Tuesday, May 04, 2004

Í dag gerðist sá merki atburður að ég fór í eitt það ömurlegasta próf sem samið hefur verið fyrr og síðar.

Var bara í góðum fíling í morgun, með svona smá verk í maganum en smá spenning. Tók því bara rólega, kláraði að fara yfir efnið, rölti svo til Ástu og við fórum í prófið. Fyrir utan hitti maður hina og það voru allir með bogann svona hæfilega spenntan. Konan kallaði á okkur inn í stofuna og ég var í sæti númer 20, hæfilega aftalega og til hliðar. Merkti prófið, það er alltaf svona smá moment áður en maður opnar og sér hvað er fyrir innan. Svo byrjaði ég að skoða prófið... fyrsta dæmið, leit allt í lagi út en það voru g-liðir. Dæmi tvö var líka á þeirri síðu og það var ekki skárra, margir liðir. Eftir að ég sá þessi dæmi átti ég bara von á þrem dæmum á prófinu, kannski fjórum. Það voru 6 dæmi á prófinu og enginn staðinn upp þegar tíminn var búinn. Þetta er svo ótrúlega fúlt. Ég fattaði strax þarna í byrjun að nú yrði að slá í Blesa, en þar sem hann var bæði haltur og latur þá var ég búin með fjögur dæmi, einhverjir liðir þar af hálfkláraðir og sleppti einhverjum, þegar 20 minútur voru eftir. Á minni lífsins ævi hef ég aldrei skrifað svona illa, ekki einu sinni þegar ég ákvað að gerast örvhend og skrifaði með vinstri í nokkrar vikur. Maður fær verk í magann og maður finnur þegar blóðið fer úr hausnum og það verður erfiðara að anda. Svo er þetta svo vonlaust, maður veit að maður nær aldrei að klára þetta, reynir að gera þau dæmi sem maður getur best, fer að efast, byrjar á næsta dæmi, fattar allt í einu að hitt var skárra, fer aftur að einbeita sér að því. Svo í öllu tímaleysinu, þegar konan sagði að það væru fimm mínútur eftir þá var maður alveg punkteraður... á ég að byrja á einu dæmi enn, kannski tveim eða þrem eða er betra að sleppa því. Það skiptir varla svo miklu héðan af. Svo sígur maður bara saman og fer að horfa út um gluggan eða eitthvað. Þegar hún segir svo að tíminn sé búinn þá finnur maður sér eitthvað til að skrifa til að láta það líta út eins og maður sé önnum kafinn, þegar maður veit ekkert hvað af þessu maður ætti helst að ráðast á.
Að einbeita sér í þrjá tíma samfleitt er gríðarlega erfitt. Maður verður svo þreyttur í hausnum á eftir. Svo kom maður út, ég er alltaf svo sein að taka saman dótið mitt þannig að flestir voru komnir út á undan mér. Svo kemur maður fram og horfir á hina og spáir í hvað þau séu að hugsa. Hvað ef þau segja... rosalega var þetta fínt próf, mikið var...? En sem betur sagði það enginn, einhver sagði hina margrómuðu íslensku setningu... jæja... og Begga hvæsti. Mikið var gott að heyra Beggu hvæsa, mig langaði að berja einhvern en lét það nú ekki eftir mér fyrst kennarinn lét ekki sjá sig og hinir höfðu nóg á sinni könnu. Sumir eru með hiksta þessa dagna og eiga það fyllilega skilið.
Ég átti þetta á hinn bóginn hreinlega ekki skilið !

0 Comments:

Post a Comment

<< Home