá ef þau mæta þeim úti á götu. Og það er eiginlega eins í hina áttina líka. Einkennilegt miðað við hvað þau hafa búið hérna saman lengi.


Guðmundur minn var svo elskulegur í dag að baka handa mér kleinur... eða öllu heldur handa litla kútnum sínum sem finnst þær svo góðar. Ég fæ svo þær sem hún vill ekki! Það er besta að hafa forgangsröðina á hreinu...

Annars styttist í próf, sem ég nenni engan veginn að læra fyrir en verð hreinlega að fara að taka mér tak. Þetta gengur bara ekki lengur, spurning um að vera að versla upp af eymd og leti.
Það má vera að bókvitið verði ekki í askana látið, en það kemur til með að redda mér glæpsamlegum námslánum í anda nútímans og fyrir það er hægt að redda sér salti í grautinn. Það sem eftir lifir ævinnar á ég síðan eftir að vera í snöru skulda og afborganna LÍN... en það verður seinni tíma vandamál

Friday, January 09, 2009

Morgun í lífi Stubbs og foreldra hans...






Litla fjölskyldan vaknar að morgni 5. janúar og Stubbi litli er útbúin á leikskólann. Stubba-pabbi ætlar að labba með hana þennan morguninn og Stubba-mamma er heima að stússast í heimilisstörfunum.

Morgun stubba-mömmu... búin að vaska upp og ganga frá eftir morgunmatinn, hengdi út þvottinn sem var í vélinni frá því í gær og hendir sér síðan upp í sófa. Það tekur stubbapabba alveg 30 mínútur að labba á leikskólann og til baka. Eftir rétt rúman hálftíma hringir dyrabjallan fyrir utan íbúðina. Stubbamamman skilur ekkert í því hver er þetta snemma á ferð, fer til dyra og þar stendur bláókunnugur maður í skítugua vinnugallanum með litla stubb hágrátandi í fanginu.
Maðurinn: Átt þú þetta barn? (örlar á ásakandi augnarráði)
Stubbamamma: Gónir á manninn og fattar ekki að svara eða hreyfa legg né lið
Maðurinn: Ef þú átt það ekki þá skal ég alveg eiga það.
Stubbamamma rankar við sér, hrifsar stubb til sín og spyr: Hvað er eiginlega í gangi?
Maðurinn: Þetta barn var bara eitt á rangli hérna (áskandi augnarráðið fer vaxandi)
Í þessu Stubbapabbi kemur sprengmóður hlaupandi upp stigann...


Morgun stubbapabba... Labbar með stubb á leikskólann. Enginn á ferli, engin umferð og er þau komu á leikskólann var allt harðlæst og lokað. Stubbur og stubbapabbi snéru aftur heim. Stubbur vill fá að labba sjálf sem og náttúrulega stubbapabbi leyfir henni. Á heimleiðinni er gefið loforð, fyrst það er enginn leikskóli þá förum við heim og fáum heitt kakó! Uppáhaldið !!!
Er þau koma heim kemur í ljós að önnur lyftan er biluð. Þau hitta húsvörðinn á meðan þau bíða eftir hinni lyftunni. Lyftan er í miklu uppáhaldi hjá litla Stubb. Þegar þau koma úr lyftunni á annari hæð þar sem stubbafjölskyldan býr og eru að labba eftir ganginum í átt að íbúðinni fattar stubbapabbi allt í einu að litli stubbur er hætt að svara og eltir ekki lengur. Hann snýr við og hleypur til baka, rétt í tæka tíð til að sjá lyftudyrnar lokast á eftir litla Stubb og lyftan fer eitthvað. Hann hlustar, hún fer upp. Það eru ekki nema 8 hæðir í húsinu og hann fer að hlaupa. Heyrir litla Stubb gráta í lyftunni. Hleypur, upp upp upp, heyrir að lyftan opnast, einhver segir eitthvað, lyftan lokast aftur og fer aftur af stað. Hlustar... hún fer niður... hann hleypur niður niður niður. Heyrir að lyftan opnast, einhverjir tala saman. Kominn aftur á jarðhæð og sér dót húsvarðarins liggja á glámbekk en finnur ekki húsvörðinn. Heyrir lyftuna fara upp. Hleypur aftur af stað upp á aðra hæð þar sem hann heyrir stubbamömmu tala. Við íbúðina sér hann ókunnugan mann tala við stubbamömmu sem heldur á litla stubb grátandi.

Morgun litla Stubbs...
Ég ætla að stríða pabba hihihi... hlaupa hlaupa hlaupa... ég kemst í lyftuna... buhu... ég er ein í lyftunni AARRRGGGGGGG... hvar er pabbi?
Lyftan opnast á 7 hæð, ókunnugur maður. Hann fer að tala við mig, tekur mig upp og fer aftur í lyftuna. Hvar er pabbi??? AARRGGGG, Babbi, Babbi!!!
Aftur opnast lyftan, hvar er pabbi? Húsvörðurinn, hann þekkir mig! Hann veit hvar ég á heima :) En hvar er pabbi minn??? AARRGGGGGGG, Babbi!!!
Aftur í lyftuna, hringja dyrabjöllunni, mamma kemur til dyra... hún er eitthvað skrítin... hvar er pabbi??? AARRRGGGGG ... Babbi, Babbi!
Ég fer til mömmu og pabbi kemur hlaupandi, loksins... en getur ekki sagt neitt því hann þarf að anda svo mikið.
Ég segi það fyrir hann: "gagó" lít á mömmu "gagó, jamm" bendi inn í eldhús og brosi í gegnum tárin.