Wednesday, January 28, 2004

Jæja, ég hafði mig loksins í það að senda bréf niður á EJS og kvarta undan minni heittelskuðu tölvu. Þetta var frekar langt og leiðinlegt kvörtunarbréf og það rísa örugglega á þeim rasshárin að lesa þetta. Ég hefði átt að benda þeim á að láta spila undir á fiðlu á meðan þeir læsu bréfið, verulega falska fiðlu. Mér finnst bara svo leiðinlegt að vera að kvarta, ég á að geta beðið með það næstu 30 árin eða svo. En ég gat þó þakkað þeim fyrir það að núna vissi ég mun meira um tölvur en áður með því að vera að brasa í þessu.

Og hræðilegt... prentarinn minn er bilaður, ég held að hann sé hreinlega ónýtur, hardware problem sko... En Kitta var nú svo elskuleg að lána mér sinn prentara á meðan hún er úti í Portugal þannig að ég fór yfir til Sunnu áðan og sótti hann en það er ekkert USB tengi og ekki skarttengi á minni tölvu. Askoti fara þeir illa með mann þessir tölvufrömuðir, það er örugglega sér áfangi í tölvunarfræðinni sem heitir ,,hvernig á að breyta tölvu þannig að þú þurfir að kaupa nýjustu hlutina með henni og getir ekki notað þá gömlu sem þú áttir fyrir og varst búin að borga fyrir?"

Fór í ræktina í dag og ákvað að prófa hlaupabrettið. Hef svona bara labbað á því og það var svo sem o.k. Prófaði að skokka aðeins; það var eins og ég væri búin með góðan slurk af grand, ég hélt engan vegin jafnvægi. Herbergið snérist og ég fór að halla út á sitt hvora hliðina. Svo fór þetta að ganga aðeins betur ef ég passaði bara að mæna bara á takkaborðið fyrir framan mig. Ég hefði ekki einu sinni getað verið með tyggjó. Ég var nú bara svona ,,á skokkinu" en var fljótlega farin að blása eins og hvalur, var eins og tómatur á litinn og lýsið lak af mér. Bráðum kemur David Attenborough og mætir í sporthúsið að athuga þessa óskilgreindu tegund. Ég verð örugglega friðuð og get látið borga fyrir að fá að taka af mér ljósmyndir; bannað verður með lögum að Axel bróðir sláist við mig.
Ég reyndi bara að brosa til fólks sem starði á mig en það forðaði sér hið bráðasta, örugglega af ótta við að ég myndi springa. Þarna náði ég að svitna duglega, það lak af andlitinu á mér en engu að síður sér ekki högg á vatni ef ég stíg á vigtina. Þá forðar fólk sér líka af ótta við að hún springi bráðlega.

Jæja, ætli ég verði ekki að fara að drattast til að læra smá stærðfræðigreiningu. Við Hóa vorum að brasa áðan í að búa til matlab-forrit (stærðfræðiforrit) og ég komst að því að ég er eilífðar-lúði í forritun. Stundum fæ ég á tilfinninguna að ég sé bara hreinlega ekkert sérlega vel gefin; það hlýtur samt að vera viss hæfileiki að vera þverfaglegur lúði. Það eru ekki allir sem geta það...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home