Friday, February 27, 2009

Vissuð þið að númerið á vegabréfinu ykkar breytist þegar þið endurnýjið það? Nú vitið þið það! Lagði inn fyrirspurn á vegabréf.is og þar var svarið að þegar vegabréfið rennur út þá fær maður nýtt númer, allt annað og gamla númerið er ekki lengur gilt.

Þegar ég kom hérna fyrst var ég skráð sem Erasmus nemi og því notuðu þeir númerið á vegabréfinu mínu enda stóð ekki til að vera lengur en ár. Svo þegar ég skráði mig sem venjulegan nemanda í skólann breyttum við ekkert númerinu. Er með spænska kennitölu til að geta verið inni í heilbrigðiskerfinu hérna en nota hana svo sem ekkert mikið. Ætli ástæðan sé ekki helst að hún inniheldur XD sem fór sérlega fyrir brjóstið á mér.
Fór að sækja titilinn minn áðan og tvennt kom í ljós. Annað er að ég þarf að bíða í ár með að fá hann, endanlega útgáfu. Sjálfur konungurinn þarf að undirrita hann, eða embættið hans. Hef litla trú á að hann undirriti alla háskólatitla hjá 45 milljón manna þjóð. Hitt er að titillinn verður skráður undir vegabréfs númerinu mínu. Setti allt á hvolf á skrifstofunni og fór fram á að þessu yrði breytt hið snarasta. Fékk það svar að kerfið sé hannað þannig að ekki sé hægt að breyta grunnupplýsingum um nemendur. Mér er sama þó þeir þurfi að endurhanna kerfið! Prófgráðan mín verður ekki gild undir þessu númeri eftir 2 ár þegar vegabréfið mitt rennur út...

Fór til kennarans míns áðan sem vildi sjá aftur forritunarverkefni sem ég hafði gert í áfanganum hjá honum. Þetta er sami áfangi og sá er ég tók síðasta prófið í. Forritið virkar ekki eins og áður þar sem ég er búin að endur formata tölvuna en svo fyrir skæra tilviljun fann hann gömlu verkefniseinkunina mína og sagðist taka hana gilda. Það sem verra er að hann er búinn að TÝNA PRÓFINU MÍNU!!! Prófinu sem ég var í sl. miðvikudag. Hann er að vonast eftir að það hafi orðið eftir heima en það sem ég skil ekki. Af hverju prófinu MÍNU?

Ég svíf núna um í tómarúminu ,,ég er búin í prófum". Merkilegt hvað maður hugsar alltaf þegar maður er í prófum allt sem maður ætlar að gera eftir próf þegar maður hefur tíma... svo er maður bara í einhverju freaky svartholi og man ekkert hvað þetta allt! var. Það bráðlá samt á því þegar ég var í prófunum!
Man að ég ætlaði að klára peysuna sem ég var að prjóna...
Þrífa íbúðina hátt og lágt...
Fara á lokadaga útsalanna...
Lesa bók sem Axel bróðir sendi mér sem heitir Celestine handritið...
Baka bolludagsbollur...
Kaupa eitthvað sætt handa Gumma fyrir að umbera mig undanfarna daga...
Leika við litla dýrið mitt. Minna hana á að hún á mömmu, þó hún sé eins og hún er...
Update-a heimasíðuna mína... etc...

Í gær þreif ég klósettið.
Nú er að sjá hvað gerist í dag;)

Wednesday, February 25, 2009

Síðasta prófið í höfn! Síðustu fjóra daga er ég búin að læra eins og kú-kú, endað rétt orðin kú-kú! Það hefur gengið alveg ótrúlega vel að læra, þetta alveg ruslaðist inn á minniskubbinn en þvílíkt og annað eins magn af lesefni er bara ekki hægt að komast yfir. Í gær var ég komin niður í úrdrátt úr úrdráttum úr ritgerðarspurningum úr átta þemum. Klukkan 3 í nótt var ég loksins komin með heildarmyndina á þetta. Svaf smá stund, fór á fætur hálf sex og náði síðasta yfirlitinu.

Kennarinn hefur þá kenningu að sjálft prófformið eigi ekki að skipta máli, það á að læra sjálft fagið. Á síðustu prófum hefur komið ein 100% spurning, á öðrum eru 20 krossaspurningar, stundum dæmi, stundum 15 skilgreiningarspurningar... etc. Þetta gerir prófaundirbúninginn öllu verri. Var samt heppin með próf enda var ég búin að undirbúa mig mjög vel. Var samt skít hrædd um að kæmi ein 100% spurning upp úr þema sem ég væri ekki nógu vel að mér í til að skrifa 100% ritgerð. Það hefði verið helvíti fúlt! Félaginn hefur verið í góðu skapi þegar hann gerði prófið. Við vorum þrjú í prófinu, tveir búnnir með allt nema þetta fag, annar búinn að skila og verja lokaverkefnið og allt. Þetta er eitt af þeim fögum sem allir eiga eftir undir það síðasta og væri frábært að ná því og losa sig við þá birgði.

