Sunday, December 17, 2006

Síðasta prófið á morgun! Mesti krafturinn var settur í síðustu tvö próf, til að hafa þau á hreinu. Prófið á morgun er stærðfræðipróf sem ég þarf ekki að taka en ef ég næ því þá þarf ég ekki að taka þennan hluta aftur á lokaprófinu í febrúar.
Ég geng útfrá því að ég komi til með að taka þennan hluta aftur í lokaprófinu í febrúar, en það er ágætt að fara í prófið og sjá hvernig þetta lítur út.

Svo er to-do-listinn á morgunn frekar erfiður
- Fara í próf frá 9 til 12
- Borða með Rocio í hádeginu, löngu ákveðið og get ekki svikið það
- Kaupa jólagjöfina handa Gumma, búin að ákveða hvað en hún er svo stór að
ég verð að láta hann fá hana áður en við förum til Danmerkur
- Fara í klippingu (þetta kemur til með að sitja á hakanum)
- Fara í þrefaldan stæ. tíma, skyldumæting - verklegt
- Fara í vinna upp tíma í hönnun landakorta, fæ út úr prófinu svo ég verð að
mæta
- Fara á barinn með bekkjarfélögunum og kennaranum í kortahönnun, jólaglöggin!
Verð að mæta
- Pakka niður fyrir jólaferðina til Danmerkur
- Sofa áður en ég mæti á lestarstöðina kl. 6 daginn eftir til að ná lest til
Madrid.

Ferðadagskráin er svohljóðandi:

# Ná lestinni í Jaén kl. 6 til Madrid
# Kem til Madrid um 10 - 11 leytið
# Finna út hvernig ég kemst með lest af aðallestarstöðinni út á flugvöll
Ef það er einfalt þá er aðallestarstöðin í miðbænum svo ég get aðeins skoðað
mig um þar.
# Mæting á flugvöllin um tvöleytið, brottför um hálf fimm. Best að mæta snemma
til að finna þessi terminal eða brautarpalla
# Lending í Malmö, Svíþjóð kl. 8
# Lest til Kaupmannahafnar kl. 9 ef allt gengur að óskum í Malmö.
# Komum til Kaupmannahafnar um 10 leytið.
# Finna lest til Óðinsvé (ef ekki er hægt að taka beint Malmö - Óðinsvé)
# Mæting til Óðinsvé um miðnætti.

-> SOFA FRAM AÐ HÁDEGI og fara svo að huga að jólaskapinu ;)

Allir heima á Gunnarsstöðum ætluðu í laufabrauð í dag. Hefði svo viljað getað hoppað heim til Íslands í nokkra klukkutíma, skera út laufabrauð, hitta alla, borða íslenskt nammi og hlusta á jólalögin. Það er víst ekki á allt kosið, verð að fara að fá mér svona einkaþotu, ætli það sé svo geðveikt dýrt?

Wednesday, December 13, 2006

Geðveikin er alls staðar eins!

Í skólanum í dag var búið að setja upp hálfgerða sýningu eða gjörning, veit ekki alveg hvað ég á að kalla það.
Það var búið að setja upp stóra hlera og líma á það fullt af A4 hvítum blöðum með krossi á og kvenmannsnafni. Luis, bekkjarbróðir minn útskýrði það eins og ekkert væri eðlilegra - þetta voru þær konur sem höfðu verið drepnar af eiginmönnum sínum og sambýlismönnum á árinu!
Það var sem sagt verið að vekja athygli á heimilisofbeldi. Það voru um 50 nöfn á ári, og bara núna á árinu voru þau komin yfir 40.
Á blaðinu stóð nafn, aldur og hvernig þær voru drepnar. Það var allt frá því að vera 15 ára stelpa sem kærastinn barði til dauða, 22 ára sem var skorin á háls upp í 50 ára þar sem fullur eiginmaður hafði barið hana í hausinn með flösku.
Ég spurði hvort þetta væri ekki samfélagslegt vandamál? Hvort þetta væri virkilega eðlilegt? Sagði þeim jafnframt að ég væri fegin að eiga ekki spænskan eiginmann.

