Saturday, February 21, 2009

Leikföng eru æði!



Ég get endalaust labbað um í leikfangabúðum og skoðað alls kyns leikföng. Ég er ekkert sérlega hrifin af barbie og baby born dótinu, það er eitthvað svo yfirþyrmandi. En dót eins og LEGO, playmobile og það eru alveg ofur.

Það er komin Corte Ingles búð hérna í bænum okkar og þar er huges leikfangadeild. Þvílíkt magn af alls kyns spilum og leikföngum. Við förum reglulega að skoða. Bergrós Ástu finnst alveg jafn gaman að fara í leikfangabúðina eins og í garðinn og virðist enn alveg sætta sig við að leikföngin eiga heima þarna. Kyssir þau bara bless og vinkar þegar við förum svo það er ekkert bras... ekki enn minnst kosti.

Það er fullt af dýrum með svona hálfgerða gerfigreind held ég að það kallist. Hundar sem dilla skottinu þegar maður klappar þeim á bakinu, gelta þegar maður klappar þeim á hausnum, hreyfa hausinn þegar maður nálgast einhverja nema nálægt augunum o.s.frv. Þetta er alveg rándýrt dót, enda förum við bara þangað til að leika okkur að því en skiljum það eftir af ástæðu.

Ég kláraði lokaverkefnið mitt fyrir jól. Það fóru nætur og dagar í að liggja yfir því. Ég gerði ekkert annað í tvo mánuði. Það virtist falla í kramið hjá dómnefndinni og þau gáfu mér ,,matricula de honor" sem þýðir 10 í einkunn og svona heiðursábót. Maður getur fengið 10 án þess að fá þetta og maður getur fengið 9 en samt fengið þetta ef hinir 200 í prófinu fengu 5 og maður sýndi einhverja yfirburði. Venjulega fylgir þetta samt tíunni. Ef margir fá 10 þá er samt bara hægt að gefa einum þessa ábót. Þetta var óvæntur glaðningur þar sem þetta verkefni var unnið í hasti og mér fannst ég geta gert það betur á pörtum. Ég held að vegna þess að þetta var óvenjulegt verkefni þá hafi það fengið meiri athygli en annars.
En bónusinn við að fá þessa einkunn er að maður fær endurgreidd skólagjöldin sem maður borgaði fyrir einingar þess áfanga sem maður fékk einkunina í. Hér borgar maður skólagjöld eftir þeim einkunnum sem maður skráir sig í. Það eru um 2000 kall einingin og hver íslensk eining er 2,5 spænskar. Ef maður fellur í áfanga hækkar gjaldið í hvert skipti. Ég held að þess vegna komist kennararnir upp með að fella svona marga hérna. Það er ekkert óvenjulegt að það nái svona 10 til 30% í hverju prófi svo það er fljótt að telja.

En þar sem litli stubburinn minn var hálf mömmu-munaðarlaus þetta tímabil þá lá í augum uppi hver skyldi njóta góðs af þessum óvænta glaðningi. Ferðinni var heitið í dótabúðina og í þetta skiptið skyldum við fara með eitthvað heim. Það var skoðað og skoðað. Ekki sá kassi sem ekki var þukklaður í þaula. Á endanum var valið á milli LEGO eða Fisher Price búgarðsins, Little people.
Kostir hvoru tveggja er að það er hægt að kaupa alltaf inní þetta og bæta við safnið. Gallinn er að þetta kostar augun úr en við vorum hvergi smeikar með fulla vasa af gulli.
Lendingin varð LEGO búgarður, Duplo fyrir litla putta.

Stubbi litli er kannski alveg á mörkunum með að skilja þetta. En hún hefur gríðarlega gaman að dýrunum. Hún er ekkert voðalega fær í að koma þeim inn í húsið og svona, hundurinn fer á bak á hestinn o.s.frv. Svo fer hún á fjórum fótum með bílinn, gerir bílahljóð og allt. Stundum er hesturinn að keyra bílinn og stundum kallinn. Breytir ekki svo miklu.
Bóndahjónin eiga heykvísl sem hún kallar alltaf mano (hendi). Hún er búin að fatta að það er hægt að smella henni í hendina á þeim og þetta er greinilega bara svona framlenging.
Hún velur yfirleitt auðveldara orðið úr íslensku eða spænsku. Öll m-orð og a-orð eru góð. Öll r- og s- orð eru látin vera. Rúsínur eru smá vandamál, enda bráðnauðsynlegt orð í orðaforðann. Þær virðast ekki vera á leikskólanum svo hún notar það ekki þar. Rúsínur urðu því að nuhnína.


Ég held að það sé til annað orð yfir þessa óvæntu góðmennsku móðurinnar. Þetta heitir víst að kaupa sér frið frá samviskubitinu. Ég var bara svo heppin að hafa fengið góða einkunn fyrir verkefnið þannig að ég hafði efni á því. Við höfum ekki farið í dótabúðina síðan þá. Kannski vill hún framvegis alltaf fara með dót heim og því sú skemmtun úr sögunni. Sjáum til hvað gerist...

9 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hhehe Bjartur fær allveg eins í afmælisgjöf frá okkur :)
Berglind

5:24 PM  
Blogger Kristjana said...

TIL HAMINGJU! Svakalega var þetta flottur árangur!

7:08 PM  
Anonymous Anonymous said...

Vá, til hamingju Þórólfur!! ;)
Snillingur


Ég var líka að lesa síðustu færsluna þína um prófið, ohhhhhh... maaan! Kannast ég við þetta. Að lesa yfir prófspurningarnar og finna hvernig maður er að falla. Smá bót í máli þó þegar öðrum gengur illa ;) hehe.. án þess að ég sé eitthvað mjög illa innrætt :p

8:15 AM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með góðan árangur, skemmtið ykkur í legó!

9:20 AM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með einkunina....þú rokkar þokkalega!
Annars kannast ég mjög vel við friðþægingu dótakaupa.....mínir drengir eiga MJÖG mikið dót!!!
Hildur

10:52 AM  
Anonymous Anonymous said...

Dásamlegar fréttir, innilega til hamingju með einkunnina. Risa knús ;-)

1:48 PM  
Anonymous Anonymous said...

GLÆSILEGT HJÁ ÞÉR!!! Til hamingju :)

12:02 PM  
Anonymous Anonymous said...

Já og það er víst betra að skilja eftir sig nafn hehehe.....
Kv. Lína

12:03 PM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með þetta.... ekkert smá flott nafnbót :)
Kv. Vilborg

6:03 PM  

Post a Comment

<< Home