Monday, March 22, 2004

Dagur er risinn í helvíti. Það á ekki af manni að ganga. Ég er búin að vera að velta svolitlu fyrir mér... eru ekki örugglega allir bara með 24 tíma í sólarhringnum, rétt eins og ég? Er ég einhver sönnun á afstæði tímans, þá með tilliti til afkasta.
Nú er það illa komið fyrir mér að ég hef ekki einu sinni tíma lengur til að fara í skólann, ég bara verð að fá frið til að læra. Svo fer maður ekkert í skólann og þá hættir maður að hitta hina og einangrast ofan í einhverri bókarskruddu. Ég kem til með að greinast með víðáttufælni áður en frost fer úr jörðu, núna er matlab-kóði fastur inni í hausnum á mér og ef ég hugsanlega fæ hann til að víkja þá kemur helvítis heildið fall yfir kúlu dótið aftur. Eins og ég sagði... það á ekki af manni að ganga.

Og nú er fokið í flest skjól, Guðmundur borgaði skattinum of mikið! Ekki hundrað kall eða eitthvað svoleiðis; hann bætti auka núlli aftan við 50 þúsund kallinn og afhenti skattinum hálfa millján á einu bretti. (Hann er enn að ná tökum á heimabankanum) Ég náttúrulega gerði hvað ég gat við það að sannfæra hann um það að þeir myndu bara greiða honum þetta aftur í ágúst... vaxtalaust. Hann hringdi í þá í morgun og var alveg voðalega aumur, svo þeir ætla að endurgreiða honum þetta. Ætla samt að kroppa eitthvað í þetta fyrir einhverju fleiru sem hann á eftir að greiða... Múheheheheh... En hann passar nú að þetta gerist ekki þegar hann leggur inn á mig, þetta myndi gufa upp med de samme.

Annars er ekkert svo slæmt að vera fátækur nemi, en ef þeir ætla að setja á skólagjöld og ég verð fátækari en ég er í dag, þá kem ég sko til með að flytja til baunalands og rifja upp gömul tengsl við Danina. Ég mun heldur selja mig í þjónustu til Margrétar sjálfrar en að borga skólagjöld. Ég veit ekki hvað er á milli eyrnanna á þessari Þorgerði Katrínu, en ég held að þar hljóti að vera tómlegur bær. Andskotans sjálfstæðis-pakk! Og þetta kýs stór hluti þjóðarinnar. Þetta kallast að skjóta sig í fótinn, báða fæturna ef við tökum heilbrigðiskerfið með... og haltur er fótalaus maður, með meiru. Ég bara neita að trúa því að þeir ætili að láta okkur borga 150 þús. fyrir önnina og 300 þús. fyrir árið. Ég þyrfti þá að punga út einni og hálfri millján bara fyrir verkfræðina, hvað þá fyrir allt annað sem ég ætla að læra. En ég vona nú minnst kosti að þeir sleppi því næsta ár, mig langar nú að vera áfram með bekknum mínum þriðja árið. Við förum eflaust öll, hvort eð er, hvert í sína áttina eftir það.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home