Thursday, April 27, 2006

Jæja...

Nú er komið að fyrstu beltagráðunni minni í Karate-inu; spurningin er hvort ég eigi eftir að gefa sjálfri mér á'ann eða fljúga á hausinn fyrir framan dómarana.
Alltaf að vona það versta því það gerist minnst kosti ekki verra en það.

Annars er ég bara heima að læra þessa dagana. Vaknaði kl. 6 í morgun, var að dreyma dæmi í línulegri algebru sem ég gat ekki leyst og mér leið svo illa þegar ég vaknaði að ég gat ekki sofnað aftur. Ég var s.s. búin að fara í sturtu, borða morgunmat, setja í þvottavél og lesa blaðið þegar ég mætti í skólann kl. 8 í morgun.
Í dag hef ég svo verið að læra og ímynda mér hvernig niðurlæging lífs míns í kvöld eigi eftir að koma út.

Fyrsta prófið er á þriðjudaginn. Vinsamlegast sendið mér allar þær jákvæðu jónir sem þið megið sjá af eftir hádegi þann 6. maí. Þá verð ég í stærðfræðigreiningu dauðans.
Annars er líf mitt frekar tilbreytingarsnautt þessa dagana. Núna er það bara hafragrautur og slátur, skyr og Coca Puffs sitt á hvað, karlanginn flúinn að heiman og rassinn á mér er farinn að gróa fastur við skrifborðsstólinn.
7 - 9 - 13 og þetta verður síðasta almennilega prófatörnin í HI.

Saturday, April 22, 2006

Ég er fætt kvikindi...

Það kemst enginn í hálfkvist við mig hvað það varðar. Þvílík unun að sjá einhvern engjast um á önglinum. Veit ekki hvað ég fæ út úr því; það kemur bara þessi ótrúlega sælukennd yfir mann... Múehehehe got'ya...

Aumingja Guðmundur, ég segi það satt. Ekki það að ég vorkenni honum í alvörunni, en það sem ég hef lesið um siðferðiskennd og manngæsku þá ætti ég samkvæmt bókunum að gera það. Þvílík og önnur eins kellingar herfa sem hann giftist, því fá engin orð lýst...

Gummi ákvað á miðvikudegi fyrir páska að fara til Danmerkur og hitta bróður sinn. Við vorum búin að kaupa páskasteikina og svona svo ég einhvern veginn gékk útfrá því að hann ætlaði að eyða þeim með mér og varð heldur betur eins og snúið roð í hund þegar ég komst að því að svo væri ekki.

Hann pantaði flug til Danmerkur morguninn eftir og flugið átti að fara kl. 8. Svo vakti hann mig kl. 6 til að skutla sér á rútustöðina. Mín bara vatt upp á sig og sagði honum að hann gæti sko tekið leigubíl.
Hann greyið fór eitthvað að reyna að blíðka sína ástkæru en ekkert gékk. Ég, vitandi að hann var að leggja sig allann fram við að draga úr fýlunni, sagði að það eina sem gæti létt mér lund væri að segja mér hvar hann hefði falið páskaeggið mitt (þar sem ég er búin að vera gift gaurnum í 3 ár þá vissi ég að hann hefði auðvitað gleymt því). Hann fölnaði upp, fattaði að þarna lá helvítis hundkvikindið... six feet under.
Hann tók leigubíl niður á BSÍ, nema hvað! Missti af rútunni og næsta átti ekki að fara fyrr en tveim tímum seinna.
Svo aumingja Guðmundur þurfti að hringja í sína úrillu geðvondu eiginkonu og biðja hana um að skutla sér til Keflavíkur. Hárið fauk nærri því af þegar ég argaði í símann: ,, hvað meinaru? Misstiru af rútunni?!?!?!?!?! Okey þá, ég skal skutla þér en bara ef þú segir mér hvar þú faldir páskaeggið, ég nenni ekki að hvolfa öllu við til að leita að því. "
Karlgreyið krossaði sig bara í bak og fyrir og vonaði það besta... Fékk far út á Keflavík og allann tímann pexaði ég...

