Friday, October 31, 2008

Jæja... það er svo langt um liðið og svo margt hefur skeð að ég veit varla hvar ég á að stíga niður fæti.

Sumarið var alveg frábært, bara allt of stutt. Ég náði að hitta ofurmarga, ekki alla samt. Í móðurætt var Stebbi okkar svo kallaður að gifta sig um versló. Þar hitti ég móðurfólkið mest allt. Veislan var snilld, dansað og kjaftað fram eftir nóttu. Helgina þar á eftir var annað brúðkaup heima á Gunnarsstöðum sem var náttúrlega tær snilld. Það er svo frábært þegar svona veislur eru og allir koma saman nokkrum dögum áður í undirbúning o.fl.. Í raun verður þetta í heild sinni vikupartý sem endar með brúðkaupsveislu.
Ég þurfti svo að fara út í lok ágúst til að taka próf í september. 6 próf voru á dagskránni og gékk það svo sem ágætlega. Betur en ég bjóst við minnst kosti. Það var ótrúlega erfitt að skilja litla Stubbinn eftir heima og koma ein út. Heil mánuður leið áður en ég sá hana aftur. Það var gaman að sjá svipinn á henni þegar lestin renndi inn á stöðina og hún sá mig út um gluggann. Ótrúlegt en satt þá var hún ekki búin að gleyma mér.

Sama dag og síðasta prófið var byrjaði næsta önn. Núna er ég að massa lokaverkefni sem ber titilinn: Elaboración de un programa para cálculos topográficos con matlab". Verkefnið er s.s. að hanna forrit sem sér um ýmsar gerðir útreikninga og útfærslu á þeim.

Það stendur til að skila því í lok nóvember, helst að verja það strax því ég tek 3 próf í desember.

Sl. helgi fórum við í heimsókn til Önnu, sem var með mér í topografia-deildinni. Hún á heima í litlu 10 000 manna þorpi svona einn og hálfan klst héðan.



Bergrós Ásta var hreinlega heltekin af hundinum og hann fékk hvergi að vera í friði. Hundurinn var líka í fullkominni stærð fyrir hana og ótrúlega barngóður. Ég hefði verið búin að bíta hana fyrir löngu ef ég væri hundurinn.





Þarna var fullt fullt af dýrum, m.a. aragrúi af köttum um allt. Einn þeirra hætti sér of nærri Bergrós Ástu og hún var ekki lengi að ná taki á honum



Hænurnar voru einnig mjög áhugaverðar. Litlu ungarnir hlupu um allt og sem betur fer var Bergrós ekki nógu fljót til að ná þeim.













Og fullt fullt af kúm út um allt






Þetta var fínt ferðalag! Ætlum að fara aftur þegar slátrunin hefst. Vonandi hittir það ekki á prófin, en það er yfirleitt í febrúar.


Fréttirnar að heiman eru heldur bágar. Maður verður bara sorgmæddur þegar maður hugsar um þetta. Allir hérna í skólanum eru að spyrja mann út í hvernig þetta er og hvernig fólkið hafi það, hvort þetta hafi einhver áhrif á okkur.

Einu áhrifin eru að þeir peningar sem eftir voru gufuðu upp og skuldirnar hækkuðu. Ég vonast samt eftir að ná að klára árið hérna. Náði að flytja smá pening út í síðustu viku. Það ætti að endast okkur fram að jólum ef við spörum vel. Við gætum fundið okkur ódýrara húsnæði en það er svolítið erfitt núna því flest er komið í leigu og leiðinlegt að segja þessari upp með stuttum fyrirvara. Ef við hefðum vitað þetta í sept. þá hefðum við getað leigt með einhverjum og borgað ódýrari leigu.
Bergrós er á leikskólanum og ef við getum þá langar okkur að leyfa henni að vera þar áfram. Hún elskar að vera á leikskólanum, syngur af kæti á leiðinni þangað á morgnana og vill helst ekki koma heim í lok dags. Við náum samt að spara pening með að nesta hana út á leikskólann. Það kemur heitur matur en það þarf að borga fyrir hann sérstaklega, 70 evrur á mánuði. Hún borðar þá bara nestið sitt með hinum krökkunum. Hefur minnst kosti ekki kvartað yfir því enn ;)

