Thursday, July 24, 2008

Komin heim! Jafnvel þó ég eigi eiginlega hvergi heima þá finnst mér ég samt komin heim :)

Höfum verið á flakki frá því að ég kom á klakann. Byrjuðum í Reykjavík, fórum þaðan á Hvanneyri til Sirrýar systur. Þar var Gummi að brasast í sólpall og við Bergrós Ásta að þvælast í kring. Þaðan lá leið okkar til höfuðstaðar Norðurlands, Akureyris en það var ættarmót hjá fjölskyldu Gumma. Ættarmótið var í Fögruvík og það var ný tilfinning að fara í pottinn þar sem enginn var ofurölvi, ekkert trúnó og ekkert kelerí. Aldurinn er að færast yfir ;)
Eftir að ættarmótinu lauk á sunnudeginum var haldið af stað í Ásbyrgi þar sem fjallkonur og sveitadrengir hittust. Þar var étið og drukkið, farið í kubb og íþróttakeppnir fram eftir nóttu. Ég er enn með marblett eftir glímuna við Eggert og ekki laust við að fimleikakeppnin hafi aðeins hreyft við liðamótunum sem voru farin að stirna óþægilega mikið. Bergrós Ásta var tvímælalaust yngsti þáttakandinn og fellur sjálfsagt í flokk fjallstubba.
Ég set síðar inn myndir úr Ásbyrgi! Ég er handviss um að þetta er ein af náttúruperlum heimsins. Ég hef víða farið og enn hef ég ekki rekist á margt sem toppar þennan stað.
Eftir þetta héldu fjallkonur og sveitadrengir aftur heim í hinn sífagra Þistilfjörð þar sem undirbúningur fyrir Káta Daga á Þórshöfn hófust. Við vorum í góðu yfirlæti í sveitinni og maturinn hennar Dúu kom jafnvægi á ballestina sem eitthvað hafði raskast í prófatíð.
Kátir dagar voru snilld. Hitti fullt af fólki sem ég hef ekki séð í aldir alda. Ragga frænka var gæsuð á föstudagskvöldinu sem endaði með hittingi í hlöðunni og síðar á barnum með Dalton bræðrum. Gumma leist ekkert á þetta og dreif sig í Egilsstaði með Bergrós Ástu svo ég var single og barnlaus! Enda kom ég ekki heim fyrr en kl. 5 daginn eftir :)
Partýliðið hittist svo hjá Laufeyju og Ragga og grillaði áður en var haldið í partý hjá Árna og síðan á ball.
Ég var eitthvað aðeins að slappast og vildi ekki eyða 2500 kalli á ball fyrst mig langaði ekkert rosalega. Reyndar var Tina Turner show með Siggu Beinteins. en mér fannst það heldur dýrt. Svo þegar þær fregnir bárust í partýið að það væri hætt að selja inn kl. 3 þá drifum við okkur á ballið og náðum að dansa til 4 svo það var helvíti fínt.
Sunnudagurinn fór síðan í heimsóknir og seinnipartinn keyrðum við inn á Akureyris. Gistum hjá Ilmi og Jóni sem áttu leið í gegnum Akureyri á sama tíma og við. Bergrós Ásta og Jóhann Ási náðu aðeins að bralla saman. Þrufum að hittast í lengri tíma svo þau nái að kynnast almennilega!
Morgunkaffi hjá Stínu frænku og aftur erum við komin á Hvanneyri. Gummi er að flísaleggja sumarbústað inni í Skorradal og ég er í góðu yfirlæti hjá Sirrý systur á meðan.


Um helgina ætlum við systkinin að hittast. Afmæli mömmu er um helgina, hún hefði orðið 54 ára gömul. Mér finnst svo ótrúlegt að 5 ár eru liðin frá því að hún dó. Það hefur svo ótal margt gerst á þessum fimm árum sem ég vildi óska að hún vissi af. Þrjú barnabörn hafa bæst í hópinn, Axel keypti hús og er fluttur til Vestmannaeyja, Sirrý og Júlli eru búin að byggja á Hvanneyri og giftu sig síðasta sumar, Gréta systir keypti Helgó eftir að Amma dó en er nú tímabundið flutt til Svíþjóðar að læra kynjafræði, trúlofuð honum Jóni Arnari. Við Gummi erum flutt til Spánar og eignuðumst á endanum barn, litla stubb, Bergrós Ástu. Ég sem hélt að móðurhlutverkið væri ekkert fyrir mig er að plumma mig bara ágætlega, minnst kosti betur en ég átti von á. Gummi er fæddur í foreldrahlutverkið og hjálpar mér með það sem uppá vantar í mömmuleiknum :)

Það er svo ótal margt sem mig hefði langað til að geta sagt mömmu mest þó að nú er einhver sem kallar mig mömmu. Lítil grallarafrekja með dökkbrún augu sem hleypur um allt. Nafnið kemur að hluta til frá henni, að hluta til frá Rósinni - Eitt er það sem aldrei gleymist, aldrei það er minning þín -. Seinna nafnið hefur hún frá Ástu ömmu sinni á Egilsstöðum en þær mamma voru góðar vinkonur og þær eiga vel saman í nafngiftinni á litlu Bergrós Ástu.
Þó þið munið aldrei kynnast mun ég reyna mitt besta til að kynna þig fyrir henni.

