Thursday, May 31, 2007

Sá í morgunblaðinu dánartilkynningu Ástu Lovísu, kona sem veiktist af krabbameini og hefur bloggað um veikindi sín. Slóðin er hérna.
Sterkur karakter og ótrúlega margir sem hafa fylgst með þessu í gegnum tíðina. Sumir skrifa ævisögu og kvikmyndir eru gerðar um aðra. Það er svolítið óhugnarlegt að lesa um manneskju og hvað gerist í hennar lífi svo til jafnóðum og það gerist, kannski sérstaklega þegar svona stendur á. Las síðuna hennar öðru hvoru og einkennilegt að það sé komið að leiðarlokum hjá henni.

Litla krakkaskrípið!

Snemma byrjar það! Litli ormurinn, þetta er sko geymt en ekki gleymt!

Fór í svona mónitor á miðvikudagsmorguninn. Sem er ekki frásögu færandi nema hvað... Maður fær svona dót með takka á og á að ýta á takkann í hvert skiptið sem krakkinn hreyfir sig. Svo er sett eitthvað apparat á belginn á manni sem nemur hjartsláttinn hjá krakkanum.
Þegar ég kom inn spurði læknirinn hvort krakkinn hreyfði sig ekki eitthvað og ég sagði honum að dýrið hefði ekki stoppað í allann morgunn. Hann var bara nokkuð ánægður með það, skellti apparatinu á og... ekki múkk. Biðum og biðum í svona hálftíma og... ekkert. Konan við hliðina á mér hafði ekki undan að ýta á takkann, það var bara tennisleikur í belgnum á henni.
Ég þurfti að velta mér til og frá og læknirinn sagði að ég þyrfti að tala við krakkann, reyna að vekja hann. Prófið þið að tala við belginn á ykkur, á öðru tungumáli og fullt af fólki að hlusta! Sem betur fer skildi liðið ekki hvað ég var að segja... ,,litla krakkaskrípi, ef þú drattast ekki til að hreyfa á þér rassgatið þá..."
En ekkert gékk. Þá kom hjúkkan með járnlúður, lítinn svona 15 cm langann og járnskefti. Svo var breiði parturinn af lúðrinum settur á belginn og barið í hinn endann með skeptinu. Konan við hliðina á mér var búin og næsta kom inn. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á henni þegar hún sá mig berjandi á lúðurinn. Það var eins og ég væri með einhvern gjörning þarna.
En loksins fór litla gerpið að gera vart við sig og þá var hægt að byrja að mæla. Ég er viss um að púkinn hafi bara legið og beðið og hlakkað í honum!


Í kvöld stefnir allt í að það verði bekkjarpartý hjá mér. Bekkjarsystir mín á afmæli og það fara að verða síðustu forvöð á partý fyrir próf.
Eitt sem er snilld í spænskum partýum. Það er alltaf matur, sá sem heldur partýið er með alls kyns snittur, samlokur, pizzur, snakk o.fl.. Hann sér einnig um bjór og vín handa liðinu. Það er ekki svo mikið mál þar sem rauðvínsflaskan er á 1 til 2 evrur og líter á bjór á evru. Það er ekki mikið drukkið hérna af sterku víni, ekki í svona partýum. Heima er eina leiðin að vera með heimavinnslu ef maður lætur sér detta það í hug að ætla að halda partý og splæsa víni á línuna.

Við Gummi fundum það líka út í gær að það er tilvalið að vera gamalmenni hérna. Komum við á kaffihúsi í hádeginu í gær að fá okkur eitthvað snarl. Það er alltaf haugur af gamalmennum á kaffihúsunum hérna, ég held að það séu allaf sömu karlarnir sem hittast og kellingarnar við annað borð. Karlarnir eru oft í fínum fötum, jakkafötum, bindi og alltaf með hatt. Hóparnir eru á aldrinum 75 - 90 ára myndi ég giska. Farnir að heyra illa, eiga erfitt um gang og hreyfa sig mjög rólega. Samt skakklappast þeir alltaf á barinn, sömu karlarnir dag eftir dag og fá sér einn, tvo eða þrjá öllara og tapas (smáréttir sem fylgja með bjórnum). Svo þegar hurðin opnast og enn eitt gamalmennið birtist þá hrópa þeir allir í kór, ægilega gaman að sjá hann, höfðu ekkert séð hann lengi (áttu kannski ekkert von á að sjá hann aftur) svo ræða þeir heimsmálin, nautaötin og fjölskyldumálin.
Maður sér alveg vonbrigða svipinn á þeim þegar maður gengur inn á barinn. Þeir sjá hurðina opnast, vantar kannski einn eða tvo af félögunum, svo kemur bara einhver bláókunnugur kvennmaður inn. Svo smá saman kemur glott...horfa á belginn! I've know what you've been doing!!!
Svo panta þeir annan öl, athyglin beinist að þjónustustúlkunni og svo halda þeir áfram að ræða málin, umræðuefnin virðast aldrei þrjóta.
Þetta er svona Staupasteinsfílingur. Það má vel vera að hann sé fyrir hendi heima, ég hef bara einhvern veginn aldrei upplifað hann þar.

