Saturday, June 30, 2007

Litla dýrið rifnar út! Það stefnir allt í að ég eigi minn eigin Michelin dúdda. Stubbur var nefninlega vigtaður og í ljós kom að hún var búin að bæta á sig rétt tæpu kílói á 3 vikum og 1 degi... Þetta ætla ég rétt að vona að sé ekki línulega vaxandi fall! Það gera tæp 20 kíló á ári! Boy oh boy! En þetta er úr móðurættinni, hefur alltaf vegið þungt í okkur pundið:)
Man þegar ég náði þeim merka áfanga að vera 1/20 úr tonni! Sagði hverjum það sem heyra vildi (eða ekki) og var mjög stolt af því. Síðar hefur mér nú verið bent á að þetta teljist ekki til ,,kvennlegra eiginleika" enn... so be it!

Gleraugun fékk hún send frá Kittu í Californiu! Coolisti með sólgleraugu :)





En annars er ég bara að læra þessa dagana... að klepra við það hérna í hitanum!
Næsta próf á mánudaginn!

Monday, June 25, 2007

Fyrsta prófið í höfn!

Var að velta því fyrir mér í morgun, þetta er 20 árið mitt í skóla, fyrir utan eitt ár í frí veturinn í Guatemala. Prófið var kl. 9 í morgun og eins og alltaf er þessi fiðringur í maganum, smá hnútur og maður finnur fyrir hjartsláttnum í hálsinum. Eldist þetta aldrei af manni.
Prófið gékk eiginlega hörmulega, það reddast held ég samt, skríð örugglega og úber 35% vetrareinkunn hysjar aðeins upp um mig brækurnar. Svo fer aðeins í taugarnar á mér að allir eru voðalega skilningsríkir á að manni hafi ekki gengið nógu vel, þetta hafði ekkert með spænskuna að gera. Ég las bara ekki nóg fyrir helvítis prófið, hefði alveg átt að geta betur. Never the less... eitt próf búið, tvö eftir. Þrír próflausir áfangar búnir... næstum, á eftir að fínpússa skýrsluna í Gagnagrunns-áfanganum.

Never the less... eitt sem er algjör snilld hérna og það eru ávextirnir! Það er fullt af ávöxtum sem ég vissi ekki að væru til; þess fyrir utan eru þeir mjög ódýrir svo maður getur fyllt körfuna með góðri samvisku af ferskum jarðaberjum (sem ég tými aldrei að kaupa heima af því að þau eru svo dýr), svona rauðum berjum á stærð við vínber og eru geðveikt góð, ferskum ananas, vínber o.fl..
Kannski er það líka hitinn sem gerir ávextina líka enn betri. Ég hef aldrei verið neitt sérlega hrifin af appelsínum, en mikið ógeðslega eru þær góðar ískaldar... þegar maður nennir að flysja þær ;) ... annars ekki ;)

Nýja íbúðin er snilld, sundlaugin myndi sóma sér vel í hvaða sveitafélagi sem er heima fyrir, fyrir utan að þær eru tvær. Ein fyrir krakkana! En okkur Gumma finnst þvílíkt cool að vera með sundlaug en hérna er það svo sem ekkert voðalega merkilegt. Þetta telst næstum til nauðsynja yfir sumartímann.
Tengdó sendi mér pening til að kaupa mér afmælisgjöf frá henni og nýtt bikini varð fyrir valinu. Verð að gefa mér smá tíma til að liggja við sundlaugina og ná mér í lit:)
Annars er að verða óbærilega heitt úti. Það er svo þurrt loftið hérna, vindurinn er svo ógeðslega heitur og maður verður allur þróttlaus á að vera úti. Þegar maður andar inn þessari mollu, fer orkan í að kæla loftið áður en maður andar því út aftur. Ég fer létt með að stúta 4 lítrum af vatni á dag, enda andar maður örugglega út 2 af þeim...
Besta við íbúðina er samt að það er svalt inni, eða nokkurn veginn eðlilegur húshiti. Maður er ekki að vakna á nóttunni og andvaka af hita eins og í hinni íbúðinni. Þess fyrir utan er rafmagn í eldhúsinu svo ég get hætt að borða matinn hálfbrenndann öðru meginn og hráann hinu megin. Gasofn er ekki að bliva!

En næsta mál á dagskrá er að læra tennis. Hef einu sinni prófað hann, í Egyptalandi og arabarnir eru örugglega enn að leita að tennisboltunum upp í trjám og víðar. Í sjónvarpinu virðist alltaf vera eins og þetta sé svo erfitt. Ég var bara að reyna að vinna inn fyrir þessu ahhhaaa hljóði þeirra sem þær stynja alltaf þegar þær slá í boltann. Ég held að ég láti samt pínupilsið bíða um sinn... ;)
En það er hægt að fara á eitthvað tennisnámskeið hérna, en ætli það verði ekki að bíða næsta veturs...

Thursday, June 21, 2007

Sumarið er komið !

