Tuesday, February 20, 2007

Jæja... síðasta prófið að baki og ég sveima um í þessu einkennilega tómarúmi sem sífellt umlykur mann eftir prófatarnir.
Tilfinningin - ég á að vera að gera eitthvað - neitar að yfirgefa mig. Allt... sem ég ætlaði að gera, var búin að láta mig dreyma um þegar ég sat yfir bóknum, virðist mjög ómerkilegt núna. Ég sem var búin að horfa í kringum mig og ergja mig á allri óreiðunni sem hafði skapast í kringum mig í prófalestrinum, mikið yrði nú gaman þegar ég yrði búin í prófum að geta tekið til og haft svolítið huggulegt í kringum mig... Minningin um þessa hugsun verður sífellt óljósari.

Síðasta prófið hefði mátt ganga betur. Trúi ekki á heppni og óheppni í prófum en þetta var akkurat svona dæmi. 6 þema á prófinu, nokkrar dæmatýpur í hverju þema. Þrjú þema kunni ég aftur á bak og áfram. Hin þrjú ágætlega nema það voru dæmatípur innan hvers þema, ein eða tvær sem ég var ekki klár á. Hitt kunni ég þokkalega vel, frekar mjög vel meira að segja.
Hann þræddi þessar dæmatýpur í þessum þemum sem ég kunni ekki nógu vel. Hverjar eru líkurnar...

M.v. að ég kunni illa tvær dæmatýpur af 10 í þessum þremur þemum, þ.e. kann 80% af þemanu en 20% illa... => 0.2 x 0.2 x 0.2 eða 0.8% líkur. Og það var ekki það að ég kynni ekki erfiðu dæmin og hann væri að spyrja um þau, það hefði verið óskandi því ég var búin að liggja yfir þeim. Vantrú mín á góðmennsku kennarans varð mér að falli... En hvort það felldi mig alveg kemur í ljós í næstu viku.
Það þýðir samt ekki að grenja yfir því og skrifa bók um það.

Barcilona... hvað er merkilegt þar?

Skv. Lonley planet:

- La Sagrada Familía "If you only have time for one sightseeing outing in Barcelona, this should probably be it" . Þetta er einhver gríðarlega stór kirkja sem var byggð vegna vegna þess hversu byltingarkenndar hugmyndir voru farnar að bærast í Barcilona um 1880. Þetta átti víst að halda mönnu nær trúnni.

- La Rambla Ein frægasta gata Spánar, andrúmsloft Barcilona í hnotskurn.

- Museu Picasso . Spánverjar eru gríðarlega stoltir af þessum málara sínum. En ég fór á Picasso safið í Malaga, heimabæ hans, með Grétu systur (hvað gerir maður ekki fyrir litlu systur), myndirnar hans voru flottur þangað til hann fékk rugluna og varð ríkur og frægur.

- La Barceloneta. Gamalt hverfi þar sem verksmiðjufólk og fiskimenn höfðust við á 18. öld. Það á víst að vera gríðarlega mikið af sjávarréttaveitingarstöðum þarna, antik markaðir, listamannalíf o.fl.. Kannski sé ég nokkrar skútur ;)

- Casa Batlló Önnur bygging eftir þennan Antony Gaudi sem er víst alveg stórmerkileg. Mér sýnist á heimasíðunni þeirra að þetta sé eitthvað furðuverk. Un míto del arte - goðsögn listar. Mér finnst alltaf áhugavert þegar fólk blandar saman húsakynnum og list, eins ópraktískt og óhagkvæmt og það er í flestum tilfellum.

- Montjuic "The Jewish Mountain" Hæðin við borgina þar sem maður sér yfir, þarna eru garðar, söfn, klúbbar og leikhús, skylst mér.

- La Pedera Enn eitt arkitekta viðundrið eftir þennan Gaudí, en þangað á maður víst að fara að kvöldi til, horfa yfir borgina og drekka cava (Catalan sparkling wine) og hlusta á spænska tónlist.

