Kosningar eða ekki kosningar...
Hvernig er annað hægt? Ég er ekkert viss um að einhver annar flokkur sé með einhverja töfralausn sem kippir öllu í liðinn á komandi ári en svona gengur þetta ekki áfram. Ég bara skil ekki hvernig þeim dettur í hug að ætla að sitja bara sem fastast. Það má vel vera að þeir þykist eiga eftir einhver ókláruð atriði, ég held að það sé mestmegnis að krafsa yfir eigin skít. Það er eitthvað verulega bogið við Geir og Dabba dæmið. Ef Geir hefði drullast til að losa okkur við Dabba og taka fjármálaeftirlitið í gegn þá væri staðan önnur í dag. Þau sætu reyndar örugglega enn sem fastast en þá minnst kosti liti út fyrir að það væri verið að gera eitthvað.
Íslendingar nutu þennslunnar á sínum tíma. Ég reyndar keypti mér aldrei nýjann bíl, né fékk mér heitan pott eða flatskjá. Kannski hefði ég betur gert það. Mér fannst bara maður verða að spara, vann eins og vitleysingur og keyrði um á Volvo ´94.
Ég hugsaði með mér að þegar ég myndi einhvern tímann eignast krakka þá þyrfti ég að sjá fyrir honum. Ég gerði áætlun um sparnað sem byggðist á 25 ára plani þannig að ef félaginn fæddist á næstu 5 árum þá ætti ég að geta keypt íbúð handa dýrinu þegar það færi í háskóla. Í október breyttist það skyndilega í kúlutjald með prímuskyndingu. Önnur áætlun var gerð útaf líftryggingarmálum, í októbermánuði sá ég nauðsyn þess að gerast ódauðleg þar til litla dýrið verður farið að plumma sig fjárhagslega. Ég borga varla meira en kassann og moksturinn. Kannski kaffið á erfidrykkjunni en það verður að vera svart og sykurlaust. Þetta verður trúlega fyrsta erfidrykkjan þar sem fólk verður beðið um að borga sig inná...
Ég vann eins og vitleysingur og tók þar af leiðandi lítil námslán. Einkunnir á Spáni eru ekki gerðar opinberar fyrr en um miðjan október ár hvert. Námslánin eru reiknuð út í krónum miðað við gengi evrunnar á þeim tíma sem námslánin eru greidd út. Ég fékk s.s námslánin fyrir síðasta ár á kjörum evrunnar um miðjan oktober, þau voru vel rúmlega helmingi hærri en námslánin samanlagt 5 árin á undan, en evrufjöldinn sem ég fékk var sá sami. Þetta kemur út eins og að ég hafi lifað allt síðasta ár á gengi evrunnar 170 kr þar sem bókhaldið hérna ytra er allt í evrum. Ég held ég þurfi örugglega að borga lánið til baka í íslenskum krónum.
Heima seldum við síðan allt. Tók bækurnar mínar, brúðkaupsstellið, saumavélina og hrærivélina út úr búslóðinni og restin var seld hæstbjóðanda. Reyndar kom sér ágætlega að selja íbúðina á þeim tíma miðað við fallandi fasteignaverð og verðtryggð íbúðalán en þar sem allir sjóðir hafa hrunið, hlutabréf erlendis hrundu, hlutabréf í bönkunum núlluðust, krónan hrundi þá gufaði sá hagnaður fljótt upp.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er ekkert sérlega glúrin í fjármálum. Staðan væri nákvæmlega eins ef ég hefði bara unnið minna og safnað spiki fyrir framan flatskjáinn minn, milli þess sem ég hefði farið í ferðalag á nýja bílnum mínum með nýja fellihýsið mitt.
Ég er samt fegin að ég gerði það ekki, það er ekki minn stíll. Ég held ég sé dæmd til að vera á kúpunni allt mitt líf og einkennilegt en satt þá er ég bara nokkuð sátt við það. Ég kann ekki öðruvísi að vera.
En þetta blogg leiddist út í svartsýnisblogg fjármálakreppu lífs míns... Spurningin er, get ég kennt ríkisstjórninni um það? Það er ekki eins og að hún hafi hrifsað til sín völdin með herafli eða ofbeldi. Hún var löglega kosin í lýðræðislegum kosningum. Þetta var það sem þjóðin vildi þó ég hafi ekki viljað það og hvorugan flokkinn kosið. Málið er hins vegar að hún reyndist engan veginn starfi sínu vaxin og brást algjörlega í að gæta hagsmuna okkar.
Ég hélt reyndar aldei að svona færi, í dag er auðvelt að vera vitur eftirá. Það trúðu flestir að við myndum standa þetta af okkur. Ég vissi að bankarnir voru orðnir mjög stórir erlendis en mér datt aldrei í hug að ef þeir færu yfir að þá þyrftu hinir almennu skattborgar heima á Íslandi að borga inneignir erlendra aðila í bönkunum erlendis. Ég skil ekki enn í dag hvernig þetta á að virka. Ef bankarnir hefðu brillerað þá hefðum við ekki fengið krónu af hagnaðinum en við sitjum uppi með ábyrgðina.
Ég skil ekki hvernig ríkisstjórnin gat tekið þessa áhættu með almannafé og velferðarkerfið okkar.
