Friday, June 01, 2007

10 ár frá því að ég kláraði grunnskóla ! Reunion í nánd...

Djöfull er maður að verða gamall ;) Á þeim tíma hélt ég að lífið væri bara niður á við eftir 20 ára aldurinn... og þá hélt ég að 25 ára væri maður pottþétt kominn með ,,pakkann" ... hús, station-bíl, 2 krakka af sitt hvoru kyninu, hund, komin með leið á kallinum, vinnu frá 8 til 5 og 6 vikna sumarfrí á launum.
Núna... 26 ára á ég hvergi heima, þ.e. ekkert húsnæði, lifi námsmannalífi úti á Spáni, eina ökutækið sem ég á og hef átt er hippa-mótorhjól, hundurinn sem ég sá svo sem aldrei um er farinn til feðra sinna, karlinn endist enn lon og don og ég sé fram á að vera einskins nýtur þjóðfélagsþegn í sumar, hvorki vinnandi né í sumarfríi á launum!

Spurningin er hvort þetta verður eitthvað breytt þegar ég næ 30 aldrinum. Ég kann bara svo helvíti vel við þetta að ég sé enga ástæðu til að breyta því mikið. Háskólalífið er lífið akkurat á meðan á því stendur og ég vil ekki fyrir nokkurn mun missa af því. Ég hef vonandi tíma fyrir hitt seinna;)

En svo þurfum við víst að taka saman hvað við höfum gert sl. 10 ár...
- 4 ár í stúdent
- 1 vetur í Guatemala, sjálfboðavinna, spænskunám og puttalangaferðalagast í Mið-Ameríku
- 4 ár í verkfræði og Kárahnjúka
- 1 ár í framhaldsnám í verkfræði á Spáni.
Ekki langur listi miðað við hvað manni finnst 10 ár vera langur tími.


En krakkinn lætur ekkert á sér kræla. Fyrst hann kom ekki á írska pub-num í nótt þá er enn langt í hann. Merkilegt hvað spánverjar eru mikið fyrir háværa tónlist og yfirtroðfulla bari.
Það hefði samt verið agalegt! Luis, tilvonandi neyðar-bílstjóri á eyrunum, Gummi farinn að kippa og ég í djammgallanum (eins mikið og djammföt eru framleidd á hvali) með málninguna komna á tíma og angandi af tóbaksreyk. Okkur hefði örugglega ekki verið hleypt inn á deildina!

Partýið gékk vel. Ég er að verða búin að læra að halda spænsk partý, með tilheyrandi mat og smáréttum. Reyndar var ég nærri búin að "eitra" fyrir marókkóbúunum... Hvað haldiði að maður sé að spá í að múslimar megi ekki borða svínakjöt! Þeim verður sjálfsagt meinaður aðgangur að paradís mín vegna en það verður að hafa það ;).
Verra er að það er fullt afgangs af víni og Gummi situr nú langdvölum á svölunum með bók og ferskan rauðvínsdrykk... Þetta stefnir í óefni!

Við vorum eitthvað búin að tala um hátterni á rollunum áður en þær eiga lömbin. Einhvern veginn getur maður spottað út þær sem eiga að fara að bera innan eins eða tveggja daga.
Gummi spurði svo þegar við fórum í heimsókn til vinar okkar sem á splunkunýjann krakka... ,,Hvernig er það, langar þig ekkert að stela honum? Ekkert pínu smá?" Fann ekkert, það var súr mjólkurlykt af honum og svo var hann vælandi. Langaði ekkert í hann. Bíðum enn!

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Elsku Katrín (kríli og Gummi). Er farin að fletta upp á bloggsíðunni þinni daglega til að sjá hvort þú ert enn að blogga í rólegheitunum ;) Bíð spennt eins og svo margir aðrir eftir að heyra um fjölgun ;) Vona sannarlega að allt gangi vel!
Kveðjur, Þóra (Kittumamma)

11:35 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ Katrín.Ég bíð spennt eftir því að fá fréttir af ykkur líka og skoða bloggsíðuna daglega.Vona að litla frænka;)fari að láta sjá sig fljótlega.Gangi ykkur vel.
Kærar kveðjur
Anna Guðrún

1:19 PM  
Anonymous Anonymous said...

Aumingja Guðmundur að búa við þetta...

7:26 PM  
Anonymous Anonymous said...

Rauðvínið gerir Guðmundi örugglega biðina léttari, þannig drekki hann sem mest af því...

Siggi Þór

8:58 PM  

Post a Comment

<< Home