Hvað er svo jafnrétti?
Eins ótrúlegt og það nú er þá þarf ég að taka áfanga í lögfræði hérna við skólann. Sök séð ef það væri eitthvað í Evrópulögum eða eitthvað svoleiðis en það eru spænsk - pura spænsk lög. Þetta er alveg kleppur fyrir mig þetta málhalta að læra lögfræðina en kennarinn er frábær og heldur athyglinni algjörlega í tímum.
Never the less...
Það var verið að ræða jafnrétti. Kennarinn setti upp dæmi:
,, Þið eignist ykkar eigin mælingarfyrirtæki og fáið frábært verkefni upp í hendurnar. Hraðbraut niður að strönd með tilheyrandi mannvirkjum, brúm og jarðgöngum á leiðinni. Ykkur vantar að ráða 5 mælingamenn sem eiga eftir að puða duglega í mælingunum a.m.k. 2 ár á meðan verkefnið stendur yfir. Um vinnuna sækja 5 stæltir strákar og 5 óléttar konur. Skv. lögum verður hann að ráða 40% kvenna í starfið (veit ekki hvort það er þannig í hina áttina líka)
Hver sendir ólétta konu í 40 stiga hita á fjöll að mæla? (Fyrir utan að konan sé að sækja um vinnu við þessar aðstæður...) "
Rökræðan kom á móti að konan verður ekki alltaf ólétt. Svarið var að eftir að barnið væri fætt þá myndi móðirin náttúrulega sjá um það. Þó svo að það hefði nýlega gengið í gegn að karlmenn fá eins mánaðar fæðingarorlof á móti 4 hjá móðurinni. Þetta fannst liðinu magnað.
Þá varð ég bara að hrista af mér feimnina við málheltina og sagði þeim hvernig þetta væri á Íslandi.
Jafnrétti er jafnrétti... í báðar áttir. Karlinn á 3 mánuði, konan 3 og svo ráða þau því hvernig þau ráðstafa 3 sín á milli. Með þessu móti er ekkert sem segir að það sé verra að ráða konu en karl eftir að krakkinn er fæddur. Hver veit nema þessir 5 stæltu strákar hafi allir átt óléttar konur heima og komi til með að taka fæðingarorlof til jafns á við þær.
Þetta fannst þeim hreint ótrúlegt! Kennaranum fannst það svo sniðugt að ég fékk hálfan punkt á næsta prófi ;)
Svo ég bara varð að bæta um betur. Sagði þeim að ég ætti krakka sem væri eingöngu á brjósti en það kæmi ekkert í veg fyrir að ég væri í námi þar sem maðurinn minn væri í sínu 6 mánaða fæðingarorlofi... og bætti um betur að systir mín væri að vinna þó hún væri með 4 mánaða gamla stelpu og hennar maður væri heima í fæðingarorlofi... og að maður hinnar systur minnar væri einnig heimavinnandi. Reyndar væri það bara þannig þessa stundina að allir menn okkar systra væru að gæta bús og barna þessa dagana á meðan við ynnum útivið - og þeim færist það bara sérlega vel úr hendi.
Stelpunum fannst þetta æðislegt, strákunum fáránlegt og kennarinn velti fyrir sér jafnræðinu.
Ég var nú bara stolt af þingræðinu á litlu eyjunni minni þá stundina, eins og svo oft áður :)