Friday, April 29, 2005

Hafið þið einhvern tímann spáð í það...

Þegar maður er að labba úti, upp í skóla eða eitthvað og er alltaf að mæta fólki sem maður þekkir mismikið. Þegar maður mætir fólki sem maður þekkir það mikið að maður þarf að heilsa (almenn kurteisi) og einstaka sinnum spjallar við það; veltið þið því aldrei fyrir ykkur hversu nálægt viðkomandi þarf að vera til maður heilsi.

Dæmi:
Maður labbar eftir gangstéttinni og sér að viðkomandi aðili er stundarkorn frá. Viðkomandi lítur upp og þekkir mann, berar aðeins tennurnar og nikkar, þekkir mann. Svo er þetta móment þar sem báðir aðilar labba gegnt hvor öðrum... Maður heldur ekki bara áfram að brosa og horfa á viðkomandi þegar maður labbar nær honum. Maður fer að horfa eitthvað annað og bíða eftir því að vera nógu nálægt til að segja hæ eða góðan daginn. Ef maður segir það of snemma kemur annað enn furðulegra móment þar sem maður er enn að labba gegnt viðkomandi búinn að heilsa en hefur svo sem ekkert annað að segja. Labbar bara áfram með sólheimaglott á fésinu þangað til maður er kominn framhjá.

Svo lendir maður í því, oft hérna á görðunum að mæta sama fólkinu aftur og aftur. Fyrst stoppar maður aðeins og spjallar, ef þetta er t.d. einhver gamall MA ingur og mann langar í smá fréttir af viðkomandi. Samræðurnar enda á... gaman að sjá þig og gangi þér vel í prófunum. Svo fer maður upp í skóla eða eitthvað og mætir viðkomandi aftur á leiðinni heim. Sama dæmið gerist aftur, sjá grein eitt.

Er ekki hægt að skilgreina þessa fjarlægð...

heilsunarfjarlægð := 10 m miðað við 6m/s gönguhraða og 512 atkvæði/min talhraða.

Wednesday, April 27, 2005

Einu sinni, oft sem áður...

var par sem hétu Gummi og Katrín. Þau fóru til Afríku og voru í rómantískri kvöldgöngu utan við tjaldbúðirnar. Sjá þau ekki hvar stórt og hræðilegt ljón læðist að þeim í grasinu.
Katrín rífur af sér bakbokann veður ofan í hann og nær í nýju NIKE sína og hamast við að festa þá á bífurnar.
Gummi í skelfingu sinni tekur utan um sína ástkæru eiginkonu og sagði: ,,En elskan mín, við getum ekki hlaupið undan ljóninu. Eigum við ekki bara að njóta síðustu mínútnanna saman".
Katrín: Gummi minn, ég veit alveg að við getum ekki hlaupið undan ljóninu, en ég þarf bara að hlaupa hraðar en þú ;)

Próf !!!

Og ég nenni ekki að læra. Hvað getur maður eiginlega verið latur?

Svo er ég algjör snillingur, mér tókst að týna einni möppunni minni, sem inniheldur öll heimadæmi, glósur og blöð frá kennaranum í Vega og flugbrautagerð. Geri aðrir betur! Hún er horfin af yfirborði jarðar og ég skil ekki hvað varð um hana. Held að hún hafi farið á flakk uppi í skóla og sé þar einhversstaðar í reiðuleysi, en þrátt fyrir mikla leit finnst hún ekki.

Fór til Sirrýar um helgina, í fína stutta gallapilsinu mínu og hnéháum skóm. Svo þegar ég kom á staðinn þá voru allir enn að smíða þannig að ég fékk bara lánaðan galla hjá Gumma og gat þá klifrað upp um alla veggi og þök án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að einhver væri að horfa undir pilsið. (Gerði það aðallega fyrir þá, svo ég myndi ekki trufla þá við smíðarnar) Pilsið var hvort eð er það stutt og gallinn það klofsíður að það skipti ekki máli. Það hefur verið frekar skondið fyrir þá sem voru þarna þegar við vorum að fara í mat þegar ég fór úr gallanum og í ljós kom mínipils, rússkinsskór og stuttur bolur.

Mig langar svo að finna mér einhverja íþrótt til að æfa. Það er fínt að hlaupa en maður er alveg aleinn og ræður sér alveg sjálfur (sem hefur sína kosti og galla). Mig langar að prófa að æfa eitthvað þar sem er þjálfari og maður þarf að fylgja einhverju prógrammi. En spurningin er hvað...

