Sunday, November 23, 2008


Ég man þá tíð að allt var fullt af færeyingum á Þórshöfn. Ég spáði aldrei neitt sérstaklega í það af hverju, þeir komu bara af því að þetta var rétt hjá. Í 10. bekk fórum við í skólaferðalag til Færeyja... eða var það í 8. bekk... og það var allt fullt þar af jarðgöngum og íþróttahúsum. Maturinn var vondur og ég skildi engan veginn af hverju einhver vildi búa þarna. Okkur var líka sagt að það væri nóg af húsnæði þarna! Mér fannst bara ekkert skrítið að enginn skyldi vilja búa í þessum útnára...

Las grein:
"Ástandið á Íslandi minnir um margt á það sem gerðist í Færeyjum á árunum upp úr 1990 en þá varð mikill efnahagslegur samdráttur í heimsbúskapnum. Færeyska þjóðlífið hrundi nánast til grunna, fjórði hver maður missti vinnuna, 15% eyjaskeggja fluttu úr landi, fjölmörg fyrirtæki urðu gjaldþrota, landsframleiðslan dróst saman um þriðjung og Föroya banki og Sjóvinnubankinn fóru nánast á hliðina."


Það var örugglega fullt af fólki sem vildi búa í þessum útnára, nálægt fjölskyldu og vinum. Það hafði bara ekki vinnu og flutti úr landi í leit að salti í grautinn.

Vesturfaraævintýrin eru að byrja aftur á Íslandi. Munurinn er bara að það er mun auðveldara að fara út, upplýsingaflæðið er ótakmarkað í húsnæðis og atvinnuleit. Það er hægt að fara í atvinnuviðtal í gegnum netið. Ekkert bras með að bíða eftir að senda bréf með skipi, maður hringir bara á skype og horfir í RTK á viðkomandi.

"...það sem reyndist Færeyingum erfiðast var hve margir fluttu úr landi. Það hafi haft mikið að segja fyrir efnahagsuppbygginguna og þess vegna sé það sitt álit að Íslendingar eigi að reyna með öllum ráðum að sjá til þess að slíkt gerist ekki hér."

Norðurlandaþjóðirnar auglýsa eftir fólki á Íslandi í vinnu sem og Þýskaland. Sá skrifað um það um daginn þar sem talað var um að vantaði tölvunnarfræðinga, forritara, tækni- og verkfræðimenntaða og smiði og eitthvað fleira.
Strákur sem var með mér í skólanum í fyrravetur var skiptinemi frá Póllandi. Hann sagði að vandamálið þar væri að stór hluti þess fólk sem væri búið að mennta sig mikið færi til annara landa að vinna og skortur væri orðinn í landinu á ýmsu lærðu fólki. Launalega séð gætu þeir bara ekki keppt við önnur lönd.

Hvernig höldum við ungu og menntuðu fólki í landinu? Verður svona bil þar sem vantar eina kynslóð,- mína kynslóð -... Í augnablikinu er bara ekki vinna. Það er líka fúlt að auðveldast er að blása lífi í "kalla" vinnuna. Það verður bara ein fyrirvinna og konurnar fara aftur inn á heimilið og krakkarnir af leikskólanum, þeim verður lokað og þar með verður minni kvennavinna etc.. Fólk fer að spara, þjónusta minnkar, fleiri konur missa vinnuna... Brjáluð jákvæðni í gangi hérna.

Það eina sem myndi fá mig til að vera áfram heima ef ég hefði ekki vinnu væri að fara bara í meiri skóla. Sá auglýsingu frá Hólaskóla áðan þar sem boðið er upp á skráningu á vorönn til 10. desember. Þetta finnst mér ótrúlega sniðugt. Það er rándýrt að hafa allt þetta fólk á atvinnuleysisskrá. Af hverju ekki að setja bara meiri peninga inn í námslánkerfið, ekki gefa fólki þetta kannski alveg en auka framfærsluna mikið og minnka vexti og endurborgun af námslánunum. Nám verður hálfgerð fíkn. Ég er viss um að fullt af fólki væri til í að fara í endurmenntun, bæta við sig eða klára eitthvað sem það náði aldrei á meðan gullærið var í gangi. Þetta fólk lifir svo sem ekki á loftinu en LÍN gæti brúað bilið í 3 ár. Það er örugglega ódýrara en að fólk fari úr landi eða hafa folk á atvinnuleysisbótum.

Sá að ef fyrirtæki ráða einhvern af atvinnuleysisskrá þá borgi ríkið 90% af atvinnuleysisbótunum á móti launum. Þetta er náttúrulega magnað... ef fyrirtækin fara ekki að misnota þetta.

Þetta er að verða hálfgert kreppublogg... Er að brasa í lokaverkefni og komin með gubbuna upp í háls ! Búin að fá alveg nóg og rúmlega það... vika í viðbót... Ég held alltaf að þetta sé rétt handan við hornið. Þetta helvítis verkefni er hringlótt, ég er alltaf að hlaupa fyrir hornið...

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hmmm, hleypurðu þá fyrir hornið á hringlótta verkefninu eða.....

10:02 PM  
Blogger Katrín said...

Svona eins og hundur sem reynir að bíta í skottið á sér... Manni er ekki viðbjargandi ;)

12:46 PM  

Post a Comment

<< Home