Svo á leiðinni heim úr skólanum fór ég að spá í þetta - Spánverjar eru um 41 milljón og við erum um 300 000 manneskjur á Íslandi. Þeir eru 140 sinnum fleiri en við þannig að miðað við fólksfjölda er þetta eins og þetta gerðist á tæplega 3 ára fresti heima. Ég er bara ekki frá því að við séum ekki hótinu skárri.

Og við teljum okkur vera siðmenntaða þjóð; Evrópubúar í heild sinni telja sig nokkuð siðmentaða heimsálfu. Miðað við að það búi um 730 milljónir manna í Evrópu og ástandið sé eitthvað svipað alls staðar þá eru um 890 konur drepnar af sambýlismönnum og eiginmönnum á hverju ári - bara í Evrópu.

Ég hreinlega skil þetta ekki, þarf maður ekki að vera helvíti ruglaður í hausnum til að stúta sambýlisfélaga sínum? Og ef maður er orðinn svona leiður á viðkomandi, af hverju þá ekki að skilja bara við hann og fá nálgunarbann?

Monday, December 11, 2006

Úffff... Arrrgggg... Jólin eru að koma, einu sinni enn. Hvernig stendur á því að þau virðast alltaf koma aftan að manni? Maður hugsar til þeirra í október svo nóvember, en ákveð ég alltaf að bíða með að gera allt. Það er ekki hægt að standa í jólastússi í nóvember. Svo byrjar desember... Próf! Próf! Próf! og skyndilega komin jól og ég enn með allt á hælunum? Ár eftir ár, þetta virðist ekkert vera á leiðinni að breytast. Manni er ekki viðbjargandi.

Einhvern daginn eignast ég heimili og þegar ég stend í prófalestri og heyri af þeim sem hafa tíma til að undirbúa jólin almennilega þá set ég saman to-do-lista í huganum. Svona ætla ég að hafa það á jólunum mínum...

- Jólakortin verða helst heimagerð og skrifuð tímanlega þannig að ég geti látið hugann reika og skrifað skemmtileg jólakort, ekki alltaf bara "Gleðileg jól, o.s.frv. Hafðu það fínt! - Kveðja Katrín"

- Jólaföndur, t.d. aðventukrans verður settur upp og svo langar mig að hafa svona piparkökuhúsa-hefð. Eitt kvöld, eða einn laugardagur verður tekinn í að baka svona piparkökuhús, kalla og dót í kring. Árið á undan verður ávalt toppað!

- Að sjálfsögðu verður bakað laufabrauð, gróft laufabrauð (sem verður skorið með laufabrauðsjárninu sem Sirrý systir gaf mér í útskriftargjöf) og platan með Ellý Vilhjálms spiluð þar til hún slitnar í gegn.

- Smákökusortir verða bakaðar á hverju kvöldi og síðan tekið gott kvöld í jólakonfektið. Krakkaskrípin fá að baka með og læra að gera allar kökusortirnar svo þau geta tekið við bakstrinum þegar ég hætti að nenna því.

- Mig langar að læra að gera svona brjóstsykur, það var svona brjóstsykursnámskeið þegar ég var í heimilisiðnaðarskólanum í fyrra. Það held ég að sé algjör snilld.

- Jólagjafirnar verða keyptar tímanlega svo maður fái ekki skitu yfir því rétt fyrir jól.

- Jólaþrifin verða gerð smá saman við góða jólatónlist og án alls hreingerningarofsóknaræðis. Það þarf ekki að mála allt þrem dögum fyrir jól.

- Það verða settar jólaseríur (hvítar) í tréin sem ég ætla að hafa í stóra fallega garðinum mínum.

- Rjúpurnar verða reyttar á aðfangadagsmorgunn, jólatréið skreytt á Þorláksmessukvöld, messan á jóladag o.s.frv.

Endilega látið mig vita ef það er eitthvað sem ég er að gleyma.