Fótbolti... hef tvisvar beinbrotið aðra manneskju í fótbolta, sem, eins og gefur að skilja, er vísir á það að ég er ekkert sérlega góð í fótbolta. Það sama á við um körfubolta, þar er ég náttúrulega afspyrnu léleg. Hef aldrei spilað handbolta. Allar svona íþróttir eru fyrir fólk sem kann eitthvað smá, það er ekkert gaman að vera algjör byrjandi.

Frjálsar eru bara leiðinlegar + það að maður dettur ekkert af himnum ofan 23 ára gamall og fer að æfa frjálsar. Ég ætti kannski bara að skrá mig í fimmþraut og sjá svo til ;) Tala í símann, borða, sofa, lesa og tölvast er fimmþraut sem ég stunda af lífi og sál!

Áflog... Natural born! Kemur af því að eiga eldri bróðir og hafa barist fyrir lífi sínu frá blautu barnsbeini -survival of the fittest! Þar er reyndar einu staðirnir sem bjóða upp á byrjenda-eitthvað.

Sund... get varla talist synd. Drukkna í hvert skipti sem ég reyni að synda skriðsund.

Joga -er það ekki aðallega skrítið fólk? Örugglega fínt í hófi, en það vantar kraft í það.

Eru einhverjar uppástungur? Queres ayudarme?

Saturday, April 23, 2005

Verðandi húseigandi... hún Sirrý systir!

Stundum gæti maður haldið að maður sé að verða fullorðinn, tilfinningin læðist aftan að manni en er jafnóðum kýld niður. Þessi tilfinning kemur samt alltaf öðru hvoru, eins og áðan þegar Sirrý systir hringdi og sagði að það væri verið að fara að reisa síðustu sperruna í þakinu á húsinu hennar og þá yrði flaggað. Bráðum (það er samt hellings vinna eftir) verður hún orðin húseigandi og býr á sínu eigin heimili með mann, barn og kött. Systir mín, sem er bara pínu eldri en ég, þó að ég sé miklu yngri en hún ;)

Best að drífa sig upp í kaggann, renna á Hvanneyri og halda upp á þetta með þeim. Próflesturinn verður aðeins að bíða.

Svo á Ringa afmæli í dag. Ætli maður drífi sig ekki á Hressó og haldi upp á það líka ;).

Friday, April 22, 2005

Boy, oh boy!

Mætti hérna kl. 8 í morgun og núna er klukkan hálf þrjú og ég er enn hér! Hljóp að vísu aðeins heim í kvöld, kíkti á Láru og fór svo uppeftir aftur. Er stödd uppi í VR II, Verkfræðistofu 3. árs, my second home... eiginlega my first home þessa dagana. Klukkan er hálf þrjú og ég er að hugsa um að fara heim og hlýja karlinum mínum aðeins í svona 5 tíma eða svo þar sem ég þarf að vera mætt aftur hingað kl. 8 í fyrramálið...

Það líður að prófum og ég verð hreinlega uppgefin þegar þau hefjast...

Wednesday, April 20, 2005

Hvað ætli það fari mikið af peningum í umferðaóhöpp á ári hverju?

Hef núna verið að keyra bíl sl. 5 mánuði í Reykjavík og lent í 4 árekstrum. Svo var ég að fara að sofa í fyrradag, heyri bíl keyra in botlangann og eftir smá stund BÚMM!. Ég gáði út um gluggann og þá var það einhver stelpa á gráum bíl sem keyrði á kyrrstæðan bíl á bílastæðinu. Megnið af þessum árekstrum er af því að bílum á stúdenta er lagt þvers og kruss því það eru svo fá bílastæði. Ég er viss um að sé til lengri tíma litið myndu þessir árekstrar sem verða þar, einungis af völdum bílastæðaleysis, borga gerð fleiri bílastæða í nánd við garðana.

Ég skoðaði bílinn þegar ég labbaði framhjá honum morguninn eftir og þetta var 4 stóra beyglan á bílnum. Og ef maður fer að spá í það þá eru ótrúlega margir bílar með beiglu eftir minni árekstra.
Hvernig verður þá að keyra mótorhjól hérna í Reykjavík? Það er ekkert grín ef einhver bíll rekst aðeins utan í mann og maður flýgur tugi metra. Maður verður ekki lengi að smyrjast út í malbikið.

Meira að segja ég get keyrt í borginni svo þetta er ekki vegakerfið. Er ökukennsla svona léleg á Íslandi eða hvað?