Tuesday, May 29, 2007

Þetta er að hafast ;)
Búin að klára þau verkefnaskil sem ég þarf að gera í lok þessarar annar. Tvö síðustu verkefnin kláruðust í dag. 4 verkefni eftir fyrir próf, en það eru verkefni sem ég þarf ekki að skila fyrr en 20. júní og er meira og minna búin með. Náði að klára einn áfangann alveg í dag og þungu fargi af mér létt. Dagurinn í gær og dag var reyndar heilt helvíti en þetta hafðist allt að lokum.

Hitinn í dag var rosalegur. Það er búið að vera svo gott veður, skýjað og svalur vindur alla sl. viku. Í dag var svo algjör molla, ekki hnoðri á lofti og ég var við það að drepast á því að labba á milli bygginganna á háskólasvæðinu. Hefði verið til í að hafa hitt veðrið bara áfram.

Annars er lítið að frétta. Gumma er guðslifandi feginn að þessari læritörn er að verða lokið, hann er farið að lengja eitthvað eftir krakkanum, held að hann sé orðinn leiður á að elta mig út um allt;) Hann er nú ótrúlega duglegur að sjá um mig... eða réttara sagt krakkann sinn. Það er bara svo ágætt að vera milligönguaðili milli þeirra tveggja. Hann eldar handa stubb sínum á hverjum degi og kemur með matinn niður í skóla. Stubbur verður nú að fá holla og góða fæðu... sem ég kem áleiðis;) Hef mestar áhyggjur af því hvernig þetta verður þegar ég missi milligöngusætið... þá veit ég hverjir verða "Best buddies" og hver verður útundan... Buhu!
Þegar hann hefur fylgt okkur félögunum í skólann fer hann í box, æfir sig á gítarinn og lærir spænsku. Hann er að verða búinn að læra Stairway to Heaven, 8 mínútna pikklag í biðinni eftir krakkanum. Krakkinn á eftir að raula það þegar hann fæðist!

Sunday, May 27, 2007

Auðvitað er krakkinn tillitssamur! Annars væri honum nú illa úr ætt skotið ;)

Ég þarf að skila stóru verkefni á þriðjudaginn og má ekkert vera að standa í þessu akkurat núna. Hann verður bara að bíða smá!

Annars vorum við Gummi að ræða heilbrigðiskerfið. Hlutirnir ganga aðeins öðruvísi fyrir sig hérna á Spáni. Fór í blóðprufu um daginn, sem er svo sem ekki frásögu færandi nema hvað... þeir náðu 250 manns á tveimur tímum eða rúmlega tvo á mínútu. Það var huges biðsalur fullur af fólki, svo tók maður bara númer og hleypt inn í hollum. Ég var númer 213 svo ég fékk alveg að bíða vel. Svo fór röðin að koma að mér, eða mínum hóp. Þegar maður kom þarna inn var önnur röð og 10 básar. Básarnir voru meira svona borð með spjöldum á milli. Svo tíndist úr röðinni eftir því sem hinir voru afgreiddir. Læknirinn lét mig fá eitthvað blað sem var búið að krossa í hvaða blóðprufur hann vildi, ég fór í fyrri röðina afhenti blaðið og fékk blóðprufuglösin skv. því. Þá fór ég í seinni röðina og beið eftir að röðin kæmi að mér til að pappa af í glösin. Ég fylgdist með að nálin kom úr svona sótthreinsuðu bréfi, en ég er nokkuð viss um að niðurstaða blóðprufunnar var að ég væri með parkison og gamla konan við hliðina á mér ólétt.

En án spaugs þá virtist þetta virka alveg, þó svo að þetta væri frekar færibandalegt. Það sem við vorum að velta fyrir okkur var hvort við værum bara ekki of góðu vön heima. Þetta kerfi afkastar engu smá hjá þeim! Þeir gætu kannski loksins látið drauminn rætast með að reka heilbrigðiskerfið ,,án taps..." ef þeir tækju þetta sér til fyrirmyndar!

