Tuesday, February 03, 2009


Jæja... búin að sofa úr mér súríalískuna! Og hagkerfi heimsins er enn óleyst vandamál! svo ég hef lítið í pólitíkina að gera enda ekkert á þeim buxunum. Þarf að fara að lífga aðeins upp á þessar bloggfærslur mínar, þetta eru hálfgerð kreppublogg allt saman.

Keypti mér brauðrist um daginn! Enga venjulega brauðrist, svona brauðrist sem er opin. Maður stingur brauðinu ekki ofan í hana heldur klemmir maður það utan á glóandi vegginn. Hún ristar reyndar bara öðru megin í einu, en það er hægt að klemma sitt hvort brauðið báðu megin samtímis. Það besta við þessa brauðrist er að það er hægt að rista allt, rúnstykki og langlokur.

Þvílík snilld sem ristað rúnstykki með osti og marmelaði, appelsínusafi eða te. Ég get étið þetta endalaust!

Ást okkar á ristuðu brauði og tei áttum við mamma sameiginlegt. Stundum keypti mamma kringlur í bakaríinu sem maður gat dýft ofan í teið (þá setti maður smá mjólk útí) og borðað það svoleiðis... uuummmmm... það eru ár og dagar síðan ég hef fengið svona ekta kúmenkringlur dýft í te.

Eini gallinn við nýju brauðristina er að það er ekki timer á henni svo það kemur fyrir að ég kveiki í brauðinu. En þá skefur maður bara það svarta ofanaf. Það er bara gott að hafa smá brunabragð. Ég er bara að reyna að venja mig á að setja hana ekki nálægt neinu eldfimu ef svo skildi fara að ég skryppi í búðina eða eitthvað...

Gummi var ekki á því að við þyrftum brauðrist. Við fengum æðisgóða brauðrist í brúðkaupsgjöf, en málið er að hún er á Íslandi og hefur ekki rúmast í farangrinum í millilandaflugi hingað til. Gummi hefur haldið í þessi rök sl. tvö og hálft ár. Í tvö og hálft ár hef ég bara fengið ristað brauð á kaffihúsum og eftir smá útreikninga var Gummi orðinn sammála að það væri sjálfsagt hagkvæmara að kaupa brauðristina en borga kaffihúsinu hérna við hliðina fyrir að rista ofan í mig brauðið.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Nú skil ég þig betur. Milku auðveldara að leysa vandamál tengd ristuðu brauði heldur en því hvernig peningur verður að engu.
Berglind

6:46 PM  

Post a Comment

<< Home