Bílslys á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar kosta um 200 milljánir á hverju ári. Það væri hægt að nota þessar krónur í eitthvað miklu sniðugara en að rétta bíla og sprauta. Ég gæti hæglega þegið þær ;)

Monday, April 18, 2005

Ég hefði átt að gerast prestur !!!

Fjallræðan hefði verið eins og vögguvísa miðað við fyrirlesturinn sem ég var að flytja. Mér finnst svo erfitt að tala fyrir framan fólk. Hjartað er bara nonstop og ég verð eins og epli í framan. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort fólk heyri ekki í trumbuslættinum, ég geng til og frá í látunum.
Svo þegar ég verð stressuð þá hækka ég róminn, kveð fast að hverju orði og tala hratt. Svo heyri ég í sjálfri mér og mér finnst bara eins og ég sé að lesa dauðadóminn yfir bekknum, frekar en lýsa vatnsvernd á Reykjanesi.En það tók enginn eftir þessu nema ég!
Hvers vegna er þetta svona erfitt?

Thursday, April 14, 2005

Á dauða mínu átti ég von... en ekki þessu!

Um páskana var ég viss um að ég myndi enda í vinnu hjá Gumma í sumar. Það hefði svo sem ekki verið svo slæmt nema fjárhagurinn minn er ekki upp á marga fiska og ég þyrfti einhvera vel borgaða vinnu til að rétta úr honum. Ég er orðin svo andsk. mikil eyðslukló ;), erfitt að breyta þeim lífsstíl.

Ég var að fá upphringingu með boði um þriðju vinnuna, á þriðju verkfræðistofunni. Mér sem finnst ég koma svo fáránlega út úr starfsviðtölum. Ég er alltaf að reyna að passa að það verði enginn misskilningur í gangi og segja hvað ég vil og hvernig ég vil hafa hlutina, þannig að ég kem út eins og algjör gribba (sem er kannski ekki svo fjarri lagi).
Ótrúlegt en satt þá er greinilega til fólk sem vill fá gribbur í vinnu.

Það sem er pínu að plaga mig er að ég sótti bara um á 5 stöðum, allt stöðum sem mig langar til að vinna á og fannst athyglisverðir. Svo er lítill púki alltaf að hvísla ,,valdiru rétt? Er þetta staðurINN? vinnAN?" Ég veit ekki betur, mér finnst það og ætla að trúa því þangað til annað kemur í ljós. Þessi ákvörðun var tekin m.t.t. bestu vitundar viðkomandi. SO BE IT!

Múhehehe... at this moment sem ég var að skrifa þetta þá hringdi fjórði aðilinn og bauð mér vinnu. Eins gott að ég fari að drífa mig í að festa hina vinnuna því þetta var síðasti aðilinn sem ég sótti um hjá. En ég er komin með samning í hendurnar og fer á morgun og skrifa undir, to be sure!

Wednesday, April 13, 2005

Úff... hvað er ég nú búin að koma mér í?

Þessi litla ég, sem lenti í formlegu starfsviðtali. Þetta er þriðja starfsviðtalið sem ég fer í um ævina og öll í sl. viku. Viðtalið fór fram í fundarherbergi og þar komu framkvæmdastjóri og starfsmannastjóri og ræddu við mig. Ósköp viðkunnalegir, en tiny hjartað mitt barðist um eins og óður hestur í brjósti mér. Ég reyndi að brosa og sýnast eðlileg; það virðist hafa virkað. Þeir féllu fyrir því.
Núna er ég komin með starfssamning í hendurnar, þrjár blaðsíður, sem ég þarf að undirrita og væntanlega standa skil á í framhaldi af því.
Ég held þeir séu eitthvað að misskilja þetta, kaupa köttinn í sekknum. Þetta er bara litla, pínulitla ég og mig langar bara að vinna hjá þeim. Það þarf ekki allt þetta bras...

Monday, April 11, 2005

Jæja, nú er það komið á hreint hvar ég verð að vinna í sumar. Er komin með vinnu og ótrúlegt en satt þá fékk ég tvær vinnur sama daginn. Þá var að velja


Reynsla í jarðtækni => Hef ekki unnið við grautun og bergþéttingu, langar að prófa það og jafnvel fara í það í sérnám
versus
Reynsla í mælingum => Hef unnið í mælingum, langar að bæta þekkinguna og fara í þetta í sérnám.

Unnið myrkranna á milli í langan tíma og löng frí inni á milli => Geri ekkert nema vinna og útilegur þess á milli.
Versus
Unnið venjulegan vinnudag, stundum yfirvinna og yfirleitt helgarfrí => Get farið í ræktina og átt mér smá líf.

