Tuesday, January 20, 2009


Í dag horfði ég á svartan mann sverja embættiseið fyrir forsetaembætti bandaríkjanna. Bergrós Ásta horfði á það líka, en henni fannst aðallega gaman að því að sjá fólkið klappa. Einhvern tímann á ég kannski eftir að segja barnabörnunum mínum frá því að ég hafi verið vitni að þessum atburði, þó svo að það hafi reyndar verið í gegnum sjónvarpið. Fyrsti þeldökki forseti bandaríkjanna. Reyndar finnst mér það ekki aðalatriðið, maðurinn virðist vera snilldarleiðtogi og það er sérstaklega magnað að heyra hann flytja þessar ræður sínar. Það sem mér finnst hins vegar furðulegt er að það er árið 2009 og þetta er fyrsti þeldökki maðurinn sem er kosinn forseti sjálfra bandaríkjanna.
Ég velti því fyrir mér hvernig þetta er fyrir litlu stelpurnar þeirra, þetta er engin smá athygli sem þær fá og pressa fyrir krakka ekki eldri en þetta.


En svo er maður svo ótrúlega formfastur að mér þætti furðulegt að hafa svartan mann eða asískan sem forseta eða í æðstu embættum þjóðarinnar. Enn sem komið er eru ekki margar kynslóðir til af innflytjendum á Íslandi, en sá dagur kemur eflaust einhvern tímann.
Ég held það tæki mig langan tíma að venjast því að sjá svarta konu eða konu af asískum uppruna í íslenska þjóðbúningnum til dæmis. Eins frjálsan í hugsun og maður telur sig nú vera...

Mér finnst hérna á Spáni ótrúlegur greinamunur gerður á fólki. Kannski af því að þeir eru á jaðri Evrópu og Frakkar gerðu þá alveg brjálaða með því að tala um að Afríka byrjaði við Pyreneafjöllin. Það er hellingur af ólöglegum innflytjendum hérna og þeir eru notaðir í að týna ólífurnar, ódýrt vinnuafl og öllum finnst það í fína lagi af því að þetta er vinna af síðustu sort. Þeim fannst alveg fáránlegt þegar Gummi talaði um að fá kannski vinnu í ólífunum. Þau sögðu mjög skýrt að þetta væri engin vinna fyrir hann.
Svo þolir enginn hérna sígaunana. Krakkarnir segja það hreint út að þeir eru latir, þjófóttir, lygnir og birgði á samfélaginu. Þau sniðganga algjörlega hverfin þar sem þeir búa, tala aldrei við þá og passa sig á því að horfa ekki einu sinni á þá ef þau mæta þeim úti á götu. Og það er eiginlega eins í hina áttina líka. Einkennilegt miðað við hvað þau hafa búið hérna saman lengi.


Guðmundur minn var svo elskulegur í dag að baka handa mér kleinur... eða öllu heldur handa litla kútnum sínum sem finnst þær svo góðar. Ég fæ svo þær sem hún vill ekki! Það er besta að hafa forgangsröðina á hreinu...

Annars styttist í próf, sem ég nenni engan veginn að læra fyrir en verð hreinlega að fara að taka mér tak. Þetta gengur bara ekki lengur, spurning um að vera að versla upp af eymd og leti.
Það má vera að bókvitið verði ekki í askana látið, en það kemur til með að redda mér glæpsamlegum námslánum í anda nútímans og fyrir það er hægt að redda sér salti í grautinn. Það sem eftir lifir ævinnar á ég síðan eftir að vera í snöru skulda og afborganna LÍN... en það verður seinni tíma vandamál

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta er vissulega athyglivert að hann sé virkilega forseti... en hins vegar, talandi um íslenska þjóðbúninginn þá var þeldökk stelpa á forsíðu Grape vine (íslenskt blað fyrir útlendinga) fyrir 3-4 árum á 17. júní og vakti upp miklar umræður... stendur þjóðbúningurinn fyrir samfélagsþegn alinn upp í íslensku samfélagi eða samfélagþegn með réttan húðlit?

9:58 PM  

Post a Comment

<< Home