Wednesday, February 28, 2007

Jæja, komst lifandi frá Barcelona og orðin nokkuð mett af menningu í bili. Úr varð að Sagrada family, Casa Batlló, Park Guell, Gaudi safnið, Súkkulaði safnið, Sædýrasafnið (sá hákarl ;)) Barcelonetta, Rambla og gosbrunnarnir voru skoðaðir. Restin verður að bíða betri tíma.

Gistum tvær nætur á sitt hvoru hótelinu. Fyrra hótelið var alveg í miðbænum, við Rambla götuna og 5 mínútna gangur frá höfninni. Það var á ásættanlegu verði, borguðum 18 evrur hvort okkar fyrir nóttina og morgunmatur innifalinn. Einnig voru innifaldir í verðinu 6 herbergisfélagar sem samanstóðu af tveimur japönum, tveimur Mexikönum, bandaríkjamanni og einum sem ég held að hafi örugglega verið frá Nýja Sjálandi.
Mexikóarnir voru mjög hressir, gaman að heyra Mið-Ameríska spænsku aftur og mun auðveldara að skilja hana ! Annar japaninn var náttúrulega ofur kurteis og alltaf að bjóða okkur af nestinu sínu. Hann hafði t.d. keypt kg af jarðaberjum á markaðnum og fann sig knúinn til að bjóða öllum í herberginu jarðaber fyrst hann var að borða þau fyrir framan okkur. Ný-Sjálendingurinn hraut ekkert smá og var með skápinn sinn fullann af mat til að borða á nóttunni og bandaríkjagaurinn hlustaði á ipod-inn sinn. Skemmtileg blanda af mismunandi þjóðernum.

Gummi toppaði samt kammóheitin seinni morguninn þegar hann hlammaði sér í rúmið... fyrir neðan kojuna sína þar sem mexikóska stelpan var; hann gleymdi sér aðeins. Sem betur fer settist hann bara í rúmið en henti sér ekki flötum þar. Greyið stelpan hentist upp og það var ekki að sjá hvort þeirra hrökk meira við.



Hitt hótelið var einnig gistiheimili en þar vorum við sér í herbergi og það var aðeins dýrara. Þar var allt hippaliðið samankomið, alls kyns túrbanar, dreddarar, afró og litríkur klæðnaður. Flestir höfðu það sameiginlegt að ferðast með bakpoka sem samanstóð af aleigunni.
Sameiginlegt eldhús þar sem maður gat eldað sér mat, bjór seldur á kostnaðarverði og fólkið sem vann þarna fékk fæði og húsnæði að launum. Meðalaldur þarna inni var í kringum 25 ára. Verulega kammó andrúmsloft en stofan þar sem flestir héngu í var eins og gamalt verkstæði sem hafði verið málað í alls kyns litum og myndir og plaggöt hengd upp á veggina til skrauts. Þarna lá liðið í hrúgum þegar það var ekki í skoðunarferðum og ,,minglaði" við hina.

Þessi ferðamáti er lífstíll útaf fyrir sig og pottþétt einn sá ódýrasti. Stundum er gaman að prófa einhver fín hótel og flottheit en ég held samt að það sé tæplega kominn tími á það í mínu lífi (hvað þá efni fyrir því...). Frekar vil ég fara í 10 svona ferðir fyrir tvær dýrar og flottar. Það er líka viss ævintýraljómi yfir svona ferðalögum. Frekar en að taka leigubíl keyptum við 10 miða lesarkort í neðanjarðarlestina. Á einhvern óskiljanlegan hátt enduðum við yfirleitt þar sem við ætluðum og sjaldnast var langt að rölta frá lestarstöðinni þangað sem við vorum að fara. Það getur svo sem líka verið ágætt að villast öðru hvoru, þegar ekki mikið liggur við.
Ein ferð með strætó í Reykavík dekkar innanborgar lestarmiða fyrir tvo fram og til baka og rúmlega það. Ég held það sé ástæða fyrir því að við sitjum uppi með japanska og þýska miðaldra ferðamenn!

Tuesday, February 20, 2007

Jæja... síðasta prófið að baki og ég sveima um í þessu einkennilega tómarúmi sem sífellt umlykur mann eftir prófatarnir.
Tilfinningin - ég á að vera að gera eitthvað - neitar að yfirgefa mig. Allt... sem ég ætlaði að gera, var búin að láta mig dreyma um þegar ég sat yfir bóknum, virðist mjög ómerkilegt núna. Ég sem var búin að horfa í kringum mig og ergja mig á allri óreiðunni sem hafði skapast í kringum mig í prófalestrinum, mikið yrði nú gaman þegar ég yrði búin í prófum að geta tekið til og haft svolítið huggulegt í kringum mig... Minningin um þessa hugsun verður sífellt óljósari.

