Ríkisstjórnarkostningar í nánd og ég víðs fjarri. Næ aðeins að fylgjast með á netinu en það er samt ekki eins og þegar maður er heima og veröldin snýst í kringum þetta.
Við Gummi tókum próf á netinu á slóðinni http://xhvad.bifrost.is/... niðurstöðurnar voru:
Ég...
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 6.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 40%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 87.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 20%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%
Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs!
Gummi...
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 0%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 18.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: -1%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 0%
Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Sjálfstæðisflokksins!
Þetta hefur brennt sig inn í hornhimnu augna minna um aldur og ævi! Að ég skuli sofa við hliðina á "þessu" á hverri nóttu, hvað þá meir! ;)
Könnunin missti smá trúverðugleika þegar ég sá -1% fylgi... Never the less!
Sagt er að öfgahópar (eins mikið og íslenskir flokkar geta verið ,,öfgahópar" )geti skilað góðu samstarfi. Hvernig er hægt að hafa svipað fylgi við flokkinn lengst til hægri og meðreiðarsvein hans og flokkinn lengst til vinstri, en gefa algjörlega skít í miðjuflokkana. Guðmundi tekst það greinilega skv. þessari könnun. Það á greinilega að gera hlutina svo bragð sé af, ekki lufsast um á miðju vegasaltsins. Hans vegasalt er bara V laga...
Ég kem út sem umhverfisverndarsinni og kommúnisti. M.v. lifibrauð mitt undanfarin 4 ár er erfitt að sannfæra fólk um að ég sé öfga umhverfisverndarsinni en kommúnastanum er erfitt að ljúga upp á mig.
Það svíður að fá 40% stuðning við Framsóknarflokkinn. Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að styðja þá við skeiningar á sjálfstæðisflokknum, en sjálfan sjálfstæðisflokkinn bara með 6%. Það er eins og ef ég færi í göngur með hund og hundurinn væri skráður fullgildur smalamaður...
Ég veit mjög lítið um Íslandshreyfinguna, þegar maður er ekki á svæðinu þá er erfiðara að fá einhverja tilfinningu fyrir þessu. Frjálslyndi flokkurinn er minnst kosti með góð sambönd á Litla-Hrauni síðast þegar ég vissi og kvótamálin eru þeim ofarlega í huga. Samfylkingin er stór hópur af litlum flokkum sem voru leiðir á því að vera litlir og án valda. Héldu að með sameiningu gætu þeir náð að knésetja sjálfstæðisflokkinn en það mistókst, í síðustu kostningum minnst kosti. Það er ekki aðal málið, þeir verða líka að sannfæra fólk um að völdin séu betur sett í þeirra höndum. Það er líka geymt en ekki gleymt að formaðurinn skuli hafa gert borgarstjóratitilinn að peði í valdatafli sínu; mér finnst það sýna ótrúlegt virðingarleysi og ekki til að byggja upp trúverðugleika.
En allstaðar inni á milli er gott fólk, í öllum flokkum. Þorgerður Katrín finnst mér t.d. hörkutól þó hún sé sjálfstæðiskona og Jón Kristjánsson er ekki alveg glataður þó hann sé framsóknarmaður o.s.frv..
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sitt örugga fylgi, það er þetta með fótboltan... maður stendur með sínu liði sama hvað á gengur! Þeir ná ekki hreinum meirihluta en ef þeir ná kostningu, hver fer með þeim í stjórn? Framsóknarmenn mega víst auglýsa takmarkað svo þeir eru voðalega bágir eitthvað, væri Samfylkingin ekki að bregðast stuðningsmönnum sínum með því að fara í stjórn með sjálfstæðisflokknum eftir allt sem undan er gengið og Vinstri grænir hafa sagt að þeir verði ekki ,,meðfærilegir meðreiðarsveinar" og vill sjálfstæðisflokkurinn nokkuð fá þá með sér í stjórn ef þeir teymast illa.
Það er nú nógu slæmt fyrir þá ef þeir fara hundlausir í göngur, en með óteymanlegan hest í ofanálag... Eru sjálfstæðismenn að fara að smala sitt svæði og Vinstri grænir sitt? Og þegar svæðin skarast?
Miðjuflokkar einir og sér ná ekki að mynda meirihluta og þurfa þá að fá aðstoð Vinstri manna. Eru þessir flokkar að fara að standa saman, eða fer þetta eins og með borgina þegar sjálfstæðisflokkurinn spilaði með þá alla. Allir vildu part af kökunni en gátu ekki komið sér saman um hana alla; sjálfstæðisflokkurinn sá um að skera litla sneið og útbítta henni eftir eigin hentugleika. Þeir eru ekkert vitlausir, þá væru þeir ekki búnir að vera við völd öll þessi ár. Spurningin er aftur á móti hversu vitlausir kjósendurnir eru...
Never the less... þá þýðir lítið fyrir mig að rífst yfir þessu. Mitt framlegg til kostninganna er að sjá til þess að Gummi kjósi ekki;)
Sendiráðið er í Madrid og þangað er 3-4 tíma lestarferðalag aðra leiðina. Eftir að hafa hringt þrisvar í utanríkisráðuneytið til að fá aðstoð hjá þeim,með engum árangri, fann ég á endanum á heimasíðunni að það væri ræðismaður í Malaga, sem er 3 tíma ferðalag með rútu. Eins og ástandið er núna, þá læt ég þessi ferðalög eiga sig og vonast eftir að landsmenn láti ekki hafa sig að fíflum einu sinni enn.
Á leið minni í skólann í morgun var 19 stiga hiti, kl. 8 að morgni. Þegar ég kom heim í gærkvöldi kl. 10 var 28 stiga hiti og yfir miðjann daginn var rétt rúmlega 30 gráður; það fer hitnandi!
Þar sem við erum ekki með loftkælingu í íbúðinni þá er varla sofandi á nóttunni fyrir hita. Sængin er minnst kosti best geymd inni í skáp og lak komið í hennar stað. Er að spá í að splæsa á mig viftu, það er varla sofandi í þessu helvíti!
3 Comments:
Það gott að þér hlotnast sá heiður að kjósa í Ríkisstjórn, við hin fáum bara að kjósa menn inn á Alþingi... bwahahahaha ;o)´
Gréta systir
Hehee ég kaus í "ríkisstjórn" fyrir þig Katrín mín, eða var það á Alþingi?? æi ég man það ekki
Ég er bara svo öflugur kjósandi að mitt atkvæði nær lengra en þessi plebba atkvæði ykkar ;)
Svo öflugur að ég hafði mig ekki einu sinni á kjörstað en atkvæðið hefði örugglega hvort eð er lent sem skeinipappír hjá fíknó svo það gildir einu ;)
Post a Comment
<< Home