Jæja, tölvan mín er nú komin í lag, en ég fæ ósköp lítið að komast í hana þar sem Gummi telur sig hafa forgang þar sem hann er í fjarnámi... En þessi forgangur nær líka yfir moggann, blogg, vafra um á netinu... buhu... En hann fór í próf svo ég komst í tölvuna á meðan ;)
Ég á að vera að lesa undir próf, en fyrst ég komst í tölvuna þá er best að nýta það tækifæri sem best.
Er í einum áfanga sem heitir ,,net landmælinga og landmælingastærðfræði" sem mér finnst algjör snilld. Hann var tekinn af krafti fyrstu tvo mánuðina því kennarinn er að fara á Suður Pólinn núna í desember. Ég hefði sko viljað fara með! Þetta er eitthvað rannsóknarverkefni sem fullt af löndum vinna að. Hann flýgur til Argentínu af því að það er víst næst pólnum og síðan þaðan með bát og yfir á þessar eyjar sem þeir eru að mæla þarna.
Hann var að segja frá þessu í tímanum og þá spurði ég hvort hann vissi þá af hverju ísbjörninn æti ekki mörgæsirnar. Hann var smá stund að fatta það, en það fattaði enginn annar það! Einn bekkjarfélaginn spurði hvort þær væru eitraðar ;) Brandarinn datt eiginlega um sjálfan sig.
Svo þegar ég var búin að útskýra hann þá spurðu þau hvort ég hefði þá aldrei séð mörgæs... Skal alveg viðurkenna að það kom upp smá púki, var að spá í að segja að við notuðum þær til undaneldis af því að eggin þeirra virkuðu eins og viakra. Lét það samt vera, aldrei að vita nema þau hefðu trúað því ;). Þá spurðu þau hvort við værum þá BARA með ísbirni ;). Var að hugsa um að skálda einhverja frækni sögu af mér sem bjarnarbana en þau hefðu nú líklega aldrei trúað því...
En akkurat svona verkefni langar mig til að komast í. Það er reyndar fullt af mörgæsum þar sem hann verður að mæla. Gaman þegar þær fara að hrúgast í kringum mælingatækin ;)
Ég er nú búin að fara í nokkur Erasmus - partý (Erasmus eru útlensku nemendurnir við skólann) og ég veit ekki hversu oft ég hef sagt að við séum BARA 300 000 sem búum á eyjunni. Fólk ætlar ekki að trúa því. Hvað þá að við höfum okkar eigið tungumál! Ég hef nú ekkert verið að útskýra þá nágranna okkar, Færeyjar og Grænland.
Af einhverjum ástæðum náðum við saman við frakkana. Veit ekki alveg af hverju en við virðumst hafa einhverja tilhneyingu til að lenda í partýjum með þeim. Annars eru aðallega Ítalir og Portugalir, svo smá reytingur frá öðrum löndum.
Það gengur orðið betur að finna eitthvað æti hérna. Við erum að spá í að kaupa hlutabréf í kínverska veitingastaðnum hérna rétt hjá, hitti Gumma þar á eftir í hádegismat og það er alveg vika síðan við fórum þangað síðast. Þeir eru örugglega farnir að sakna okkar. Búnir að hringja á sjúkrahúsin og líkhúsin til að athuga hvort eitthvað hafi nokkuð komið fyrir.
Ég sver það að appelsínu öndin á þessu stað er eitt það besta sem ég hef á ævi minni smakkað. Við fórum í partý til frönsku Imanuel og þar var djammað og djúsað fram eftir nóttu. Gummi sá um alfarið um djúsið og var því ekkert sérlega hress morguninn eftir. Ég hætti ekki að væla í honum fyrr en ég náði honum út á kínastaðinn til að borða. Fékk mér svona appelsínu önd, Gummi lá grænn fram á borðið og ég át eins og svín. Hann ætlar bara að smakka hana seinna ;)
Arabinn hérna á horninu með kebabb-ið er líka orðinn góðkunningi okkar. Hann er farinn að gefa okkur afslátt af því sem við kaupum ;) enda mjög þægilegt að koma við þarna á leiðinni heim úr skólanum og kippa með í kvöldmatinn. Hver nennir að fara að elda kl. hálf tíu á kvöldin?
Og á kaffihúsinu hérna þrem húslengdum frá er nóg að nikka til þjónsins og þá kemur hann með ristað brauð með smjöri og marmelaði og ferskan appelsínusafa með. Við bara löbbum inn, nikkum til hans og finnum okkur sæti og þetta er komið til okkar fyrr en varir.
Á kaffihúsinu við skólann er það fogato, sem er nokkurs konar samlokupizza, og appelsínusafi;) Þetta var ekki til síðast og þá spurði stelpan hvort mig langaði ekki að prófa eitthvað annað, þau væru með helling af öðrum réttum ;)
Þau eru líka búin að ná því að ég vil ekki sykur í teið mitt;) Einkennilegar venjur hjá þessum klakabúum. Vilja ekki sykur sem er allra meina bót!
Við smá saman leitum að fleiri stöðum til að minnka álagið á þessum sem við höfum fyrir. Það er ágætt að dreifa þessu eitthvað. Var búin að koma auga á pizzastað en það er alltaf svo mikið fólk þar að ég hef ekki haft það í gegn enn að fara þangað.
Þess á milli eru það mandarínur, kílo-ið kostar eina evru ;), er víst frekar dýrt svona í byrjun tímabilsins, og bananar.
Skólafélögunum finnst þessar matarvenjur mínar frekar einhæfar eitthvað og Manolo bauð mér í mat (og Gumma) til að smakka spænskan mat. Því miður... sat ég í eldhúsinu og spjallaði við hann á meðan hann eldaði og sá hvernig matseldin fór fram. Ég með mína matareitrunarfobíu! Hann reif hænuna sundur með berum lúkunum, skar svo vöðvana niður í bita og grænmetið strax á eftir á sama trébrettinu (án þess að þvo það) en reyndar skolaði... af hnífnum. Með sama hníf og bretti skar hann sítrónu sem hann skutlaði ofan í kókglasið mitt án þess að ég fengi nokkuð við því gert. Í forrétt var hvítt brauð sem hann hellti ólífuolíu yfir og mareneruð loðna með hráu söltuðu svínakjöti, kallað Jamon og er þjóðarréttur þeirra. Fyrir kurteisis sakir smakkaði ég þetta en var kannski helst til fljót að afþakka meira. Held að hann hafi séð í gegnum það. Þetta guffaðist samt allt ofan í Gumma og ég reyndi að lauma mínu til hans þegar hann sá ekki til.
Ég sver það að ég svitnaði þarna og var að pæla í því allan tímann hvernig ég kæmi þessu niður án þess að vera dónaleg. Ég skal alveg viðurkenna að maturinn sem hann eldaði var helvíti góður. Ég vildi bara að ég hefði ekki séð til hans elda hann.
En nóg um mat...
Er að byrja í prófum og fer að fá skitu yfir því. Ég las örugglega í þrjá klukkutíma í gær og náði að komast yfir einn fimmta af efninu sem er til prófs á þriðjudaginn. Kjaftafögin eru ekki að bliva hérna. En það verður alltaf einhver að vera lúðinn í bekknum, það er best að skiptineminn af klakanum taki það að sér ;)
Ég segi kennaranum bara að ef hann felli mig þá láti ég ísbjörninn éta hann og hann skíti honum með mörgæsunum sem hann hafði í forrétt ;)