Wednesday, January 28, 2004

Jæja, ég hafði mig loksins í það að senda bréf niður á EJS og kvarta undan minni heittelskuðu tölvu. Þetta var frekar langt og leiðinlegt kvörtunarbréf og það rísa örugglega á þeim rasshárin að lesa þetta. Ég hefði átt að benda þeim á að láta spila undir á fiðlu á meðan þeir læsu bréfið, verulega falska fiðlu. Mér finnst bara svo leiðinlegt að vera að kvarta, ég á að geta beðið með það næstu 30 árin eða svo. En ég gat þó þakkað þeim fyrir það að núna vissi ég mun meira um tölvur en áður með því að vera að brasa í þessu.

Og hræðilegt... prentarinn minn er bilaður, ég held að hann sé hreinlega ónýtur, hardware problem sko... En Kitta var nú svo elskuleg að lána mér sinn prentara á meðan hún er úti í Portugal þannig að ég fór yfir til Sunnu áðan og sótti hann en það er ekkert USB tengi og ekki skarttengi á minni tölvu. Askoti fara þeir illa með mann þessir tölvufrömuðir, það er örugglega sér áfangi í tölvunarfræðinni sem heitir ,,hvernig á að breyta tölvu þannig að þú þurfir að kaupa nýjustu hlutina með henni og getir ekki notað þá gömlu sem þú áttir fyrir og varst búin að borga fyrir?"

Fór í ræktina í dag og ákvað að prófa hlaupabrettið. Hef svona bara labbað á því og það var svo sem o.k. Prófaði að skokka aðeins; það var eins og ég væri búin með góðan slurk af grand, ég hélt engan vegin jafnvægi. Herbergið snérist og ég fór að halla út á sitt hvora hliðina. Svo fór þetta að ganga aðeins betur ef ég passaði bara að mæna bara á takkaborðið fyrir framan mig. Ég hefði ekki einu sinni getað verið með tyggjó. Ég var nú bara svona ,,á skokkinu" en var fljótlega farin að blása eins og hvalur, var eins og tómatur á litinn og lýsið lak af mér. Bráðum kemur David Attenborough og mætir í sporthúsið að athuga þessa óskilgreindu tegund. Ég verð örugglega friðuð og get látið borga fyrir að fá að taka af mér ljósmyndir; bannað verður með lögum að Axel bróðir sláist við mig.
Ég reyndi bara að brosa til fólks sem starði á mig en það forðaði sér hið bráðasta, örugglega af ótta við að ég myndi springa. Þarna náði ég að svitna duglega, það lak af andlitinu á mér en engu að síður sér ekki högg á vatni ef ég stíg á vigtina. Þá forðar fólk sér líka af ótta við að hún springi bráðlega.

Jæja, ætli ég verði ekki að fara að drattast til að læra smá stærðfræðigreiningu. Við Hóa vorum að brasa áðan í að búa til matlab-forrit (stærðfræðiforrit) og ég komst að því að ég er eilífðar-lúði í forritun. Stundum fæ ég á tilfinninguna að ég sé bara hreinlega ekkert sérlega vel gefin; það hlýtur samt að vera viss hæfileiki að vera þverfaglegur lúði. Það eru ekki allir sem geta það...

Sunday, January 25, 2004

Núna heyrist ekki mannsins mál hérna. Gummi og Halli arga hvor í kapp við annan og hneykslast á íslenska landsliðinu. Það er greinilegt að þeir geta miklu betur. ... ,,ef þeir skora ekki núna þá eiga þeir ekki skilið að koma heim aftur"...