Umhverfið var að vísu ekkert heillandi. Minnti miklu frekar á frystihúsið en sjúkrahús. Hvítar flísar á veggjunum frá gólfi og uppúr, dottnar af á einstaka stað. Stórir hillurekkar með sprautunálum, sótthreinsunarvörum og blóðprufuglösum og allt hvítt og blátt á litinn. Ekkert verið að spreða í gulu sálarróandi málninguna eða myndir á veggina.
Málið er hins vegar að þetta kerfi er félagslega kerfið. Ef þú mögulega átt bót fyrir boruna á þér þá ertu í einkakerfinu. Munurinn er rosalegur, en "allir fá þjónustu"...

Tuesday, May 22, 2007

Í raftækjabúðinni hérna á horninu var verið að setja upp nýjar hillur. Þrír smiðir voru að baksast við þetta og 2 lögreglumenn stóðu yfir þeim á meðan til að vera vissir um að þeir stælu ekki neinu úr búðinni. Raftækjaverslun með videovélar, myndavélar, fartölvur, mp3 spilara og svoleiðis dót. Myndu íslenskir smiðir sætta sig við þetta? Aðgát eða ofsóknaræði?

Gummi mætti í raftækjabúðina og ætlaði að fara að kaupa sér myndavél. Fattaði þegar hann var kominn þangað að veskið var ekki með í för og mundi síðast eftir því í strætónum. Hljóp í næsta strætóstoppiskýli, talaði við strætóbílstjórann sem fór í talstöðina og einhverju síðar kom strætóinn sem var á hringleið með veskið hans. Hann var nýbúinn að taka út fullt af pening sem hann ætlaði að fara að versla fyrir. Heppinn?

Venjulega borgar maður ekki með korti hérna. Það er ótrúlegt bras ef það er hægt á annað borð. Svo biðja þeir alltaf um persónuskilríki. Bendi þeim þá á myndina á kortinu því persónuskilríkið er bara fyrir myndina. Sumir hverjir eru það "formúlulegir" að þeir segjast samt þurfa að sjá persónuskilríki, það á að biðja um persónuskilríki þegar þú borgar með korti... Talandi um að fylgja reglunum og skilja þær ekki.
Gummi borgaði með korti fyrir stuttu. Manninum fannst það ótrúlega sniðugt! að hafa mynd á kortinu sjálfu, tók það gott og gilt. Svo fór hann að pæla í myntinni á Íslandi. Eruð þið með krónur? Hmmm... svo fór hann að spyrja hina afgreiðslumennina hvernig hann færi að því að reikna evrur yfir í krónur til að geta notað svona erlent kort... Gummi kom honum í skilning um að skrifa bara evrur og bankinn sæi um afganginn. Dúddinn samþykkti það svo bara og stimplaði inn evrurnar, samt ekki sannfærður og þetta var ekki lág upphæð, vel rúm mánaðarlaun hjá dúddanum! Hvað er svona maður að gera með posa? Hvað ef Gummi hefði sagt að hann væri frá Bretlandi og þrjár evrur væru tæp 2 pund? Kjarakaup!
Gerir einhver svoleiðis?

Monday, May 21, 2007

Veðrið er guðdómleg í dag...

Það er skýjað og ferskur andvari. Mælirinn sýnir ekki nema 22 stig, þvílík sæla.
Viftan sem ég keypti síðdegis á föstudaginn bjargaði sálartetrinu þessa helgina. Sat fyrir framan hana meira og minna og hún var höfð í gangi alla nóttina. Þá er nú skárra að hafa smá hvin í henni en hitamolluna sem allt ætlar að drepa.
Venjulega er ég niðri í skóla allann daginn, fer út kl. 8 á morgnana áður en hitnar og kem heim um hálf tíu á kvöldin eftir að kólnar og loftræstingin í skólanum er snilld.
Það er alveg ástæða fyrir því að leigan sem ég borga á mánuði fyrir íbúðina mína er ekki nema 12 þúsund kall! Það er engin loftkæling !



Skólinn er smá saman að hafast. Merkilegt nokk hvað kennararnir þurfa alltaf að hrúga verkefnunum á síðustu vikurnar. Ég hef reynt að fá þau afhent sem fyrst og klárað þau frá til að eiga ekki allt eftir rétt fyrir próf en allt kemur fyrir ekki. Fyrir hvert verkefni sem ég klára vaxa tvö ný í staðinn.
Þess fyrir utan þegar maður klárar verkefni fram í tímann, þá er ekkert alltaf sem kennarinn vill sleppa manni úr verklegum tímum. Eyddi gríðarlegum tíma í að búa til forrit í Visual Basic, Access og MapObjects, kláraði það frá á tveimur helgum en kennarinn er alltaf að benda mér á fleira sniðugt sem ég gæti bætt við í forritið mitt, það er orðið huges og löngu komið fram úr þeirri lýsingu sem ég byrjaði með upphaflega! En í hvert sinn sem ég ætla að skila því þá segir hann, prófaðiru þetta, en þetta...?

