Friday, May 28, 2004

Nú komst ég í tölvuna hjá Sirrý systir. Er komin suður aftur til að fara í útskriftina hennar á Hvanneyri.
Dagurinn í gær var alveg súper. Var að klára eitthvað í vinnunni, sleppti mat til að klára fyrr en það tókst ekki betur en svo að ég komst ekki af stað fyrr en korter yfir fimm. Hljóp heim, tók dótið mitt, bíllinn rafmagnslaus í hlaðinu. Fann startkapla, spíttist af stað. Svarta þoka niður alla Hellisheiðina, Vopnafjörðinn og Bakkafjörðinn. Hef aldrei farið aðra eins ökuferð, ég er illu vön með sjálfri mér í bíl en þetta sló öll met. Ef einhver fer um Bakkafjörðinn þá má finna vegavinnukarla utanvegar þar sem þeir hentu sér útaf veginum þegar ég kom á hvínandi siglingu. Tók sjensinn á að mæta engum og keyrði bara eftir minni því ekki sá ég veginn fyrir þoku. Eina verulega vesenið sem ég lenti í var þegar allt í einu var grafa á veginum fyrir framan mig. Ég gerði mér strax grein fyrir því að það var ekki inni í myndinni að stöðva í tæka tíð, bremsaði eins og ég gat og svo spíttist ég framhjá henni. Hún var mín meginn og dekkið farþegameginn rétt lafði inni á veginum. Bíllinn snérist og skrensaði og skultaðist aðeins á milli kantanna en svo hélt ég bara áfram. Veit ekki alveg hvort gröfukarlinn sendi mér fingurinn eða hvað, hefði pottþétt átt það skilið.
Lenti á Þórshöfn rétt tæpum tveim tímum eftir að ég lagði af stað frá Egilsstöðum, sem er ekki svo slæmt miðað við þoku og vegagerðaframkvæmdir á leiðinni.
Fór beint í Gunnarsstaði og þar beið Pabbi og Gummi og við fórum af stað suður. Stoppuðum í Álftagerði í miðnæturkaffi og vorum komin hingað í nótt.

En það sem á daga mína hefur drifið... Byrjaði að vinna á mánudaginn. Fór á þriðjudaginn upp í Kárahnjúka og sólbrann duglega. Var að þversniðsmæla veg þarna uppfrá og gerði ekkert annað en labba fram og til baka og taka punkta reglulega. Andlitið og axlirnar komu verst út hvað sólbrunann varðaði. En þvílíkt yndislegt að vera bara þarna, labba um og mæla í sól og blíðu. Nú langar mig bara að gerast mælingarmaður og vinna bara við það.

Fór á tónleika með Jóni Ólafssyni og það var hrein snilld. Átti von því að þetta yrði aðeins formlegra en maðurinn var alveg í essinu hvað brandara varðaði. Hann var bara að spila, spjalla og segja brandara.

Annars er ég bara að vinna sem er fínt. Fékk að reikna varmatap í hús og gera ofnaskrá, teikna kennisnið og gaufast í þversniðum, prenta og ganga frá útboðslýsingu o.s.frv.. Ykkur finnst þetta kannski ekki neitt merkilegt en mér finnst ótrúlega gaman að fá aðeins að vera með í svona og sjá hvernig þetta gengur fyrir sig.
Ég klúðrað samt smá, var að setja út fyrir einhverjum skurði og fattaði ekki að skrifa hæðina á hælana. Það var einhver smá misskilingur en ég fór bara daginn eftir með hæðakíkinn og skrifaði á helvítis staurana.

En ætla að fara að fá mér skyr með Sirrý, Grétu og Gumma... ta ta

Monday, May 24, 2004

Fyrsti dagurinn í vinnunni og ég snýst í hringi og er að reyna að komast inn í hlutina hérna.

Sunday, May 23, 2004

Hæ, hæ.

Bara að láta ykkur vita það að ég er ekki dauð!!! Ég er bara búin að vera heima í sveitinni og ég nenni ekki að fara á netið þar... gömul tölva + ISDN...hmmmmm.

En annars er ég bara búin að vera rollu-ljósmóðir undanfarna daga, fara á hestbak og leika við hundinn minn. Lífið hefur bara verið ljúft, en nú fer alvaran að taka við... Fyrsti vinnudagurinn á morgun! Það verður nú frekar furðulegt að byrja aftur að vinna.

Bý hjá Tengdó þessa dagana. Fæ húsið í næstu viku og enn einu sinni fer ég að flytja inn! Ég er hissa á því að dótið mitt skuli ekki enn vera farið að hlaupa sjálft ofan í kassana þegar ég klappa. Það ætti að vera farið að rata þangað !!!

