Ástandið er voðalegt! Ég er með svo mikla strengi í rassinum, ég er með tak innan læra, utanlæravöðvarnir eru í henglum, herðablöðin eru helaum og allt þar í kring og axlirnar rétt hanga í liðunum. Ég er búin að uppgötva vöðva sem ég vissi ekki að væru til. E.t.v. voru þeir ekki til áður, uxu bara upp úr þurru utan á mér... til að kvelja mig.
Ég fór í bodypump tíma með Láru. Ósköp saklaust. Var bara með létt lóð svona til að byrja með, samt meira en gamla kerlingarskruddan sem var þarna í tímanum. Hún var rétt svona eins og annað lærið á mér, varla það. Svo byrjaði þetta, ekkert svo erfitt, þannig séð, en maður passaði samt að gefast ekki upp, vera með og halda áfram meðan hinir héldu áfram. Hafði nú auga með gömlu þarna í horninu. Viti menn, ég lifði tímann af, einn klukkutíma. Vaknaði sárþjáð í morgun, hver hreyfing vakti upp óþolanlegar kvalir og ég hélt að ég ætti ekki eftir að yfirgefa rúmið í lifanda lífi. En ég er nú hörkutól, skreið framúr og upp í skóla. Dagur sem byrjar svona vísar hreinlega ekki á gott, enda hef ég ekki borið mitt barr í allann dag. Og ég er viss um að sú gamla er að skokka um með húsgögnin sín!
Fyrsti dagurinn í sjoppunni, fyrsti dagurinn í þjónustustörfum, fyrsti dagurinn sem Frú Katrín brosir framan í fólk og segir: ,, Get ég aðstoðað...”. Þvílíkt og annað eins hefur ekki sést, hvorki fyrr né síðar. Þið hefðuð átt að sjá undrið. Ég var að spá í það í gær að prenta út brosandi manneskju á harðann pappír, klippa það út og vera með það á fésinu í dag. En þetta gékk allt vonum framar. Beit engann, barði engann og argaði ekki á neinn. Þvílíkar framfarir !
Ég vissi náttúrulega ekki um verð á einum einasta hlut og margir hverjir fóru bara á uppboð, eða hver og einn þurfti að bjóða í vöruna sem hann ætlaði að kaupa. Þess fyrir utan lagði ég vitlaust saman, gaf vitlaust til baka og benti fólki vinsamlegast á að kaupa ekki þessa ógeðslegu Aloe Vera jógúrt, hún væri alveg með öllu óæt.
Ég reyndi bara að selja það ekki dýrara en ég keypti það ;) “afraksturinn” fer svo í sjóð sem kemur til með að fleyta mér alla leið til útlanda með restinni af verkfræðicoolistunum. Hvert verður farið er óvíst, ég er búin að stinga upp á að fara Mekka-ferð til Cubu en þar sem margir hverjir eru alveg helbláir þarna þá voru undirtektirnar af skornum skammti. Veiðiferð til Amazon að elta uppi anacondur eða fara til Afríku að skjóta antilópur væri ég alveg til í. En samt held ég að það verði gaman hvert sem við förum, svo fremur sem við förum ekki til USA. Sérstaklega ekki ef Bush verður endurkjörinn, ég ætti ekki annað eftir.
Í vín-synda-ferð síðastl. föstudag var ýmislegt rætt um útskriftarferð og tillögurnar urðu skemmtilegri og skemmtilegri eftir því sem leið á kvöldið. Á Pravda splittaðist hópurinn og það varð ekki meira úr því.
Í fótboltann daginn eftir mættum við fjórar og vorum ekki upp á marga fiska. Vorum að drepast eftir að hafa hlaupið nokkrar ferðir.
Ætla að drífa mig í bío með Axel bróðir. Verð að sjá myndina þar sem þeir eru að drulla yfir Bush, en annars er það algjört eitur fyrir siðvitundarkennd mína að borga 800 kall í bíó. Hvað er eiginlega í gangi? Hvaða ble ble var það með að dollarinn fór upp í 115 krónur, hann er í um 80 kall núna! Verðum að hækka bíómiðana... kjaftæði!!!