Öskudagur á Íslandi er í dag, hérna á Spáni held ég svei mér þá að það sé alla þessa viku. Á mánudeginum áttu krakkarnir að mæta í búningi í leikskólann. Þær á leikskólanum eru farin að segja okkur sérstaklega frá svona dögum því við höfum enga hugmynd um hvaða dagar eru öðruvísi dagar en hinir. Á laugardagsmorguninn hljóp Gummi í kínamarkaðinn að kaupa búning. Sáum einhvern tímann fullt af alls kyns grímubúningum þegar við vorum að dandalast þar. Gummi var harður á því að dýrið fengi svona prinsessubúning, eitthvað sem mér fannst alveg glatað. Hann vissi bara að allar stelpurnar á leikskólanum yrðu prinsessur og þess vegna væri best að Bergrós Ásta félli í hópinn, vera eins og hinar prinsessurnar. Ég fékk bara að eiga mína skoðun í friði þar sem ég var að læra fyrir próf og hafði engan tíma til að sinna þessu. Gummi fékk því að ráða. Svo kom hann til baka, ekkert smá fúll... Við erum náttúrulega svo miklir drulluhalar að loksins þegar við dröttuðumst til að fara að kaupa búning þá voru allir búningarnir búnnir. Það var bara eftir sveppur sem líktist ekki einu sinni svepp og svo svarskjöldóttur beljubúningur !!!!! Prinsessan hans pabba síns var svarskjöldótt belja... hehehe... The evil mum fannst þetta nú ekki leiðinlegt, ég hreinlega hélt ég dræpist úr hlátri þegar Gummi dró upp búninginn og sjá sorgarsvipinn á honum... Prinsessan breyttist í svarskjöldótta belju... hehehe... og hún var alveg hjartanlega sátt við það.

Á laugardagskvöldið var svo afmæli í blokkinni og allir krakkarnir áttu að mæta í búning. Bergrós Ásta fór náttúrulega í nýja belju búningnum sínum, alsæl með lífið. Það er lítill salur í blokkinni sem íbúarnir fá að nota við svona tilefni og veislan var þar. Þar sem ég var náttúrulega að læra kíkti ég bara aðeins niður með þeim og hélt svo áfram. Við Gummi tókum eftir því að venjulega mættu báðir foreldrarnir, karlarnir líka. Kíkti aftur niður tveimur tímum seinna og þá skildi ég fljótlega af hverju karlarnir mættu með í barnaafmælið... Tveir kassar af bjór, rauðvín og wiskey... Safi og gos handa krökkunum. Klukkan var rétt um 7 að kvöldi og Gummi var bara orðinn helvíti hress sem og hinir karlarnir þarna. Kellingarnar héngu allar úti að reykja og drukku sitt rauðvín (bara rauðvín af því að þær þurftu sko að keyra heim...) og krakkarnir hlupu um í feluleik og eltingaleik, þar á meðal litla beljan mín :)
Ég fór svo aftur niður um hálf tíuleytið að tékka á liðinu. Svarskjöldótta beljan var farin að ráfa um af þreytu, pabbi hennar eiginlega líka en af öðrum sökum... en hún ætlaði sko ekki heim! Það er erfitt að vera lítið partýljón!

Gummi er á því að það þurfi aðeins að brjóta upp munstrið í íslenskum barnaafmælum þannig að pabbarnir hafi líka gaman af því að mæta...

Saturday, February 21, 2009

Leikföng eru æði!



Ég get endalaust labbað um í leikfangabúðum og skoðað alls kyns leikföng. Ég er ekkert sérlega hrifin af barbie og baby born dótinu, það er eitthvað svo yfirþyrmandi. En dót eins og LEGO, playmobile og það eru alveg ofur.

Það er komin Corte Ingles búð hérna í bænum okkar og þar er huges leikfangadeild. Þvílíkt magn af alls kyns spilum og leikföngum. Við förum reglulega að skoða. Bergrós Ástu finnst alveg jafn gaman að fara í leikfangabúðina eins og í garðinn og virðist enn alveg sætta sig við að leikföngin eiga heima þarna. Kyssir þau bara bless og vinkar þegar við förum svo það er ekkert bras... ekki enn minnst kosti.

Það er fullt af dýrum með svona hálfgerða gerfigreind held ég að það kallist. Hundar sem dilla skottinu þegar maður klappar þeim á bakinu, gelta þegar maður klappar þeim á hausnum, hreyfa hausinn þegar maður nálgast einhverja nema nálægt augunum o.s.frv. Þetta er alveg rándýrt dót, enda förum við bara þangað til að leika okkur að því en skiljum það eftir af ástæðu.