Þeir ráku sveitastjórann á Raufarhöfn fyrir að eyða öllu í hlutabréfakaup sem ekki reyndust standa undir væntingum. Er þetta ekki það sama? Það er eitt að hinn almenni borgari taki áhættu með spariféið sitt, en að ríkisstjórnin ákveði að gera það fyrir hann er allt annað mál. Þetta á að vera skothelt, við spilum ekki rúsneska rúllettu með almannafé þó líkurnar séu 1/6.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur agiterað fyrir Íslandi sem miðstöðvar fjárfesta árum saman. Samfylkingin vill nú láta af hendi yfirráðin yfir auðlindum okkar sjávarútvegnum og orkunni, það litla sem við eigum eftir sem og rústa landbúnaðinum og telur það part af uppbyggingunni. Ég er hræddumst um að þau verði kosin aftur, Sjálfstæðisflokkurinn er eins og Manchester United, þeir vinna yfirleitt og það er miklu skemmtilegra að halda með vinningsliðinu.
Ingibjörg Sólrún má halda áfram með tugguna sína... í öllum aðstæðum felast tækifæri. Í þessum aðstæðum felst tækifærið í kosningum.
Það þarf að endurbyggja ríkisstjórnina, vinna inn traust á þinginu og fá fólkið með sér í lið. Viðkomandi má líka senda Gordon Brown og Darling félaga hans fingurinn og sparka sendiherranum úr landi.
Helst hefði ég viljað rifta samningnum við alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Skila þessum peningum sem þeir fengu og eru ekkert að gera neitt við. Fara síðan til Norðmanna og endurnýja gamla sáttmálann 1262...
[ Ástæða þess að gerður var slíkur sáttmáli var að á Íslandi hafði geisað mikill ófriður. Höfðingjadeilur á Sturlungaöld (1220-1262) höfðu leikið menn grátt en ekkert framkvæmdavald var til staðar til að framfylgja lögum. Landið skiptist í sífellt stærri einingar sem mismunandi höfðingjaættir stjórnuðu og var markmið allra að ná sem mestum yfirráðum...]
Norðmenn eru mun líkari okkur en t.d. Spánverjar, Frakkar, Ítalir, Þjóðverjar og jafnvel Tyrkir. Hérna á Spáni er núna 13% atvinnuleysi og spáin segir að það fari í 19% á árinu. Spánverjar eru nærri 50 milljónir. Þeim er skítsama hvort við erum að væla yfir 10% atvinnuleysi 300 þúsund manna þjóð úti í ballarhafi. En þeir vilja samt fá að veiða fiskinn okkar...
Við eigum að semja við norðmenn og við getum mikið lært af þeim. Kannski var ágætt fyrir íslendinga að fá smá skell ef svo heppilega skildi vilja til að þeir finndu olíu svo við myndum ekki hegða okkur eins og ofdekraðir krakkabjánar. Flatskáirnir breytast í heimabíosal og heitapottarnir í sundlaugar.
Það hefur sannast að fólk er fífl og það verður að hafa vit fyrir þeim. Hafa skattana nógu háa til að fólk sé ekki að eyða öllu í vitleysu og halda þeim hluta til haga og byggja upp gott velferðarkerfið, skólakerfi og sjúkrahús. Á góðærinu átti að leggja til, ekki lækka skatta og ýta undir þetta neysluæði. Í stað þess að gefa út krónubréf þegar krónan var há átti að láta hana falla í eðlilegt far svo viðskiptahallinn væri ekki neikvæður ár eftir ár og næstum gert útaf við útflutning og ferðaþjónustu.
Í góðærinu söfnuðum við skuldum sem núna eru á gjalddaga... ofan á allt annað. Við erum sorglegt dæmi um þjóðarrembing. Það eina sem gleður mitt auma hjarta þessa dagana að Bretarnir eru að fara sömu leið ;)
En best að fara að ljúka þessu þunglyndisbloggi og hætta þessu væli. Ég á enn fyrir salti í grautinn ;)
3 Comments:
og hana nú!!!
Ég held að þú ættir nú bara að skella þér heim á klakann og nýta þessa ræðu þína sem upphafsræðuna í kosningarbaráttunni sem fer væntanlega að hefjast innan tíðar:-)
kv
Stóra systir
Þú ert fantagóður penni þegar þú tekur þig til!
Þetta átti að fara með: svona fer víst bara þegar 15 laugardaga friðsamleg mótmæli skila ekki nokkrum sköpuðum hlut nema hroka og hæðnislegum kommentum um "skríl". Íslendingar eru seinþreyttir til vandræða og þykir ekki kúl að mótmæla, en það kemur að því að fólk fær nóg. Það sem þessi stjórn hlýtur að naga sig í handarbökin núna að hafa ekki andskotast til að taka til í FME og Seðlabankanum, það hefði nægt til að lægja öldurnar og láta fólk finna að einhver beri ábyrgð og einhver skammist sín. Nú er það allt um seinan og verst að enginn veit HVAÐ á helst að kjósa yfir okkur, fólk vill bara KJÓSA! Hræddust er ég við að Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti sitt fylgi á einhvern yfirnáttúrulegan hátt.
Post a Comment
<< Home