- Stiges Strönd fyrir utan Barcelona með svona stranda-party-activity dóti

Þetta eru "highlights-in" í Lonley planet og á flestum heimasíðum.. Nú er að velja og hafna og skipuleggja þetta með tilliti til bestunar ;)

En spurning hvort ég næ þessu á fjórum dögum. Með lest er ég alveg nærri því dag aðra leiðina þar sem ég þarf að taka lestina í gegnum Madrid.

En nóg um þetta. Best að fara að drullast til að laga til. Ganga frá glósum í möppur, skólabókum upp í hillur og þrífa bælið.

Spurning um video-kvöld í kvöld. Þar sem nammi er ekkert spes hérna verður það í minna lagi; askoti væri ég til í kúlusúkk, súkkulaðirúsínur og bombur... og ...
Video-kvold samanstendur af því að við sitjum í rúminu með tölvuna til fóta og horfum á DVD í henni. Sjónvarp er ekki fyrir hendi og stundum er ágætt að fá frí frá spænskunni og horfa á týpískar bandarískar bíómyndir með ensku tali.

Þið sem eruð búin að fara til Barcelona megið alveg koma með tillögur!

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Jæja, farið nú að koma ykkur heim, hér bíða ykkar verkefnin í stöflum. Það þarf að verka grindur, fara með moðið, taka hrútana úr höltu veturgömlu ánum með heilrifa markinu, draga undan og járna, moka út undan hestunum, mjólka kúna, byggja fleiri hús, bólusetja, endurnýja hesthúsþakið, girða, slátra hrossum, reykja bjúgu, salta gærur, svíða hausa og lappir, setja inn rúllur, rota gamla oddvitann, sópa garða, plægja akra og engi, rýja útigangs ærnar, krubba af lambær, marka, reka á fjöll og fara í göngur og svo gætum við kannski fengið okkur í glas þegar þið komið heim af fæðingardeildinni og rifjað upp gamla tíma. Hvernig lýst ykkur á það?

10:08 AM  
Blogger raggatagga said...

ég held að ég hafi romsað svo gott sem öllu sem ég veit um Barcelona á MSN um daginn..vona bara að helgin hafi verið sem allta ánægjulegust! en ég styð dónann..farið nú að koma heim en svo verðiði auðvitað að fara aftur út til að maður hafi afsökun að fara til spánar!!
LFB
P.S. ég miss ekkert titlinn þegar krakkinn kemur er það??

11:22 AM  
Anonymous Anonymous said...

uhhh... smá athugasemd hérna, af hverju á að rota gamla oddvitann aka pabba??? hehe en annars virðist vera nóg að gera í sveitinni ef ykkur langar heim, stoppa fyrst við hjá mér og... klára að festa hurðagereftirn á, setja lista meðfram parketinu, setja barka í viftuna fyrir ofan eldavélina, flísaleggja eldhúsgólfið, skipta um útidyrahurð, mölva neðri stigann og steypa hann upp á nýtt, leggja útihellur í kring um ruslatunnuna, rífa svalirnar af og smíða nýjar, stærri og betri með stiga niður í garð, steypa gólf í útigeymsluna og setja nýja hurð þar, rífa upp nokkur tré og að lokum að slá garðinn og rífa upp mosann.... svo getið þið farið í sveitina ;o) pottþétt plan

Gréta systir

11:48 AM  
Anonymous Anonymous said...

Hva... ég ætti ekki að verða verkefnalaus í sumar. Endilega ef eitthvað mögulegt notagildi finnst fyrir mig látið mig vita svo mér líði ekki eins og algjörum liðleysingja. Ykkur verður varla kápan úr því klæðinu en sálartetrinu mínu liði töluvert betur.
Eina skilyrðið er reisugil í lok hvers verkefnis, sama hversu smávægilegt það er ;)

2:34 PM  

Post a Comment

<< Home