Ég kláraði lokaverkefnið mitt fyrir jól. Það fóru nætur og dagar í að liggja yfir því. Ég gerði ekkert annað í tvo mánuði. Það virtist falla í kramið hjá dómnefndinni og þau gáfu mér ,,matricula de honor" sem þýðir 10 í einkunn og svona heiðursábót. Maður getur fengið 10 án þess að fá þetta og maður getur fengið 9 en samt fengið þetta ef hinir 200 í prófinu fengu 5 og maður sýndi einhverja yfirburði. Venjulega fylgir þetta samt tíunni. Ef margir fá 10 þá er samt bara hægt að gefa einum þessa ábót. Þetta var óvæntur glaðningur þar sem þetta verkefni var unnið í hasti og mér fannst ég geta gert það betur á pörtum. Ég held að vegna þess að þetta var óvenjulegt verkefni þá hafi það fengið meiri athygli en annars.
En bónusinn við að fá þessa einkunn er að maður fær endurgreidd skólagjöldin sem maður borgaði fyrir einingar þess áfanga sem maður fékk einkunina í. Hér borgar maður skólagjöld eftir þeim einkunnum sem maður skráir sig í. Það eru um 2000 kall einingin og hver íslensk eining er 2,5 spænskar. Ef maður fellur í áfanga hækkar gjaldið í hvert skipti. Ég held að þess vegna komist kennararnir upp með að fella svona marga hérna. Það er ekkert óvenjulegt að það nái svona 10 til 30% í hverju prófi svo það er fljótt að telja.

En þar sem litli stubburinn minn var hálf mömmu-munaðarlaus þetta tímabil þá lá í augum uppi hver skyldi njóta góðs af þessum óvænta glaðningi. Ferðinni var heitið í dótabúðina og í þetta skiptið skyldum við fara með eitthvað heim. Það var skoðað og skoðað. Ekki sá kassi sem ekki var þukklaður í þaula. Á endanum var valið á milli LEGO eða Fisher Price búgarðsins, Little people.
Kostir hvoru tveggja er að það er hægt að kaupa alltaf inní þetta og bæta við safnið. Gallinn er að þetta kostar augun úr en við vorum hvergi smeikar með fulla vasa af gulli.
Lendingin varð LEGO búgarður, Duplo fyrir litla putta.

Stubbi litli er kannski alveg á mörkunum með að skilja þetta. En hún hefur gríðarlega gaman að dýrunum. Hún er ekkert voðalega fær í að koma þeim inn í húsið og svona, hundurinn fer á bak á hestinn o.s.frv. Svo fer hún á fjórum fótum með bílinn, gerir bílahljóð og allt. Stundum er hesturinn að keyra bílinn og stundum kallinn. Breytir ekki svo miklu.
Bóndahjónin eiga heykvísl sem hún kallar alltaf mano (hendi). Hún er búin að fatta að það er hægt að smella henni í hendina á þeim og þetta er greinilega bara svona framlenging.
Hún velur yfirleitt auðveldara orðið úr íslensku eða spænsku. Öll m-orð og a-orð eru góð. Öll r- og s- orð eru látin vera. Rúsínur eru smá vandamál, enda bráðnauðsynlegt orð í orðaforðann. Þær virðast ekki vera á leikskólanum svo hún notar það ekki þar. Rúsínur urðu því að nuhnína.


Ég held að það sé til annað orð yfir þessa óvæntu góðmennsku móðurinnar. Þetta heitir víst að kaupa sér frið frá samviskubitinu. Ég var bara svo heppin að hafa fengið góða einkunn fyrir verkefnið þannig að ég hafði efni á því. Við höfum ekki farið í dótabúðina síðan þá. Kannski vill hún framvegis alltaf fara með dót heim og því sú skemmtun úr sögunni. Sjáum til hvað gerist...

Thursday, February 19, 2009

Sumir velja rangt augnablik til að fara yfir götuna...
Sumir eyða lífi sínu í dóp
Sumir fara heim með röngum aðila heim...
Sumir fæðast með ranga genabyggingu...
Sumir fæðast inn í ömurlega fjölskyldu...
Sumir eru aldrei hamingjusamir...

Fólk missir ástvini, fólk missir aleiguna...

Mér gékk bara illa í prófi og mér líður ömurlega. Mér finnst lífið ekki sanngjarnt og allt vinnur á móti mér.

Sumir eru eigingjarnir
Sumir eru vanþakklátir...

Ég undirbjó mig mjög vel fyrir þetta próf! Ég var með glósur frá 5 aðilum plús eigin og gerði heildar glósusafn úr þeim. Ég leysti próf aftur til ársins 2003 og gerði úrdrætti úr þeim. Ég reiknaði öll dæmin aftur rétt fyrir prófið, ég fór aftur og aftur yfir fræðihlutann.