Okkur var boðið út að borða í gær. Björgvin (bróðir Gumma) og Katrín buðu okkur á hlaðborð á Hótel Loftleiðum. Björgvin var að útskrifast frá Tækniháskólanum og kom til að vera við útskriftina. Átum gjörsamlega á okkur gat, virkilega góður matur. Fengum m.a. þorramat, fiskrétti og lamba- og nautasteik. Rauðvín með og kökur, ís og kaffi á eftir. Með þessu áframhaldi fara fötin að rifna utan af okkur og við neyðumst til að endurnýja fataskápinn og stækka útidyrahurðina. Matur, matur, matur... virðumst ekki hugsa um annað. Erum að auka öryggisbyrgðirnar og höfum öryggisbilin all rífleg.
Fékk mér slatta af rauðvíni og ég veit ekki af hverju, en það virðist allt fara í kinnarnar á mér og ég verð hreinlega eins og tómatur á litinn. Ég ætti að fara að láta Kára athuga þetta og gá hvort að hann finni einhver tómatagen. Sem betur fer fékk ég ekki tómat-plöntu-vellyktandi genið ;) Eða var það paprika; man það ekki alveg. Þá rauð paprika ;)

Þorrablótið heima var í gær og ég þarf endilega að drífa mig og heyra í Grétu systur til að fá nýjustu fréttir.

Erum kannski að fara á þorrablót með Sirrý systur og Júlla næstu helgi. Það væri nú ágætt að komast á eitt alvöru þorrablót, það er að verða býsna langt síðan ég fór síðast; man ekki einu sinni hvenær það var.

Saturday, January 24, 2004

Bóndadagurinn reddaðist gæfulega. Ég hljóp heim úr skólanum þegar ég var búin í gær, bakaði banana-súkkulaði muffins, tók til, skúraði og skrúbbaði. Svo fór ég í búðina með Ilmi og keypti geðveika skyrtu (að mínu áliti), fór í ríkið og keypti kippu af bjór og eina stóra rós. Fyrst þegar Gummi sá skyrtuna, þegar hann leit ofan í gjafapokann, þá hélt hann að þetta væru nærbuxur. Svo þegar ég fræddi hann um að þetta væri skyrta þá setti hann upp ,,please don't make me" svipinn. En hún passaði svona fínt og þegar hann var kominn í hana þá ,,var hún svo sem allt í lagi". Ég nefninlega held, eins lítið og ég hef nú af kvenngenum, þá hafi ég minnst kosti meira vit á fötum en Gummi.
Þegar Gummi var búinn að skoða gjafirnar þá kom allt í einu uppgötvunarsvipur á hann og hann hrópaði: ,, nú skil ég... það kemur nefninlega bráðum konudagur". Hann hefur greinilega ekki mikla trú á gjafmildi minni og góðmennsku. Enda hef ég svo sem ekkert verið að fríka henni.

Spiluðum við Ilmi og Halla í gær, Mr. and Mrs. og komumst að því að við bara þekkjumst ekki neitt. En við höfum alla ævina til að kynnast þannig að við þurfum ekki að örvænta.

Fór á bókhlöðuna í dag og brain-storm-aði. Það voru ekki margir þarna og enginn sem ég þekkti. Ég er svo mikill ræfill að mér leiðist svo að fara ein niður í mat og þegar ég komst að því að það væri enginn þarna sem ég þekkti, þá bældi ég bara niður hungurverkina og hélt áfram að kynna mér vigra á stikaformi... what a live...

Friday, January 23, 2004

Jæja, núna er Kitta komin til London. Við hittumst heima á miðvikudagskvöldið og tjilluðum og átum eitthvað gott. Bjuggum til ekta súkklaði, Ilmur kom með osta og Gummi bakaði súkkulaðiköku. Ég gerði ávaxtaréttinn hennar Grétu systur. Svo vígðum við kristalinn. Var að reyna að kenna þeim að drekka kaffi og koniak. Fyrir þá sem hvorki drekka kaffi né koniak reyndist áskorunin þeim ofviða, en maður verður samt að prófa. Þær verða bara að reyna að herða sig í þessu. Ég reyni bara að aðstoða þær við það, legg mig alla fram ;)
Fékk sms frá Kittu í nótt. Hún var mætt á djammið á salsa-bar í London. Það hefði svo sem ekkert verið leiðinlegt að vera þar.

