Monday, October 04, 2004

Það snjóaði ekkert venjulega í dag, það sat einhver í efra og þrusaði niður gaddfreðnum snjóboltum. Hann náði að hitta mig tvisvar og það eru stórar dældir í hausnum á mér. Ég er nú hörð af mér og reyni að bera mig mannalega, en þetta var hreint út sagt alveg voðalegt.

Stóðréttirnar gengu vel fyrir sig, að því er ég best veit. Hef aldrei komið þarna áður þannig að ég hef ekki hundsvit á því hvort þetta gékk vel eða illa. Mig langaði nú að kaupa mér eitt folald eða svo, en ákvað að láta það vera þar sem það hefði annað hvort endað í garðinum á stúdentagörðunum eða ofan í frystikistu. Sem fátækur námsmaður er ég eiginlega komin með ógeð á reyktu folaldakjöti, en þeir sem versla í Bónus vita að það er alltaf til þar á útsölu. Fyrir manneskju sem þarf rautt kjöt amk. þrisvar í viku þá er þetta helvíti hentugt, en nú er að verða sama hvað ég sykra uppstúfinn mikið eða kartöflustöppuna, ég bara get ekki étið meira af reyktu folaldakjöti.

Eftir réttir var farið á gæsaveiðar. Gékk ágætlega, enda var það fullbúin víkingasveit sem mætti á vettvang. Gæsin átti sér ekki viðreisnar von. Náðum sjö, fékk tvær í kistuna hjá mér, aðra ætla ég að geyma til jólanna til að hafa einhverja villibráð, ef ekkert annað leggst til. Hina ætla ég að elda við tækifæri þegar þörf verður á ætilegum mat og ekki efni á öðru en einhverju helvítis svínakjöti eða hænum. Þá er nú gott að geta dregið björg í bú.

Ballið um kvöldið var alveg magnað, svona ekta sveitaball. Allir koma bara með sitt vín og hafa sitt borð. Svo er bara dansað og ruglað endalaust. Ég er ekki frá því að þynnkan hafi sagt til sín á sunnudaginn; hún er nú ekki beinlínis fastagestur hjá mér og ég gat hreinlega enga björg mér veitt. Þvílíkt helvíti, það eina sem afsakar það að gerast alki er að þá getur maður frestað þynnkunni svo lengi sem lifrin endist.

Á sunnudaginn var farið að reyta, og ég get alveg sagt það í trúnaði hérna á netinu að það er ekki manni bjóðandi, daginn eftir skrall að reyta og svíða gæsir, rista þær á hol og taka innan úr þeim. Ég var algjör liðleysa í þetta skiptið, leyfði strákunum alveg að sjá um þetta.
Kom í bæinn og lagðist í kör. Gummi kom með fullt af dóti að austan, þess elska. Hann á heiður skilið, og ég sver að hann á örugglega heimsmet í hraða við að pakka niður. Það lýsir sér greinilega þegar maður fer að taka upp úr kössunum aftur, maður sér alveg um leið að þarna var röskur maður á ferð...

Var bara löt í morgun, nennti ekki í skólann og dinglaðist bara fram yfir hádegi. What a wonderful day.

Froskarnir mínir eru alveg brjálaðir, var að gefa þeim og þeir fara eins og óðir froskar um allt búr. Þessir vitleysingar sjá ekki neitt og eru alltaf fálmandi að leita að matnum. Ef maður setur puttann ofaní hjá þeim þá stökkva þeir á hann og hjakkast á honum í von um smá næringu. Hvað getur þetta eiginlega verið vitlaust?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home