Það hefur fækkað um einn í litlu fjölskyldunni minni...
Þetta rennir styrkum stoðum undir það að ég er enganveginn fær um að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut, varla sjálfri mér...
Ég var að hreinsa búrið hjá Alexander Fourier. Gummi kom með steina sem ég gat sett í búrið svo hann gæti krifrað á þeim. Ég hreinsaði allt búrið og raðaði steinunum í og hann var alveg hæst ánægður með þá. Allt kvöldið var hann að klifra á þeim á sinn letilega hægfara hátt. Svo þegar ég vaknaði um morguninn þá sá ég hann hvergi. Var að reyna að horfa undir steinana og á milli þeirra því hann á svo auðvelt með að fela sig undir einhverju. Svo hélt ég bara að hann hefði grafið sig undir eða eitthvað og var ekkert að spá meira í það, fyrr en ég fór inn að ná í kerti inn í skáp. Ég fékk alveg sting í hjartað þar sem ég sá hann liggja undir þvottagrindinni, steindauðan; STONE-DEAD... Hann var allur í hárum og ryki og alveg skorpinn. Hann var svo lítill þegar allur vökvinn úr búknum var farinn og meira að segja augun sáust ekki, það voru bara holur í þeirra stað.
Ég skil ekki alveg hvernig hann komst upp úr búrinu, hann hlýtur að hafa staðið á halanum við að klifra upp, ekki hefur hann sýnt neina stökkhæfileika hingað til.
Ég veit ekki hvort þetta var fyrirfram ákveðið sjálfsmorð eða dramatískar afleiðingar flótta. Hann hefur beðið eftir að ég færi að sofa og þá lagt land undir fót. Hann hefur skriðið undir píanóið og sófann og var eiginlega líkari stórum rykhnoðra þar sem hann lá á gólfinu.
Reyndar ágætt að hann skreið ekki ofan í fiðluna eða skóinn minn. Það hefði verið leiðinlegt að finna hann á endanum þar.
Ég hringdi í Gumma og tilkynnti honum um andlátið. Hann reyndi að vera nice og spurði hvort það væri ekki hægt að fá aðra alveg eins eðlu og kalla hana bara líka Alexander. Ég áttaði mig á því að hann hefur ekki tengst honum sömu böndum og ég.
Sökum anna, og hversu skjótt þetta bar að, var útförin frekar stutt og einföld. Damaskbólstraða eikarkistan var frekar dýr þannig að skyr.is drykkjardós varð að nægja og ég hafði varla tíma til að segja ... allt eins og blómstrið eina... þegar hann rann niður ruslarennuna. Hann verður síðan grafin í Álfsnesi.
Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeir sem vilja minnast hans mega redda mér réttum velgerðum heimadæmum í stál og tré, með útskýringum.
Til að hafa einhverja erfidrykkju þá eldaði ég mér saltfisk í hádeginu. Fann meira að segja hamsatólg til að hafa þetta veglegt. Það heppnaðist ekki betur en svo að ég gleymdi fitunni á eldavélinni, sem var fyrir aftan mig á meðan ég var að læra. Það var ekki fyrr en ég var hætt að sjá svalahurðina á móti mér og 25 cm skyggnið niður á námsbókina var farið að minnka verulega sem ég fór að leita að orsökinni.
Með stálull og mikilli sápu held ég að mér hafi tekist að redda pottinum fyrir horn en það var eitthvað lítið um hamsatólg út á saltfiskinn þann daginn.
Sumir dagar eru sem betur fer ekki eins og allir hinir dagarnir!
0 Comments:
Post a Comment
<< Home