Svo er bóndadagurinn í dag og ég kemst ekkert útaf háskólasvæðinu. Stundum langar mig að hafa bíl og kunna að keyra, það kemur fyrir en sem betur fer ekki oft.
Ég náttúrulega steingleymdi bóndadeginum. Hringdi í Grétu í gær og hún var að tala um blómin sem hún hefði keypt handa Jóni og eitthvað fleira. Ég hrósaði henni bara fyrir rómantíkina og hvað hún væri nú sniðug að brjóta upp hversdagsleikann öðru hvoru. Nauðsynlegt fyrir öll sambönd. Hún var nú ekki alveg að fylgja og spurði hvort ég vissi ekki að bóndadagurinn væri á morgun og ég var alveg úti á túni. En þá var klukkan orðin ellefu, of seint til að gera nokkuð.
Svona verður þetta, núna þegar ég ætti raunverulega að halda bóndadaginn heilagan, þá rennur hann bara saman við aðra daga, og það á fyrsta hjúskaparári. Hvernig verður þetta eftir 25 ár? Vonandi fer það nú batnandi, skárra væri það nú ! Og gott betur, og svo miklu meira en það.

Tuesday, January 20, 2004

Úffff !!! Var í könnun hjá Hagstofu Íslands. Við Gummi erum nefninlega fjölskylda núna og þau vildu fá að vita hversu miklu við eyddum, og í hvað. Mér fannst svo sem í lagi að taka þátt, en ég átti nú ekki von á þessu. Þvílíkur tími... ,, analyzing my live ". En það er svo sem ágætt að spá í þetta öðru hvoru. Í verðlaun fékk ég svo heimilistæki af einhverjum lista úr elko. Af öllu þá vantar mig bara ekki heimilistæki, bara alls ekki ! Reyndar gat ég líka valið um 3 -5 mánaða áskrift hjá einhverju tímariti en gallinn við það er að maður losnar svo aldrei við þau þegar fría áskriftin er búin. Þannig að í dag hef ég lokið mínum skyldum sem þjóðfélagsþegn landsins.

Í gær var fórum við út að borða á Ítalíu. Vorum að halda smá kveðjuteiti fyrir Kittu sem er að fara til Portugal á fimmtudaginn. Mæli sérstaklega með sniglunum í hvítlaukssmjörinu og smokkfisknum. Það var búið að segja mér frá sniglunum þannig að ég varð að prófa þá, og svo finnst mér smokkfiskur æði. Fengum eitthvað ítalskt hvítvín með, Fumario, eitthvað svoleiðis. Það var ágætt, annars finnst mér alltaf einhver gambrakeimur af hvítvíni. Fórum svo á eftir heim til Carlosar og hituðum okkur súkkulaði í ,,fondú-pott" og vorum með ávexti og sykurpúða sem við dýfðum í þetta. UUMMMmmmm, geggjað gott.
Þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hver svaf af sér stærðfræðigreiningu í morgun...



Ilmur, Kitta, Carlos, Lára, Hóa, ég og Gummi



Við að fá okkur fondoo (hvernig svo sem maður skrifar þetta)

Monday, January 19, 2004

Nú er ég komin heim aftur í raunveruleikann. Búin að skila heimadæmum í stærðfræðigreiningu og tölulegri greiningu og get aðeins náð andanum.

Ótrúlegustu hlutir eru enn að gerast. Ég náði stærðfræðigreiningu III !!! Þannig að núna er bara spennufall og læti.

Helgin var ósköp notaleg. Við völdum nú veðrið til að skoða okkur um á suðurlandinu; það var varla að maður sæi veginn fyrir framan bílinn. Ég horfði meira að segja á Idol í fyrsta skipti, ekki seinna vænna. Maturinn var líka alveg snilld. Við dunduðum okkur bara í snoker og Gummi gat sýnt yfirburði sína á því sviði en sem betur fer var líka borðtennisborð þarna þar sem ég gat hamsað hann og fengið uppreisn æru minnar. En annars var ótrúlega gott að geta legið í baði og drukkið sitt rauðvín og borðað sitt súkkulaði.
Fórum í heimsókn á Selfoss til Gullu föðursystur Gumma á laugardeginum í blindbyl og fárviðri. Skoðuðum myndir frá því að hún var í Afríku, og nú langar mig svo að fara. Skipulagði minnst 30 Afríku-ferðir í huganum það sem eftir var dagsins.
Eftir að við fórum af hótelinu á sunnudeginum fórum við til Imbu og Valla (Imba er frænka Gumma) og skoðuðum nýja húsið þeirra, hundinn Skottu og borðuðum allt nammið þeirra.

