Bakarinn, smiðurinn og ... eldamennskan
Oftar sem áður eldaði hann Guðmundur minn handa stóra og litla stubb, sem er ekki frásögu færandi nema hvað...
Á laugardögum, í hádeginu, er sá siður viðhafður að mjólkurgrautur er á borðum, með dass af kanil og vel af rúsínum.
Í þetta skiptið setti ég grautinn upp en Gummi sá um afganginn. Er við settumst svo að borðum og hófum átið lætur Gummi öllum illum látum og heldur því fram að grauturinn sé óætur; ég hljóti að hafa sett að minnsta kosti úr hálfum saltbauknum í pottinn. Með áburðinn í mjólkurgrautnum á Gunnarsstöðum um árið ofarlega í huga smakkaði ég grautinn með gát og fann ekkert að honum. Sagði honum að það væri ekkert að þessum graut, hvaða væl þetta væri eiginlega í honum. Hann horfði á mig eins og ég væri geimvera og spurði hvort ég væri ekkert að grínast, fannst þetta ekkert sniðugt enda matelskur með eindæmum.
Ég ætlaði þá að fá mér kanil og fór að ergja mig á því hvað hann setur alltaf lítinn kanil út í sykurinn. Fékk mér kanil út á grautinn og þá fann ég það... algjörlega óætur, er að tala um algjöran viðbjóð! Líklegasta skýringin var að salt hefði farið í stað sykurs, en þar sem þetta kom úr sykurpokanum sem við vorum hálfnuð með þá gat það varla verið. Skýringin kom síðan þegar Gummi hafði orð á því að hann hefði sett svona lítinn kanil af því að hann væri að verða búinn... Eða hitt þó heldur! Var það kannski kjötkryddið, sem er í alveg eins stauk og kanillinn, sem var að verða búið...
Ég var lengi með óbragðið í munninum; mæli ekki með kjötkryddi útá mjólkurgrautinn...
Nema hvað... honum tókst þetta aftur! Nema þá var það kjúklingakryddið... En ég fell ekki tvisvar á sama bragðinu, ég er ekki með allt þetta nef fyrir ekki neitt! Af rælni þefaði ég upp úr kanilglasinu áður en ég fékk mér út á grautinn, svona til að minna Gumma á þetta. Fann þessa römmu kryddlykt af kanilnum og haldiði að hann hafi ekki klárað restina af kjúklingakryddinu okkar í þetta skiptið.
Næst á boðstólnum verður eflaust kanilkryddaðar kjúklingabringur!
En meðan hann nennir að elda ætla ég ekki að kvarta ;) Passa mig á því að lofa eldamennskuna í hástert, sama á hverju gengur! Þetta kemur allt saman á endanum, vona bara að ég verði til frásagnar um það ;)
2 Comments:
Bwahahahaha... snilld að takast að gera þetta tvisvar;-)
Se fyrir mer kanilsnudana a Egilsstodum ef Gummi raeki thar bakari. Thad er kannski heppilegt ad hann fann ser adra kollun :p
Post a Comment
<< Home