Spánverjar eru svo formlegir að sumarið kemur þann 21. júní, vorið kemur þann 22. mars o.s.frv.. Allt skipulagt !

35 stiga hiti í forsælu í dag og ég inni að læra fyrir próf. Það er ekki líft úti. Erum flutt í nýja íbúð. Krakkinn er ánægður þar sem það er kalt inni eða öllu heldur eðlilegur hiti, ég ánægð þar sem við erum við hliðina á háskólanum. Það eru innan við 100 metrar í bygginguna sem ég er yfirleitt í, og Gummi er ánægður þar sem það fylgir sundlaug og tennisvöllur. Þannig að hele familien er bara nokkuð sátt :)

Helst til lítill tími bara til að brúka sundlaugina og tennisvöllinn.

Stubbur er farinn að sækja háskólann, snemma beygist krókurinn. 13 daga gömul mætt í skólann og á bókasafnið. Kann vel við sig á bókasafninu, temmilegur kliður samt allt rólegt og svalt þar inni. Tilvonandi bókaormur ;)



Og við nýja heimilið okkar er garður með fullt af trjám og blómum


Og þarna eru þau félagarnir


Sumir að þykjast vera sofandi...


Eða illir...


Og sumir að gæjast...


Félagarnir að horfa á fótboltann, Spánarmeistaratitillinn

Saturday, June 09, 2007

Þarna er stubbur... 050607 ;)  Klikkaði ekki á því! 
3470 g og 51 cm


!
Hvað erum við nú búin að koma okkur í? Sl. 9 ár að leika okkur og kunnað því vel en nú er það pakkinn... næstu 18 árin... í dag 18 ár mínus 4 daga!



Hihi... ég komin í pakkann haha...



Skólafélagarnir í heimsókn að sjá bekkjarfélagann sem hefur mætt í allann vetur en aldrei sést eða látið í sér heyra.



Rétt til hrellingar var vakað tvo fyrstu sólarhringana. Sá fram á að tveir svona mánuðir og ég yrði endanlega vitstola. Eftir að heim var komið hefur bara verið sofið! What a live, af hverju man maður ekki eftir þessum dögum... éta, sofa, skíta... ohhh - nenni ekki á klósettið - læt það bara fara...


Nú á ég lítinn félaga til að kúra hjá. Lánaði félaganum koddaver til að breiða yfir sig. Það var að vísu of stórt en það mátti alveg hafa það tvöfalt;)



Þarna er voðalega greinilega voðalega gott að vera. Gummi var nú eitthvað að rifja upp að hann myndi nú þá daga er ég vildi helst hvergi annars staðar vera en í fanginu á honum en það eltist víst af mér. Var bara í þá gömlu góðu daga er við vorum bara við tvö ein... ung og ástfangin! Those where the days! Núna erum við komin í pakkann! :)
Það er samt spurningin um að fara að raka sig oftar!



Kodak smile-ið... hvaðan skyldi það nú koma? En undirhökurnar 4...?

Monday, June 04, 2007

... og ekkert gerist !

En ég kláraði stjarneðlisfræðiforritið mitt um helgina og næ að halda fyrirlestur í fyrramálið um könnun skóga með loftmyndum. Það væri annars ágætt ef krakkinn myndi gefa mér afsökun til að þurfa ekki að halda fyrirlesturinn. Er eiginlega með hnút í maganum yfir því að fara að halda fyrirlestur á spænsku. Og þar sem það er nú þriggja og hálfs kílóa "hnútur" þarna fyrir að berjast um þá er varla pláss fyrir kvíðahnútinn líka.

Eitt sem ég fór að velta fyrir mér í morgun, af hverju eru allir spítalar svona flóknir að rata um þá. Einhvern veginn finnst mér heill hellingur til af alls kyns stofnannabyggingum en engin þeirra eins flókin og spítalarnir. Kannski hef ég bara ekki komið inn í nógu margar.
Engu að síður tekst mér alltaf að villast þarna á göngunum, og á öllum spítölum. Yfirleitt er best að finna lyftu, komast á jarðhæð og fara út. Labba kringum bygginguna að aðalinnganginum og byrja upp á nýtt.

Fór s.s. á spítalann í dag. Átti tíma kl. 10 og beið til 1 eftir að komast að. Biðstofan full af fólki, allir að tala hver í kapp við annann svo hávaðinn var eins og inni á þéttsetnu kaffihúsi, loftræstingin biluð og ekki hægt að opna gluggana (sem hefði kannski ekki breytt miklu). Það ætti kannski að benda sjálfstæðisflokknum á það að leita ráða hérna, nú þegar þeir eru komir með heilbrigðisráðuneytið, hvernig þeir geta rekið heilbrigðiskerfið með ekkert of miklum kostnaði. Og ef þú nennir ekki að bíða ALLANN HELVÍTIS DAGINN uppi á spítala í hvert sinn sem þú ferð til læknis þá geturu alltaf keypt þig fram fyrir röðina... Fúlt að vera sá sem er aftastur í röðinni þegar hún lengist í hinn endann, en þér er bara nær að eiga ekki pening!

