Hmmm... Kominn tími á að blogga kannski! Það verður nú að gerast í nokkrum þrepum þar sem óratími er liðinn og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.
Þarna á myndinni erum við ,,gellurnar" Emilía og ég á Gíbraltarhöfða.
Við komumst s.s. til Danmerkur, byrjuðum á því að missa næstum því af fyrstu lestinni, þ.e. lestinni frá Jaén til Madrid. Það reddaðist samt allt á endanum og við enduðum heima hjá Björgvin bróður Gumma og Katrínu konu hans 18 tímum síðar.
Jólin voru ósköp róleg og notarleg; sérlega gott að fá að borða og mat sem líkist íslenskum mat. Fann venjuleg "íslensk" hafragrjón, sem ég held að séu framleidd í Danmörku (Solgryn - hafragrjón) og tók með mér hingað. Núna er hafragrautur í hvern morgunmat ;)
Fór í heimsókn til Berghildar Ýrar í Horses, en það er ekki nema um klst. með lest frá Ódinsvé.
Ferðalag dúddanna !
Flugið aftur til Spánar var þann 26. des og áætluð lending í Madrid um miðnætti.
Þegar við komum þangað þá voru allir bílarnir á bílaleigunni búnnir, fórum á Terminal 4 (þessi sem var sprengd um áramótin) því þar eiga að vera fleiri bílaleigur. Þar voru einnig allir bílarnir búnnir. Ætluðum að taka neðanjarðarlestakerfið á lestarstöðina þar sem lestin til Jaén fer morguninn eftir en komumst síðan að því að það lokar kl. 1 og lestarstöðin lokaði hvort eð er um miðnætti. Ætluðum að taka rútuna aftur af terminal 4 og yfir á terminal 1 þar sem við komum en þá komumst við að því að þeir voru að loka flugvellinum, rúturnar á milli terminala hættar að ganga og Terminal 4 eina byggingin á flugstöðinni sem var opin, og það voru engir leigubílar!
Vorum eitthvað að hugsa okkar gang þegar einhver dúddi kom með leigubíl, sem ég stökk á (leigubílsstjórann) og fékk hann til að finna eitthvað hótel fyrir okkur sem væri nálægt lestarstöðinni sem við lætluðum á daginn eftir.
Hann gerði það, fórum þvert í gegnum Madrid og fundum hótel, dýrt en ekki óyfirstíganlega dýrt, sem var rétt hjá Atocka lestarstöðinni. Lestin til Jaén átti að fara kl. 9 morguninn eftir og hvorugt okkar með hlaðinn síma. Bað konuna í afgreiðslunni um að vekja okkur kl. 8. Sagði henni að það mætti ekki gleymast og hún skrifaði það inn í tölvuna og á einhvern miða. Samt gleymdist það!
Klukkan var orðin rúmlega tvö þegar við komum á hótelið svo ég var ekkert pottþétt á því að vakna sjálf kl. 8. Vaknaði samt rúmlega átta og var að spá í hvað klukkan væri. Við dröttuðumst niður eftir smá og þá var klukkan orðin hálf níu. Hlupum út af hótelinu, ég hafði ekki einu sinni tíma til að láta í ljós óánægju mína yfir að vera ekki vakin! Auðvitað misstum við af lestinni og næsta lest var kl. 4 um daginn. Athuguðum bílaleigurnar og það var enginn bíll á neinni bílaleigu á lestarstöðinni. Sáum að lestin var að fara til Cordóba og vissum að rútuferðir væru þaðan til Jaén með 2 tíma millibili. Hlupum lestarstöðina þvera og endilanga og rétt náðum þeirri lest. Henni hafði seinkað eitthvað og það var okkar heppni þann daginn. Eftir allt þetta kom í ljós að morgunmaturinn hafði gleymst en krítarnar sem ég keypti á flugvellinum í Svíþjóð komu sér vel í lestinni. Þetta var rétt rúmlega tveggja tíma ferð og auðvitað af því að lestinni hafði seinkað rétt misstum við af rútunni til Jaén. Þurftum BARA að bíða í tvo tíma þarna eftir næstu rútu. Sá tími nýttist í ætisleit og ég las jólabókina sem ég fékk frá Pabba og Fjólu.
Rútan til Jaén stoppaði í öllum krummaskuðum á leiðinni þangað og þegar við komum til Jaén þá var klukkan orðin þrjú og búið að loka öllu, þ.a.m. bílaleigunum vegna siestunnar. Fórum heim, endurröðuðum í töskur og kl. 5 er síestan búin og þá opnaði bílaleigan. Gummi beið fyrir utan og viti menn, þar beið okkar bíll (sem við höfðum reyndar pantað á netinu rétt fyrir jól og vissum ekki hvort pöntunin hafði gengið í gegn) Karlinn þar var svo almennilegur að þegar hann vissi að við yrðum fimm þá lét hann okkur fá mun stærri bíl en við höfðum pantað á verði hins. Það kom sér heldur betur vel.
Ég varð því að kyngja því að vera eins og fornaldar húsmóðir á STATION bíl, (hélt ég myndi aldrei láta sjá mig á svoleiðis) og við héldum af stað til Alicante til að ná í Grétu, Emilíu og Jón Arnar á flugvöllinn. Sendi sms og sagði að okkur myndi e.t.v. seinka eitthvað og bað vinsamlegast um að sýna því skilning! Við vorum virkilega búin að hafa fyrir því. Frá Jaén til Alicante er um 4 - 5 tíma keyrsla og við komum á flugvöllinn um hálftíma eftir að þau lentu svo þau þurftu bara að bíða smá.
Merkilegt hvað hlutirnir reddast alltaf á endanum þegar maður heldur að allt sé í rassgati !
Þá hófst ferðalagið...
Ferðasagan... To be continued!
4 Comments:
það var mikið að það kom lífsmark frá ykkur, bíð spennt eftir framhaldinu! það er nú fátt eins hressandi og að hlaupa um flugvelli og lestarstöðvar ;)
KV Ragga
Sammála Röggu, gaman að heyra frá ykkur. Þið eruð alltaf jafn heppin í ferðalögunum ykkar.
Það þurfti alla vega enga þyrlu til að þið kæmust á leiðarenda. Ólíkt sumum sem ferðast bara um heimaslóðir....
Siggi
já tek undir með mínum kæra bróður gaman að sjá að þið eruð enn með lífsmarki
Post a Comment
<< Home