Friday, March 19, 2004

Ástandið er öllu betra núna. Skilaði skýrslunni á slaginu fjögur. Fimm mínútur í fjögur sat ég og mændi á prentarann prenta út síðustu blöðin. Fullkomin tímasetning ! En það fer svo í pirrurnar á mér að þurfa að skila á tíma... kennarar mættu vera aðeins meira líbó á því. Ætla að muna eftir því ef ég gerist kennari einhvern tímann.
Ég fór samt ekki að sofa kl. 4. Fór í kringluna með Beggu og splæsti á mig geggjuðum gallabuxum. Mér fannst þær nú of litlar þegar ég fór í þær, svolítið stífar en stelpan í búðinni sagðist hoppa og skoppa, jafnvel leggjast niður til að hneppa sínum gallabuxum fyrst þegar hún fer í þær. Ég vil nú helst komast í fötin án mikilla átaka, en þær eru fínar þegar ég er búin að vera í þeim í klst. eða svo. Hvað gengur kvennfólk eiginlega langt til að líta vel út, mér er spurn. Þær virðast samt nokkuð traustar á saumunum og þykkt efni í þeim, þannig að ég ætti að geta beygt mig niður án þess að eiga á hættu að skálmarnar aðskiljist hvor annari og hangi bara í buxnastrengnum. Það væri leiðinlegra, svona í margmenni.
Fór samt að sofa um sex, stillti ekki klukku og ekki neitt, og var samt nærri því búin að sofa yfir mig í skólann kl. 8. Mætti eins og hænurass í vindi með koddafar á báðum kinnum. Annað hvort tók enginn eftir því eða kunni ekki við að minnst á það.

Er búin að vera með þrifæði frá því ég kom úr skólanum kl. 11. Er hreinlega búin að þrífa allt, inni í skápum og hvaðeina, þvo allan þvott og er að leita mér að einhverju fleiru að gera svo að ég þurfi ekki að fara að læra. Tilvalið að blogga smá, og koma því á framfæri að ég er ekki alltaf jafn fúl og síðast.

Er komin með vinnu í sumar. Ég sendi þeim tölvupóst á föstudaginn og spurði hvort þá vantaði ekki gemlinga í vinnu í sumar þar sem mannekla er hjá þeim. Ég benti þeim á að ég hefði ekki vitkast hætis hót frá því sumrinu áður en hefði innbyrgt fullt af ónauðsynlegum formúlum og skilgreiningum þennan veturinn. Viti menn, þeir eru samt til í að ráða mig. Óli sagðist hafa lofað því í veiklundarkasti sumarið áður að ég fengi vinnu að ári og hann yrði nú að standa við það. En að öllu gamni slepptu þá yrði nóg að gera fyrir mig... Greyin, sum fyrirtæki styrkja góð málefni, önnur ráða fólk eins og mig í vinnu. En heppin ég, sérstaklega þar sem Gummi fór í gegnum skattamálin (sameiginleg skattaskýrsla... einstaklingsfrelsi my asse !) þegar hann var að gera skýrsluna og það kom í ljós að ég afla rúmum fjórðungi þeirra tekna sem koma inn á heimilið, fyrir utan námslán; samt vinn ég bara yfir sumarið. Múhehehehe.
Sagðist samt verða smá að skreppa á Gaddstaðaflatir í byrjun júlí, styðja góð málefni á íþrótta- og söngmóti sem vinnur gegn áfengis og tóbaksnotkun. Ég vona að hann hafi fattað punktinn, annars ligg ég laglega í því ;)

Gunni og Andrés, í bekknum mínum, mættu með súkkulaðiköku í skólann í dag af því að þeir áttu afmæli, mjólk og kók með. Af hverju þurfti ég að eiga afmæli að sumri til. Það er alltaf svo gaman hjá þeim sem eiga afmæli í skólanum, halda partý, fá pakka frá skólafélögum og svoleiðis. Þegar maður á afmæli að sumri til þá einhvern veginn heldur maður ekki upp á það. Maður er bara að vinna, og flestir vinir mínir og fjölskylda búa allt annarsstaðar á landinu. Ég sagði þeim að ég myndi halda partý fyrir þau 18. júni á Egilsstöðum, ef þau myndu koma... En það lítur allt út fyrir að litla feita barnið okkar muni búa hjá okkur í sumar og kannski Gréta systir og jafnvel litli skrattakollur hún Emilía líka þannig að það ætti að verða líf í tuskunum.

Er að fara í bekkjarpartý annað kvöld til Þorbjargar. Þau voru eitthvað að reyna að lýsa leiðinni þangað fyrir mér, bentu út í loftið og teiknuðu hringi og ferninga og svona stikkorð eins og Miklabraut, Kópavogsbraut og Breiðholtsbraut, hægri, vinstri og hringtorg hljómuðu reglulega. Allir kinkuðu kolli og ... já þar... Ég reyndi bara að brosa, sama brosið og þegar kennarinn spyr hvort maður sjái ekki fyrir sér hvernig maður heildar feril yfir kúlu, í fjórvídd... set á svona hæðinis glott: skiluru ekki að ég fæddist með þessa vitneskju. Reyni svo bara, guð ég braut nögl- trixið.