Stjarneðlisfræði"prófið" var forrit. Gerði fínan díl, bjó til forrit í Matlab sem reiknar út alls kyns afstöður stjarna, hraða, stuðla, teiknar gröf, býr til töflur o.fl.. Við megum gera verkefnið tvö saman svo ég lét bekkjarsystur mína fá forritið, útskýrði það og sagði að ef hún væri til í að gera skýrsluna þá væri hérna forrit. Þökk sé helvítinu sem við gengum í gegnum hjá Ragnari í Tölulegri greiningu og gríðarlegrar þolimæði Hannesar og snilldar útskýringa sá ég ljósið í Matlab og get talið fólki sem aldrei hefur notað það trú um að þetta skítmix mitt sem ég kalla forrit sé eitthvað gríðarlega flott ;)
Vona að þetta sé ekki illa gert, minnst kosti eru allir aðilar sáttir og það er fyrir mestu ;)

Gagnagrunnaáfangann náði ég einnig að klára í síðustu viku. Mætti yfirleitt tvöfalt þannig að ég náði að klára síðasta verkefnið sl. viku. Skipti svo á verkefnunum og dæmatímum fram í tímann í GPS-staðsetningar áfanganum. Þetta er orðinn heljarinnar bisness;)

Í "Remote Sensing" / "fjarskynjunar" áfanganum (gervihnattamyndaáfangi) áttum við svo að lesa greinar úr einhverjum vangefið flóknum og leiðinlegum vísindatímaritum. Plús fyrir mig að blöðin eru á ensku og kennarinn er að reyna að nútímavæða málakunnáttu bekkjarins á einu bretti... "Enska er latína 21. aldarinnar" Rottuðum okkur saman ég og stjarneðlisfræði stelpan, ég les greinarnar og skrifa textann á minni hræðilegu spænsku og hún fær svo textann minn og kemur honum á mælt mál.

Þetta er s.s. allt að hafast. Þess þá helst að ég missi af ferðalaginu með jarðeðlisfræðinni sem kennaranum datt allt í einu í hug að væri sniðugt að fara... síðustu kennsluvikuna!
Ef krakkinn verður fæddur þá er örugglega of heitt fyrir hann að vera að þvælast úti í auðninni og ef ekki þá er spurning hvort hann fæðist ekki þar.
Spurning um að díla við einhvern um að taka með videovél og myndavél... campus í fjarnámi!

Monday, May 14, 2007

Bakarinn, smiðurinn og ... eldamennskan



Oftar sem áður eldaði hann Guðmundur minn handa stóra og litla stubb, sem er ekki frásögu færandi nema hvað...
Á laugardögum, í hádeginu, er sá siður viðhafður að mjólkurgrautur er á borðum, með dass af kanil og vel af rúsínum.
Í þetta skiptið setti ég grautinn upp en Gummi sá um afganginn. Er við settumst svo að borðum og hófum átið lætur Gummi öllum illum látum og heldur því fram að grauturinn sé óætur; ég hljóti að hafa sett að minnsta kosti úr hálfum saltbauknum í pottinn. Með áburðinn í mjólkurgrautnum á Gunnarsstöðum um árið ofarlega í huga smakkaði ég grautinn með gát og fann ekkert að honum. Sagði honum að það væri ekkert að þessum graut, hvaða væl þetta væri eiginlega í honum. Hann horfði á mig eins og ég væri geimvera og spurði hvort ég væri ekkert að grínast, fannst þetta ekkert sniðugt enda matelskur með eindæmum.
Ég ætlaði þá að fá mér kanil og fór að ergja mig á því hvað hann setur alltaf lítinn kanil út í sykurinn. Fékk mér kanil út á grautinn og þá fann ég það... algjörlega óætur, er að tala um algjöran viðbjóð! Líklegasta skýringin var að salt hefði farið í stað sykurs, en þar sem þetta kom úr sykurpokanum sem við vorum hálfnuð með þá gat það varla verið. Skýringin kom síðan þegar Gummi hafði orð á því að hann hefði sett svona lítinn kanil af því að hann væri að verða búinn... Eða hitt þó heldur! Var það kannski kjötkryddið, sem er í alveg eins stauk og kanillinn, sem var að verða búið...
Ég var lengi með óbragðið í munninum; mæli ekki með kjötkryddi útá mjólkurgrautinn...
Nema hvað... honum tókst þetta aftur! Nema þá var það kjúklingakryddið... En ég fell ekki tvisvar á sama bragðinu, ég er ekki með allt þetta nef fyrir ekki neitt! Af rælni þefaði ég upp úr kanilglasinu áður en ég fékk mér út á grautinn, svona til að minna Gumma á þetta. Fann þessa römmu kryddlykt af kanilnum og haldiði að hann hafi ekki klárað restina af kjúklingakryddinu okkar í þetta skiptið.

