Sunday, June 19, 2005

Flutningar tókust fyrir rest, þökk sé þeim sem hjálpuðu mér við að flytja. Ég er búin að níðast á öllum þeim sem óvart hafa rekið inn nefið. Þeir fengu bara kassa í hendurnar og sendir með þá yfir í næstu íbúð.
Ég meira að segja fékk lánaðan lítinn vörubíl, sem ég held örugglega að ég hafi ekki réttindi til að keyra. Við rúntuðum svo um á þessum vörubíl með húsgögn hingað og þangað.

Nýja íbúðin er í smærri kantinum og aðallega ætluð fyrir fólk af hobbitakyni þar sem meirihlutinn er undir súð.

Sérstakar þakkir fyrir hjálp við flutninga fá Ringa, Hannes, Árni og Vilborg. Ég væri enn að bera kassa ef þau hefðu ekki komið í ,, heimsókn".

Það hafðist að flytja fyrir 6 á laugardag, sem og var afmælisdagurinn minn. Þar sem ég er að fara að vinna uppi í Kárahnjúkum þá hoppaði ég bara með næsta flugi austur í Egilsstaði. Lenti hér um hálf níu leitið og kl. 9 var ég farin í veiðiferð upp í Selvatn.
Hver haldiði að hafi veitt stærsta fiskinn??? Ekki að spyrja að því.
Það var að vísu heldur kalt og ég sofnaði reglulega á milli þúfna og svo inni í tjaldi eftir að byrjaði að rigna. Henti bara línu með floti og maðk útí, festi stöngina á milli steina og fór svo að sofa. Veiðiaðferð sem aldrei klikkar. Ég hef minnst kosti ekki enn misst stöngina.

Fórum frá vatninu um 6 í morgun. Þurftum að labba í svona 20 mínútur að bílnum en þegar við ætluðum af stað festum við hann um leið í forarsvaðinu. Þá var ekkert að gera annað en að fara á næsta bóndabæ og fá dráttarvél og spotta til að draga bílinn upp. Þetta tók allt sinn tíma. Svo kom maður heim og þá þurfti að þrífa fötin sem voru eitt forarsvað eftir að reyna að ýta og djöflast, gera að öllum aflanum (4 fiskum) og ganga frá veiðidótinu.
Þetta varð til þess að ég sofnaði ekki fyrr en hálf ellefu í morgun og svaf af mér lungað úr deginum.

Eins gott að ég sofni vel í kvöld því á morgun er förinni heitið upp í Kárahnjúka þar sem ég verð næstu tvær vikur. Spurning hvort maður ætti að vera í skyrheldum klæðum. Gæti verið öruggara...

Gummi gaf mér línuskauta í afmælisgjöf svo það er vissara fyrir fólk að vera ekki fyrir þegar ég kem suður því þá kem ég til með að stunda það grimmt. Gæti orðið erfiðara uppi á fjöllum!

Er samt ekki í algjörri útlegð því það er hægt að ná í mig í gemsa þarna uppfrá.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home