Við mættum 10 í prófið. Kennarinn dreifði prófinu og próförkum. Ég sit alltaf fremst, mér finnst óþægilegt þegar fólk situr fyrir framan mig og er á iði eða að brasa eitthvað. Ég vil fá að vera í friði með prófið mitt.
Strax í upphafi stóðu 3 upp og fóru. Sumir kennarar leyfa að sjá prófið áður en þú ákveður hvort þú leysir það eða ekki. Á hverju ári eru 3 próf í hverjum áfanga og maður ræður hvenær maður tekur það. Það má bara mæta tvisvar í prófið ár hvert. Þessi kennari leyfir ekki að fólk sjái prófið og fari. Í upphafi prófsins segir hann skýrt að þeir sem telji sig ekki undirbúna til að leysa þetta próf skuli fara strax annars fái þeir fall.
Þessir þrír fá því 0.
Ég lét augun flökta svona lauslega yfir prófið. Finn hnútinn í maganum magnast, það þrengir að öndunnarveginum og ég þarf að nota magavöðvana til að koma loftinu út. Kennarinn ákvað að breyta forminu á prófinu, hann sleppti öllum dæmareikningi í þetta skiptið. Það blöstu við 6 ritgerðarspurningar. Ég las þær ekki allar, skannaði yfir þær. Sá ég átti að kannast við þrjár þeirra. Ákvað að reyna að ná í alla þá punkta sem fyrirfinnast í þessu prófi og helst aðeins fleiri. Braut upp á prófblaðið þannig að ég sæi bara fyrstu spurninguna og byrjaði að lesa hana hægt yfir aftur og aftur. Skrifa hana í punktum niður á krassblaðið.
Innan við 5 mínútur voru liðnar og þá fóru 2 í viðbót út.
Ég reyndi bara að anda eðlilega, hugsa um eitthvað annað smá stund. Fólkið tók dótið sitt og fór út, tvær stelpur, önnur alveg að missa það. Shit hvað mig langaði að henda mér í gólfið og grenja. Svo varð ég eiginlega bara reið, best að lemja karlhelvítið.
Ég tók fyrstu 20 mínúturnar í að ná andanum, fá hendurnar til að hætta að skjálfa, bíta á jaxlinn og reyna að skilja fyrstu spurninguna. Ég mundi ekki fyrri helminginn á meðan ég las seinni helminginn. Ég byrjaði að leysa hana skref fyrir skref. Ég skrifaði allt sem mér datt í hug. Í lokin leit þetta bara út fyrir að vera hellingur. Í lokin skrifaði ég: ef þessi aðferð hefur ekki verið notuð hingað til þá mætti íhuga að gera tilraunir með hana.
Byrjaði á næstu. Braut aftur upp á blaðið. Shit hvað ég hafði ekki hugmynd um hvernig átti að leysa þetta. Rifjaði upp allt sem ég veit um segulsvið og aðdráttarafl jarðar. Bjó til nokkuð flott graf, veit það er rétt nema kúrfan gæti verið í öfuga átt.
Tveir fóru út til viðbótar. Ekki klukkutími liðinn af prófinu.
Þriðja spurningin ! YES !!! óskaspurningin... gilti bara 10% en ég var svo ánægð að ég svaraði henni eins og hún gilti 70 prósent. Það er ekki eins og ég hafi haft mikið annað við tímann að gera.
Næsta... nokkuð góð... kann slatta þar, en gilti bara 15%
Einn fór út... Ég og Mamen vorum eftir...
Fimmta... kúluhornafræði og útleiðsla á jöfnum. Gékk ágætlega held ég, 20%
Sjötta... Hún var svo út úr kortinu að mér datt ekki einu sinni í hug ekki eitt einasta svar, upplogið eða ekki. Ég gat ekki einu sinni fundið upp svar, og þá er nú mikið sagt!

Ég stóð upp og um leið spýttist Mamen á fætur. Held hún hafi verið að bíða eftir mér. Það er svo leiðinlegt að skilja einhvern einann eftir í prófi.
Ég þurfti ekki einu sinni að spyrja hvernig henni gékk, það sást alveg á henni. Hún spurði hvernig mér hefði gengið,
: Gékk vel? þú skrifaðir svo mikið.
: Ég var að þróa nýja óreynda aðferð í mælingum á segulsviði jarðar. Bíð bara eftir að señor Nobel banki uppá...
Hún leit á mig, vissi ekki alveg hvað hún átti að segja þar sem ég var svo alvarleg. Fór svo að hlæja. :shit! hvað þetta var ömurlegt... Við löbbuðum heim án þess að segja meira en kveðjast hérna við garðhliðið.

Kem heim og Gummi kallar um leið og hann heyrir dyrnar opnast: Jæja! hvernig gékk? Á þessum tímapunkti hata ég þessa spurningu! Ég veit ekki hvort ég á að hlæja, gráta eða merja hnúana á veggnum. Ég er bara eins og dofin, eins og ég hafi étið valíum í ómældu magni.