Næst á boðstólnum verður eflaust kanilkryddaðar kjúklingabringur!

En meðan hann nennir að elda ætla ég ekki að kvarta ;) Passa mig á því að lofa eldamennskuna í hástert, sama á hverju gengur! Þetta kemur allt saman á endanum, vona bara að ég verði til frásagnar um það ;)

Thursday, May 10, 2007

Ríkisstjórnarkostningar í nánd og ég víðs fjarri. Næ aðeins að fylgjast með á netinu en það er samt ekki eins og þegar maður er heima og veröldin snýst í kringum þetta.

Við Gummi tókum próf á netinu á slóðinni http://xhvad.bifrost.is/... niðurstöðurnar voru:

Ég...

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 40%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 87.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 20%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%


Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs!

Gummi...

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 0%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 18.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: -1%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 0%


Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Sjálfstæðisflokksins!

Þetta hefur brennt sig inn í hornhimnu augna minna um aldur og ævi! Að ég skuli sofa við hliðina á "þessu" á hverri nóttu, hvað þá meir! ;)

Könnunin missti smá trúverðugleika þegar ég sá -1% fylgi... Never the less!

Sagt er að öfgahópar (eins mikið og íslenskir flokkar geta verið ,,öfgahópar" )geti skilað góðu samstarfi. Hvernig er hægt að hafa svipað fylgi við flokkinn lengst til hægri og meðreiðarsvein hans og flokkinn lengst til vinstri, en gefa algjörlega skít í miðjuflokkana. Guðmundi tekst það greinilega skv. þessari könnun. Það á greinilega að gera hlutina svo bragð sé af, ekki lufsast um á miðju vegasaltsins. Hans vegasalt er bara V laga...

Ég kem út sem umhverfisverndarsinni og kommúnisti. M.v. lifibrauð mitt undanfarin 4 ár er erfitt að sannfæra fólk um að ég sé öfga umhverfisverndarsinni en kommúnastanum er erfitt að ljúga upp á mig.
Það svíður að fá 40% stuðning við Framsóknarflokkinn. Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að styðja þá við skeiningar á sjálfstæðisflokknum, en sjálfan sjálfstæðisflokkinn bara með 6%. Það er eins og ef ég færi í göngur með hund og hundurinn væri skráður fullgildur smalamaður...
Ég veit mjög lítið um Íslandshreyfinguna, þegar maður er ekki á svæðinu þá er erfiðara að fá einhverja tilfinningu fyrir þessu. Frjálslyndi flokkurinn er minnst kosti með góð sambönd á Litla-Hrauni síðast þegar ég vissi og kvótamálin eru þeim ofarlega í huga. Samfylkingin er stór hópur af litlum flokkum sem voru leiðir á því að vera litlir og án valda. Héldu að með sameiningu gætu þeir náð að knésetja sjálfstæðisflokkinn en það mistókst, í síðustu kostningum minnst kosti. Það er ekki aðal málið, þeir verða líka að sannfæra fólk um að völdin séu betur sett í þeirra höndum. Það er líka geymt en ekki gleymt að formaðurinn skuli hafa gert borgarstjóratitilinn að peði í valdatafli sínu; mér finnst það sýna ótrúlegt virðingarleysi og ekki til að byggja upp trúverðugleika.

En allstaðar inni á milli er gott fólk, í öllum flokkum. Þorgerður Katrín finnst mér t.d. hörkutól þó hún sé sjálfstæðiskona og Jón Kristjánsson er ekki alveg glataður þó hann sé framsóknarmaður o.s.frv..
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sitt örugga fylgi, það er þetta með fótboltan... maður stendur með sínu liði sama hvað á gengur! Þeir ná ekki hreinum meirihluta en ef þeir ná kostningu, hver fer með þeim í stjórn? Framsóknarmenn mega víst auglýsa takmarkað svo þeir eru voðalega bágir eitthvað, væri Samfylkingin ekki að bregðast stuðningsmönnum sínum með því að fara í stjórn með sjálfstæðisflokknum eftir allt sem undan er gengið og Vinstri grænir hafa sagt að þeir verði ekki ,,meðfærilegir meðreiðarsveinar" og vill sjálfstæðisflokkurinn nokkuð fá þá með sér í stjórn ef þeir teymast illa.
Það er nú nógu slæmt fyrir þá ef þeir fara hundlausir í göngur, en með óteymanlegan hest í ofanálag... Eru sjálfstæðismenn að fara að smala sitt svæði og Vinstri grænir sitt? Og þegar svæðin skarast?
Miðjuflokkar einir og sér ná ekki að mynda meirihluta og þurfa þá að fá aðstoð Vinstri manna. Eru þessir flokkar að fara að standa saman, eða fer þetta eins og með borgina þegar sjálfstæðisflokkurinn spilaði með þá alla. Allir vildu part af kökunni en gátu ekki komið sér saman um hana alla; sjálfstæðisflokkurinn sá um að skera litla sneið og útbítta henni eftir eigin hentugleika. Þeir eru ekkert vitlausir, þá væru þeir ekki búnir að vera við völd öll þessi ár. Spurningin er aftur á móti hversu vitlausir kjósendurnir eru...