En ég held áfram að láta mig dreyma og reyni þess á milli að læra hönnun landakorta og stærðfræðilegar-landmælinga-aðferðir, með hnút í maganum af því að ég á enn eftir að redda smá í jólagjöfunum, á síðasta sjens með að senda þær fyrir jól, á eftir að skrifa öll jólakortin, tengdó bakaði jólakökurnar og sendi þær til Danmerkur þar sem við fáum afdrep yfir hátíðirnar og svilkona mín ætlar að redda jólasteikinni.
Ég enda örugglega í jólakettinum því ég hef ekki svo mikið sem keypt mér sokka fyrir jólin.

Það eina sem minnir á jól hérna inni er jólastjarnan sem ég splæsti á heimilið og skítakuldi úti (sem inni).

Í stofuborðinu, sem er hringlótt og um 1,2 metrar í þvermál, er hitari. Það er s.s. rafmagnsofn niðri við gólf sem er fastur við lappirnar á borðinu. Ég rétt skríð undan sænginni og að borðinu. Þetta heldur manni sko við námsefnið því maður vill hvergi annars staðar í húsinu vera ;)

Svo gera þeir grín að mér, ,,Hvernig er það með íslendinginn? Er honum kalt?!?" Ég er búin að benda þeim á að við hitum upp húsin okkar, meira að segja allt árið! Það er ekki venjan að hafa 10 gráðu hita inni!

Thursday, December 07, 2006

Fór út í fjárfestingar áðan! Það var orðið nauðsynlegt, ég er við það að krókna úr kulda hérna, ótrúlegt en satt. Það er sko ekki endalaust heitt hérna, langt því frá. Þessa dagana er eiginlega bara skíta kuldi og haustlegt um að litast.

Ég er s.s. búin að ganga bæinn þveran og endilangan að leita mér að sæng! Fann á endanum búð sem seldur dúnsængur og ég splæsti á mig einni.
Hitinn hérna er frá 15 upp í 20 gráður á daginn en fer niður í 10 á kvöldin og nóttunni og þar sem húsin eru svo lítið einangruð þá er yfirleitt sami hiti inni og úti. Ég er bara ekki að hafa það af að sofa með lak í 10 stiga hita. Var búin að draga öll teppin í húsinu inn í rúm og hlóð þeim ofan á mig.
Núna er ég bara að bíða eftir að klukkan verði nógu margt svo ég geti farið að sofa undir nýju sænginni minni ;)
Mér hefnist fyrir það að gera grín að Gumma fyrir að taka með sér svefnpoka til Spánar! Er búin að éta það nokkrum sinnum ofan í mig, en það er ómögulegt að sofa alltaf í svefnpoka. Þetta er miklu betri lausn og aldrei að vita nema Gummi fái smá horn af nýju 200x220 dúnsænginni minni. Sé til...

Eins og flestir vita er ég einlægur aðdáandi kakósúpu;) Hef bara ekki fundið kakó hérna en best að deyja ekki ráðalaus. Hér er til nóg af súkkulaði og hafið þið prófað að búa til kakósúpu úr súkkulaði?
Eina mínútu í munninum - alla ævi á rassinum, en vel þess virði ;)

Fór í próf á þriðjudaginn. Ég var alla helgina að lesa, að meðtöldum föstudegi og mánudegi og komst einu sinni í gegnum efnið, sem voru rétt rúmar 100 blaðsíður á spænsku um innri gerð tölva. Í ofanálag var þetta krossapróf og ég sver að sumir valmöguleikarnir voru alveg eins, alla vega eins og ég skildi þá. Það var kannski samt ágætt að þurfa ekki að skrifa mikið, held að kennarinn hafi einnig kosið að þurfa ekki að lesa svörin mín...
En ótrúlegt en satt þá náði ég 7, jafnvel þó tveir vitlausir krossar eyddu einum réttum og ég hikaði ekki við að giska ef ég gat útilokað einn, hvað þá tvo þar sem af fjórum valmöguleikum segir tölfræðin að maður eigi að giska.
Þeir sem ekki eru ánægðir með einkunnina mega taka prófið upp aftur, ég er nú varla svona heppin tvisvar í röð svo ég læt það standa ;)

