Jæja, það sem undan er gengið, svona í stórum dráttum.
Við Ragga fórum upp í Möðrudal að skutla Sunnu frænku í vinnuna þarna uppeftir síðasta mánudag. Ferðin gékk stórslysalaust fyrir sig, en fararskjótinn var Gráni, galant-inn hennar Röggu. Hann ætti nú eiginlega frekar að fara að skipta yfir í Móri, en brúnu ryðblettirnir eru að verða allsráðandi.
Ég sat afturí og allt í einu kallar Ragga upp (ég heyrði náttúrulega ekkert hvað hún sagði) fyrr en ég fann allt í einu að ég blotnaði duglega á kálfanum og framísætið hjá Röggu var rennandi. Málið var að það er svo stórt gat á gólfinu afturí og stundum hylur mottan það ekki alveg og ef maður fer í poll þá gusast upp um gatið.
En... áfram gékk ferðin og á bakaleiðinni, svona í miðjum Jökuldalnum springur dekk að aftan. Við náttúrulega ekki í vandræðum með það, sjálfir sveitatrukkarnir, fyrir utan það að verkfærin sem stóðu til boða voru alveg vitavonlaus. Við hlupum í hefil þarna rétt hjá og þar voru engin verkfæri og vorum að hugsa um að fara í nærliggjandi fjárhús og athuga þar. En það fáránlega var að það stoppaði enginn. Hvurlags eigin-hagsmuna-sjálfhverfu-sjálfselskupúkar eru Íslendingar að verða. Það er bara almenn kurteisi að stoppa og spyrja. Kannski vantar viðkomandi bara verkfæri, eða jafnvel að fá að hringja eða bara andlegan stuðning... En nei, ó nei. Það var ekki fyrr en Ragga fórnaði sjálfri sér og henti sér í veg fyrir bíl að hann stoppaði, en hann sagði að verkfærin sín væru niðurgrafin undir dóti að það væri ekki hægt að nota þau. Hann hjálpaði okkur aðeins að koma þessu fyrir og svo sagði hann að hann þyrfti að halda áfram, hvort við myndum ekki bara redda okkur. Auðvitað vorum við ekki að grenja út hjálp þegar viðmótið er svona þannig að hann fékk að halda áfram för sinni óáreittur. Við redduðum okkur en það tók alveg rosalegan tíma. Helvítis dekkið var pikkfast, rærnar voru fast að því soðnar á og ég endaði á að snúa sundur einn boltann.
En það bítur ekkert á okkur og ég notaði tímann í að reyna að kenna Röggu að blóta á spænsku og steita hnefana þegar 6 milljón króna Landcruser-fellihýsa samstæðurnar strauðu framhjá og rigndi upp í nefið á pakkinu sem var þar innan dyra; efast um að þau hafi einu sinni leitt hugann að því hvað þessar ómerkilegu stelpugálur voru að gera við þessa óökufæru bíldruslu í grenjandi rigningu og það uppi á þjóðvegi.
En við skiluðum okkur heim á endanum, en Sunna kom á eftir okkur strax daginn eftir... komin með flensu og streftokokka...bllleeee og lá heima í nokkra daga. Eftir allt þetta erfiði!
Fór upp á Eyjabakka að mæla á föstudaginn. Fínt að komast aðeins og hreyfa á sér sitjandann sem fer línulega vaxandi hérna inni á skrifstofu. Var ein þarna uppfrá, í ró og næði... fyrir utan gommu af túristum sem drösluðust þarna uppeftir, á fínu jeppunum sínum og töldu sig mega fara allt og gera allt. Svo kölluðu þau út um gluggann... ,, hvað ertu að gera?", ,, ertu að vinna fyrir landsvirkjun?", ,,hvert liggur þessi vegur?" o.s.frv. Það var svona eins og ég væri skipaður vegvísir fyrir túrista þarna uppi á hálendinu.
Svo er fólk svo vitlaust...
,, Hvert fer ég ef ég fer yfir þessa brú?"
,, Uhuh... á Eyjabakka, en þú mátt ekki fara yfir hana"
... svipurinn -þetta á nú ekki við mig, heldur fólk sem er ekki á eins flottum jeppa og ég og ekki eins góðir ökumenn og ég-.
,, jah, það er nú borði á henni en..."
,, já... heimska fíflið þitt... borðinn er af því að þú mátt ekki fara yfir brúnna, af því að það er ekki til neins þar sem það er ekki vegur hinu meginn...
Ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar eru leiðinlegir ferðamenn, sérstaklega uppi á hálendinu.
En svo lenti ég í því að það voru einhverjar óæskilegar jónir í loftinu og ég gat lítið sem ekkert mælt, lenti í brasi af því að síðasti notandi af mælitækjunum hlóð þau ekki eftir notkun og ég var batteríslaus og kom ekki heim fyrr en um 11 um kvöldið. Hringdi í alla sem ég þekkti á meðan ég var að bíða eftir að tækin dyttu inn aftur, en fæstir vildu nokkuð við mig tala. Og það versta, allra versta var að ég var nærri hungurmorða þarna uppfrá. Ég áætlaði bara nesti til 5 en var heilum 6 tímum lengur. Þvílík kvöl, ég fer aldrei aftur matarlaus á fjöll...
En nú verð ég að fara, segi ykkur frá ofurhelginni minni seinna.
ta ta
0 Comments:
Post a Comment
<< Home