Never the less... þá þýðir lítið fyrir mig að rífst yfir þessu. Mitt framlegg til kostninganna er að sjá til þess að Gummi kjósi ekki;)
Sendiráðið er í Madrid og þangað er 3-4 tíma lestarferðalag aðra leiðina. Eftir að hafa hringt þrisvar í utanríkisráðuneytið til að fá aðstoð hjá þeim,með engum árangri, fann ég á endanum á heimasíðunni að það væri ræðismaður í Malaga, sem er 3 tíma ferðalag með rútu. Eins og ástandið er núna, þá læt ég þessi ferðalög eiga sig og vonast eftir að landsmenn láti ekki hafa sig að fíflum einu sinni enn.


Á leið minni í skólann í morgun var 19 stiga hiti, kl. 8 að morgni. Þegar ég kom heim í gærkvöldi kl. 10 var 28 stiga hiti og yfir miðjann daginn var rétt rúmlega 30 gráður; það fer hitnandi!
Þar sem við erum ekki með loftkælingu í íbúðinni þá er varla sofandi á nóttunni fyrir hita. Sængin er minnst kosti best geymd inni í skáp og lak komið í hennar stað. Er að spá í að splæsa á mig viftu, það er varla sofandi í þessu helvíti!

Saturday, May 05, 2007

Man ég okkar fyrri fund
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni!


Er að velta því fyrir mér... þegar hundur hittir hund á tófugreni, fara þeir ekki að slást? Eða er það eitthvað ,,turn on moment"?
Er hundi kannski alveg sama þótt hann hitti annan hund á tófugreni? Eða er kannski bara rosalega gaman að vera hundur og hitta annan hund einmitt á tófugreni? Ræða heimsmálin og svona...

Maður spyr sig...

Spurt er: Eftir hvern, um hvern og hvað er málið með hundana?

Friday, May 04, 2007

Tölvan mín er horfin... Þ.e. grafíska reiknitölvan mín, sálufélagi minn sl. 4 ár! Begga frænka keypti hana fyrir mig í fríhöfninni haustið sem ég byrjaði í verkfræði. Þá fannst mér hún ógeðslega dýr og hálf skammaðist mín fyrir snobbið að þurfa svona huges reiknitölvu. Hef aldrei séð eftir krónu sem fór í hana og myndi borga fúlgu fjár fyrir að fá hana aftur.
Er búin að snúa öllu við hérna heima fyrir, leita uppi í skóla og spyrjast fyrir alls staðar. Gummi notaði hana stundum til að teikna myndir og ég hélt að hann væri með hana og hann hélt að ég væri með hana svo ég veit ekki nákvæmlega hvenær hún hvarf. Er búin að bíða heillengi eftir því að hún dúkki bara upp: "ah... þarna setti ég hana þá" en ég held ekki að það sé að fara að gerast.
Fyrir utan að hún er enn í dag syndsamlega dýr, þá liggja margra daga ef ekki vikna vinna í henni í forritunum sem ég var búin að búa til. Fyrir áramót var ég í áfanga sem er stærðfræðileg landmælingakerfi og var búin að forrita allann áfangann inn í tölvuna. Í stað gagna á prófinu megum við hafa forritanlega reiknitölvu og ég var búin að búa til þvílíka kerfið. Prófið í þessum áfanga er svo 14. júní! Nokkrum sinnum er ég búin að leita einu sinni enn, en ég held ég neyðist til að kaupa mér aðra tölvu. Hún nýtist Gumma þá vel ef ég finn mína gömlu, en ég finn bara til í sálinni að missa allt dótið mitt sem var í tölvunni.
Ef einhver hefur tekið hana ófrjálsi hendi uppi í skóla, þá veit ég ekki hvort í fyrsta lagi hann þorir að láta sjá sig með hana þar sem svona tölvur fást ekki hérna og hver einn og einasti er með HP en ekki CASIO. Þess fyrir utan eru öll forritin á spænsku og íslensku, þannig að ef viðkomandi fattar hvernig þau virka þá eru forritin frekar auðþekkjanleg. Því er líklegast að með einum takka verði tölvan endurformöttuð og öll mín vinna fyrir bí.

