Þá er þessu úthaldi að ljúka, síðasta vaktin í bili. Náði 21 vakt þetta úthaldið svo þetta er komið ágætt í bili.
Á eftir er ferðinni heitið niður á Egilsstaði þar sem við Guðmundur mæltum okkur mót. Hann ætlar að koma með fákinn minn á bíl með sér austur. Mig langar að komast í útilegu, veiðiferð og hitta Emilíu; spurning um að slá þessu öllu saman í eitt.
Síðan er ferðinni heitið á Akureyri, á laugardag eða sunnudag. Þar verð ég svo út vikuna að halda upp á 5 ára stúdentsafmæli. Á að mæta í vinnu að kvöldi 17. júní. Sé ekki fram á að halda upp á 25 ára afmælið mitt þar sem ég verð hérna uppfrá. Kannski fæst kokkurinn til að elda eitthvað gott handa mér.
En smá vangaveltur úr hversdagsleikanum... er ég lítil? Mér hefur alltaf fundist ég frekar stór manneskja, svo allt í einu núna finnst mér allir stærri en ég. Buhu...
Stundum þegar ég er að tala við hávaxna manneskju sem stendur nálægt mér þá fæ ég hálfgerða ónotatilfinningu því mér finnst viðkomandi gnæfa yfir mér.
Svo í matnum í gær þá var ég að skjóta á einhvern sem mér fannst svona í minni kantinum... svo var gaurinn bara þó nokkuð hærri en ég (áts!).