Ég hreinlega hata að ganga illa í prófi. Það er hægt að segja að það er margt til verra en mér líður eins og það sé fátt verra í heiminum á þessum tímapunkti.

Ég veit ekki hvort kennarinn ætlar að fella okkur öll eða skala til einkunnina. Veit ekki hvurslags skölun það þarf að vera til að ég nái! Og þetta er eitt af mínum uppáhalds fögum.

Stundum er lífið bara ekki sanngjarnt...

Ég vona að þið öll hafið átt betri dag en ég í dag !

Tuesday, February 17, 2009

Sól, sól, sól !!!

Það er búið að vera súperveður hérna undanfarna viku. Svei mér þá ef vorið er ekki að fara að boða komu sína. Hérna á Spáni kemur vorið 22. mars, eða svo segja þeir. Veðrið núna er eins og ágætt sumarveður heima. Þegar heitast er yfir daginn er um 15 til 20 gráður hérna á mælunum í bænum. Það er alltaf aðeins heitara hérna en í Granada þar sem við erum umkringd fjöllum og ekki mikill vindur sem nær hérna í gegn.
Um helgina höfðum við það bara nice og fórum í tennis og að leika okkur í leikjagarðinum hérna rétt hjá.

Við fórum með Ana og Luismi í tennis... og erum algjörir lúðar. Það er ótrúlega gaman að spila tennis þegar maður getur eitthvað smá. Við erum með frjálsan aðgang að tennisvellinum hérna í garðinum og notum hann allt of lítið. Vorum voðalega cool á því og keyptum okkur spaða og bolta en erum leiðinlega löt að fara út að spila... og þ.a.l. helst til léleg. Það væri bara sniðugt að nýta sér þetta þar sem þetta er hérna 30 metra frá blokkinni og lítið mál að kíkja í klst. á dag.
Þurfum að fá krakkana til að kenna okkur þetta aðeins betur. Hérna kunna allir tennis. Rafael Nadal, þessi ofurtenniskappi er spænskur og það margfaldaðist áhuginn á tennis hérna eftir að hann komst á heimslistann. Ég átti aldrei von á að nenna að horfa á tennis í sjónvarpinu t.d. en mér finnst ótrúlega gaman að sjá Nadal spila, sérstaklega þegar hann spilar við svissneska dúddann Federer.
Stigagjöfin er samt algjört krap, en bara til að gera einfaldann hlut flókinn.

Spánverjar segja að sumarið í sumar verði heitt fyrst það var svona kalt í nóv-jan. Ef sumarið kemur í beinu framhaldi af þessu þá á þokkalega eftir að grilla mann. Venjulega er fínt veðrið í mars apríl. Geta komið rigningarskúrir og svona en þess á milli er fínt að vera á stuttermabol en maður getur samt enn sofið á nóttunni, ekkert of heitt ekkert of kalt. Tíbískt íslenskt sumarveður...

Í fyrra var veðrið svona, samt sögðu þeir að sumarið hefði komið seint það árið...









Monday, February 16, 2009

Það er dúddi hérna á efri hæðinni og hann hóstar alveg eins og lungnaveik, mæðuveik rolla. Þá er ég að tala um alveg nákvæmlega eins! Eða þá að hann er að herma eftir Árna Davíð herma eftir lungnaveikri rollu... Er heima þessa dagana þar sem prófalestur er í gangi og ég veit ekki hvað þessi dúddi gerir eiginlega nema hósta... hann virðist aldrei fara í vinnu eða neitt.

Heima á Íslandi einangrum við útaf kulda. Ég er ekki viss um að Spánverjar viti um hljóðgildi einangranna!

Við hliðina á mér er alveg kolvitlaus kelling. Alltaf perfect í tauinu, flott máluð og aldrei í sömu fötunum, jafnvel ekki fyrir hádegi og eftir hádegi sama daginn. Hún er heimavinnandi og karlanginn hennar þrælar sér út 12 tíma á dag. Um leið og krakkarnir koma heim hefjast lætin. Þvílíkt sem hún getur öskrað á krakkana. Bergrós er stundum bara agndofa, stundum öskrar hún á móti og heldur að þetta sé leikur (vona að kellingarálftin heyri það) en stundum verður hún leið þegar hún heyrir krakkana grenja. ,,gáda gáda" og setur upp sorgarsvip. Og ekki skánar það þegar karlinn kemur heim... boy oh boy! Hann gerir aldrei neitt rétt greyið! kellingin fær flog og svo ríkur hún út og skellir á eftir sér. Ég er nú ekki hlynt heimilisofbeldi, en djöfull væri ég búin að lúskra á henni.
Hún verður að eiga sinn flotta bíl, sín flottu föt, vinna lítið og eiga óaðfinnanleg börn (sem yfirleitt líta frekar út eins og barðir hundar), karlgreyið þræla sér út myrkranna á milli... Krakkarnir eru skömmuð fyrir hávaða, þau eru skömmuð fyrir að skíta út fötin sín, þau eru skömmðu fyrir að vera of lengi... þau eru skömmuð fyrir allt...
Af hverju eiga sumir foreldrar börn???... og af hverju eiga sumar kellingar eiginmenn??? Þegar ég fer héðan set ég bréf í póstkassann hans: RUN WHILE YOU STILL CAN!!!