En annars hefur allt sinn vana gang... ta ta

Saturday, May 15, 2004

Ótrúlega sniðugur þessi tími. Ég var að lesa... einn sólarhring enn... einn sólarhring enn... en eftir fjóra tíma og 34 mínútur verð ég akkurat í þann mund að yfirgefa prófstað, í síðasta skipti þessa önnina.... Og þá er komið sumarfrí! Jaba daba! Guð hvað ég verð fegin. Ég á svo sem ekkert von á því að ganga neitt ofur vel í þessu prófi sem ég er að fara í, en mér er eiginlega sama. I've had enought!

Oks... fjórir tímar og tvær mínútur, tíminn er strax farinn að spæna af stað. Þetta er að verða búið, þetta er að verða búið, smá enn, pínu pons.... Sko núna eru bara fjórir tímar og 31 mínúta...Alveg Mega!

Friday, May 14, 2004

Ég nenni ekki að læra meir... ég er totally búin á því og það er eitt próf eftir, reiknileg aflfræði á morgun. Uppáhalds fagið mitt og ég hreinlega nenni ekki að læra það. Horfði meira og minna á danska brúðkaupið í dag. Sá allt kóngafólkið, tók þetta meira að segja upp svo ég geti horft á þetta aftur...

En hvar er lokaspretturinn... mér líður eins og ég hafi hlaupið 41.950 kílómetra og ákvað þá að það væri komið nóg af svo góðu. Mig langar að sofa út á morgun, prófið er eftir hádegi. Ég er búin að fá nóg af því að vakna kl.6 á morgnana og fara að læra og læra samt frameftir á kvöldin. Mér er illt í öxlunum og orðin stíf í hnakkanum af því að sitja við skrifborðið og stara á bækurnar. Þetta er bara ekki hollt... Held áfram að hugsa, einn sólarhring enn, bara einn enn. Sólarhringar hafa liðið frekar fljótt hingað til, en ég nenni ekki að upplifa akkurat þann næsta. Nema kannski bekkjarpartýið á Gauknum annað kvöld.

En það þýðir ekki að væla þegar nálgunar-brúunar-föll bíða eftir að vera leidd út... Crap!!

Thursday, May 13, 2004

Hverjar eru líkurnar á því að tölvan hrynji? Á síðustu og verstu tímum eru þær töluverðar... Áhættuhópar => WINDOWS STÝRIKERFI (drasl, go Linux...). Það sem eykur áhættuna er: þú ferð mikið á netið, þú download-ar alls kyns drasli, tónlist og myndum og fríum eða ,,fengnum að láni" hugbúnaði, þú ferð inn á tilveruna og batmann, þú hræri mikið í tölvunni hvað þung forrit varðar og vippar til þungum file-um... niðustaða tölvan hrynur. En ef þessi atriði væru ekki fyrir hendi þá værir þú með ritvél í höndunum... Nema náttúrulega að þú hafir greind og gáfur til að nota Linux og losnaði þar með við þetta allt saman (vonandi). Niðurstaða: B.G. er fúskari og peningaplokkari með lélega forritara. Það eina sem stöðvar allsherjar uppreisn eru hinir almennu notendur sem halda áfram að borga fúlgu fjár fyrir þetta drasl og fljóta með í hringiðu svika og pretta.
Kínversku, frekar en Japansku, skólayfirvöldin settu stólinn fyrir dyrnar og neituðu hreinlega að taka þátt í þessu. Þar læra krakkarnir í skólanum á Linux eða Unix og ekkert múður. Ef þau vilja taka þátt í svikamyllunni þá verða þau að gera það utan skóla og á eigin áhættu.
Núna er ég s.s. að keyra tölvuna á einhverju hard-core windows-save-mode af því að restin er hrunin. Ég þarf að reyna að redda öllu dótinu mínu út úr tölvunni til að geta sett upp nýtt stýrikerfi, því hitt heldur áfram að restart-a sér viðstöðulaust. Þetta virðist ekki vera Sasser, en eflaust eitthvað svoleiðis afbrigði. Ég veit samt ekki hvort það er verra eða betra að þessir tölvu-nord-ar halda áfram að búa til þessa vírusa sem halda áfram að ráðast á windows stýrikerfi. Þar er náttúrulega úrval af alls kyns göllum og því auðvelt viðureignar að stúta því. En helv... hann B.G. græðir nú örugglega helling á því, af því að fólk fer bara og kaupir sér nýja tölvu, eða borgar morð fjár fyrir að láta losa sig við vírusinn.
En það þarf nú ekki vírus til, það getur nú líka hrunið af sjálfu sér og ótrúlegt en satt þá bera þeir sem létu þig borga fyrir þetta (innsetning innifalin í verði) enga ábyrgð.