En ég er að hugsa um að fara og skríða undir nýju sængina mína, klukkan er orðin nógu margt til að fara að sofa ;)

Friday, December 01, 2006

Jæja, tölvan mín er nú komin í lag, en ég fæ ósköp lítið að komast í hana þar sem Gummi telur sig hafa forgang þar sem hann er í fjarnámi... En þessi forgangur nær líka yfir moggann, blogg, vafra um á netinu... buhu... En hann fór í próf svo ég komst í tölvuna á meðan ;)

Ég á að vera að lesa undir próf, en fyrst ég komst í tölvuna þá er best að nýta það tækifæri sem best.

Er í einum áfanga sem heitir ,,net landmælinga og landmælingastærðfræði" sem mér finnst algjör snilld. Hann var tekinn af krafti fyrstu tvo mánuðina því kennarinn er að fara á Suður Pólinn núna í desember. Ég hefði sko viljað fara með! Þetta er eitthvað rannsóknarverkefni sem fullt af löndum vinna að. Hann flýgur til Argentínu af því að það er víst næst pólnum og síðan þaðan með bát og yfir á þessar eyjar sem þeir eru að mæla þarna.
Hann var að segja frá þessu í tímanum og þá spurði ég hvort hann vissi þá af hverju ísbjörninn æti ekki mörgæsirnar. Hann var smá stund að fatta það, en það fattaði enginn annar það! Einn bekkjarfélaginn spurði hvort þær væru eitraðar ;) Brandarinn datt eiginlega um sjálfan sig.
Svo þegar ég var búin að útskýra hann þá spurðu þau hvort ég hefði þá aldrei séð mörgæs... Skal alveg viðurkenna að það kom upp smá púki, var að spá í að segja að við notuðum þær til undaneldis af því að eggin þeirra virkuðu eins og viakra. Lét það samt vera, aldrei að vita nema þau hefðu trúað því ;). Þá spurðu þau hvort við værum þá BARA með ísbirni ;). Var að hugsa um að skálda einhverja frækni sögu af mér sem bjarnarbana en þau hefðu nú líklega aldrei trúað því...

En akkurat svona verkefni langar mig til að komast í. Það er reyndar fullt af mörgæsum þar sem hann verður að mæla. Gaman þegar þær fara að hrúgast í kringum mælingatækin ;)

Ég er nú búin að fara í nokkur Erasmus - partý (Erasmus eru útlensku nemendurnir við skólann) og ég veit ekki hversu oft ég hef sagt að við séum BARA 300 000 sem búum á eyjunni. Fólk ætlar ekki að trúa því. Hvað þá að við höfum okkar eigið tungumál! Ég hef nú ekkert verið að útskýra þá nágranna okkar, Færeyjar og Grænland.
Af einhverjum ástæðum náðum við saman við frakkana. Veit ekki alveg af hverju en við virðumst hafa einhverja tilhneyingu til að lenda í partýjum með þeim. Annars eru aðallega Ítalir og Portugalir, svo smá reytingur frá öðrum löndum.