Það eru allir að spyrja hvað maður ætli að gera eftir að námið er búið. Ég hef einhvern veginn ekki enn séð fyrir endann á þessu. Langar að halda áfram í skóla og hef einhvern veginn alltaf horft á það sem sjálfsagt. Núna þarf aðeins að endurskoða málið með tilliti til fjárhags. Kannski fer ég bara að vinna svo Gummi geti farið í skóla.
Í mogganum í dag sagði að einn þriðji af þeim sem spurðir voru höfðu íhugað það að flytja erlendis vegna ástandsins heima fyrir. Ég skil það mjög vel. Eins og staðan fyrir okkur horfir við núna er ekki mikla vinnu að fá heima fyrir. Ég er alltaf að frétta af fleirum og fleirum sem eru að missa vinnuna, yfirvinnubönn og launalækkanir. Mestar líkur eru á því að ég fengi vinnu í gegnum netið, samt þyrfti ég að ná mér í vinnureynslu fyrst í þessum brasa áður en ég myndi leggja í að vinna ein og sér. Gullæri verkfræðinga er í lægð þessa dagana. Jafnvel iðnaðarmenn eru atvinnulausir og þá er nú fokið í flest.
Það er nú samt atvinna á Þórshöfn skilst mér í verksmiðjunni. Pabbi myndi nú örugglega lána okkur kofann til að sofa í og jafnvel mjólkurdreitil ef við nennum að mjólka kúnna :) Það verður nú seint svo slæmt að við fengjum ekki inni einhversstaðar :)

En það er að bíða og sjá hvernig rætist úr þessu. Ef ég næ að klára með nógu góðar einkunnir er aldrei að vita nema maður geti fengið styrk í doctorsnám. Það gera samt 3 til 5 ár í viðbót sem er slatti, og eflaust jafnatvinnulaus fyrir það...
En hvort sem það verður vinna eða skóli þá finnst manni eins og er ekki miklar líkur á heimferð. Við erum ekki bundin við neitt nema skuldirnar og maður verður víst að hafa vinnu til að borga af þeim. Ef við náum að borga þær niður á 15 árum og kannski safna okkur fyrir smá útborgun til að byggja smá húskofa, þá er aldrei að vita nema að efnahagurinn verði búinn að rétta sig af um svipað leiti.

Það líka vonandi að Íslendingar læri að spara aðeins í framtíðinni. Það er ekkert eðlilegt hver sem er keyri um á nýjum bíl, fari í utanlandsferðir með alla fjölskylduna minnst kosti einu sinni á ári, byggi heita pottinn í garðinum, endurnýji húsið og hendi gamla sjónvarpinu fyrir stærri flatskjá... Við þurfum aðeins að líta í eigin barm. Hérna skammast maður sín fyrir að segja frá hvernig Íslendingar hegða sér, þetta er svo fáránlegt miðað við hvernig fólkið lifir hérna. Þetta er hinn tíbíski íslendingur...
Það er ekki bara ríkisstjórnin sem hefur klúðrað málunum... b.t.w. lýðræðislega kosin ríkisstjórn af meirihluta landsmanna. Dabbi einn og sér ber ekkert ábyrgð á þessu, eða bankastjórarnir eða Gordon Brown (sem er einnig hataður hérna á Spáni;) )
Reyndar tel ég að bankahrunið hafi engan veginn þurft að gerast og í kjölfarið hafi slæm stjórnsýsla bætt gráu ofan á svart. En eitthvað varð að gerast því við hefðum aldrei getað haldið áfram að haga okkur svona. Í fyrsta skipti sl. sept var viðskiptahalli jákvæður síðan 2002!
Ég held bara að ég sé ekki alveg búin að ná þessu ennþá. Ég trúi því varla að við sem þjóð dönsum á barmi gjaldþrots. Landsbyggðarflótti var í tísku ekki alls fyrir löngu, núna er það bara landsflótti skv. mogganum. Mest megnis ungt fólk með háskólamenntun. Það er nú frekar sorglegt að missa þá stétt úr landi finnst mér, en einhvern veginn horfir það svoleiðis við þegar maður sjálfur situr í súpunni.

Thursday, October 23, 2008

HAH... ÞETTA VIRAR! Var búin að gefa hana upp á bátinn. En var bara að tékka, er að fara í skólann. Blogga seinna haha... besito