Tuesday, March 29, 2005

Gleðilega páska allir saman!

Er búin að hafa það ósköp gott um páskana. Gummi leigði sumarbústað rétt hjá Hvanneyri þar sem hann er að hjálpa Sirrý systir að smíða grunn. Ég hef svo hlaupið í smíðavinnu öðru hvoru og reynt að læra þess á milli, en það hefur nú þokast lítið.

Fínt að komast í alvöru vinnu stundum, en þvílíkur aumingi sem maður getur nú verið. Við vorum að slá frá í gær og ég er með heljarinnar strengi.
Það hefur nú verið gaman að vita hvað þeir hafa hugsað sem komum með steypuna til okkar á laugardeginum. Við vorum þarna fimm, ég og Gummi, Sirrý og Júlli og Siggi, tengdapabbi Sirrýar. Ég held að þeir hafi allir hugsað hvað aumingja gamli maðurinn var að gera með þessa krakkaafglapa í vinnu. Þeir halda örugglega að það verði aldrei hús úr þessu. Smiðurinn að húsinu, Gummi, er miklu líkari ítölskum mafíósa en íslenskum smið.
Það besta við svona vinnu er að loknum vinnudegi, þá sér maður svo mikið eftir sig, hæflega þreyttur, og svo er það grillið, bjórinn og heiti potturinn á eftir.

Berghildur litla frænka virðist vera orðin ágætlega sátt við þennan afglapa sem kallar sig frænku hennar. Við eigum örugglega eftir að gerast ágætis félagar. Eflaust eftir að gera garðinn frægann einhvern daginn.

En það er nú ekki eitt heldur allt sem hann Guðmundur minn lendir í. Áðan lenti hann í hárgreiðsluleik og þurft að lita á mér hárið. Aðrar eins aðfarir hef ég sjaldan séð og ég lít út fyrir af ætt blettatígra... Það er litur út um allt ! Doppur, greiðuför og fingraför. Hanskarnir sem fylgja með passa enganveginn á Gumma, svo var hann að baksa með greiðuna og túbbuna og þetta endaði allt í klandri. Boy oh boy !

Thursday, March 17, 2005

Ósköp líður manni vel þegar maður finnur ekta hrossaskítslykt af sjálfum sér. Við Emilía vorum að koma úr hesthúsunum hans Lilla. Hann bauð okkur með að skoða gæðingana. Þar komumst við í að moka skít, sópa bása, gefa hey og kemba hestum. Við fórum ekki á bak í þetta skiptið, það bíður þangað til næst.
Dreif krakkann í bað þar sem það er skóladagur á morgun og ómögulegt að það verði einhver hrossalykt af henni. Cheerios og mjólk í kvöldkaffi og svo beina leið upp í rúm. Ég er alveg fyrirtaks uppalandi. Lesum smá Fagrablakk áður en við förum að sofa.

Akureyris er samt við sig. Núna snjóar og allt er hvítt. Er búin að vera hérna síðan um helgi og soga í mig orkuna úr norðlenska loftinu. Ég get ekki alveg fest fingur á það hvað það er, en það er einhvern veginn... betra.

Stefnan er tekin á Hvanneyri á morgun og svo var ég jafnvel að hugsa um að kíkja á borgina. Ég get ekki sagt að ég sakni hennar, en ætli ég verði ekki að hugsa smá um þessi svokölluðu börn mín.

Byrjaði eitt erfiðasta og massívasta prjónaverk ævi minnar. Er búin að prjóna eins og mófó síðastliðna 4 daga og það sér ekki högg á vatni. Prjónarnir eru svo fínir að ég stakk mig til blóðs á þumalfingri í öllum hamagangnum. Miðað við 450 lykkjur í hverjum hring, ég er búin með um 40 hringi, sem gera um 18 000 lykkjur í útprjóni á u.þ.b. 18 tímum myndi ég giska, þá ætti þetta að takast á svona 10 ára áætlun.