Svo eru svona atriði eins og ég má ekki fá ávísannahefti og vísakort fyrr en ég er 18 ára. Ég skil vel að ég fái ekki að keyra bíl fyrr en eftir vissan aldur, ég gæti hæglega drepið einhvern, en ég drep engann með ávísannaheftinu. Ég hef bara ekki þroska til að meðhöndla það og skrifa bara út helling af gúmmítékkum og bankinn fær aldrei neitt inn.
Svo eru þessi litlu krakkaógeð á netinu að búa til vírusa, sem ráðast á eigur annara. (hugbúnaður hlýtur að teljast eigin fyrst hægt er að fá einkaleyfi á honum og þú borgar fyrir hann). Hafa þau vit og þroska til þess að vera á netinu? Nei... en af því að þetta er ekki einhver stofnun sem hefur hagsmuna að gæta (eins og bankarnir) og eiginlega bara ágætt að vírusar hreinsa út öðru hvoru og fólk drattast til að KAUPA eða BORGA fyrir enduruppsetningu þá er þetta allt í lagi.

Ég er frekar irriteruð út í mína ástkæru tölvu þessa stundina, ég veit samt að það er ekkert sem hún getur að þessu gert nema þola eina straujun enn.

En hérna er eitthvað handa þeim sem ekki nenna að lesa um tölvudót og vilja halda áfram að láta sér standa á sama, þangað til þeirra eigin tölva fer!!! Múhehhehehhe and don't say I didn't warn you!


Þrjár sannanir fyrir því að Jesú var mexíkani:

Hann hét Jesú
Hann talaði tvö tungumál
Hann hafði aldrei frið fyrir yfirvöldum


Sömuleiðis eru líkur á því að Jesú hafi verið svertingi:

Hann kallaði alla "bræður sína"
Hann var hrifinn af gospel
Hann fékk aldrei sanngjarna málsmeðferð hjá yfirvöldum


En það gæti líka vel verið að hann hefði verið Gyðingur:
Hann fetaði í fótspor föður síns
Hann bjó heima þangað til að hann var 33gj ára
Hann notaði olivuoliu

Þrjár sannanir sem sýna sterklega að Jesú hefði vel getað verið ítalskur:
Hann baðaði út höndunum þegar hann talaði.
Hann drakk vín með hverri máltíð
Hann var viss um að mamma sín væri hrein mey og mamma hans var viss um að hann væri Guð


Þrír möguleikar sem sýna að hann hefði getað verið frá
Kaliforníu


Hann lét aldrei klippa sig
Hann gekk berfættur
Hann lagði grunn að nýrri trú


En það er þó mjög líklegt að hann hafi verið Íri

Hann giftist aldrei
Hann elskaði að vera úti í náttúrunni
Hann var sífellt að segja sögur


EN....það líklegasta er að Jesú hafi verið KONA

Hann var neyddur til að fæða fjölda manns án fyrirvara þótt ekki væri nokkur matur til !!!!!!
Hann reyndi að að láta rödd sína heyrast meðal fjölda karla sem ekki föttuðu baun
Þrátt fyrir að hann væri dáinn, varð hann að rísa upp aftur því það var meira sem hann átti eftir að gera !!!!!!!!!!

Monday, May 10, 2004

Jæja... nú er ég loksins búin með stærðfræðina og get farið að sinna einlægum blogg-aðdáendum mínum ;)
Prófið gékk ágætlega held ég, nema að ég kolféll á tíma. Ég er svo ótrúlegur silakeppur að því fá engin orð lýst. Ég skrifaði samt á prófið aftast að hann hlyti að finna 47,5 punkta þarna og ef ekki þá skyldi hann leita aftur með rétta hugarfarinu... Vona að hann fari nú eftir því.

En ég er svo dofin í hausnum að mér dettur ekkert í hug. Er farin að sofa...

Thursday, May 06, 2004

Ágætis viðbót við síðustu skrif, stal þessari mynd af Gunna. Vona samt að þetta gildi ekki núna fyrst stærðfræðiprófið er næst !

Wednesday, May 05, 2004

It's just one of those days
you don't wanna wake up.
Everybody fucks,
everybody sucks.
You don't really know why,
but you wanna justify,
to rip someone's head off !!!!!!

Tuesday, May 04, 2004

Í dag gerðist sá merki atburður að ég fór í eitt það ömurlegasta próf sem samið hefur verið fyrr og síðar.

