Saturday, November 20, 2004

Stundum held ég að hausinn á mér, eða hauskúpan, sé gerð úr afgöngum af gömlu sigti. Það hafði á sínum tíma möskvastærð um 5x5 sm en er nú rifið og tætt. Eins og gefur að skilja heldur þetta sigti ekki ýkja miklu og er það ástæðan fyrir því að mig er farið að gruna að framleiðsla toppstykkisins hafi ekki verið sem skildi. Því miður fylgdi ekkert ábyrgðaskírteini með og verð ég því að reyna að gera gott úr þessu úr því sem orðið er.
Ég reyndi á tímabili að halda bara fyrir annað eyrað og snúa hinu í áttina á kennaranum en það hefur lítinn árangur borið hingað til. Ég lít bara bjálfalega út við þessa iðju mína og fólk heldur að ég hafi fengið flugu í eyrað.

Annað sem gæti orsakað þetta óeðlilega ástand er lítið illa skilgreint fyrirbæri, er nefnist svarthol...




...sem virðist staðsett ekki ýkja langt frá minniskubbnum þarna efra. Svo virðist vera sem það sé farið að hafa áhrif á nærliggjandi umhverfi og farið að narta aðeins í geymslustöðvarnar. Einstaka upplýsingar, meira að segja töluvert magn af þeim, eiga það til að villast þarna inn. Þær sogast þangað í öðru tímarúmi og er þær koma inn fyrir þar sem þyngdarhröðunin er enn meiri bútast þær niður í frumeindir (svona eins og ef fóturinn færi á undan í aðra þyngdarhröðun en restin væri eftir úti, það hlýtur að vera sárt) og jafnvel smærra. Á þeim tímapunkti tortímast þær að eilífu og engin mannleg öfl megna það að ná þeim aftur. Þetta óskilgreinda svarthol mitt virðist einnig vera matvant og hirðir bara merkilegar og áhugaverðar upplýsingar en skilur allt ruslið eftir og varðveitir minniskubburinn það samviskusamlega. Sem dæmi má nefna safn klámvísa, ártöl úr Íslandssögunni, goðafræði og heimskulegar tilvitnanir. Svartholið virðist hafa meiri áhuga á jarðtækni, straumfræði og álags og öryggisfræðum.
Margar hverjar af þessum upplýsingum hafa þeyst á ljóshraða gegnum heilahvelið og beint inn í svartholið; það er bara eins og þær hafi aldrei komið inn fyrir hausins eyra.

Spurningin er bara hvenær það nær taki á umhverfinu, ég ranghvolfist og hlýt sömu örlög og mín glataða vitneskja.

Þetta segir mér að ég er ekki nifteindastjarna, eins og ég hélt síðast þegar ég steig á vog; eðlismassinn er ívið hærri.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home