ææææiii, kommon, segðu mér bara hvar þú faldir helvítis páskaeggið, það er nú alveg sanngjarnt þar sem þú ætlar að yfirgefa mig yfir alla páskana.

Ég finn eggið á endanum, sparaðu mér ómakið og segðu mér hvar það er!

Ég veit alveg að þú myndir aldrei í veröldinni gleyma að kaupa páskaegg handa mér, þú þekkir mig nú miklu betur en svo, að gleyma páskaegginu... Þú myndir aldrei láta það hvarfla að þér, svo segðu mér bara hvar HELVÍTIS EGGIÐ ER !!!

Sjá hann engjast um á önglinum... hehehehe I'm an evil bastard ! En kommon, ég er að tala um sjálft páskaeggið... You know what I mean!

Svo kom ég heim, leið strax betur;) Og hafði næði til að læra um páskana.

Á laugardegi fyrir páska hringir dyrabjallan... Blómasending? Blómasendillinn (frændi Gumma) er ekki fyrr komin inn um dyrnar en hann fer að afsaka sig. Hann fékk skýr fyrirmæli um það að koma við í búð á leiðinni og kaupa páskaegg! Hann fór í tvær og það var uppselt í báðum. Hann kom með konfekt í staðinn...
Gat nú ekki skammað hann, þekki hann ekki nóg.

Hringdi svo í Gumma sagði honum að þetta hefði verið góð tilraun... Yea right !

Thursday, April 20, 2006

Ég sver það að mig er strax farið að hlakka til... Landsmót Hestamanna! Betri og skemmtilegri mannamót finnast seint.

Skipulag sumarsins gengur út á að komast á Landsmót, MA-reunion og í brúðkaup aldarinnar. Það er svo sem margt fleira sem mig langar til að gera og fleiri staðir sem mig langar til að vera á en vinnan gengur fyrir.
Líf fátæks námsmanns yfir sumartímann er sjaldnast tóm sæla.

Allir sem eru menn með mönnum koma til með að mæta á hestamannamótið. Sérstaklega þeir sem eru með brennandi áhuga fyrir hestunum í brautinni... Ég mæli með því að tjaldbúðum verði slegið upp undir brekkunni við ánna, þar sem við vorum 2002. Sérstaklega óskað eftir stóru sterkbyggðu tjaldi þar sem við getum öll geymt bíllyklana okkar Þeir sem sjá sér fært að mæta fyrr verða að taka frá stæði fyrir þá sem komast ekki fyrr en rétt fyrir helgi.
Maður verður svo yndislega ferskur og heillandi eftir svona margra daga útilegu og djamm. Og alltaf leggur maður þetta á sig og í sumar einu sinni enn... Af því að þetta er bara svo ógeðslega gaman Kannski hittum við svo aftur vinkonu okkar frá því á Gaddstaðaflötum

Djöfull ógeðslega er ég minnsta kosti farin að hlakka ógeðslega mikið til...

Saturday, April 15, 2006

Things-to-do-before-I-die

listinn minn lengist með ógurlegum hraða. Ég næ alltaf aðeins og aðeins að höggva á hann en hann lengist með enn meiri hraða í hina áttina.
Þetta er að vitaskuld mjög gott, heldur mér við efnið en common!

Ég er samt fegin að hann samanstendur ekki af fjórum atriðum...
- Eignast mann, einn af þessum 100% lummó gaurum
- Eignast krakka, sem hægt er að forrita; þæga, kurteisa og heilalausa
- Lítið þægilegt hús, station bíl og hund (stöðutákn)
- Vinnu sem krefst einskins nema stimpla sig inn á réttum tíma og vinna sína idot-proof vinnu þangað til 8 tímar eru liðnir.

Það væri meira svona Things-to-do-to-live-a-dead-and-boring-live listinn!
Ekki það að það hentar sumum og gerir suma hamingjusama... but that isn't me!

Ég hef stundum spáð í það hvort maður fæðist svona, er þetta uppeldislegt eða sköpuðu aðstæður þetta. Hvað sem það nú var þá er ég mjög sátt; eflaust einnig þeir sem fylgja rólegu, þægilegu línunni (that's their problem ;)).