Tuesday, February 10, 2009

Hentir ykkur einhvern tímann að:

1. Geta ekki borðað brauðsneiðina af því að marmelaðið fór undir ostinn en ekki yfir ostinn?
2. Súkkulaðikakan sé óæt nema þið fáið að borða hana beint af tertufatinu með berum lúkunum og þá aðallega efsta (krem) lagið.
3. Geta engan veginn hugsað ykkur að fara í skólann nema þið fáið að fara í bleiku, glimmer ballskónum. Geta ekki => öskra, gera sig máttlausann, spyrna í dyrakarminn eða halda dauðahaldi í hurðina...
4. Henda kakóglasinu þvert yfir eldhúsinu af því að það var ekki hrært í því með réttri skeið.
5. Verða að fara í hlýju ullarsokkana UTAN YFIR skónna áður en farið er út.
6. Elta einhvern grenjandi um allt og henda sér í gólfið í hvert skipti sem viðkomandi lítur á þig, af því að kleinurnar eru búnar.
7. Geta ekki borðað súrmjólkina af því að mamma hellti henni í skálina en ekki pabbi. En þegar búið er að hella henni aftur í fernuna og pabbi hellir henni svo þá bragðast hún rosalega vel
8. Vakna syngjandi kl. 7 á morgnana
9. Upplifa það rosalegt áhættuatriði að standa uppi á stól, öskra á hjálp og segjast alveg vera að detta.
10. Finnast það ógeðslega gaman að ýta til stólum eftir flísinum sem gerir geðveikann hávaða bara af því að mamma er að læra og pabbi er að lesa moggann.
11. Borða tvisvar sinnum morgunmat, tvisvar sinnum hádegismat, miðdegiskaffi og kvöldmat á hverjum degi án þess að bæta við einu einasta aukakílói.
12. Borða rúsínur með... öllu! þ.m.t. út á fiskinn og með eggjakökunni...

etc...

Ég bý með einstaklingi þar sem a.m.k. 3 af þessum atriðum gerast á hverjum degi! Er það alveg eðlilegt eða liggur óeðlileikinn mín megin?

Það eina sem ég man eftir að hafa upplifað af þessum atriðum er að marmilaðið á náttúrulega að fara ofan á ostinn en ekki undir hann ;) Annað er ómögulegt...

Friday, February 06, 2009

Þekkið þið útlendinga? Þá meina ég þekkið þið útlendinga frá Íslendingum og þá útlendinga sem líta eins út og við... uhu... þetta er að verða pínulítið flókið en þið fattið hvað ég á við.

Spánverjar eru margir hverjir ótrúlega líkir okkur. Það er bara brot af þeim með þetta svarta þykka hár og svörtu augu. Margir þeirra eru bara með þennan gangstéttalitaða drullubrúna hárlit og græn-brún-blá augu. Ég sé engan mun á þeim og íslendingum. Kannski helst þá að þeir eru svona í minni kanntinum.
Var niðri í skóla og það kemur kennari sem var að kenna þarna fyrir mörgum árum. Við erum nokkur saman í hóp og þar á meðal gamlir nemendur sem hann var að heilsa uppá. Ég var ekki búin að segja orð þegar hann segir: og frá hvaða landi ert þú?
Venjulega finnst mér að það hljóti að vera tungumálið sem komi upp um mig og þegar ég spurði hann hvernig hann vissi að ég væri útlendingur þá fannst honum það alveg augljóst, andlitið, andlitsfallið sagði hann. Og það voru allir sammála um það. Vinkona mín sagði að það sæist alveg um leið að ég væri útlendingur, ég væri með svona norðurlandaútlit.
Ég hef alltaf tengt norðurlandaútlit við hvíta hárið og ljósbláu augun. Eitthvað sem er engan veginn einkenni okkar Íslendinga þó margir haldi það. Og ég hef alltaf haldið því fram að við Gréta hefðum svona blökkumannagen í okkur þar sem nefið á okkur er svo breitt og flatt... Við fengum ekki svona bein í nefið eins og föðurættin.

Ég er ekkert viss um að ég myndi þekkja Spánverjana úr á Íslandi, ég hef samt aldrei litið á Ísland sem eitthvað sterkt aþjóðasamfélag.

