Tuesday, March 30, 2004

Vaknaði snemma í morgun. Gummi fór á fætur fyrir sjö og eldaði handa mér hafragraut; það var til slátur með og allt var eins og það átti að vera. Ég þarf náttúrulega að fara á fætur um sjö til að geta borðað með honum áður en hann fer í vinnuna, en hann byrjar kl. hálf átta. Svo var ég búin að borða góðan slurk af grautnum og mér fannst hann eitthvað svo kekkjóttur. Ég fór nú eitthvað að hafa orð á þessu við Gumma, og hann var nú ekkert svo ánægður með þessar ábendingar mínar. Hann setur nefninlega alltaf svo lítið vatn og reynir svo að þynna hann út eftirá. Ég vil hafa grautinn vel þunnan, soðinn og saltan. Þá sagði hann mér sögu, svona dæmisögu: (ég átti greinilega að ná einhverri sneið, en plokkaði allt gottið ofan af kökunni og hafði enga lyst á heilli sneið eftirá)

,, Það var einu sinni maður sem átti alveg rosalega góða konu, svo rosalega góða konu að hún útbjó handa honum nesti, til að hafa með sér í vinnuna, á hverjum degi. Á hverjum degi smurði hún, þessi frábæra kona, brauð með osti og setti í nestisboxið handa honum, af því að hún hugsaði svo vel um hann. Þannig gékk þetta í fimmtán ár. Kom svo að því að konan hreinlega gleymdi að kaupa ost og átti engan ost á brauðið og varð því að smyrja það og setja skinku í staðinn fyrir ostinn. Að vinnudegi loknum þegar eiginmaður hennar kom heim fór hún nú að afsaka sig yfir þessu, hún hefði hreinlega gleymt að kaupa ostinn, en hún væri nú búin að redda því núna, þetta myndi ekki henta aftur. Og maðurinn svaraði: ,, Þetta er allt í lagi, mér finnst ostur hvort eð er ekkert góður"

Þessa sögu er hægt að skilja á tvo vegu, og mér finnst einhvern veginn að karlmenn skilji þetta öðruvísi en konur. ( + hint-ið með rosalega góðu konuna !)
Þegar Gummi var búin með söguna, þá fór ég nú að hneykslast á því að hann hefði nú ekki haft orð á þessu fyrr, að éta helvítis ostinn í 15 ár. Þetta fannst Gumma bara ekki rétt, hann spáði ekkert í þetta. Hann sagði bara að maðurinn hefði elskað konuna sína og hefði ekki viljað vera með eitthvað múður útaf svona lítilræði.

Ég benti honum á að ég ætla ekki að éta kekkjóttan hafragraut á hverjum morgni í 15 ár bara af því að hann hefði búið hann til. Er þetta vanþakklæti eða hreinskilni? En ég vil samt fá graut á morgnana, svona þunnan eins og pabbi gerir hann, ekki eitthvað hlaup-límkennt þarmakittý. Hann þar bara aðeins að æfa sig betur.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home