Það gengur orðið betur að finna eitthvað æti hérna. Við erum að spá í að kaupa hlutabréf í kínverska veitingastaðnum hérna rétt hjá, hitti Gumma þar á eftir í hádegismat og það er alveg vika síðan við fórum þangað síðast. Þeir eru örugglega farnir að sakna okkar. Búnir að hringja á sjúkrahúsin og líkhúsin til að athuga hvort eitthvað hafi nokkuð komið fyrir.
Ég sver það að appelsínu öndin á þessu stað er eitt það besta sem ég hef á ævi minni smakkað. Við fórum í partý til frönsku Imanuel og þar var djammað og djúsað fram eftir nóttu. Gummi sá um alfarið um djúsið og var því ekkert sérlega hress morguninn eftir. Ég hætti ekki að væla í honum fyrr en ég náði honum út á kínastaðinn til að borða. Fékk mér svona appelsínu önd, Gummi lá grænn fram á borðið og ég át eins og svín. Hann ætlar bara að smakka hana seinna ;)
Arabinn hérna á horninu með kebabb-ið er líka orðinn góðkunningi okkar. Hann er farinn að gefa okkur afslátt af því sem við kaupum ;) enda mjög þægilegt að koma við þarna á leiðinni heim úr skólanum og kippa með í kvöldmatinn. Hver nennir að fara að elda kl. hálf tíu á kvöldin?
Og á kaffihúsinu hérna þrem húslengdum frá er nóg að nikka til þjónsins og þá kemur hann með ristað brauð með smjöri og marmelaði og ferskan appelsínusafa með. Við bara löbbum inn, nikkum til hans og finnum okkur sæti og þetta er komið til okkar fyrr en varir.
Á kaffihúsinu við skólann er það fogato, sem er nokkurs konar samlokupizza, og appelsínusafi;) Þetta var ekki til síðast og þá spurði stelpan hvort mig langaði ekki að prófa eitthvað annað, þau væru með helling af öðrum réttum ;)
Þau eru líka búin að ná því að ég vil ekki sykur í teið mitt;) Einkennilegar venjur hjá þessum klakabúum. Vilja ekki sykur sem er allra meina bót!

Við smá saman leitum að fleiri stöðum til að minnka álagið á þessum sem við höfum fyrir. Það er ágætt að dreifa þessu eitthvað. Var búin að koma auga á pizzastað en það er alltaf svo mikið fólk þar að ég hef ekki haft það í gegn enn að fara þangað.

Þess á milli eru það mandarínur, kílo-ið kostar eina evru ;), er víst frekar dýrt svona í byrjun tímabilsins, og bananar.

Skólafélögunum finnst þessar matarvenjur mínar frekar einhæfar eitthvað og Manolo bauð mér í mat (og Gumma) til að smakka spænskan mat. Því miður... sat ég í eldhúsinu og spjallaði við hann á meðan hann eldaði og sá hvernig matseldin fór fram. Ég með mína matareitrunarfobíu! Hann reif hænuna sundur með berum lúkunum, skar svo vöðvana niður í bita og grænmetið strax á eftir á sama trébrettinu (án þess að þvo það) en reyndar skolaði... af hnífnum. Með sama hníf og bretti skar hann sítrónu sem hann skutlaði ofan í kókglasið mitt án þess að ég fengi nokkuð við því gert. Í forrétt var hvítt brauð sem hann hellti ólífuolíu yfir og mareneruð loðna með hráu söltuðu svínakjöti, kallað Jamon og er þjóðarréttur þeirra. Fyrir kurteisis sakir smakkaði ég þetta en var kannski helst til fljót að afþakka meira. Held að hann hafi séð í gegnum það. Þetta guffaðist samt allt ofan í Gumma og ég reyndi að lauma mínu til hans þegar hann sá ekki til.

Ég sver það að ég svitnaði þarna og var að pæla í því allan tímann hvernig ég kæmi þessu niður án þess að vera dónaleg. Ég skal alveg viðurkenna að maturinn sem hann eldaði var helvíti góður. Ég vildi bara að ég hefði ekki séð til hans elda hann.

En nóg um mat...

Er að byrja í prófum og fer að fá skitu yfir því. Ég las örugglega í þrjá klukkutíma í gær og náði að komast yfir einn fimmta af efninu sem er til prófs á þriðjudaginn. Kjaftafögin eru ekki að bliva hérna. En það verður alltaf einhver að vera lúðinn í bekknum, það er best að skiptineminn af klakanum taki það að sér ;)
Ég segi kennaranum bara að ef hann felli mig þá láti ég ísbjörninn éta hann og hann skíti honum með mörgæsunum sem hann hafði í forrétt ;)