Sumir velja rangt augnablik til að fara yfir götuna...
Sumir eyða lífi sínu í dóp
Sumir fara heim með röngum aðila heim...
Sumir fæðast með ranga genabyggingu...
Sumir fæðast inn í ömurlega fjölskyldu...
Sumir eru aldrei hamingjusamir...
Fólk missir ástvini, fólk missir aleiguna...
Mér gékk bara illa í prófi og mér líður ömurlega. Mér finnst lífið ekki sanngjarnt og allt vinnur á móti mér.
Sumir eru eigingjarnir
Sumir eru vanþakklátir...
Ég undirbjó mig mjög vel fyrir þetta próf! Ég var með glósur frá 5 aðilum plús eigin og gerði heildar glósusafn úr þeim. Ég leysti próf aftur til ársins 2003 og gerði úrdrætti úr þeim. Ég reiknaði öll dæmin aftur rétt fyrir prófið, ég fór aftur og aftur yfir fræðihlutann.
Við mættum 10 í prófið. Kennarinn dreifði prófinu og próförkum. Ég sit alltaf fremst, mér finnst óþægilegt þegar fólk situr fyrir framan mig og er á iði eða að brasa eitthvað. Ég vil fá að vera í friði með prófið mitt.
Strax í upphafi stóðu 3 upp og fóru. Sumir kennarar leyfa að sjá prófið áður en þú ákveður hvort þú leysir það eða ekki. Á hverju ári eru 3 próf í hverjum áfanga og maður ræður hvenær maður tekur það. Það má bara mæta tvisvar í prófið ár hvert. Þessi kennari leyfir ekki að fólk sjái prófið og fari. Í upphafi prófsins segir hann skýrt að þeir sem telji sig ekki undirbúna til að leysa þetta próf skuli fara strax annars fái þeir fall.
Þessir þrír fá því 0.
Ég lét augun flökta svona lauslega yfir prófið. Finn hnútinn í maganum magnast, það þrengir að öndunnarveginum og ég þarf að nota magavöðvana til að koma loftinu út. Kennarinn ákvað að breyta forminu á prófinu, hann sleppti öllum dæmareikningi í þetta skiptið. Það blöstu við 6 ritgerðarspurningar. Ég las þær ekki allar, skannaði yfir þær. Sá ég átti að kannast við þrjár þeirra. Ákvað að reyna að ná í alla þá punkta sem fyrirfinnast í þessu prófi og helst aðeins fleiri. Braut upp á prófblaðið þannig að ég sæi bara fyrstu spurninguna og byrjaði að lesa hana hægt yfir aftur og aftur. Skrifa hana í punktum niður á krassblaðið.
Innan við 5 mínútur voru liðnar og þá fóru 2 í viðbót út.
Ég reyndi bara að anda eðlilega, hugsa um eitthvað annað smá stund. Fólkið tók dótið sitt og fór út, tvær stelpur, önnur alveg að missa það. Shit hvað mig langaði að henda mér í gólfið og grenja. Svo varð ég eiginlega bara reið, best að lemja karlhelvítið.
Ég tók fyrstu 20 mínúturnar í að ná andanum, fá hendurnar til að hætta að skjálfa, bíta á jaxlinn og reyna að skilja fyrstu spurninguna. Ég mundi ekki fyrri helminginn á meðan ég las seinni helminginn. Ég byrjaði að leysa hana skref fyrir skref. Ég skrifaði allt sem mér datt í hug. Í lokin leit þetta bara út fyrir að vera hellingur. Í lokin skrifaði ég: ef þessi aðferð hefur ekki verið notuð hingað til þá mætti íhuga að gera tilraunir með hana.
Byrjaði á næstu. Braut aftur upp á blaðið. Shit hvað ég hafði ekki hugmynd um hvernig átti að leysa þetta. Rifjaði upp allt sem ég veit um segulsvið og aðdráttarafl jarðar. Bjó til nokkuð flott graf, veit það er rétt nema kúrfan gæti verið í öfuga átt.
Tveir fóru út til viðbótar. Ekki klukkutími liðinn af prófinu.
Þriðja spurningin ! YES !!! óskaspurningin... gilti bara 10% en ég var svo ánægð að ég svaraði henni eins og hún gilti 70 prósent. Það er ekki eins og ég hafi haft mikið annað við tímann að gera.
Næsta... nokkuð góð... kann slatta þar, en gilti bara 15%
Einn fór út... Ég og Mamen vorum eftir...
Fimmta... kúluhornafræði og útleiðsla á jöfnum. Gékk ágætlega held ég, 20%
Sjötta... Hún var svo út úr kortinu að mér datt ekki einu sinni í hug ekki eitt einasta svar, upplogið eða ekki. Ég gat ekki einu sinni fundið upp svar, og þá er nú mikið sagt!
Ég stóð upp og um leið spýttist Mamen á fætur. Held hún hafi verið að bíða eftir mér. Það er svo leiðinlegt að skilja einhvern einann eftir í prófi.
Ég þurfti ekki einu sinni að spyrja hvernig henni gékk, það sást alveg á henni. Hún spurði hvernig mér hefði gengið,
: Gékk vel? þú skrifaðir svo mikið.
: Ég var að þróa nýja óreynda aðferð í mælingum á segulsviði jarðar. Bíð bara eftir að señor Nobel banki uppá...
Hún leit á mig, vissi ekki alveg hvað hún átti að segja þar sem ég var svo alvarleg. Fór svo að hlæja. :shit! hvað þetta var ömurlegt... Við löbbuðum heim án þess að segja meira en kveðjast hérna við garðhliðið.
Kem heim og Gummi kallar um leið og hann heyrir dyrnar opnast: Jæja! hvernig gékk? Á þessum tímapunkti hata ég þessa spurningu! Ég veit ekki hvort ég á að hlæja, gráta eða merja hnúana á veggnum. Ég er bara eins og dofin, eins og ég hafi étið valíum í ómældu magni.
Ég hreinlega hata að ganga illa í prófi. Það er hægt að segja að það er margt til verra en mér líður eins og það sé fátt verra í heiminum á þessum tímapunkti.
Ég veit ekki hvort kennarinn ætlar að fella okkur öll eða skala til einkunnina. Veit ekki hvurslags skölun það þarf að vera til að ég nái! Og þetta er eitt af mínum uppáhalds fögum.
Stundum er lífið bara ekki sanngjarnt...
Ég vona að þið öll hafið átt betri dag en ég í dag !
3 Comments:
Guð hvað ég skil þig. Manni líður eins og maður sé með 10 tonn af grjóti í maganum. En þú ættir að skila til kennarans þín að það séu engin horn á kúlum !!!
Berglind.
Ég fann til með þér hverja mínútu prófsins við lesturinn.....þú ættir kannski að skrifa bók um raunir hins íslenska verkfræðinema sem ætlar að sigra spánverja í hornareikningi!!!
Annars er ég bara stolt af þér.....þú reyndir allavega!
Kram Hildur
Þetta er andstyggileg tilfinning. Bíddu bara róleg þar til þú færð út úr prófinu, svo geturðu mætt heim til hans og buffað hann ef að þörf krefur.
Post a Comment
<< Home