Síðasta prófið hefði mátt ganga betur. Trúi ekki á heppni og óheppni í prófum en þetta var akkurat svona dæmi. 6 þema á prófinu, nokkrar dæmatýpur í hverju þema. Þrjú þema kunni ég aftur á bak og áfram. Hin þrjú ágætlega nema það voru dæmatípur innan hvers þema, ein eða tvær sem ég var ekki klár á. Hitt kunni ég þokkalega vel, frekar mjög vel meira að segja.
Hann þræddi þessar dæmatýpur í þessum þemum sem ég kunni ekki nógu vel. Hverjar eru líkurnar...

M.v. að ég kunni illa tvær dæmatýpur af 10 í þessum þremur þemum, þ.e. kann 80% af þemanu en 20% illa... => 0.2 x 0.2 x 0.2 eða 0.8% líkur. Og það var ekki það að ég kynni ekki erfiðu dæmin og hann væri að spyrja um þau, það hefði verið óskandi því ég var búin að liggja yfir þeim. Vantrú mín á góðmennsku kennarans varð mér að falli... En hvort það felldi mig alveg kemur í ljós í næstu viku.
Það þýðir samt ekki að grenja yfir því og skrifa bók um það.

Barcilona... hvað er merkilegt þar?

Skv. Lonley planet:

- La Sagrada Familía "If you only have time for one sightseeing outing in Barcelona, this should probably be it" . Þetta er einhver gríðarlega stór kirkja sem var byggð vegna vegna þess hversu byltingarkenndar hugmyndir voru farnar að bærast í Barcilona um 1880. Þetta átti víst að halda mönnu nær trúnni.

- La Rambla Ein frægasta gata Spánar, andrúmsloft Barcilona í hnotskurn.

- Museu Picasso . Spánverjar eru gríðarlega stoltir af þessum málara sínum. En ég fór á Picasso safið í Malaga, heimabæ hans, með Grétu systur (hvað gerir maður ekki fyrir litlu systur), myndirnar hans voru flottur þangað til hann fékk rugluna og varð ríkur og frægur.

- La Barceloneta. Gamalt hverfi þar sem verksmiðjufólk og fiskimenn höfðust við á 18. öld. Það á víst að vera gríðarlega mikið af sjávarréttaveitingarstöðum þarna, antik markaðir, listamannalíf o.fl.. Kannski sé ég nokkrar skútur ;)

- Casa Batlló Önnur bygging eftir þennan Antony Gaudi sem er víst alveg stórmerkileg. Mér sýnist á heimasíðunni þeirra að þetta sé eitthvað furðuverk. Un míto del arte - goðsögn listar. Mér finnst alltaf áhugavert þegar fólk blandar saman húsakynnum og list, eins ópraktískt og óhagkvæmt og það er í flestum tilfellum.

- Montjuic "The Jewish Mountain" Hæðin við borgina þar sem maður sér yfir, þarna eru garðar, söfn, klúbbar og leikhús, skylst mér.

- La Pedera Enn eitt arkitekta viðundrið eftir þennan Gaudí, en þangað á maður víst að fara að kvöldi til, horfa yfir borgina og drekka cava (Catalan sparkling wine) og hlusta á spænska tónlist.

- Stiges Strönd fyrir utan Barcelona með svona stranda-party-activity dóti

Þetta eru "highlights-in" í Lonley planet og á flestum heimasíðum.. Nú er að velja og hafna og skipuleggja þetta með tilliti til bestunar ;)

En spurning hvort ég næ þessu á fjórum dögum. Með lest er ég alveg nærri því dag aðra leiðina þar sem ég þarf að taka lestina í gegnum Madrid.

En nóg um þetta. Best að fara að drullast til að laga til. Ganga frá glósum í möppur, skólabókum upp í hillur og þrífa bælið.

Spurning um video-kvöld í kvöld. Þar sem nammi er ekkert spes hérna verður það í minna lagi; askoti væri ég til í kúlusúkk, súkkulaðirúsínur og bombur... og ...
Video-kvold samanstendur af því að við sitjum í rúminu með tölvuna til fóta og horfum á DVD í henni. Sjónvarp er ekki fyrir hendi og stundum er ágætt að fá frí frá spænskunni og horfa á týpískar bandarískar bíómyndir með ensku tali.

Þið sem eruð búin að fara til Barcelona megið alveg koma með tillögur!

Friday, February 02, 2007

Hmmm... Kominn tími á að blogga kannski! Það verður nú að gerast í nokkrum þrepum þar sem óratími er liðinn og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.


Þarna á myndinni erum við ,,gellurnar" Emilía og ég á Gíbraltarhöfða.

Við komumst s.s. til Danmerkur, byrjuðum á því að missa næstum því af fyrstu lestinni, þ.e. lestinni frá Jaén til Madrid. Það reddaðist samt allt á endanum og við enduðum heima hjá Björgvin bróður Gumma og Katrínu konu hans 18 tímum síðar.
Jólin voru ósköp róleg og notarleg; sérlega gott að fá að borða og mat sem líkist íslenskum mat. Fann venjuleg "íslensk" hafragrjón, sem ég held að séu framleidd í Danmörku (Solgryn - hafragrjón) og tók með mér hingað. Núna er hafragrautur í hvern morgunmat ;)
Fór í heimsókn til Berghildar Ýrar í Horses, en það er ekki nema um klst. með lest frá Ódinsvé.


