Tuesday, May 19, 2009

Bumbinn ;)





Nú er 1/3 eftir... hrikalega líður tíminn hratt :)

Þetta er á útskriftinni sl. helgi :) Litli Bobbý kom með og var vitni af þessu öllu saman, þannig séð hans fyrsta útskrift og það úr háskóla ;)



Rocio var þarna með mér að útskrifast :) Þetta hefur verið löng þrautaganga hjá okkur en alveg að hafast :)





Bekkjarmynd !
Juan Jesus (Juanje), Jesús, ég;), Rocío og Gaspar

Wednesday, May 13, 2009

Það er í inn að vera í saumaklúbb eða matarklúbb, nema hvortveggja sé... Ég hef aldrei á ævi minni verið í hvorugu. Það næsta sem ég kemst því að vera í saumaklúbb voru handavinnutímarnir hjá mömmu. Þeir voru nú ótrúlega skemmtilegir stundum, en það versta var að mamma fékk allt slúðrið beint í æð. Stundum létu bekkjarsysturnar óþarflega margt flakka svona miðað við að mamma var á svæðinu, en hún höndlaði það alveg ótrúlega vel.
Matarklúbburinn minn þessa dagana væri Luismi sem mætir reglulega með pizzu og bjór og vill fá félagsskap við að horfa á fótboltann. Ekki slæmt, ég er minnst kosti ýmsu fróðari um fótbolta en ég var áður.

Stundum sé ég fæðingarorlofið fyrri mér í hyllingum milli þess sem ég er fullviss um að ég eigi eftir að veslast upp úr leiðindum. Ég tók mjög lítið fæðingarorlof þegar ég var með Bergrós, en er að spá í að bæta aðeins úr því með Bobbý félagann. Ætla að dútla í 2 fögum og lokaverkefni. Fer aðeins eftir fjárhagnum hvort ég get leyft mér að láta það endast í hálft ár eða ár en vonandi a.m.k. hálft ár.
Kannski hef ég þá tíma til að skrá mig í matar og saumaklúbba... tíma til að fara í ræktina... leika við Bergrós... fara í gegnum myndasafnið... lesa allar bækurnar á ,,to read-listanum"... dútla mér í forritun... sinna vinum og kunningjum... elda góðan mat... fara í fjallgöngur og eiga mér smá líf...


Ég á s.s. að vera að læra núna og sit og læt mig dreyma um allt sem ég ætla að gera þegar þessi prófatörn er búin! Þetta gerist í öllum prófatörnum og af reynslu þá veit ég að þetta eru allt fjarlægir draumar. Þetta er eitthvað sem hinir tala um en einhvern veginn passa ég ekki inn í þetta mynstur þó ég sjái það fyrir mér í hyllingum.

Monday, May 11, 2009

Fer að líða að prófum og kominn tími á að blogga ;)

Í morgun átti ég að halda fyrirlestur, ósköp venjulegan svo sem. Fjallaði um filtera sem notaðir eru í ljósmyndum. Ekki þessa sem maður setur framan á myndavélina áður en maður tekur mynd heldur þessa sem maður forritar og beitir á myndina eftirá. Þetta er þriðji fyrirlesturinn sem ég held í þessum áfanga og á einhverja eftir. Fyrirlestrana þarf ég að flytja á spænsku sem og glærurnar sem ég legg fram með. Eftir áralanga þjálfun frá því í MA er þetta ekki svo mikið mál.

Fyrir nokkrum dögum var foreldradagur í leikskólanum. Ekki þessi þar sem foreldrarnir þurfa að fara á fund heldur mættu bara foreldrar Bergrósar þennan dag og hún kynnti okkur fyrir leikfélögum sínum. Við áttum að svo að gera eitthvað með hópnum eða fyrir hópinn.
Ég hugsaði stíft alla vikuna, hvað við gætum gert. Hugmyndaflugið var ekkert og við enduðum á að lesa fyrir þau smásögu úr sveitinni og sýna þeim íslensku dýrin. Síðan sungum við fyrir þau nokkur íslensk lög sem Bergrós kann svona la la. Gamli njóli er í sérstöku uppáhaldi.
Ég var með hnút í maganum alla leiðina upp á leikskóla og eiginlega þungt um andadrátt þegar við fórum inn í stofuna. Bergrós var voðalega hissa að sjá okkur en hafði bara gaman að því og hún fékk að vera miðpunktur athyglinnar á leikskólanum í smá stund.

Ályktun: Mér reynist auðveldara að flytja fyrirlestur um forritun digital myndvinnslu á spænsku fyrir fullt af fólki en að leyfa dóttur minni að kynna mig fyrir leikfélögunum sínum í skólanum.
Niðurstaða: ég er búin að vera í skóla í 22 ár en mamma bara í næstum tvö... Bergrós verður trúlega flutt að heiman áður en þetta gengur yfir og Bobbí verður á..."mamma mín er lúði" skeiðinu og vill ekkert með mig hafa.
Er ekki hægt að fara á námskeið í þessu eins og öðru?