Þegar við komum heim fór ég til Hóu til að gera tölulegu greiningardæmin. Gummi komst í tölvuna á meðan... Þegar ég kom heim var hann svo rosalega ánægður; ljómaði eins og sól í heiði. Hann fann uppboð á netinu og var í óðaönn að taka þátt. Hann þurfti bara að skrifa vísakortanúmerið sitt einhversstaðar og þá var þetta o.k. Rosalega var ég fegin að vera með mitt í vasanum, en eftir að ég undirritaði hjúskaparsáttmálann þá er það ekki lengur ,,his, it's ours" í hvora áttina sem er, þannig að mig varðar málið. Fór eitthvað að fikra mig í átt að tölvunni og sá mér til mikillar skelfingar að honum hafði tekist að bjóða í ...hraðamæli á honda-shadow mótorhjól... og var með efsta tilboðið. Svo líður einhver viss tími og ef hann er enn efstur þegar tíminn rennur út þá hefur hann keypt hlutinn. Það voru einhverjir fimm tímar eftir þannig að þegar hann vaknaði í morgun, þá spratt hann á fætur, kveikti á tölvunni til að reyna að sjá árangur viðskipanna. Gæfan reyndist okkur hliðholl -það hafði einhver boðið betur-.
Núna tek ég tölvuna með mér hvert sem ég fer og er að sækja um fyrirfram greitt vísakort. Ef ég hefði efni á lögfræðing þá myndi ég láta búa til eftir-á-kaupmála. Verð að láta mér nægja að spyrja á vísindavef hi.is til að athuga réttarstöðu mína í þessu máli ;)

Friday, January 16, 2004

Er að fara í Hveragerði um helgina. Nú á bara að liggja í leti og slappa af. Við verðum eflaust orðin geðveik hvort á öðru í lok helgarinnar.

Er búin að skrá mig á árshátíð hjá verkfræðinni. Hún á að vera á Hótel Örk í Hveragerði þann 20. febrúar. Verð í hotelherbergi þarna og þarf því ekki að dröslast í rútu heim um miðja nótt.

Matseðill:
-Rjómalöguð koníakstónuð humarsúpa

-Heilsteikt nautafillé með smjördeigskartöflum,
létt steiktu grænmeti og piparsósu

-Nougat ís á stökkum botni með konfektsósu og ferskum ávöxtum

Hljómsveitin Pass frá Hveragerði og DJ Steinar spila fyrir dansi.

Viss um að það verður ýkt stuð og vona bara að sem flestir fari. Nú erum við mikið samþjappaðri hópur en í fyrra og þetta er líka mun ódýrara. Nú verður Reynir bara að fara að skila stærðfræðigreiningunni svo að ég fái námslánin mín og geti farið að kaupa mér kjól og fínerí...
Það væri líka ágætt að fara að fá út úr spænska ritgerðaráfanganum. Hvað ætlar fólk eiginlega að vera lengi að dunda sér við þetta?

Thursday, January 15, 2004

Leti dauðans. Hef ekki hina minnstu löngun til að hreyfa svo mikið sem eina tá. Er ekki hægt að fá eitthvað við þessu, svona innan löglegra og siðlegra marka? Af hverju hefur enginn fundið upp mig-langar-að-fara-að-læra töfluna? Hvernig væri að þessi gomma af vísindamönnum, sem allt þykjast geta, fari og finni hana upp. Það væri ágætt að fá í leiðinni ég-er-æðisleg og ég-get-allt töfluna. Fínt að fá þetta í bónus á 999 kr.
Hvenær ætla svo þessir kennara-skrattar að skila einkunnunum, mig langar að fara að fá námslánin mín...
Best að reyna að drattast á bókhlöðuna og læra eitthvað. En ég nenni ekki ein, og Kitta er að stinga af til Portugal, Hóa er ekki heima og veit ekki um fleiri sem nenna að fara á hlöðuna. Allt virðist vera á móti manni og ekkert manni í hag. Stærðfræðigreining og hjólferlar bíða í ofvæni eftir að vera lærð.