Unnið uppi á fjöllum=> Bý í vinnubúðum, framleigi íbúðina og á hvergi heima, geri ekkert nema vinna.
versus
Unnið í Reykjavík => Kemst í köfun, hér í köldum sjó, á einhversstaðar heima, Gummi á næsta leyti.

Margir nýir sumarstarfsmenn ráðnir=> margir komast að og hálfur bekkurinn er að fara að vinna þarna.
Versus
Ég ein ráðin ný á stofuna yfir sumarið=> minna félagslíf í vinnunni, kynnist meira nýju fólki og lendi ekki í að hella upp á kaffi alla daga.

Vinirnir eru í Reykjavík, og Axel, Sirrý, Gummi og Hóa koma oft þangað => Hvers virði er lífið án vina og ættingja?
Versus
Það koma fáir upp á fjöll að heimsækja mann=> þetta eru nú ekki nema rúmlega tveir mánuðir, stundum er nú bara ágætt að fá smá frið ;)

Ofurvel borgað og vinna frá sólarupprás til sólarlags => Möguleikar á Kawazakí Vulkan og nýjum fötum.
Versus
Venjulega borguð vinna og einhver yfirvinna => Slepp alveg með sumarið, á fyrir salti í grautinn en ekkert meira en það.


Ég er eiginlega forlagatrúar og hlutirnir eiga bara að ganga fyrir sig eins og þeir gera. Mér finnst alveg voðalegt þegar ég þarf sjálf að taka einhverjar mikilvægar ákvarðanir því mér finnst alltaf eins og ég standi og falli með hverri ákvörðun. Það er svo þægilegt að fá bara að fljóta með.
Hvort haldið þið að ég hafi valið? And why?

Friday, April 08, 2005

Það eiga allir sér draum...



Og mig langar svoooo að ég finn til. Löngunin leggst yfir mig eins og mara og mergsýgur úr mér lífshamingjuna. Þetta er það síðasta sem maður hugsar um áður en maður fer að sofa og það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður vaknar.
Ég er farinn að skilja fólk sem spilar í lottó og rænir banka! Þetta rænir mann allri skynsemi!

Wednesday, April 06, 2005

Takið eftir, takið eftir ...

Veiðimálastofnun hefur gefið út nýtt veiðileyfi! Borgað er fyrir hvern og einn 25.000 kr, 75.000 kr. fyrir hverja tvo í skoti og 150.000 fyrir hverja þrjá sem nást í einu. Eina skilyrðið sem sett er að viðkomandi þarf að vera arkítekt, að læra arkítekt eða hafa hugsanlega einhverntímann ætlað sér að fara í arkítektinn. Undanskildir eru þau tvo sem falla í þennan flokk og eru skyld mér...

Ég bara skil ekki þessa tegund. Ég held við eigum ekkert annað sameiginlegt en að ganga á tveim fótum. Boy oh boy!
Er í hópavinnu með arkítektanemum í LHÍ... Minn arkítekt er svo sem ok., alveg magnaður á pörtum, við erum bara ekki með sömu markmið!
Mér líkar bara ekki fólk sem horfir ekki í sömu átt og ég; ég hef á tilfinningunni að þau hús sem unnin eru af arkítektum séu samblanda af marjuanareykingum, óhóflegri kaffihúsamenningu og þörf fyrir að skera sig út úr hópnum og vera... ÖÐRUVÍSI !!!

Annars er ég bara utanvið mig þessa dagana. Var að keyra upp í búð með Ringu og einmitt að segja henni frá því þegar konan kom við hliðina á mér á rauðu ljósi, á móti umferð og tók ekki einu sinni eftir því þegar Ringa sagði... ,,En Katrín, þú ert að keyra á móti einstefnu..." Svona eru sumir rólegir!

Fór á djammið síðustu helgi, Ný Dönsk á NASA... Það var bara helvíti gaman en það lá við að ég þyrfti að fara heim af miðju djammi sökum hungurs. Ég er í non stop átkasti, ég get ekki labbað í skólann án þess að taka með mér nesti til að borða á leiðinni.

Svo fór ég, og hinir bygg.verkfr.nemarnir í þáttinn til Hemma Gunn, Það var lagið...
Þetta var alveg hreinasta snilld. Það voru teknir upp tveir þættir og við vorum áhorfendur og stuðningslið. Æfðum sérstök Hemma hróp og allt!