Ohhh... mig auma!

Wednesday, May 02, 2007

Why does it always rain on me...

Það rigndi svo mikið í dag að það mynduðust lítil stórfljót á götum úti, það dimmdi yfir og sást varla í fjöllin hérna við hliðina.
Það kemur heldur ekkert venjuleg rigning, maður verður holdvotur á því að hlaupa á milli bygginga. Hérna eiga líka allir regnhlíf og láta sér það ekki detta í hug að fara út fyrir hússins dyr án þess að vera með regnhlíf. Ég bara kann ekki að nota svoleiðis, held að það sé vegna þess að það fylgir yfirleitt rok með heima fyrir og maður færi bara eins og Mary Poppkins ef maður myndi reyna að setja hana upp.

Á morgun er svo enn ein tilvonandi glataða læknisheimsóknin. Veit ekki hvern fjárann þeir ætla að bauka núna, en ég er búin að byrgja mig upp af sprautuvottorðum svo þeir fá ekki að sprauta mig við neinu! Það verður gaman að sjá svipinn á þeim þegar þeir fara í gegnum sprautulistann minn sl. ár. Útaf Afríkuferð og Mið-Ameríku dvöl er hann helvíti langur. Nú halda þeir að allir Íslendingar séu bólusettir fyrir gulusótt, kóleru, lifrarbólgu, hundaæði o.fl.. Hehe... ætla ekkert að leiðrétta það;) Þess fyrir utan er ég búin að endurnýja allar þessar sprautur sem þeir vilja endilega senda mig í núna, stífkrampa, barnaveiki og eitthvað fleira sem ég veit ekki hvað er;) Mér er ekkert of vel við þessa sprautuáráttu þeirra. Þeir gáfu mér eina síðast og ég drullu fann til í hendinni í 3 daga á eftir.
Það er eins og mig minni að einhvern tímann hafi rollurnar heima verið sprautaðar og þannig lömbin bólusett í leiðinni. Getur það verið, og ef svo er ætli það sé pælingin...?

En með sumarið, kannski verðum við ekki svo bundin;) Það var nefninlega ekki hægt að panta flug fyrir einhvern ófæddann svo ég pantaði bara fyrir okkur tvö. Það er nefninlega miklu ódýrara að panta núna heldur en að bíða þangað til í júní. Þess fyrir utan er voðalega flókið að redda vegabréfi á þetta stuttum tíma.
Við komum hvort eð er aftur og þurfum að hafa eitthvað hérna í geymslu... ;)

Tuesday, May 01, 2007

Okey!

Það viðurkennist fúslega! Er latasti bloggari sem hefur gengið uppréttur á jörðinni:)

Það þýðir lítið að ætla að vera með eitthvað sagnfræðilegt yfirlit um það sem á daga mína hefur drifið. Var að koma frá Barcelona síðast þegar ég bloggaði.

Það hefur ekki mikið skeð síðan þá. Er bara í skólanum alla daga frá morgni til kvölds. Helgarnar fara svo í að læra, hitta bekkjarfélagana og hina skiptistúdentana.
Frekar fábrotið líf!

Tengdó kom í heimsókn um páskana og við fórum aðeins á flakk með þeim en vorum hérna heima í Jaén yfir sjálfa páskana. Fórum aftur á Gíbraltarhöfða, enda finnst mér þetta snilldar staður, hellarnir eru frábærir og aparnir algjört æði. Vorum í Marbella í nokkra daga en hittum alveg á páskarigningartímabilið svo minna varð um strandaferðir. Einni vikuna þeirra hérna var samt mun betra veður og Gummi fór með þeim aftur niður á strönd en skólinn hjá mér var byrjaður svo ég var eftir heima.

