Monday, March 17, 2008

Úfff... ég var að enda við að éta heila dós af svörtum ólífum. Ég bara alveg gleymdi mér og þar sem þær voru hérna í skál við hliðina á mér... Hverjar eru líkurnar á að ég eyði það sem eftir lifir dags á dollunni? En það er þá þráðlaust netsamband hérna svo ég get tekið tölvuna með...

En páskafríið er byrjað og aldrei þessu vant ætlum við að taka því bara rólega. Ekkert ferðalag, engar heimsóknir og ekkert skipulagt fyrirfram. Sl. daga höfum við bara leikið við Stubbalubb og dundað hitt og þetta. Við erum búin að vera dugleg að brúka tennisvöllinn hérna við hliðina og farin að geta spilað leik án þess að uppgjöfin gangi bara fram og tilbaka án stiga. Hitinn og þurrkurinn er að gera útaf við allt hérna. Það bíða allir eftir rigningu. Það hafa verið um 20 til 25 stig á daginn sem er fínn hiti. Ekki of heitt og ekki of kalt, en það hefur ekki rignt vikum saman og lítið þegar það gerist. Þetta er ekki eðlilegt fyrir þetta tímabil.
En það er fínt að komast í sólbað öðru hvoru.

Eg veit ekki hvað er eiginlega í gangi með efnahagsmálin, en ef krónan heldur áfram að vera í frjálsu falli þá stefni ég hraðbyr í gjaldþrot! Útreikningar sem gerðir voru þetta árið eru allir á skjön, þó höfðu þeir eitthvað slagrými.
Evran fór í 119 kr í dag en þegar við komum út þá var hún í 89 kr og um 95 kr um áramótin.
Og miðað við hlutabréfamarkaðinn þá má áætla að íslenskt efnahagslíf sé í rúst. Fyrir utan ríkissjóð kannski sem var rekinn með hagnaði. En það er svo sem öll Evrópa sem og Bandaríkin sem taka þátt í þessari kreppu.
En ætli þetta dugi til að hinn hefðibundni Íslendingur fari að spara?

En skólinn er byrjaður aftur eftir annaskipti, ég hef nú smá rými til að anda öðru hvoru. Þarf að fara að huga að lokaverkefni en er ótrúlega ófrumleg í hugsun eitthvað. Spurning um að heyra í einhverjum heima og athuga hvort þeir séu ekki með eitthvað mælingaverkefni sem er ekki of lítið eða of stórt svo ég geti unnið það í sumar á launum :) Það væri voðalega notalegt fyrir bankareikninginn minnstkosti!

1 Comments:

Blogger Kristjana said...

Ég skil þig mjög vel en stend hinum megin við þetta dæmi. Launin í dollurum og neyslan um jólin í krónum, úff. Svo frjálsa fallið hentar mér prýðilega... :)

Bið að heilsa Stubb, sem er allt í einu orðin svolítið lík pabba sínum...

1:39 AM  

Post a Comment

<< Home