Friday, March 09, 2007

Setti inn nokkrar myndir frá Barcelona hérna til hliðar. Þvílíkt vesen að skipuleggja og sortera myndir, þvílíkt ógnarmagn sem maður er búinn að sanka að sér af þessu undanfarin ár. Vandamál framtíðarinnar => gagnageymsla... og ég er engin undantekning hvað það varðar...BarcelonaHerOgÞarSagradaGuell
GaudiSafn

Sunday, March 04, 2007

Ég er ekki lengur eini lúðinn í bekknum ;)

Mér til einstakrar ánægju hafa bæst tveir skiptinemar við bekkinn okkar; skemmtileg tölfræðileg staðreynd að 3/8 eða 37,5 prósent af bekknum eru núna erlendir nemar.

Ég var sérlega ánægð þegar Luis sagði mér þetta og útskýrði fyrir honum að mér liði strax betur að það væri einhver meiri lúði en ég sem skildi lítið sem ekkert. Þetta hætti svo eiginlega að vera fyndið þegar skiptinemagreyin mættu í tíma.
Einhver misskilningur var á milli háskólanna og þeim hafði verið sagt að allir tímar væru kenndir á ensku... Leit mín að enskumælandi manneskju á svæðinu hefur enn ekki borið árangur (reyndar ein stelpa á alþjóðaskrifstofunni sem var skiptinemi í Texas og talar ágæta ensku). Stuttu áður en þau komu var þeim reyndar sagt að það gæti brugðist til beggja vona en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Þau tala ekki stakt orð í spænsku og skilja ekki bofs!
Kennarinn reyndi á verulega bjagaðri ensku að útskýra fyrir þeim að hann myndi ekki hafa tímana tvítyngda. Ef þau skildu það ekki þá hafa þau væntanlega áttað sig á því.
Bekkjarfélögunum fannst þetta nú ekki mikið mál, þau væru nefninlega með túlk í bekknum...

Ég verð nú seint talin eitthvað málagúrú, það hefur aldrei verið mín sterkasta hlið. Hvað þá með mína nýju, brothættu spænsku að skipta yfir á ensku hist og her. Ég enda á því að tapa þeirri litlu enskukunnáttu sem ég hef unnið mér inn í gegnum árin og læra spænskuna aldrei almennilega; samsuðan verður spanglish, ekki til neins nothæf nema kannski úti á götu í USA.

,,Mission-ið" er að fara ekki héðan fyrr en Don Quijote verður mér jafn hugleikinn á spænsku og Halldór Laxness á íslensku. Það á eflaust eftir að reynast mér erfiðara en að ætla að gerast strákur þegar ég yrði stór, það virðist heldur ekki ætla að takast úr þessu.

Á leið heim úr skólanum tók ég strætó. Það er fínt að labba í skólann þar sem það er niður í mót en öllu erfiðara að labba heim. Þetta eru um þrír kílómetrar hvora leið og oftast hef ég langa síestu og fer þá heim. Þessir sex kílómetrar eru alveg nóg hreyfing yfir daginn, enda farið að hitna verulega.
Never the less... þá var einn gaur í strætóskýlinu sem fór að spyrja mig á frekar bjagaðri spænsku hvernig svona kort virkaði og hvort það væri ódýrara. Ég útskýrði það fyrir honum og þá fór hann að pæla í því að fá sér svona kort. Ég var búin að útskýra nokkrum sinnum fyrir honum hvernig hann færi að því þegar ég spurði hann hvaðan hann væri, hefði svo sem átt að átta mig á því þar sem hann talaði eins og ýkt Texas eftirherma. Þá útskýrði ég þetta fyrir honum á ensku svo hann finndi þetta nú einhvern tímann. Hann var ótrúlega hissa á því að ég talaði ensku, það var búið að segja honum að Spánverjar töluðu litla sem enga ensku... Ég leyfði mér að njóta augnabliksins smá stund, sagði honum síðan að ef hann talaði aðeins meiri spænsku þá myndi hann átta sig á því að ég væri bara skiptinemalúði eins og hann...

Mér finnst samt svo stutt síðan ég var í hans sporum. Að horfa á fólkið sem var með strætókortin og pæla í því hvort maður ætti að fá sér svona. Ég þorði bara ekki að spyrja. Einn bekkjarfélaginn aðstoðaði mig við þetta seint og síðar meir.
Það eru ekki nema 5 mánuðir síðan ég kom hingað. Mér finnst það ótrúlega stutt, en samt er það alveg hellings tími, þó ekki nema fimm mánuðir eftir.

Fögin á önninni eru snilld. Versta er að ég get ekki valið úr þau fög sem ég ætla ekki að taka. Er að spá í að vera bara kærulaus með þetta, skrá mig í þau fög sem mig langar í og sjá svo til hvaða próf ég tek í vor. Eins og er eru 7 fög á listanum. Er að hugsa um að sitja þau til að byrja með og sjá svo hvernig mér líst á þau seinna meir.

T.d. er kennd stjarneðlisfræði hérna, draumafagið. Uppi á þaki er risa stjörnukíkir, svona grá kúla sem opnast fyrir miðju þegar kíkirinn er í notkun. Mér fannst tímarnir svolítið seint, svo sá ég að þetta voru bara verklegu tímarnir sem voru svona seint... þá kveiknaði lítið ljós - stjörnur - myrkur - kvöld... Versta er að fagið skyldi ekki vera byrjað almennilega fyrir tunglmyrkvann. Það hefði verið gaman að sjá hann í þessu apparati. Ég verð nú seint einhver stjarneðlisfræðingur en ég held það sé ótrúlega gaman að fá nasaþefinn af þessu.


Aðrir áfangar eru:
Landfræðileg upplýsingakerfi... Rennen og félagar til sælla minninga.
Remote sensing - Alls kyns bylgjumóttökur s.s. móttaka frá gerfihnöttum, skipum o.fl.
Kerfi og búnaður við landmælingar.
Gagnagrunnar - ætli ég fái ekki loksins að læra SQL og á Visual Basic!
Digital myndgreining - leiðrétting á loftmyndum og úrvinnsla þeirra. Ætla aðeins að hafa vaðið fyrir neðan mig í þessu, gaman að sjá þennan áfanga en hann hangir í merartaglinu...
Jarðeðlisfræði og spænska. Ætli ég þurfi ekki að fara að undirbúa mig eitthvað undir DELE - spænskuprófið (svipað og Toefl í ensku) ef ég ætla að reyna að sækja um inngöngu í skólann seinna meir.


Þetta ætla ég s.s. að gaufast við næstu vikur, lítið af öllu en mikið af engu, svo kemur í ljós hvurslags kata-strófía þetta verður allt saman.