Og í ofanálag sögðu þau að hreimurinn minn líktist mest suður amerísku spænskunni... ég er ekki góð í z, s og c, að greina þar á milli og þau segja að ég tali helst eins og fólk þaðan... grate... ég er alveg að falla inní hérna...

Thursday, February 05, 2009


Aldrei þessu vant horfði ég á sjónvarpið í gær. Reyndar ekki sjónvarpið þar sem sjónvarpið sem við fengum lánað er töluvert minna en tölvuskjárinn þannig að hann er frekar notaður ;)
Never the less... þá horfði ég á mynd með Will Smith, Seven Pounds held ég að hún heiti. Skrítið að horfa á Will Smith í þessu hlutverki þar sem það er ekkert sérlega fyndið neitt.
Þetta er frekar nýleg mynd held ég og ef einhverjir vilja sjá hana og ekkert um hana vita ekki lesa lengra ;)

Í framhaldi af myndinni fór ég að hugsa um líffæragjafir. Það eru mjög ströng lög um allt er líffæra gjafir varðar og ekki leyfilegt að nota deyjandi fólk eins einhverja varahlutaverslun.
Einhvern tímann fyrir löngu síðan fékk ég skírteini sem ég hef alltaf haft í veskinu mínu um að ef ég ferst af slysförum þá megi hirða úr mér líffærin til líffæragjafa. Margir hafa spurt mig hvar ég hafi fengið þetta en ég get ómögulega munað hvar, gæti verið FSA. Þetta finnst mér mjög nauðsynlegt. Ef til þess kæmi, í óvæntu slysi, þá situr fjölskyldan mín ekki uppi með að þurfa að taka þessa ákvörðun. Ég held það geti verið að það sé erfitt að missa ástvin og leyfa í beinu framhaldi að hann verði bútaður niður í varahluti. Eins þarf þetta skírteini að vera til taks þannig að ef skammur tími er til stefnu þá sé hægt um leið og ljóst er hvernig staðan er að varðveita líffærin því það er ekki eins og að þau nýtist neinum einhverjum dögum seinna er nauðsynlegir pappírar hafa verið undirritaðir.

Það er hægt að undanskilja einhver líffæri ef maður vill ekki að þau fari. Fyrir mér er líffæri bara líffæri, mér finnst frábært ef hjartað slær áfram og augun halda áfram að sjá þó svo að ég sé ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa það. Með því get ég gefið öðrum færi á því að njóta áframhaldandi tilveru á jörðinni.

Það er kannski frekar spurning um hver vilji hjartað úr mér;) Svo spái ég í hvort hann sjái það sama og ég með augunum mínum.

Tuesday, February 03, 2009


Jæja... búin að sofa úr mér súríalískuna! Og hagkerfi heimsins er enn óleyst vandamál! svo ég hef lítið í pólitíkina að gera enda ekkert á þeim buxunum. Þarf að fara að lífga aðeins upp á þessar bloggfærslur mínar, þetta eru hálfgerð kreppublogg allt saman.

Keypti mér brauðrist um daginn! Enga venjulega brauðrist, svona brauðrist sem er opin. Maður stingur brauðinu ekki ofan í hana heldur klemmir maður það utan á glóandi vegginn. Hún ristar reyndar bara öðru megin í einu, en það er hægt að klemma sitt hvort brauðið báðu megin samtímis. Það besta við þessa brauðrist er að það er hægt að rista allt, rúnstykki og langlokur.

Þvílík snilld sem ristað rúnstykki með osti og marmelaði, appelsínusafi eða te. Ég get étið þetta endalaust!

Ást okkar á ristuðu brauði og tei áttum við mamma sameiginlegt. Stundum keypti mamma kringlur í bakaríinu sem maður gat dýft ofan í teið (þá setti maður smá mjólk útí) og borðað það svoleiðis... uuummmmm... það eru ár og dagar síðan ég hef fengið svona ekta kúmenkringlur dýft í te.

Eini gallinn við nýju brauðristina er að það er ekki timer á henni svo það kemur fyrir að ég kveiki í brauðinu. En þá skefur maður bara það svarta ofanaf. Það er bara gott að hafa smá brunabragð. Ég er bara að reyna að venja mig á að setja hana ekki nálægt neinu eldfimu ef svo skildi fara að ég skryppi í búðina eða eitthvað...

Gummi var ekki á því að við þyrftum brauðrist. Við fengum æðisgóða brauðrist í brúðkaupsgjöf, en málið er að hún er á Íslandi og hefur ekki rúmast í farangrinum í millilandaflugi hingað til. Gummi hefur haldið í þessi rök sl. tvö og hálft ár. Í tvö og hálft ár hef ég bara fengið ristað brauð á kaffihúsum og eftir smá útreikninga var Gummi orðinn sammála að það væri sjálfsagt hagkvæmara að kaupa brauðristina en borga kaffihúsinu hérna við hliðina fyrir að rista ofan í mig brauðið.