Ferðalag dúddanna !

Flugið aftur til Spánar var þann 26. des og áætluð lending í Madrid um miðnætti.
Þegar við komum þangað þá voru allir bílarnir á bílaleigunni búnnir, fórum á Terminal 4 (þessi sem var sprengd um áramótin) því þar eiga að vera fleiri bílaleigur. Þar voru einnig allir bílarnir búnnir. Ætluðum að taka neðanjarðarlestakerfið á lestarstöðina þar sem lestin til Jaén fer morguninn eftir en komumst síðan að því að það lokar kl. 1 og lestarstöðin lokaði hvort eð er um miðnætti. Ætluðum að taka rútuna aftur af terminal 4 og yfir á terminal 1 þar sem við komum en þá komumst við að því að þeir voru að loka flugvellinum, rúturnar á milli terminala hættar að ganga og Terminal 4 eina byggingin á flugstöðinni sem var opin, og það voru engir leigubílar!
Vorum eitthvað að hugsa okkar gang þegar einhver dúddi kom með leigubíl, sem ég stökk á (leigubílsstjórann) og fékk hann til að finna eitthvað hótel fyrir okkur sem væri nálægt lestarstöðinni sem við lætluðum á daginn eftir.
Hann gerði það, fórum þvert í gegnum Madrid og fundum hótel, dýrt en ekki óyfirstíganlega dýrt, sem var rétt hjá Atocka lestarstöðinni. Lestin til Jaén átti að fara kl. 9 morguninn eftir og hvorugt okkar með hlaðinn síma. Bað konuna í afgreiðslunni um að vekja okkur kl. 8. Sagði henni að það mætti ekki gleymast og hún skrifaði það inn í tölvuna og á einhvern miða. Samt gleymdist það!
Klukkan var orðin rúmlega tvö þegar við komum á hótelið svo ég var ekkert pottþétt á því að vakna sjálf kl. 8. Vaknaði samt rúmlega átta og var að spá í hvað klukkan væri. Við dröttuðumst niður eftir smá og þá var klukkan orðin hálf níu. Hlupum út af hótelinu, ég hafði ekki einu sinni tíma til að láta í ljós óánægju mína yfir að vera ekki vakin! Auðvitað misstum við af lestinni og næsta lest var kl. 4 um daginn. Athuguðum bílaleigurnar og það var enginn bíll á neinni bílaleigu á lestarstöðinni. Sáum að lestin var að fara til Cordóba og vissum að rútuferðir væru þaðan til Jaén með 2 tíma millibili. Hlupum lestarstöðina þvera og endilanga og rétt náðum þeirri lest. Henni hafði seinkað eitthvað og það var okkar heppni þann daginn. Eftir allt þetta kom í ljós að morgunmaturinn hafði gleymst en krítarnar sem ég keypti á flugvellinum í Svíþjóð komu sér vel í lestinni. Þetta var rétt rúmlega tveggja tíma ferð og auðvitað af því að lestinni hafði seinkað rétt misstum við af rútunni til Jaén. Þurftum BARA að bíða í tvo tíma þarna eftir næstu rútu. Sá tími nýttist í ætisleit og ég las jólabókina sem ég fékk frá Pabba og Fjólu.
Rútan til Jaén stoppaði í öllum krummaskuðum á leiðinni þangað og þegar við komum til Jaén þá var klukkan orðin þrjú og búið að loka öllu, þ.a.m. bílaleigunum vegna siestunnar. Fórum heim, endurröðuðum í töskur og kl. 5 er síestan búin og þá opnaði bílaleigan. Gummi beið fyrir utan og viti menn, þar beið okkar bíll (sem við höfðum reyndar pantað á netinu rétt fyrir jól og vissum ekki hvort pöntunin hafði gengið í gegn) Karlinn þar var svo almennilegur að þegar hann vissi að við yrðum fimm þá lét hann okkur fá mun stærri bíl en við höfðum pantað á verði hins. Það kom sér heldur betur vel.
Ég varð því að kyngja því að vera eins og fornaldar húsmóðir á STATION bíl, (hélt ég myndi aldrei láta sjá mig á svoleiðis) og við héldum af stað til Alicante til að ná í Grétu, Emilíu og Jón Arnar á flugvöllinn. Sendi sms og sagði að okkur myndi e.t.v. seinka eitthvað og bað vinsamlegast um að sýna því skilning! Við vorum virkilega búin að hafa fyrir því. Frá Jaén til Alicante er um 4 - 5 tíma keyrsla og við komum á flugvöllinn um hálftíma eftir að þau lentu svo þau þurftu bara að bíða smá.
Merkilegt hvað hlutirnir reddast alltaf á endanum þegar maður heldur að allt sé í rassgati !

Þá hófst ferðalagið...

Ferðasagan... To be continued!