Var bara í góðum fíling í morgun, með svona smá verk í maganum en smá spenning. Tók því bara rólega, kláraði að fara yfir efnið, rölti svo til Ástu og við fórum í prófið. Fyrir utan hitti maður hina og það voru allir með bogann svona hæfilega spenntan. Konan kallaði á okkur inn í stofuna og ég var í sæti númer 20, hæfilega aftalega og til hliðar. Merkti prófið, það er alltaf svona smá moment áður en maður opnar og sér hvað er fyrir innan. Svo byrjaði ég að skoða prófið... fyrsta dæmið, leit allt í lagi út en það voru g-liðir. Dæmi tvö var líka á þeirri síðu og það var ekki skárra, margir liðir. Eftir að ég sá þessi dæmi átti ég bara von á þrem dæmum á prófinu, kannski fjórum. Það voru 6 dæmi á prófinu og enginn staðinn upp þegar tíminn var búinn. Þetta er svo ótrúlega fúlt. Ég fattaði strax þarna í byrjun að nú yrði að slá í Blesa, en þar sem hann var bæði haltur og latur þá var ég búin með fjögur dæmi, einhverjir liðir þar af hálfkláraðir og sleppti einhverjum, þegar 20 minútur voru eftir. Á minni lífsins ævi hef ég aldrei skrifað svona illa, ekki einu sinni þegar ég ákvað að gerast örvhend og skrifaði með vinstri í nokkrar vikur. Maður fær verk í magann og maður finnur þegar blóðið fer úr hausnum og það verður erfiðara að anda. Svo er þetta svo vonlaust, maður veit að maður nær aldrei að klára þetta, reynir að gera þau dæmi sem maður getur best, fer að efast, byrjar á næsta dæmi, fattar allt í einu að hitt var skárra, fer aftur að einbeita sér að því. Svo í öllu tímaleysinu, þegar konan sagði að það væru fimm mínútur eftir þá var maður alveg punkteraður... á ég að byrja á einu dæmi enn, kannski tveim eða þrem eða er betra að sleppa því. Það skiptir varla svo miklu héðan af. Svo sígur maður bara saman og fer að horfa út um gluggan eða eitthvað. Þegar hún segir svo að tíminn sé búinn þá finnur maður sér eitthvað til að skrifa til að láta það líta út eins og maður sé önnum kafinn, þegar maður veit ekkert hvað af þessu maður ætti helst að ráðast á.
Að einbeita sér í þrjá tíma samfleitt er gríðarlega erfitt. Maður verður svo þreyttur í hausnum á eftir. Svo kom maður út, ég er alltaf svo sein að taka saman dótið mitt þannig að flestir voru komnir út á undan mér. Svo kemur maður fram og horfir á hina og spáir í hvað þau séu að hugsa. Hvað ef þau segja... rosalega var þetta fínt próf, mikið var...? En sem betur sagði það enginn, einhver sagði hina margrómuðu íslensku setningu... jæja... og Begga hvæsti. Mikið var gott að heyra Beggu hvæsa, mig langaði að berja einhvern en lét það nú ekki eftir mér fyrst kennarinn lét ekki sjá sig og hinir höfðu nóg á sinni könnu. Sumir eru með hiksta þessa dagna og eiga það fyllilega skilið.
Ég átti þetta á hinn bóginn hreinlega ekki skilið !

Hringiða geðveikinnar á sér ekkert upphaf og engan endi

Alveg ótrúlegt. Ég er núna búin að hafa þó nokkurn tíma til að læra fyrir þetta blessaða próf sem ég er að fara í á morgun. Mér fannst þetta frekar, eiginlega óyfirstíganlega, leiðinlegt fag en núna, loksins þegar ég drattaðist til að skoða þetta eitthvað þá er þetta bara ótrúlega sniðugt og reiðinnar ósköp af alls kyns speki, þarna á milli í allri þvælunni, sem þessi bók býður uppá. Þannig að eftir að hafa eytt u.þ.b. 110 dögum í þessu fagi þá allt í einu fattaði ég að það er kannski ekki alveg út í hróa... síðasta sólarhringinn fyrir próf, og náttúrulega aðeins of seint því núna langar mig að geta lært svona aðeins lengur og stúderað þetta pínulítið, ekki bara að læra þetta til að fara í gegnum prófið. Ég á enga kostra völ og þarf því að þjösnast í gegnum þetta án þess að fá nokkuð að upplifa í þessu fagi sem eitthvað varið væri í. Líkt og fyrri daginn, sumt breytist aldrei. Ég er bara búin að eyða 16 árum af minni lítilfjörlegu ævi í skóla, það er nú kannski ekki hægt að ætlast til þess að maður fatti allt og læri inn á allt í fyrstu, annari jafnvel þriðju tilraun, en þetta er ÞRÍTUGASTA OG ÖNNUR prófatíðin mín. Segir þetta manni ekki eitthvað? Hverjar eru líkurnar á því að þetta gangi í þrítugustu og þriðju tilraun? En ég ætla ekki að fara að hugsa fyrir því strax.

Er að hugsa um að fara á morgun og kaupa mér línuskauta og gá hvort það hjálpi mér ekki við stærðfræðiprófið. Það er aldrei að vita, það er örugglega alveg eins góð tillaga og hver önnur. En best að læra smá vatnafræði !