Nú komst ég í tölvuna hjá Sirrý systir. Er komin suður aftur til að fara í útskriftina hennar á Hvanneyri.
Dagurinn í gær var alveg súper. Var að klára eitthvað í vinnunni, sleppti mat til að klára fyrr en það tókst ekki betur en svo að ég komst ekki af stað fyrr en korter yfir fimm. Hljóp heim, tók dótið mitt, bíllinn rafmagnslaus í hlaðinu. Fann startkapla, spíttist af stað. Svarta þoka niður alla Hellisheiðina, Vopnafjörðinn og Bakkafjörðinn. Hef aldrei farið aðra eins ökuferð, ég er illu vön með sjálfri mér í bíl en þetta sló öll met. Ef einhver fer um Bakkafjörðinn þá má finna vegavinnukarla utanvegar þar sem þeir hentu sér útaf veginum þegar ég kom á hvínandi siglingu. Tók sjensinn á að mæta engum og keyrði bara eftir minni því ekki sá ég veginn fyrir þoku. Eina verulega vesenið sem ég lenti í var þegar allt í einu var grafa á veginum fyrir framan mig. Ég gerði mér strax grein fyrir því að það var ekki inni í myndinni að stöðva í tæka tíð, bremsaði eins og ég gat og svo spíttist ég framhjá henni. Hún var mín meginn og dekkið farþegameginn rétt lafði inni á veginum. Bíllinn snérist og skrensaði og skultaðist aðeins á milli kantanna en svo hélt ég bara áfram. Veit ekki alveg hvort gröfukarlinn sendi mér fingurinn eða hvað, hefði pottþétt átt það skilið.
Lenti á Þórshöfn rétt tæpum tveim tímum eftir að ég lagði af stað frá Egilsstöðum, sem er ekki svo slæmt miðað við þoku og vegagerðaframkvæmdir á leiðinni.
Fór beint í Gunnarsstaði og þar beið Pabbi og Gummi og við fórum af stað suður. Stoppuðum í Álftagerði í miðnæturkaffi og vorum komin hingað í nótt.
En það sem á daga mína hefur drifið... Byrjaði að vinna á mánudaginn. Fór á þriðjudaginn upp í Kárahnjúka og sólbrann duglega. Var að þversniðsmæla veg þarna uppfrá og gerði ekkert annað en labba fram og til baka og taka punkta reglulega. Andlitið og axlirnar komu verst út hvað sólbrunann varðaði. En þvílíkt yndislegt að vera bara þarna, labba um og mæla í sól og blíðu. Nú langar mig bara að gerast mælingarmaður og vinna bara við það.
Fór á tónleika með Jóni Ólafssyni og það var hrein snilld. Átti von því að þetta yrði aðeins formlegra en maðurinn var alveg í essinu hvað brandara varðaði. Hann var bara að spila, spjalla og segja brandara.
Annars er ég bara að vinna sem er fínt. Fékk að reikna varmatap í hús og gera ofnaskrá, teikna kennisnið og gaufast í þversniðum, prenta og ganga frá útboðslýsingu o.s.frv.. Ykkur finnst þetta kannski ekki neitt merkilegt en mér finnst ótrúlega gaman að fá aðeins að vera með í svona og sjá hvernig þetta gengur fyrir sig.
Ég klúðrað samt smá, var að setja út fyrir einhverjum skurði og fattaði ekki að skrifa hæðina á hælana. Það var einhver smá misskilingur en ég fór bara daginn eftir með hæðakíkinn og skrifaði á helvítis staurana.
En ætla að fara að fá mér skyr með Sirrý, Grétu og Gumma... ta ta