Ég þoli ekki hópavinnu!
Það hefur aldrei verið mín sterkasta og oftar sem áður er líður að prófum og þarf að standa skil á verkefnum vetrarins að ég er alveg að missa það. Ég var bara svo heppin að það var stelpa með mér í hópnum sem missti það á undan og lét strákana þokkalega finna fyrir því.
Þetta á að vera voðalega sniðugt, kenna fólki að vinna með öðrum, vinna saman í hóp. Ég held að þetta sé nær eingöngu til þess að kennarinn hafi færri verkefni til að fara yfir.
Ég er í hópavinnuverkefni með tveimur strákum og einni stelpu í kortagerðaráfanga. Við erum búin að vera í verklegu alla önnina og eigum í lok annar að skila kortaatlas fyrir Granada-sýslu. Við mætum í hverri viku (skildumæting) í verklega tíma til að vinna í þessu og getum þar spurt kennarann og rætt innan hópsins hvernig við viljum gera þetta. Við ætluðum að skila þessu um miðjan maí en þá voru strákarnir að fara í próf 20 svo við frestuðum því þangað til eftir það, og svo aðeins lengur svo þeir fengju tíma til að klára. Á fimmtudaginn hittumst við svo öll til að koma þessu saman, hvert með sinn hluta. Þá segir annar strákurinn að hann bara kunni ekki á forritið og hafi ekki getað gert kortin og hinn var voðalega ánægður því hann hafði fundið svipað verkefni frá því árinu áður sem hann hafði meira og minna kóperað. Við erum að tala um mjög virkann og strangan kennara sem b.t.w. felldi tvo hópa í fyrra fyrir að vera með svipuð kort.
Og hinn fávitinn fannst það alveg gild afsökun að kunna ekki á forritið. Af hverju aulaði hann því ekki út úr sér svona um miðja önnina, eða spurði kennarann? Við eigum að skila þessu á morgun. Er eitthvað sanngjarnt að ég sitji alla helvítis helgina að koma þessu saman? En ekki ætla þeir að gera það og ég má ekki falla í þessum áfanga.
Það má vel vera að það sé feministaáróður en það er áberandi verra að lenda með strákum í hóp.
En ég er í ágætum hóp í einum mælingaáfanganum. Við förum reglulega út að mæla og þurfum að skila skýrslum um mælingarnar. Ég spurði þá bara hvort þeim væri sama að ég gerði þetta bara. Ég nenni ekki að baksa við það að finna tíma til að hitta þá, ég veit það að ég er betri í þessu en þeir og ég er mörgu sinnum fljótri að gera þetta ein heldur en að vera að brasa við að vera þrjú við eina tölvu að reikna þetta. Þeir semja inngang og eftirmála á skýrslunum eða lesa það sem ég hef skrifað og leiðrétta málfar og stafsetningu.
Við höfum fengið 10 fyrir allar skýrslurnar, mér er alveg sama þótt þeir fái þessa einkunn líka þar sem þetta er hagræðing fyrir okkur öll. Þeir hafa svo spurt mig út í af hverju ég geri þetta og hitt í skýrslunum og ég hef þá útskýrt það. Þetta eru engin geimvísindi,eg er bara búin að taka framhaldsáfangana á undan svo þessi áfangi reynist mér frekar léttur.
Svo í þriðja hópvinnuáfanganum eigum við að mæla upp og teikna stíflu. Þær hafa aldrei komið út á eina einustu stíflu og ég spurði þær hvort þeim væri ekki sama að ég sæi um reikningana og teikningarnar og þær sæu um textann. Það er verkefni morgundagsins...
Ég er komin að niðurstöðu: Ég er ömurleg í hópavinnu! Eitthvað sem ég hef svo sem alltaf vitað og reynt að gera mér far um að gefa því smá þolimæði. Núna er bara komið að prófum og ég hef ekki efni á því að hanga á einhverjum umræðufundum.
Hópavinna gengur best þegar:
1. fundur: Skilgreina verkefnið, parta það niður eins og einstaklingum hentar best, ákveða fund tvö. Ef er bras eða koma upp óvæntar spurningar þá erum við á MSN.
2. fundur: Hver kemur með sinn hluta fullbúinn, röðum öllum hlutunum saman og skilum. Ég geri minn hluta vel og ætlast til hins sama af hinum.
Ekkert flókið, engin geimvísindi!
Við eigum svo að flytja fyrirlestur á morgun, mannfjandinn er ekki búinn að senda mér skrárnar sínar sem þarf í fyrirlesturinn og þess fyrir utan þá hefur hann ekki einu sinni lesið fyrirlesturinn yfir sem hann á að flytja. URRRRR!!!