Málið er hins vegar að ná að besta þetta allt saman þannig að maður nái sem flestum atriðum á listanum og sigta út aðalatriðin.

Búin að synda í Níl, fara í fallhlífastökk, Þjóðhátíð í Eyjum, kafa í Karíbahafinu, ríða á úlfalda og fara í göngur í Þistilfirði...but there are more things to do!
Svo eru það stóru headline-in... tala önnur tungumál en eigið, háskólagráður, búa í framandi löndum og afrek í starfsframa...
Og ásamt þessu öllu þarf maður að eiga fjölskyldu því enginn vill deyja einn og skilja ekkert eftir nema eigin líkamsleifar þegar lífið yfirgefur hann.

Mig vantar eitthvað bestunarfall fyrir þetta! Ég fer að verða búin að lifa einn þriðja af tölfræðilegri mannsævi, það eru bara tveir þriðju eftir, og hvernig kemst ég yfir þetta allt saman?

... maður spyr sig...

En ég get núna loksins sett X við python-inn minn. Við verðum óaðskiljanleg það sem eftir er ævinnar. Veit ekki alveg hvað ég á að skíra hana... hún verður alltaf litli python-inn minn ;)

Monday, April 10, 2006

Læri, læri læri...

En samt gengur ekki neitt ;) Er ekki alveg að komast í prófgírinn!
Helgin fór mestmegnis í leti, ósköp ljúft.

Setti inn myndir frá Póllandsferð sem við fórum í nóvember sl.

Annars er lítið að gerast nema ég er að klepra yfir Tölulegri greiningu. Og mér sem finnst þetta svo ágætt fag en akkurat núna rísa á mér rasshárin við tilhugsunina eina saman. ÓÓOOóóooo mig auma...

Friday, April 07, 2006

Hvað finnst ykkur um tattoo?

Thursday, April 06, 2006

Jæja... Óheppnir þeir sem staddir voru nálægt mér og myndavélinni á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2005. Ef þeir hafa fests á filmu þá var ég búin að henda nokkrum myndum inn á netið og þar kennir ýmissa grasa.

Vænti þess að flestir MA ingar verði við sjónvarpið í kvöld eða staddir á Fiskislóð í eigin persónu. Djöfull væri brill að vinna Versló liðið.
Sunna frænka á leið til Reykjavíkur. Ætla að kíkja á hana í Kringlunni á eftir; sjá hvort hún hagar sér ekki almennilega í stórborginni ;)

Wednesday, April 05, 2006

Úfff... búin að vera með skitu í allann dag.

Dæmatími í stæ. kl. fjögur. Tími dauðans og stund sannleikans; belive it or not... þá náði ég prófinu, var meira að segja yfir meðaleinkunn.
Það tvennt er svo sem enginn stórkostlegur árangur og einkunnin var svo sem ekkert glæsileg en ég kem til með að lifa með því góðu lífi!

Fyrir nokkrum vikum síðan fórum við Gummi á jökul með Pálmatrésliðinu (þau sömu og við fórum með til Póllands og Ungverjalands).


Ferðasagan í grófum dráttum...

Árla föstudags var keyrt af stað alla leið upp í Grafarholt. Þar hittum við þá Pálmatrés menn, margir hverjir komnir í ölið. Eyþór bættist síðastur í hópinn og eftir það lá leiðin á Selfoss, upp hjá Flúðum og hádegismatur borðaður í Hrauneyjum.
Þar er skáli frá því að virkjannaframkvæmdirnar stóðu yfir og er hann nýttur sem hótel í dag; meira að segja verið að byggja við hann.
Loksins komumst við af malbikinu, hægt að fara að hleypa úr dekkjum og trukkast eitthvað. Leiðin lá upp í Jökulheima; lítið staldrað við þar heldur haldið áfram og upp á jökul. Uppi á jökli hittum við þá norðanmenn, Elmar á Hríshól, Inga o.fl. Þeim urðum við svo samferða það sem eftir var ferðar. Það hafðist að komast í Grímsvötn um kvöldmat en þar var áætlað að hafa næturveru báðar næturnar.
Á laugardeginum fórum við yfir jökulinn og komum niður í Kverkfjöllum. Þar komum við að gili sem við löbbuðum upp og komumst í þetta fína bað. Dóluðum okkur til baka aftur í Grímsvatnaskálann. Daginn eftir var gengið frá kofanum og haldið heim á leið með smá viðkomu á Pálsfjalli.