Monday, February 02, 2009


Stundum get ég bara setið hugsað og hugsað þangað til mér verður illt í hausnum af því að ég kemst ekki að niðurstöðu. Stundum er bara gott að vera einfaldur í hugsun og vera ekkert að flækja málin. Ef einhver spyr: hvað eru peningar? þá myndi ég í fljótu bragði svara mælikvarði á verðgildi. Fyrir peninga er hægt að borga hluti og þetta er einhvers konar mælikvarði á hvers virði eitthvað er. Það er bara til visst mikið af þeim í heiminum. Hvert land hefur sinn pening, eða mörg saman og síðan getur peningurinn hækkað og lækkað... Okey! Get samþykkt það, það verður eitthvað að standa á bak við pappírinn. Svo er allt í einu framboð og eftirspurn eftir peningnum farið að hafa áhrif á gengi hans. Þarna fara hjólin í hausnum á mér aðeins að hökta. Versla með peninga, við erum að tala um að kaupa peninga fyrir peningana. Það sem verra er þá hefur það áhrif á gengi peningsins umfram virði hans. Við erum ekki lengur að kaupa veraldlega hluti fyrir peninginn, við erum ekki að fá borgað fyrir unna vinnu eða mat til að seðja hungrið.

Ekki það að ég braska eins og ég mögulega get með flutninga á peningum, enda þarf maður aðeins að reyna að vera með fingurinn á púlsinum þar sem tekjur eru í einni mynt og eyðsla í annari. Þetta var voðalega þægilegt líf á meðan krónan var svona sterk en hvað er það sanngjarnt gagnvart hinum. Þá var mín sko ekki að væla!

Ég vil bara fá eina alheimsmynt, ekkert vesen! og ekki dollara eða evru. Við getum bara skýrt það Universal. Þá kemur upp annað. Verðbólga, vaxtamunur og einkaneyðsla virðist vera nauðsynleg fyrir hagkerfi heimsins. Uhu... það er eitthvað mikið að skipulagningunni í hagkerfum heimsins. Það þarf að setjast niður og endurskipuleggja þetta allt frá grunni. Eitthvað hérna er ekki alveg að virka.

Svo hugsa ég. Það er kreppa og allir hafa það bágt. Bandaríkjamenn í skítnum, Evrópa á leiðinni þangað og Asía er að sogast niður með okkur. Hugsiði aldrei, hvert fór allur peningurinn? Hvar er hann?

Í Kína, of all places? Kínverjar flytja og flytja út, vörur á algjörlega ósamkeppnishæfu verði. Við kaupum og kaupum, vörur koma peningar fara. Kínverjar eru ekki að hleypa almenningi upp í einhverja vitleysu. Þetta er allt mjög svo ,,kontrolað" og þeir kunna að spara. Eða öllu heldur þeir spara peninginn og lána Bandaríkjamönnum hann svo þeir geti keypt af þeim meira dót. S.s. dótið fer frá Kína til Bandaríkjanna í skiptum fyrir peninga sem enda svo aftur þar. Það eina sem gerist er að einhverjar rauðar tölur í Bandaríkjunum hækkar og að sama skapi hækka debet tölurnar í Kína. Hvað gerist svo þegar á að fara að gera upp? Eignast Kínverjarnir okkur öllsömul?

Eða eru það olíufurstarnir? Þeir eru samt duglegir að eyða! en enn duglegri að fá í kassann.

Þetta er samt heimskulegt. Ef við setum upp öfgadæmi, að félaginn í Quatar sé bara með jákvæðan viðskiptahalla upp á einhverja þúsundir milljarða næstu 10 árin og safnar bara peningunum. Lánar engum þá, safnar þeim bara. Þá verðum við öll fátæk, við förum aftur að búa í torfkofum og lifa á signum fiski og lifa á vöruskiptum. Enginn hefur efni á að kaupa neitt, enginn getur selt neitt og keðjuverkunin étur þetta allt upp. DÆMIÐ GENGUR EKKI UPP...
Ef það verður bara bannað að safna peningum, peningar verða að vera í umferð mega ekki stoppa, þá fyrnast þeir bara... Norðmenn myndu hætta að safna olíusjóðnum, heldur safna olíu. Selja hana bara jafnóðum fyrir eyðslu. Norðmenn eyða engu þannig að þeir myndu bara safna olíu. Við erum aftur komin út í að lifa á vöruskiptum.

Ég skil ekki hagkerfi heimsins, ég kemst ekki að neinni niðurstöðu með þetta. Þetta er orðið súríalískt blogg og ég er farin að sofa. Ég leysi þetta varla í kvöld frekra en annað... og þá allra síst síðasta vorprófið í GIS... oooohhhhhh