Friday, July 04, 2008

Jæja, þá eru prófin búin og ferðalagið heim að hefjast.

Ég fer beint héðan frá Jaén í sumarbústað til Rocío skólasystur minnar og verð þar yfir helgina. Þaðan fer ég síðan beint áfram á mánudagsmorgun til Alicante með lestinni og á mánudagskvöld er flugið heim á klakann. Fer héðan kl. 23 á staðartíma og lendi kl. 2 á staðartíma. Flugvélin fer það hratt að fimm tíma flug verður ekki nema þrír tímar í rauninni... Einstein hvað???

Ég á enn eftir að fá út úr tveimur prófum. Mér gékk ekki vel í síðasta prófin en ætla að sjá til hvort það slampist ekki.

Ég náði Foto I sem er killer fagið hérna í skólanum. Það er svona eins og stærðfræðigreinin II heima, þegar þú ert búin að ná henni ertu kominn í gegn. Ég er reyndar ekki sátt við yfirferðina já karlinum, en hann er eitthvað kúkú. Fór að skoða prófið og ég spurði hann hvort það væri ekki alveg í lagi með hann.
Eitt dæmið reiknaði ég alveg rétt, réttar formúlur, rétt niðurstaða. Leiddi út formúlurnar og teiknaði dæmið upp meðfram útleiðslunum. Hann gaf mér einn af tveimur punktum og sagði að það vantaði smá útskýringar og þegar ég spurði hann nákvæmlega hvaða útskýringar vantaði þar sem ég útskýrði hreinlega allt sem ég var að gera þá gat hann ekki svarað því. Bara svona í heildina aðeins meira... Hann hækkaði mig á endanum en sagðist ekki skilja af hverju þar sem ég væri hvort eð er búin að ná og væri hæst af þeim sem tóku prófið. Mér er bara rassgat sama! ég vil fá rétt fyrir rétt, ekki 50%.
Annað dæmi var beint sýnidæmi úr bókinni með ofurlitlum breytingum. Þegar ég gerði dæmið á prófinu mundi ég niðurstöðurnar úr sýnidæminu og vissi því að þetta væri nokkurn veginn rétt. Ég snappaði þegar ég sá að hann gaf mér ekki rétt fyrir það, var sem betur fer með glósurnar með mér og gat rakið þetta ofan í hann. Hann hafði sjálfur reiknað dæmið vitlaust og notaði því vitlausar niðustöður til að fara yfir dæmið. Hann gaf mér 60% fyrir dæmið. Sagði að það vantaði útskýringar m.v. heildarmyndina.
Þess fyrir utan var hann búinn að týna verkefnunum sem ég skilaði á önninni. Sagði að hann hefði aldrei fengið þau. Ég hætti ekki fyrr en hann leitaði í póstinum og fann þau, benti honum á að ég hefði lagt mikla vinnu í þau og það kæmi ekki til greina að hann hunsaði þau í einkunn. Þess fyrir utan er sjálvirka skilakerfið hans ekki að meika það að ég sé ekki með spænska kennitölu og nota vegabréfsnúmerið mitt þannig að öll stöðuprófin sem ég tók á netinu skiluðu sér ekki inn.
ER ÞETTA EÐLILEGT ?????

En ég var hæst :) nananananana Reyndar með 5.6 í einkunn en who gives! Það eru 250 manns í áfanganum, þrjú próf á ári og í þessu náðu 3, þar af féll einn í fræðihlutanum og þarf að taka hann aftur. Þessi kennari er náttúrulega stórkostlega vangefinn!

Og líka hæst í Foto II :) Með Notable í einkunn (eftirtektarvert) sem er reyndar bara milli 7 og 9 en who gives;)

En í síðustu tveimur prófunum gékk mér ekkert voðalega vel og á eftir að fá út úr þeim báðum. Nú er bara að krossa fingur og sjá til.


En mikið hrikalega hlakka ég til að koma heim! 3 dagar !!! Counting down from now!