Kofinn í Grímsvötnum er snilld. Hann er uppi á Grímsfjallinu og ekkert grín að lenda þar framaf. Hann er alveg á brúninni svo það er ekki hægt að fara nema öðru megin við hann. Var aðeins að spá í þetta um nóttina þegar ég staulaðist á kamarinn. Það væri leiðinlegt að fara vitlausu megin og hrapa framaf.
Þarna uppi er heitt vatn, þ.a.l. stórt gufubað. Kamarinn er samt mesta snilldin, hann er vel rúmur og tvær setur hlið við hlið. Ekki amalegt að geta farið saman á klóið og setið hlið við hlið saman á klóinu... Pottþétt einhver haft "kvennmenn á trúnó" í huga.

En ég setti inn myndir hér til hliðar. Það ruglaðist eitthvað röðin á þeim og ég nenni ekki að laga það ;)

Tuesday, April 04, 2006

Vitleysingurinn ég...

Var að sækja um skóla úti á Spáni. Ákvað að fara sem skiptistúdent fjórum dögum áður en umsóknarfrestur rann út, ekki seinna vænna.
Var ótrúlega ánægð með það þegar þetta hafðist í tæka tíð. Nokkuð sátt að vera búin að ganga frá þessu og þá er bara að bíða fram í ágúst með að fá svar frá skólanum um hvort ég kemst inn.
Í gær áttaði ég mig samt á einu, geymdi einu örlitlu atriði... GEYMDI AÐ SÆKJA UM MASTERSNÁM Í HÁSKÓLANUM... Þ.e. ég verð að vera mastersnemi hér til að mega fara út sem skiptinemi. Umsóknarfresturinn var til 15. mars

Sópaði saman öllum persónutöfrunum, bjó til plan og indæla saklausa persónu sem ekki er hægt að neita um neitt.
Er ekki vön því að láta neita mér um neitt og fer ekki að byrja á því núna.
Nýja persónan mín var með brúnt sítt hár í fléttu, rosalega róleg og indæl, eilítið feimin og hikandi og ótrúlega leið yfir að vera með allt þetta vesen.
Og viti menn... Þau vildu allt fyrir mig gera og nánast skrifuðu umsóknina fyrir mig. Hún fór svo í bunkann með hinum umsóknunum, sem að vísu var skilað inn fyrir mánuði síðan.
En gáfunum þyrfti að ljúga upp á mig! Áttaði mig á því eftir að ég var komin heim að auðvitað dagsetti ég umsóknina... 3. apríl !
En þeir fara nú varla að velta sér upp úr því...

En backup planið, ef ég kemst ekki inn í skólann úti á Spáni er Kawasaki Vulkan 900. Er búin að lofa mér því að ef ég kemst ekki inn þá fæ ég að kaupa mér langþráð mótorhjól beint úr kassanum.
Þegar kom að því að velja á milli... mótorhjól versus mastersnám þá varð maður að sýna smá skynsemi - sem ég verð að vísu seint þekkt fyrir en viti menn...
Svo ef ég kemst ekki inn í skólann þá verður þetta engin rosaleg sorg. Þá kem ég til með að geysa um götur borgarinnar á mótorfáknum mínum ;)

Svo er svo merkilegt með skipulagið hjá mér að ég er alltaf með tvöfalda skipulagsdagskrá. Málið er að þegar ég ákvað að fara í skólann og kláraði umsóknarferlið frá þá var ég búin að panta og borga ferð til Tyrklands um miðjan september. Skólinn á Spáni byrjar í lok september og það er mælt með 4 vikna málanámseiði áður. Sem þýðir að ég þá fer ég til Spánar í byrjun sept. fer á námskeiðið, fæ svo frí í viku til að fara yfir til Tyrklands og hitta Sirrý, Gumma og Júlla og svo aftur til Spánar til að fara í skólann. Gott plan ????