Monday, August 23, 2004

Issue dagsins í dag: HOR

Hversu mikið hor getur ein manneskja framleitt? Ég hlýt að vera farin að nálgast heimsmetið; enda ekki við öðru að búast þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur.
Fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Hafið þið einhvern tíman ímyndað ykkur hversu miklu hori þið náið að snýta úr nefinu á ykkur í einni svona meðal pest. Ég er búin að vera að áætla og ég er örugglega komin með einn kaffibolla, jafnvel tekönnu, af hori, þá miðað við fljótandi form ekki þannig að það hafi þornað og rýrnað dag frá degi. Þessi pest hefur yfirtekið alla mína líkamsvessa og breytt þeim í hor og heldur áfram viðstöðulausri framleiðslu á því. Ég er búin að prófa nefdropa og lemsip, sítrónute og hunang, anda yfir gufu, hálstöflur og milljón atriði og það sér ekki högg á vatni.
Þið sem eruð eitthvað viðkvæm yfir hori ættuð ekki að hafa lesið fyrri part þessa pistils en úr því sem komið er þá er ykkur óhætt að lesa áfram;)
Mér hefnist fyrir það að hafa reddað mér læknisvottorði fyrir þetta helvítis próf sem ég er að fara í núna. Nú fyrst á ég raunverulega skilið að fá læknisvottorð en mig langar alveg hrikalega til að losna við þetta helvítis próf.
En hversu lengi getur ein skitin pest enst? Ég væri fyrir löngu búin að gefast upp á þessum leiðinlega félagsskap og farin eitthvað annað. Þið sem ekki eruð búin að fá pest nýlega takið inn slatta af c-vitamíni til að losna við þessa. Eins og ég hef nú reynt að gefa í skyn þá er hún svona í leiðinlegri kantinum.

Thursday, August 19, 2004

Nú er það búið!

Ég er veiikkkkk, og það er enginn hér til að vorkenna mér. Ég óttast að þetta komi til með að verða mitt síðasta. Ég ætla að fara að hnipra niður á blaðsnifsi örlitla erfðaskrá og reyna að koma eignum mínum fyrir. Ég fer að ráðum pabba og læt haglabyssuna fylgja hestinum.

Þangað til yfir líkur held ég áfram að engjast og kveljast. Ég þarf að snýta mér á fimm mínútna fresti, eða þar sem ég gleymdi debetkortinu mínu fyrir austan þá get ég einnig verið í hálfu/heilu fæði hjá sjálfri mér og sparað mér pening. Hálskirtlarnir eru eins og tvö eistu í hálsinum á mér og helaumir. Hljóðhimnurnar þenjast út sitt á hvað og ég heyri ekki hálfa heyrn. Ég hef á tilfinningunni að ég líti út eins og neanderdalsmaður því ennið á mér er minnst kosti fimm falt. Augun á mér fara að fljóta út úr hausnum og ég hef á tilfinngunni að ég sé eina manneskjan í jarðríkinu sem er með hjartað staðsett aftan við ennisblaðið. Ég er búin að afreka það að hnerra átta sinnum í röð; erfðir frá Ömmu í Helgó eru alltaf að koma betur og betur fram. Þess á milli hósta ég eins og ég fái borgað fyrir það. Síðastliðin nótt var hræðileg, sem er svo sem ekkert skrítið miðað við að ef nefið er stíflað þá andar maður með munninum og hann skorpnar upp og ég kem varla upp tísti.
Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Ætli Gummi hafi sent þetta á mig. Ég stakk af suður og skildi hann eftir með fullt hús af ættingjum. Emilía svaf uppí, Sunna og Þórarinn á gólfinu, Þóra og kærasti hennar inni í stofu og Ragga og Atli, Gréta og Jón í sitt hvoru herberginu. Hann spurði bara hvar þetta myndi eiginlega enda. En sem betur fer höfum við bæði ofboðslega gaman að því að hafa fólk í kringum okkur og bæði alin upp við það að heimilin séu eins og opin hús. Við komum til með að hafa þetta svona í framtíðinni, við þurfum bara að byggja okkur enn stærra hús.

En nú er bara að duga eða drepast...
... to be continued... hopefully;)

Wednesday, August 11, 2004

Jæja, nú er það búið. Hitinn er að drepa mig. Það er yfirleitt frekar svalt inni á skrifstofunni en nú er svo komið að það er molla hérna inni og enn verra úti. Gera veðurguðirnir sér ekki grein fyrir að við erum engin hitabeltisdýr. Við erum íslenskir víkingar og klæðumst skinnum og berjum hvert annað. En tímarnir breytast og fólkið með, farin á Café Nilsen og fá mér bjór. Fæ Ingimar með mér, hann kemur pottþétt með!

Tuesday, August 10, 2004

Úff, þvílíki hitinn! Þvílík sæla.

Þegar ég fór í vinnuna rétt fyrir hálf átta í morgun þá mætti mér hiti þegar ég kom út um útidyrnar, ekki þessi venjulegi morgun-kulda-hrollur. Það er ekki skýhnoðri á himni og ég er að fara heim og grillast í sólinni.

Ég trúi því ekki að ég sé að fara að byrja í skólanum aftur og sumarið sé að verða búið. Það er svo stutt síðan ég kom hingað austur og ég hreinlega nenni ekki að fara aftur suður, þar er ekkert við að vera nema vera í skólanum og svo þegar maður er ekki að læra þá er maður að hanga einhversstaðar. Ég þarf að finna mér eitthvað áhugamál í Reykjavík. Það eina sem ég hef fundið áhugavert þar hingað til og kem til með að sakna þegar ég flyt þaðan eru Hlöllabátar. En ég geri mér fyllilega grein fyrir að ef það verður ,,áhugamálið" sem ég ætla að sinna af einhverjum krafti þá fer rassinn á mér línulega vaxandi út í hið óendanlega. Það hlýtur að vera eitthvað fleira sem varið er í að eyða tímanum í. Ræktin er svo sem ágæt en ég ætla nú ekki að fara að eyða neitt of miklum tíma þar, það gæti eyðilagt anti-sportista-orðsporið mitt.

En er farin í sólina...

Hasta luego
Far vell