Held að ég sé að fá hálsbólgu. Á ekkert c-vitamín þannig að ég er að þamba appelsínusafa og borða gula papriku og vona það besta. Held líka að hausinn sé að gefa sig. Vikan tók sinn toll og litla heilasellan mín er farin í verkfall eða hefur kiknað undan álaginu. Yfirleitt reyni ég samt að fara vel með hana, þetta er nú einmannalegt líf sem hún lifir. Las samt einhversstaðar að möguleikarnir á því að stofnfrumur gætu orðið að heilafrumum væru víst einhverjir, en ef þessi glatast þá þarf ég að byrja allt upp á nýtt. Það tók mig nú þrjú ár að segja fyrstu orðin og ég hef nú ekki sýnt neitt stórkostlegar framfarir í lifanda lífi þannig að það væri nú frekar erfitt að fara aftur á byrjunarreit eftir tuttugu og tveggja ára uppbyggingarstarf. Kannski get ég flutt harða diskinn yfir, eða tekið hann í sundur og sett bara diskana úr honum yfir. Mig grunar nefninlega að leshausarnir mínir sem eiga að lesa diskana í harðadisknum séu bara lesblindir, staurblindir eða eitthvað. Eins mætti bæta við svona 512 mb vinnsluminni, það fer allt í rosalega smáum skömmtum þarna inn og það er svo seinlegt að vinna á harðadisknum, sem virðist hvort eð er vera bilaður. Örgjöfinn ætti að virka ágætlega, en kæliviftan á honum er biluð held ég. Þess vegna fæ ég svona hausverk þegar ég er búin að sitja lengi við. Eins mætti endurræsa stýrikerfið því first impression-ið og mannlega samskiptahliðin á það til að fara á standby þegar mest ríður á. Þyrfti líka að update-a driverinn á sjálfstraustinu, það kemur fyrir að allt frýs þegar á hann reynir.

Var að lesa svolítið áhugavert á vísindavefnum. Þeir sem meira vilja fræðast um leti ættu að lesa þetta, en þar kemur m.a. fram að

...Í því sem sumir kalla leti getur einnig falist það sem aðrir myndu nefna að una glaður við sitt, sækjast ekki stöðugt eftir vindi, taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Þannig getur það sem einum finnst vera löstur birst öðrum sem dyggð. Að baki dóma manna um leti felst stundum sá siðaboðskapur að glötuð sé hver hvíldarstund, að manninum sé eðlilegt að strita stöðugt og erfiða. Fátt þykir sums staðar betri kostur á einum manni ekki síst á Íslandi en að vera forkur duglegur, jafnvel þótt það komi niður á heilsu hans og samskiptum við annað fólk...

Var að lesa grein í mogganum, frekar en fréttablaðinu held ég, sem segir frá könnun sem gerð var af Heilsueflingu fyrir landlæknisembættið. Fyrirsögnin er: Þunglynd og stressuð þjóð í vanda. Fór að hugsa um síðustu viku. Ég er bara ekkert mikið fyrir svona álag og stress, sumir kalla það kannski leti en ég vil kalla það dyggð. Sirrý, ólétta systir mín, og Þórey vinkona hennar, voru í heimsókn, og mér fannst bara gott að sitja og kjafta við þær, pöntuðum okkur pizzu og töluðum um ekki neitt í 4 tíma. Kannski ekki - ekki neitt- aðallega um óléttur og ungabörn, og þar sem ég hef náð ótrúlegri færni í samræðum á því sviði þá voru þetta bara nokkuð líflegar og innihaldsríkar samræður. Ég græddi ekkert á þeim, hvorki fjárhagslega né vitsmunalega, þær hafa engin áhrif á frama minn í starfi, ég kem e.t.v. aldrei til með að nota þessi fræði sem ég lærði þarna, ég hefði geta notað tímann í eitthvað annað, en samt var bara ótrúlega notalegt að sitja og spjalla við þær og mér þótti bara ótrúlega vænt um að þær skyldu eyða dýrmætum tíma sínum í mig, því þær, rétt eins og ég höfðu engan beinan hag af þessum samræðum. Gerist það á meðan maður er að reyna að eignast allt í lífinu, vera allstaðar, prófa allt og þekkja alla, að maður missir af þeim stundum sem eftir standa þegar allt kemur til alls.

Lýsir það þá metnaðarleysi, jafnvel leti að sjá mig í framtíðinni: liggja uppi í rúmi og lesa bók allann daginn og alla nóttina á eftir, geta farið á hestbak eftir miðnætti því ekkert annað liggur fyrir daginn eftir, hafa ekkert sjónvarp í húsinu, það gerir mann bara ófrjóan í hugsun og hefur truflandi áhrif á samskipti fólks á heimilinu, spila rommí á hverju kvöldi þangað til maður er búinn með heila stílabók af reikningum, þá fer maður í punktaleikinn þar sem maður dregur strik á milli punkta og gerir ferninga. Fara út að skokka með hundinn, rækta grænmeti heima, hafa eina kú, fjórar kindur, svín, hænur og endur í litlu húsi við hliðina sem maður getur svo étið, baka amerískar pönnukökur í morgunmat með ávöxtum, sýrópi og nýmalað kaffi með, fara og veiða í ró og næði, veiða svo ekki neitt og kaupa bara fisk í kaupfélaginu, hitt fólk og kjaftað um ekki neitt án þess að vera alltaf að flýta sér eitthvað annað, taka nokkra áfanga í skólanum, hitt og þetta sem mann langar að læra... o.s.frv. Ekkert stress, vinna bara sína vinnu og eiga sér líf þess fyrir utan. Gerast nobady, enginn áhrifamaður í þjóðfélaginu, engin eftirtektarverð manneskja, ekki þessi vinsæla partýtýpa, fundatýpa eða nefndartýpa... manneskja sem unir við sitt og tekur ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu...

Ég viðurkenni það fúslega, ég er metnaðarlaus letihaugur og á þá ósk heitasta að gerast nobady.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home