Tuesday, January 13, 2004

Hverjar eru líkurnar á að það sé villa í vatnafræði-bókinni og að ég hafi rétt fyrir mér? Fæ út fáránlegt svar við dæmi 1.6 ! Fáránlega há tala, óska eftir smá back-up-i.

Monday, January 12, 2004

Fór í mat til Hóu. Óskaplega gott að fá almennilega að éta. Hryggur og ofurgott salat, svo kom Lára með súkkulaðiköku í eftirmat. Uummm. Geri aðrir betur! Það er til mikils að fara í ræktina, enda sér ekki högg á vatni !

Umræður við Ástu á msn um kynþokka kvenna. Skil ekki alveg hvað það er nákvæmlega sem karlmenn sjá við það að sofa hjá tveim eða fleiri kvennmönnum í einu. Mér finnst það algjört turn-off að ímynda mér að sofa hjá tveim karlmönnum í einu. Ég sé bara ekkert við það að eiga heilt búr af karlmönnum. Mikið rosalega er maður gamaldags.
Öll myndbönd ganga út á bera kvennmenn. Nú mætti lesa milli línanna að ég sé bara abbó af því að ég er ekki líklegasta manneskjan til að vera valin til að leika í svona myndbandi, en ég skil ekki af hverju einhver vill það yfirleitt. Hef ósjálfrátt þá skoðun að maður fái bara vissan kvóta af manngæðum og að sá sem eyddi miklu í útlit og vaxtalag hljóti að hafa lítið af persónuleika og gáfum. Þetta er náttúrulega ótrúlega ósanngjörn staðhæfing en til að styðja mál mitt þá held ég að stundum gagnist fallegt fólk það mikið upp í því að vera fallegt að annað kemst ekki að.
En ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því og reyni því ekki að láta það fara í pirrurnar á mér. En hvert fóru þá mínir mannkostir eiginlega? Ég er viss um að ég var ekki heima þegar pósturinn kom og það gleymdist að skila þeim til mín. Nema að það hafi verið svona naumt skammtað í þetta skiptið. Það brann allt við og ég fékk rétt skófirnar innan úr pottinum. Við höfum skipt þeim jafnt á milli okkar; ég, hænan og svínið. Ekki það að ég hafi nokkuð á móti hænum og svínum, þau eru mjög vel af guði gerð og hafa eflaust fengið bróðurhlutann.

Loksins er ég komin með eigin heimasíðu og núna get ég deilt hugsunum mínum viðstöðulaust með öðrum, í beinni á netinu. Það kemur svo bara í ljós hversu dugleg ég verð að skrifa inn á hana.
Gummi er kominn heim með kristalinn sem við keyptum í gær og gleymdum svo í búðinni. Veit ekki hvað konugreyið hefur hugsað þegar hún fann pokann með öllu draslinu í. Keyptum okkur svona ,,snobb" koníaks-karöflu og glös með. Höfum svo sem ekkert með þetta að gera eins og er, en þetta lítur ágætlega út uppi í hillu.

Frá jólunum er svo sem lítið að segja nema að ég komst í ágætis jeppaferð inn í Hvammsheiðarkofa. Lagt var í hann 2. jan, en færið var svo þungt að við gerðum ekki annað en koma okkur inn í kofa og til baka daginn eftir. Í för voru Axel bróðir, Fanney (kærasta Axels), Dagur (pabbi Emilíu), Gummi og ég. Við vorum á þrem bílum, Axel á langflottasta bílnum en sá hinn sami hafði einnig hvað hæðstu bilannatíðnina.
Við höfðum með okkur svínahamborgarahrygg, rauðvín, kartöflur og allt til sósugerðar, sem og eitthvað meðlæti, laufabauð, mysing, fullt af smákökum og konfekti, osta og vínber. Svo var bara haldin veisla.



Fína, fína Stakfellið

Ég í bílaviðgerðum uppi í skemmu í Steinholti. Var svo voðalega þreytt allt í einu. Fann mér auðan blett úti í horni og fór að sofa.



Testing testing