Núna er Gummi í prófum svo ég læðupúkast í kringum hann á meðan. Rétt rúmum hálfum mánuði eftir að hann er búinn í prófum byrja ég í prófalestri. Vandræðavesen að hafa þetta alltaf svona sitt á hvað, en við myndum örugglega bilast hvort á öðru ef við værum bæði í prófum í einu ,)

Prófin hjá mér klárast 6. júlí og við eigum flug pantað heim 9. júlí. Það verða nú einhver viðbrigði að koma hérna úr hitastækjunni og heim, en eflaust kærkomin tilbreyting. Það er alveg hægt að fá nóg af þessum hita hérna og tilbreytingarleysi í veðri.
Heimkomupartý er í skipulagningu. Hannes verður að flytja út úr íbúðinni okkar og yfir í sína eigin á þessum tíma. Við þurfum sjálf að flytja dótið úr okkar íbúð þar sem hún er að öllum líkindum seld og við þurfum að afhenta hana seinni part sumars. Um að gera að halda gott útflutningspartý fyrir bráðlega fyrrverandi nágranana;)

Hvað við gerum svo við allt draslið okkar? Nýju fataskáparnir sem var ekki búið að naglfesta... skv. sölusamningi fylgja þeir ekki með íbúðinni og því eigum við þrjá frístandandi fataskápa, ískáp, þvottavél, sófasett, hillur... Boy oh boy! En fer að verða búin að koma þessu út, meira að segja stóra hlunk sjónvarpinu! Hafdís fær það, ef hún getur sjálf borið það niður af 3 hæð ;)
Bækurnar, fiðlan og píanóið verða samt ekki seld! Enda lítið upp úr því að hafa og varla eigulegt fyrir neinn annan.

Við verðum því á vonarvöl í sumar, hálfgerðir hreppsómagar sem þvælumst bæ af bæ. Spurning um að geta unnið sér inn á hverjum stað fyrir fæði og húsnæði. Ég hlýt að geta eldað, setið hest og keyrt dráttarvél og Gummi sveiflað hamri, bakað, setið hest og drukkið! Það hlýtur því að vera hægt að finna einhver not fyrir okkur. Er búin að vera að undirstinga liðið smá saman með að þau gætu átt von á okkur í heimsókn... Auðvitað á þeim forsendum að um einskæra kurteisisheimsókn sé að ræða eða greiða af okkar hálfu.

Láru og Hannesi vantar örugglega einhverja félaga á djammið í borginni, ég gæti nú lagt Ilmi lið í hundauppeldinu, enda hundaeign mín (Snotra, Birna og Bangsi) í gegnum tíðina alveg til mikillar fyrirmyndar...! Berghildur Ösp, litla frænka örugglega farin að sakna æfinganna með að bíta í tærnar á sér og dansa trölladansa og á Akureyri úir og grúir af ættingjum. Gréta systir var að tala um að ditta að svölunum og helluleggja, það er alltaf matur á borðunum og fleti hjá Stínu frænku og Bringuliðið örugglega í heyskap; við hljótum að ná að pota okkur þar að án þess að mikið beri á. Begga frænka er svo á Húsavík og örugglega í einhverju hestastússi; það vantar alltaf einhvern til að detta af og nýtumst við Gummi fullkomlega í það ;)
Ég sé það að á þessu svæði ættum við að geta farið bæ af bæ södd og sæl án þess að mikið beri á eða upp um okkur komist.
Við ættum að ná að treina þetta þar til heyskapur hefst í Þistilfirði. Gamli fordinn og stjörnumúgavélin ættu þá að vera á lausu, svo ekki sé minnst á Binnu og rúllupökkunarvélina. Það er nú eitthvað um liðið frá því að ég fór í heyskap síðast, en þegar ég fór upp í einhverja af þessum nýju vélum þá þurfti ég manual-inn til að vita hverja af þessum 4 gírstöngum á að nota!
Svo er nú þjóðhátíð og Axel bróður vantar örugglega einhvern til að taka undir með sér í söng og borða frá sér lundana :) Það er best að ég sjái um að éta lundana og Gummi sjái um sönginn;) Bestun á hæfileikum!
Spurningin er með afmælið í Dalnum sem og kvartaldarafmæli Grétu systur. Það kemur til með að kosta margra daga viðveru af okkar hálfu, dugir ekkert minna!
Svo þarf náttúrulega að fara að hreyfa gæðingastóðið á Gunnarsstöðum fyrir smalanir. Þeir hafa í gegnum tíðina haft eigendurna sér til fyrirmyndar í holdafarsmálum og ekki áttað sig á muninum að bera, eða vera borinn. Þá er spurningin, svona í leiðinni, um að pranga félagsskap sínum upp á sjálfan Gunnarsstaðadónann, en hefur hann tjáð mér það að hann muni vera ríðandi pöddufullur á milli bæja í allt sumar. Svo vantar tengdó örugglega einhvern til að éta frá sér kleinurnar og terturnar sem hún framleiðir í massavís og þar ættum við að ná að bæta á ísaldarforðann svo við verðum á vetur setjandi. Þá fer að líða að smölunum og réttum í byrjun september með tilheyrandi mannamótum og gleðskap. Þá ætti sumarið að vera í höfn!