Síðast þegar við vorum á þessari fínu biðstofu vildi svo óheppilega til að læknirinn sem kallar á fólkið inn til sín gleymdi að slökkva á kallkerfinu eftir að hún kallaði á einn sjúklinginn. Það er í eitt af fáum skiptunum sem var hljóð á biðstofunni og liðið sat og hlustaði. Aumingja konan sem var þarna inni, veit ekki hvað hún var að tala um en af liðinu að dæma þá var það eitthvað krassandi. Vill maður í alvörunni hlusta á það þegar einhver annar er að tala við lækninn?
Ég passa mig líka núna þegar ég fer inn til hennar að athuga hvort sé nokkuð grænt ljós á græjunni.

Magnað hvað konurnar hérna nota blævængi mikið. Manni finnst þetta bara vera svona túristadót en þær eru allar með svona. Með elegant hreyfingu renna þær honum sundur, taka svo nokkrar kvennlegar sveiflur með honum og kippa þeim svo saman með smá rykk. Verð að fara að æfa mig í þessu.
Ætli þetta sé ekki eins og með lopapeysurnar heima. Túristar kaupa þetta fyrir morð fjár og þetta er minjagripur frá Íslandi, en fyrir okkur þarfaþing í réttum og á hestamannamótum. Spurning hvor þeir hengja þær svo upp á vegg þegar þeir koma heim eins og við gerum við blævængina...

Friday, June 01, 2007

10 ár frá því að ég kláraði grunnskóla ! Reunion í nánd...

Djöfull er maður að verða gamall ;) Á þeim tíma hélt ég að lífið væri bara niður á við eftir 20 ára aldurinn... og þá hélt ég að 25 ára væri maður pottþétt kominn með ,,pakkann" ... hús, station-bíl, 2 krakka af sitt hvoru kyninu, hund, komin með leið á kallinum, vinnu frá 8 til 5 og 6 vikna sumarfrí á launum.
Núna... 26 ára á ég hvergi heima, þ.e. ekkert húsnæði, lifi námsmannalífi úti á Spáni, eina ökutækið sem ég á og hef átt er hippa-mótorhjól, hundurinn sem ég sá svo sem aldrei um er farinn til feðra sinna, karlinn endist enn lon og don og ég sé fram á að vera einskins nýtur þjóðfélagsþegn í sumar, hvorki vinnandi né í sumarfríi á launum!

Spurningin er hvort þetta verður eitthvað breytt þegar ég næ 30 aldrinum. Ég kann bara svo helvíti vel við þetta að ég sé enga ástæðu til að breyta því mikið. Háskólalífið er lífið akkurat á meðan á því stendur og ég vil ekki fyrir nokkurn mun missa af því. Ég hef vonandi tíma fyrir hitt seinna;)

En svo þurfum við víst að taka saman hvað við höfum gert sl. 10 ár...
- 4 ár í stúdent
- 1 vetur í Guatemala, sjálfboðavinna, spænskunám og puttalangaferðalagast í Mið-Ameríku
- 4 ár í verkfræði og Kárahnjúka
- 1 ár í framhaldsnám í verkfræði á Spáni.
Ekki langur listi miðað við hvað manni finnst 10 ár vera langur tími.


En krakkinn lætur ekkert á sér kræla. Fyrst hann kom ekki á írska pub-num í nótt þá er enn langt í hann. Merkilegt hvað spánverjar eru mikið fyrir háværa tónlist og yfirtroðfulla bari.
Það hefði samt verið agalegt! Luis, tilvonandi neyðar-bílstjóri á eyrunum, Gummi farinn að kippa og ég í djammgallanum (eins mikið og djammföt eru framleidd á hvali) með málninguna komna á tíma og angandi af tóbaksreyk. Okkur hefði örugglega ekki verið hleypt inn á deildina!

Partýið gékk vel. Ég er að verða búin að læra að halda spænsk partý, með tilheyrandi mat og smáréttum. Reyndar var ég nærri búin að "eitra" fyrir marókkóbúunum... Hvað haldiði að maður sé að spá í að múslimar megi ekki borða svínakjöt! Þeim verður sjálfsagt meinaður aðgangur að paradís mín vegna en það verður að hafa það ;).
Verra er að það er fullt afgangs af víni og Gummi situr nú langdvölum á svölunum með bók og ferskan rauðvínsdrykk... Þetta stefnir í óefni!

Við vorum eitthvað búin að tala um hátterni á rollunum áður en þær eiga lömbin. Einhvern veginn getur maður spottað út þær sem eiga að fara að bera innan eins eða tveggja daga.
Gummi spurði svo þegar við fórum í heimsókn til vinar okkar sem á splunkunýjann krakka... ,,Hvernig er það, langar þig ekkert að stela honum? Ekkert pínu smá?" Fann ekkert, það var súr mjólkurlykt af honum og svo var hann vælandi. Langaði ekkert í hann. Bíðum enn!