Reikna með að reyna að mæta í skólann þessa tvo daga í næstu viku þar sem ég er búin að vera alla þessa viku fyrir norðan og ekki svo mikið sem opnað námsbók. Hvar er eiginlega þessi námsgleði mín. Ástæðan er að ég er í 3 kjaftafögum, og kjaftafög á hreinlega að banna. WHY !!!

Wednesday, March 09, 2005

BÓKAMARKAÐUR !!!

Uppáhaldið mitt... keypti fullt af bókum, 13 í fyrstu ferð. Ætla að fara aftur áður en hann hættir. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, meira að segja fatainnkaup falla algjörlega í skuggann. Þegar ég var lítil þá safnaði ég pening og geymdi hann svo ég gæti notað hann þegar bókamarkaðurinn yrði í mars.
Þarna get ég labbað um dögum saman, skoðað bækur sem ég á eftir að lesa, bækur sem ég hef lesið, fundið bækur eftir nýja höfunda og nýjarbækur eftir gamla höfunda.
Mér finnst samt skemmtilegast að kaupa barnabækur. Ég t.d. fann núna Gustbók sem mig vantaði inn í safnið og Lassý bók líka. Svo keypti ég bækurnar Ferð Eiríks til Ásgarðs... og Jötunheima. Ekki það að ég hef lesið þær svona 7 sinnum, en ég á þær ekki sjálf. Núna get ég lesið þær enn oftar. Svo fann ég Barnabiblíuna, myndskreytta. Ég bara varð að eignast hana. Ég var búin að gefa Emilíu hana en svo langaði mig svo í hana sjálf.
En svo kaupir maður alltaf eitthvað af svona tíbískum bókum, sakamálasögur og ástarsögur. Mig langaði svo í bækur eftir Arnald, en þær eru svo ógeðslega dýrar.

En hvernig á maður að fara að þegar maður er alltaf á flakki og á hvergi heima. Það er ekkert smá mál að vesenast með allar þessar bækur. Ég pakkaði niður í nokkra kassa bókum sem verða ekki teknar upp fyrr en eftir svona 10 ár og setti upp á loft í Einbúablánni. Hvað á maður að gera við þetta allt saman? Ég veit bara að ég ætla að hafa stóra lesstofu í húsinu mínu. Þar verður arinn og minibar og svo bara bækur. 18 og yngri bannaður aðgangur !

Komst að því að ég kem aldrei til með að geta hugsað um barn. Gummi verður bara að sætta sig við það að kellingin hans er óhæf til barnauppeldis!
Ég var að skipta um vatn hjá Alexander, skyldi hann eftir á borðinu meðan ég skolaði búrið og þegar ég snéri mér við þá var hann horfinn. Ég kíkti niður á gólf og þar lá hann greyið í köðli, samanbögglaður. Svo þykist hann alltaf vera dauður þegar eitthvað óvænt gerist. Ég hélt á tímabili að hann væri í alvöru dáinn, ekkert skrítið miðað við að hann datt 30 falda hæð sína niður á gólf. Ég rétti úr honum og svo fór hann smá saman að skríða um gólfið. Hann virðist ætla að fyrirgefa mér þetta. Ég hringdi í Gumma, alveg á háa c-inu, og sagði honum að ég ætlaði aldrei, aldrei að ala upp krakka.
Ég er bara fegin að þetta var ekki krakki á skiptiborði !

Fann óvæntan glaðning í rúminu mínu þegar ég fór að sofa í gær. Lagðist fyrst ofan á sængina og fann eitthvað hart. Var ekkert að pæla í því neitt strax. Svo þegar ég ætlaði að skríða undir sængina þá fann ég eitthvað hart og aflangt, svipti sænginni ofan af rúminu og sá að þetta var víst haglabyssa sem ég var að skríða uppí hjá. Minn ástkæri bróðir ætlaði víst að fá að geyma hana smá tíma, gleymdi bara að minnast á það.